Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 15:07:00 (1636)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það er þarft mál að leggja fram frv. til að fram geti farið umræður um starfsmenntun í atvinnulífi. Það er vissulega mál sem menn hafa haft lengi til umfjöllunar, bæði innan samtaka atvinnurekenda og launþega og haft áhuga á að koma í betri farveg en verið hefur. Ég vil þó í upphafi láta í ljós efasemdir um að þessi málaflokkur eigi að skilgreinast sem einhver sérstök menntun utan við aðra menntun sem heyrir undir menntmrn. Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt, þó að ég vilji ekki kveða afdráttarlaust upp úr með það að svo stöddu, að aðskilja hlutina með þessum hætti, sérstaklega í ljósi þess sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra að menn eru sérstaklega með í huga að launafólk innan Alþýðusambands Íslands á að njóta þessarar starfsmenntunar.
    Ég vil líka aðeins fara yfir kaflann um markmið. Þar er sumt þannig orðað að mér gengur dálítið illa að átta mig á því hvað menn eru að fara og kannski líka hvernig menn ætla að ná fram þessum markmiðum. Ég bendi á það sem fram kemur í a-lið 1. gr. að markmiðið sé að stuðla að aukinni framleiðni. Framleiðni er mjög teygjanlegt hugtak og hefur verið notað í mismunandi skilgreiningum þannig að það er nauðsynlegt að það komi fram þá í markmiðsgreininni hvað menn nákvæmlega eiga við með orðinu framleiðni og hitt að með þessu er verið að beina áherslunni að vinnu verkafólks, þar sé punkturinn sem menn þurfi að taka á til þess að auka framleiðni í einhverjum skilningi. Ég er ekki alveg sammála því að þetta eigi að vera slíkt höfuðmál. Ég held oft og tíðum að einn meginvandinn í atvinnugreinum og rekstri fyrirtækja sé fremur stjórnendur og yfirmenn fyrirtækjanna heldur en verkafólkið. Ég tel að það væri þar sem menn ættu að gera gangskör að hafa hæfara fólk.
    Ég bendi líka á það sem t.d. varðar sjávarútveginn. Það hefur verið mjög stífur áróður fyrir því, m.a. hér á Alþingi, að hagræðingu í sjávarútvegi og þar með aukinni framleiðni í vissum skilningi verði því aðeins náð fram með því að draga úr fjárfestingu, sameina fyrirtæki, sameina útgerð skipa og þess háttar. Og það fer ekki alveg saman að vera með þær áherslur uppi annars vegar og koma síðan fram með frv. þar sem aðaláherslan er að stuðla að aukinni framleiðni með því að kenna íslensku verkafólki að vinna betur.
    Í d-lið er líka setning sem ég á dálítið erfitt með að átta mig á og nefni það hér. Þar er fjallað um að eitt af markmiðunum sé að jafna möguleika fólks á vinnumarkaði

o.s.frv. og síðan segir: ,,með öflugu framboði á grunnmenntun til ákveðinna starfa``. Það vefst fyrir mér að skilja hvað þetta þýðir. Hvað er grunnmenntun til ákveðinna starfa og hvað er framboð á henni? Þessi tvö dæmi, sem ég nefndi úr markmiðskaflanum nægja nú að mínu mati til þess að draga fram þá skoðun mína að mér finnst markmiðið vera dálítið fljótandi. Menn tala ómarkvisst, enda kemur í raun og veru fram í næstsíðustu greininni að ráðherra eigi að setja reglugerð til að afmarka lögin og gildissvið þeirra til þess að fá fram skýrari mynd af því hvað menn eru raunverulega að tala um.
    Eitt er það sem mér finnst líka umhugsunarefni varðandi þetta frv. Það er að það starf sem á að vinna á grundvelli frv. eða laganna verði frv. samþykkt á að vera háð framlögum frá Alþingi um tekjur. Og þeir sem eiga að greiða kostnaðinn af þessu eru sem sagt Alþingi í gegnum fjárlög og launþegarnir með námskeiðsgjöldum. Hins vegar sleppa atvinnurekendur algerlega við að bera kostnaðinn af þessu, sýnist mér miðað við það sem fram kemur í frv. Einnig held ég líka að það sé ekki nægilega traustur grundvöllur til þess að setja upp námskeið og þróa námskeið og ráðgjöf til verkafólks, sem menn hljóta að gera og hugsa til margra ára, að búa við það að vera háð ákvörðun Alþingis frá ári til árs í uppbyggingarstarfi sínu. Ég bendi mönnum t.d. á það að ekki gengur allt of vel að halda áætlun með það sem menn eru þegar búnir að samþykkja og þar á ég við grunnskólalögin nýju sem samþykkt voru sl. vor af öllum flokkum. Það kemur á daginn örfáum mánuðum eftir að lögin eru samþykkt að það er farið að taka allt til baka sem menn voru að setja inn í lögin. Og þegar ekki er nú traustari grunnur undir lögum en þessi á maður ekki von á að það reynist mjög traust að byggja á ákvæði sem þessu, að allt sem menn hugsa sér að gera í starfsmenntunarmálum sé háð árlegum ákvörðunum um fjárveitingar og enginn getur því vitað fyrir fram hvaða upphæðir menn eru að tala um eða þá hvaða upphæðir menn kunna að fá á fjárlögum. Ég minni þingmenn á bréf sem Kennarasamband Íslands sendi 3. des. sl. Þar lýsir sambandið afstöðu sinni og óánægju með það fjárlagafrv. sem fyrir liggur, og hvernig menn hugsa sér að fara með nýju grunnskólalögin í því frv., og bandorminn sem liggur fyrir. Ég hugsa að það væri a.m.k. íhugunarefni hvort ekki ætti frekar að hafa einhvern markaðan tekjustofn til að standa undir þessari starfsemi þannig að framtíð væri öruggari varðandi tekjuhliðina. Það má útfæra með ýmsum hætti hvers konar tekjustofn það væri. Ég ætla ekki að nefna eina hugmynd frekar en aðra en ég held að það væri æskilegra að starfsmenntunin byggðist á þannig tekjugrunni.
    Annað sem ég vil láta koma fram og er í 9. gr. frv. Þar er kveðið á um að rekstrarkostnaður af námskeiðum sé borinn af þátttökugjöldum samkvæmt nánari ákvörðun starfsmenntaráðs auk styrkveitinga. Þetta þýðir að mínu mati að það er í raun og veru fólkið sem sækir námskeiðin, launþegarnir, sem eiga að bera þessi þátttökugjöld. Það kemur í fyrsta lagi ekkert fram um það hve þau eigi að vera há eða hve hlutfall launþega af kostnaði verði hátt. Ég vil benda á það sem atriði sem vantar að það þurfi þá a.m.k. að setja hámark ef menn ætla sér að láta þátttakendur bera hluta af kostnaðinum en ég hef a.m.k. enn sem komið er ekki sannfæringu fyrir því að það sé réttlætanlegt að hafa há þátttökugjöld ef þá nokkur. Ég held jafnvel að það væri réttlætanlegt að þátttökugjöld væru engin og þá með þeim rökum að nauðsynlegt væri að hvetja fólk til þess að sækja sér aukna menntun og færni og ætti þá fremur að gera mönnum kleift að sækja slík námskeið ef engin þátttökugjöld væru.
    Annað sem styður þessa skoðun er líka það að oft er um að ræða þau störf sem hvað lægst eru launuð í þjóðfélaginu sem þessi starfsmenntun mun taka á. Ég vil líka setja upp fyrirvara við starfsmenntaráðið eins og það er skilgreint í frv. Ég er ekki sannfærður um að þetta sé það form á málinu sem best er til þess að útdeila fénu og skipuleggja verkið. Ég held að í fyrsta lagi yrði að hafa mjög nána samvinnu við þá aðila sem fást við

menntun í þjóðfélaginu. Ég held að þeir hljóti að vera öðrum hæfari til þess. Ég hef líka efasemdir um að hafa þetta ráð sem er eins konar miðstýrt ráð, eitt ráð fyrir landið allt, og ég er smeykur um að það verði í of mikilli fjarlægð frá stórum hluta landsins og þróist í það að verða nokkurs konar höfuðborgarstarfsmenntaráð.
    Annað finnst mér líka ekki nógu ítarlegt. Það er að mér finnst fátæklegt það ákvæði sem er um starfsmenntaráðið sjálft og síðan er bætt úr með því að segja að ráðið setji sér sjálft nánari starfsreglur að fengnu samþykki ráðherra. Ég tel að ef ætlunin er að hafa þetta starfsmenntaráð verði að setja nánari reglur um það í lögin. Þetta er of opið að mínu viti og ég vil enn gera athugasemd við hvernig starfsmenntaráðið er skipað. Ég bendi á að ekki er gert ráð fyrir því að launþegar sem eru utan Alþýðusambands Íslands og BSRB eigi aðild að ráðinu. Ég tel það óheppilegt. Að mínu viti verða að vera þarna fulltrúar frá öllum launasamtökum og ég tel líka óheppilegt að það skuli ekki vera hægt að tryggja að að þessu ráði komi fulltrúar hinna mismunandi starfsgreina. Ég hef efasemdir og set spurningarmerki við það að vinnuveitendasamtökin séu að skipa þrjá menn eða jafnmarga og Alþýðusambandið og BSRB. Ég sé í raun og veru ekki rökin fyrir því að atvinnurekendasamtökin séu þarna jafngild í þessu ráði, enda er þeim ekki ætlað að bera neinn kostnað af því. Þeir sem eiga að njóta laganna eru fyrst og fremst launafólkið.
    Í 10. gr., þar sem fjallað er um það hverjir eigi rétt á að sækja um styrk, segir m.a.: Samtök atvinnurekenda og launafólks. Þarna vil ég fá betri skilgreiningu á þessu orðalagi. Hvaða samtök atvinnurekenda og hvaða samtök launafólks eiga menn við? Er átt við Alþýðusamband Íslands eitt eða geta önnur samtök sótt um, eins og Alþýðusamband Vestfjarða eða Landssamband verslunarmanna eða eitthvað slíkt?
    Ég bendi líka á að í 10. gr. er gert ráð fyrir að einstök atvinnufyrirtæki geti sótt um styrk. En það kemur ekki fram í greininni svo að ég sjái að einstök stéttarfélög geti sótt um styrk. Og ég spyr: Hví ekki að hafa hlutina þá með sama sniði báðum megin frá?
    Ég tel óhjákvæmilegt að þetta frv. verði til umfjöllunar hjá menntmn. einnig, auk félmn., af þeirri einföldu ástæðu að frv. fjallar fyrst og fremst um menntun og það er óhjákvæmilegt annað en að nefndin, sem fer með þann málaflokk, fjalli um þetta frv. Ég held að ekki verði hjá því komist svo að vel sé.
    Ýmislegt fleira mætti í sjálfu sér segja um þetta frv. en ég legg áherslu á að þetta verði tekið fyrir og afgreitt samhliða frv. um fullorðinsfræðslu þannig að menn séu þá með allan þennan málaflokk fyrir framan sig samtímis og geti afgreitt hann um leið og gætt þar samræmis í niðurstöðu. Ég held að það sé afleitt að taka þetta frv. eitt og sér og fjalla um það og afgreiða án þess að hafa jafnhliða frv. um fullorðinsfræðslu. Mér heyrðist að hæstv. menntmrh. boðaði að það væri væntanlegt á næstunni þannig að þess verður sjálfsagt ekki langt að bíða að frv. komi fram. Ég legg áherslu á að þessi tvö frumvörp verði tekin fyrir samtímis.
    Það veikir dálítið þá röksemdafærslu að starfsmenntun eigi að heyra undir félmrn., starfsmenntun í atvinnulífinu, að gert er ráð fyrir því að fiskvinnslan heyri undir sjútvrn. Það kippir í raun fótunum undan þeirri röksemdafærslu að starfsmenntun í atvinnulífi eigi að heyra undir félmrn. þegar menn leggja jafnhliða til að starfsmenntun í einni grein atvinnulífsins heyri undir viðkomandi fagráðuneyti. Og ég er smeykur um að menn geti flutt sömu rök til þess að færa starfsmenntun í öðrum greinum undir viðkomandi fagráðuneyti. Maður spyr sjálfan sig t.d. um iðngreinar. Er þá ekki eðlilegt að starfsmenntun í iðngreinum falli undir iðnrn. o.s.frv.?
    Ég vil, virðulegi forseti, láta þetta duga að sinni í umfjöllun um frv. en tel nauðsynlegt að vandlega verði farið yfir það í nefnd.