Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 17:04:00 (1644)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Það voru nokkuð langar og ítarlegar umræður um mál þetta á fundi í dag, ekki kannski í sjálfu sér um frv. sem slíkt. Reyndar tók ég ekki eftir því í langri og yfirgripsmikilli ræðu hv. 8. þm. Reykn. að hann tæki afstöðu til frv. sem hann var að fjalla um, hvorki um það efni sem í frv. felst né frv. yfirleitt. Ég held að hann hafi alveg sleppt því að fjalla nokkuð um þann þáttinn. Hins vegar væri fróðlegt að heyra viðhorf hans til þess.
    Upphafi og töluverðum hluta af sinni ræðu varði hann til þess að fjalla um það að ég hefði af einhverjum ástæðum ekki endurtekið hér það sem ég sagði um þetta mál í stefnuræðu. Mér skildist að það hefði verið sérstaklega alvarlegt að ég hefði sagt það sem tilgreint var í stefnuræðu þar sem stefnuræðunni var sjónvarpað. Það er nú þannig með stefnuræðu, eins og menn vita, að þingmenn fá þá ræðu með viku fyrirvara og hafa sjálfir, flokkarnir a.m.k., nokkra talsmenn til þess að fjalla um hana. Ég get út af fyrir sig samþykkt að það gæti verið alvarlegt ef forsrh. héldi í sjónvarpsræðu fram alvarlegum fullyrðingum sem enginn annar hefði tök á að svara og jafnvel kæmi það fyrirvaralaust í stefnuræðu. Þannig er ekki með stefnuræðuna. Hún liggur fyrir vélrituð með viku fyrirvara og þess vegna hafa menn óvenjulega góðar aðstæður til þess að svara ítarlega því sem þar kemur fram og reyndar er venjan sú að forsrh. tekur ekki aftur til máls um stefnuræðuna eftir að fjallað hefur verið um hana af hálfu annarra flokka eða a.m.k. ekki í beinni sjónvarpsútsendingu. Menn hafa nú stundum haft stefnuræðumálflutning í nokkra daga eins og kunnugt er. Ég sá ekki nokkra ástæðu til þess að að endurtaka það nú sem ég hafði sagt í stefnuræðunni eða fjalla almennt um hana. Og ég tel að hv. þm. hafi haft gott tækifæri og tóm til þess að undirbúa vel svör sín við stefnuræðunni og þau atriði hennar sem honum fundust ámælisverð eða gefa tilefni til andsvara.
    Þingmaðurinn tók sérstaklega fram nokkur atriði sem ég hafði nefnt og hafði eftir mér að ég hefði fullyrt að vandinn, sem menn hefðu ætlað að leysa með þeim úrræðum sem gripið var til, væri enn þá óleystur og ég hefði sagt að menn hefðu glatað tækifærinu, sem góðærið gaf þeim, og ég hefði sagt að sjóðirnir væru tómir. Ég hygg að þetta sé allt saman rétt sem ég sagði þar. Og ég hygg að í hinni löngu ræðu hv. 8. þm. Reykn. hafi hann ekki í neinu hrakið þessi atriði. A.m.k. reyndi hann ekki, svo að ég tæki eftir því, að halda því fram að sjóðirnir væru ekki tómir, því að tómir eru þeir. Um það er ekki deilt. Ég held að hann geti naumast sagt að vandinn sé ekki að verulegu eða mestu leyti óleystur. Þess vegna kom mér örlítið á óvart það sem hv. 1. þm. Austurl. sagði að gerð hefði verið mikil og rík krafa til möguleika þeirra fyrirtækja, sem lán fengju, reyndar úr öðrum sjóði heldur en hér er til umræðu, um hæfni þeirra til endurgreiðslna. Ég er ekki sannfærður um að gerðar hafi verið nægilega ríkar kröfur í þeim efnum og ég er ekki sannfærður um að menn hafi notað tækifærið til þess að endurskipuleggja og hagræða hjá þeim fyrirtækjum í tilefni af þeim fjárveitingum sem fyrirtækin fengu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það hafi verið af pólitískum ástæðum, innbyrðis sundrung í þáv. ríkisstjórn og ákvörðun Framsfl. á fyrri hluta árs 1988 að gera allt sitt til þess að eyðileggja þá ríkisstjórn, sem vandamálin hlóðust upp. Komið var í veg fyrir það að tillögur þáv. forsrh. um að almennum úrræðum yrði beitt næðu fram að ganga innan þeirrar stjórnar og ég tel að það hafi verið vandinn. Hann safnaðist saman með þessum hætti og síðan var gripið til

þessara úrræða og má auðvitað segja að á því augnabliki kunni slíkt að hafa verið nauðsynlegt þegar menn höfðu teflt þannig að fyrirtækin voru að komast í þrot. Ég tel að þáv. forsrh. og ýmsir aðrir í þáv. ríkisstjórn hafi reynt með mjög málefnalegum hætti að stuðla að því að sættir næðust um það að á vandanum yrði tekið með almennum aðgerðum.
    Ég ætla ekki að fara í langar umræður um þessa þætti hér en í hinni löngu ræðu sinni fór hv. 8. þm. Reykn. með töluvert mikla talnarunu og fór vítt um og blandaði því saman hver hefði verið fjmrh. á þessum tíma og forsrh. á hinum tímanum. En staðreyndin er sú, og hún verður ekki hrakin, að Framkvæmdasjóðurinn heyrir undir forsrh., og hefur gert það, og á þessu tímabili, sem tekjur sjóðsins rýrna um tæplega 3 milljarða kr., var sami maðurinn forsrh. að undanskildu 14 mánaða tímabili, allt tímabilið. Fram hjá því geta menn ekki horft. Og staðreynd er sú að sjóðurinn sem var nokkuð öflugur er núna gersamlega fallítt. Menn komast ekki undan því að horfa til þess.
    Hv. 1. þm. Austurl. gerði sérstaklega að umtalsefni að ég hefði haldið því fram að fyrri ríkisstjórn hefði ekki viljað beita almennum vestrænum efnahagslausnum við úrlausn mála. Ég var í þessum efnum aðeins að vitna til yfirlýsinga fyrirrennara míns, þáv. forsrh. Steingríms Hermannssonar sem beinlínis sagði, ég er ekki með það orðrétt en það má finna það, að þess háttar lausnir, venjubundnar vestrænar hagfræðilausnir, ættu ekki við á Íslandi. Ég hef það kannski fram yfir hv. 1. þm. Austurl. að ég tek mark á orðum fyrrv. forsrh. og tel að hann hafi meint það sem hann sagði og hafi jafnvel talað af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hann var í forsæti fyrir. En þetta lét hann hafa eftir sér og hefur vafalítið trúað því. Hann lét líka hafa eftir sér, sá ágæti forsrh. fyrrv., á fundi með framsóknarmönnum hér í Reykjavík, sem var sjónvarpað og útvarpað, að hann liti svo á að hann væri nú orðinn einn besti hagfræðingur landsins eftir reynslu sína sem forsrh. Þegar hvort tveggja ber til að besti hagfræðingur landsins segir þetta og sá maður er í forsæti fyrir ríkisstjórn, að venjulegar, vestrænar efnahagsaðgerðir eigi ekki við, þá hlýtur maður að leggja eyrun við og taka eftir því.
    En frv. það, virðulegi forseti, sem hér er til umræðu, er einfalt og eðlilegt, úr því sem komið er, óháð deilum um það hvers vegna svo er komið --- ég tel að skýrsla fortíðarvandanefndar sem kynnt hefur verið gefi glögga mynd af því hvers vegna svo er komið --- en ég held að það ætti að vera óumdeilanlegt að skynsamlegt sé í núverandi stöðu að koma þessum sjóði í það horf sem það frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir.