Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 16:59:00 (1643)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég hef mörgum sinnum komið mínum sjónarmiðum á framfæri um hvers vegna fór illa fyrir fiskeldinu og ég vil einungis ítreka að þó að menn hafi vissulega viljað vel var ekki hlustað á ráðleggingar sérfræðinga um hvernig best væri að þróa fiskeldi hér á Íslandi. En nóg um það.
    Það hefur komið fram í þessum umræðum að ég tók á sínum tíma sæti í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands. Ég var þá settur í þann sjóð sérstaklega til þess að reyna að koma skikki á útlán hans í fiskeldismálum og ég tel að svo hafi ég gert vegna þess að ef menn skoða reikninga þessa sjóðs þá kemur það fram að þar voru engin ný lán, eða nær engin ný lán og engin stórlán, veitt til nýrra fiskeldisstöðva í minni tíð. Á sínum tíma var það svo, og ég tel rétt að það komi hér fram, að ég hafnaði því að skrifa undir ársreikninga Framkvæmdasjóðs Íslands fyrir árið 1989. Ég taldi að þá væri ekki nándar nærri nógu mikið lagt í afskriftasjóð sjóðsins, einkum og sér í lagi þegar haft var í huga eðli útlána sjóðsins. Sökum þess að ríkisendurskoðandi, Halldór V. Sigurðsson, skrifar að öðru jöfnu undir reikninga sjóðsins þá óskaði ég á sínum tíma, þegar ég hafnaði þessu, að fá það sérstaklega staðfest að hann hefði kynnt sér reikninga sjóðsins, kynnt sér með hvaða hætti afskriftir væru undirbúnar og hvort hann væri að öðru leyti samþykkur þessu. Af þessu tilefni var haldinn fundur með mér, framkvæmdastjóra sjóðsins, formanni stjórnar sjóðsins og Bjarna Bjarnasyni endurskoðanda, sem þar var fulltrúi ríkisendurskoðanda. Á þessum fundi var mér tjáð af Bjarna Bjarnasyni og framkvæmdastjóra sjóðsins að ríkisendurskoðandi hefði kynnt sér þetta mál og hann teldi að með réttum hætti væri tekið á afskriftasjóði Framkvæmdasjóðs Íslands. Jafnframt voru mér kynntar tilteknar reglur sem átti að nota við færslu í afskriftasjóð. Mér var sagt, eða mér skildist það a.m.k., að ríkisendurskoðandi hefði átt frumkvæði að þessum nýjum reglum. Ég ítrekaði þá sérstaklega hvort ríkisendurskoðandi væri örugglega sammála því að ekki væri meira fé flutt í afskriftasjóð þessarar merku stofnunar. Ítrekað var svarið já.
    Þetta vildi ég að kæmi fram í þessum umræðum vegna þess að talsvert löngu síðar, þegar fram fóru umræður um vanda þessa sjóðs, þá kom fram skriflega sú formlega afstaða Ríkisendurskoðunar að þarna vantaði stórkostlegar fjárhæðir í afskriftasjóð.
    Ég verð auðvitað að minna á það hér úr þessum stóli að ég sem fulltrúi fjmrn. á sínum tíma vakti athygli á þessu og var þá sérstaklega staðfest við mig af fulltrúa ríkisendurskoðanda að þarna væri allt með réttu lagi. Á þeim grundvelli skrifaði ég á sínum tíma undir reikninga þessarar stofnunar, í rauninni vegna þeirrar yfirlýsingar sem lá fyrir frá ríkisendurskoðanda sem nokkru síðar taldi að það vantaði, ef ég man rétt, 1.200 millj. í afskriftasjóð Framkvæmdasjóðs.