Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 17:16:00 (1647)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Þar sem mér fannst allt benda til þess að umræðunni væri nú að ljúka vil ég minna hæstv. forseta á að ég beindi þeim orðum til hæstv. forseta á sínum tíma í þingskapaumræðu að aflað yrði gagna um það hvaða skyldur Íslendingar tókust á hendur þegar þeir tóku á móti Marshall-aðstoðinni og bar fram ósk um að þær spurningar yrðu færðar hæstv. utanrrh. Ég tel mjög óeðlilegt að ljúka þessari umræðu án þess að það sé upplýst hvaða skyldur það voru sem við tókum á okkur. Ég stend í þeirri meiningu að við höfum skuldbundið okkur til að reka sjálfstæðan sjóð með vissu stjórnarfyrirkomulagi ef við tækjum á móti þessum fjármunum. Ég vil fá það á borðið áður en umræðunni lýkur hvort við undirrituðum slíkar skuldbindingar. Þess vegna þætti mér mjög vænt um það, hæstv. forseti, ef hægt væri að hlutast til um það ef við því fengjust svör áður en þessari umræðu lyki.