Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 17:36:00 (1654)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
     Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. utanrrh. er loksins kominn í salinn. Ég sagði það fyrr í dag að við hefðum vissan skilning á því að þetta eru erfiðir tímar hjá honum sem formanni Alþfl., en það er hins vegar óhjákvæmilegt ef við eigum að geta átt eðlilegar samræður um málið að hæstv. utanrrh. sitji smástund kyrr í salnum.
    Ég hafði vakið athygli á því að ræður hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. voru ærið sérstakar. Ég tel þó reyndar að sú ræða sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti hafi falið

í sér afar merkar og einstæðar upplýsingar sem eru með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að forráðamenn þingsins, sem eru yfirmenn Ríkisendurskoðunar, taki þær upplýsingar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson greindi frá til rækilegrar skoðunar vegna þess að hann ber vitni um það að ríkisendurskoðandi, Halldór V. Sigurðsson, hafi haft allt aðra afstöðu gagnvart Framkvæmdasjóði og stöðu hans þegar stjórn Framkvæmdasjóðs bað hann um niðurstöðu og svo þegar núv. hæstv. forsrh. þurfti á því að halda að fá aðra niðurstöðu.
    Um þetta mál var nokkur umræða fyrr á þinginu þar sem ég átti orðastað við núv. hæstv. forsrh. og ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skyldi hafa manndóm og drengskap til þess að lýsa staðreyndum málsins með þeim hætti sem hann gerði vegna þess að honum er auðvitað fyllilega ljóst að þar var verið að lýsa mjög alvarlegum hlutum. En nánar um það síðar.
    Hæstv. utanrrh. kom hér upp og lýsti því yfir að allan þann tíma sem hann var fjmrh. hefði hann ekki sinnt þeirri skyldu sinni sem fjmrh. að fylgjast með Framkvæmdasjóði Íslands þar sem fjmrh. á sérstakan fulltrúa í stjórn sjóðsins. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hvorki hann né flokkur hans hefði átt trúnaðarmann í stjórn Framkvæmdasjóðs, heldur hefði formaður efnahagsnefndar Sjálfstfl. setið í stjórn Framkvæmdasjóðs. Hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson, hefði þess vegna engin afskipti haft af málefnum Framkvæmdasjóðs í tíð sinni sem fjmrh. vegna þess að formaður efnahagsnefndar Sjálfstfl. hefði setið í stjórn sjóðsins.
    Virðulegi forseti. Í gær vék ég að nokkrum afar sérkennilegum yfirlýsingum hæstv. utanrrh. um eigin flokksmenn og um Alþingi Íslendinga. En sú yfirlýsing sem hann gaf í ræðustól um ráðuneytisstjóra fjmrn. og embættislegan fulltrúa fjmrh. í stjórn Framkvæmdasjóðs og hvernig þáv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson gegndi embættisskyldum sínum sem fjármálaráðherra íslenska ríkisins er auðvitað alveg einstök. Hann lýsir því yfir að vegna þess að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. hefði verið fulltrúi í stjórn Framkvæmdasjóðs hefði fjmrh. hvergi komið nærri málefnum sjóðsins. Vissulega er það rétt og ég ætla ekki að gera það að umtalsefni hér en það er alkunna þeim sem þekkja til innan Stjórnarráðsins að sambúð ráðuneytisstjóra fjmrn. og þáv. fjmrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar var með nokkrum sérstökum hætti. Það gerði ég mér grein fyrir þegar ég kom í fjmrn. og gerði mér far um að ráðuneytisstjórinn gegndi á ný störfum með eðlilegum hætti. En hitt er auðvitað út yfir öll eðlileg mörk að lýsa því yfir að slíkur hafi trúnaðarbresturinn verið á pólitískum forsendum vegna þess að Sigurgeir Jónsson hefði verið formaður efnahagsnefndar Sjálfstfl. að þáv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson hefði hvergi nærri málefnum Framkvæmdasjóðs Íslands komið á lykilárunum 1987 og 1988. Ég get upplýst það að Sigurgeir Jónsson sagði af sér öllum trúnaðarstörfum á vettvangi Sjálfstfl. þegar hann tók við ráðuneytisstjóraembætti í fjmrn., ef ég man rétt árið 1986. Ég get sagt það að ég varð aldrei var við það þann tíma sem ég var fjmrh. að störf Sigurgeirs Jónssonar í fjmrn. mótuðust að einhverju leyti af því að hann hefði á fyrri tíð gegnt trúnaðarstörfum innan Sjálfstfl. Mín samskipti við hann voru að öllu leyti fullkomlega eðlileg og heiðarleg. En nú er reitt fram í ræðustól á Alþingi þegar núv. utanrrh. situr undir ásökunum forsrh. um að vera samábyrgur í því að hafa ráðstafað milljörðum úr Framkvæmdasjóði Íslands með óskynsamlegum hætti að hann víkur sér undan því með því að segja: Ég átti engan mann í stjórn sjóðsins, ekki Alþfl., en þar var formaður efnahagsnefndar Sjálfstfl. Þetta er rógur. Þetta er rangt. Þetta er ódrengilegt. Þetta er algjör óhæfa að koma í ræðustól á Alþingi og haga sér með þessum hætti.
    Hæstv. utanrrh. bar samkvæmt lögunum um Stjórnarráð Íslands og lögunum um Framkvæmdasjóð Íslands fulla ábyrgð á því að í stjórn sjóðsins sæti sérstakur fulltrúi fjmrh. Það vill svo til að sá fulltrúi var einnig æðsti embættismaður fjmrn. þann tíma sem Jón Baldvin Hannibalsson gegndi embætti fjmrh. Að skjóta sér á bak við það og fría sig ábyrgð sem ráðherra, sem hæstv. núv. utanrrh. ber og bar samkvæmt lögum um Framkvæmdasjóð Íslands og Stjórnarráð Íslands, með því að fara að rifja það upp að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. sem var fulltrúi í stjórn Framkvæmdasjóðs hafi í eina tíð, löngu áður en Jón Baldvin Hannibalsson varð fjmrh., gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstfl., er fyrir neðan virðingu þessa þings. Það stendur kannski nær öðrum hér í salnum að taka upp vörn fyrir Sigurgeir Jónsson í þessum efnum, en ég geri það hér, alveg skýrt og afdráttarlaust. Það sýnir kannski best að hæstv. núv. utanrrh. hefur vondan málstað að verja í þessum efnum, erfiða sögu og vondan feril, að hann skuli grípa til svo lágkúrulegs málflutnings í ræðustólnum. Það getur enginn ráðherra skotið sér undan þeirri ábyrgð sem hann ber samkvæmt lögum með því að segja að hann eigi eitthvað persónulega erfitt með að tala við þann mann sem er fulltrúi hans í stjórn sjóðsins. Ef svo er þá ber að skipta um mann í stjórn sjóðsins, hæstv. ráðherra. Það gerði Jón Baldvin Hannibalsson ekki.
    Ég segi þess vegna við hæstv. utanrrh.: Þessi ræða var auðvitað með þeim hætti að rétt væri að hæstv. utanrrh. bæði einnig afsökunar á þessum orðum sínum eins og hann gerði greinilega á þingflokksfundi Alþfl. í gær, á ummælum sínum um hæstv. félmrh. (Gripið fram í.) Er það rangt að hann hafi beðist afsökunar á þingflokksfundinum? Hvað sagði formaður þingflokks Alþfl.? (Gripið fram í.) Heyrði ég rétt? Ég dreg það þá til baka ef það er rangt.
    Hæstv. ráðherra sagði síðan og vildi þar líka fría sig ábyrgð, að hann hefði ekki beitt sér fyrir láninu í þágu fiskeldis, erlenda láninu sem hann tók sem fjmrh. á árinu 1988. Það má vel vera að hæstv. ráðherra geti verið með orðhengilshátt á grundvelli þess hvað það þýði að beita sér fyrir. Hann getur hins vegar ekki hlaupið frá því að það var hann sem tók þá ákvörðun að falast eftir umboði frá Alþingi til að fá að taka þetta lán. Þáv. hæstv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson bað Alþingi um að veita sér þann rétt að taka þetta lán. Ég er í sjálfu sér ekki að spyrja um neinar innanhússumræður í þeirri ríkisstjórn sem hann sat í þá heldur eingöngu að fá rökin fyrir því að þáv. hæstv. fjmrh. féllst á að óska eftir umboði Alþingis til þess að taka að núvirði hátt í 2 milljarða kr. í erlendum lánum til fiskeldis á árinu 1988. Hæstv. ráðherra hefur ekki enn þá svarað því.
    Virðulegi forseti. Það er leitt að hæstv. núv. utanrrh. skyldi grípa til þess málflutnings sem hann setti fram í sinni svarræðu. Ég átti satt að segja von á að hann mundi fjalla nokkuð efnislega um það málefni sem er til umræðu en ekki koma bara upp eins og verurnar í ævintýrinu til þess eins að geta sagt: Ekki ég, ekki ég, ekki ég. Koma sök á þáv. hæstv. forsrh. Þorstein Pálsson vegna þess að ræða utanrrh. um það að hann bæri enga ábyrgð á erlenda láninu sem tekið var 1988 að núvirði hátt í 2 milljarða kr. í þágu fiskeldis var auðvitað með óbeinum hætti ásökun um að það væri þáv. forsrh. einn, Þorsteinn Pálsson, sem bæri ábyrgðina því að engir ráðherrar komu að málefnum Framkvæmdasjóðs á þessu ári aðrir en þáv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson og þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson. Það er jafnódrengilegt af hálfu hæstv. utanrrh. að reyna að koma þessari sök, ef sök skyldi kalla, algerlega yfir á þáv. forsrh. Þorstein Pálsson, en það var það sem hann gerði hér í sinni ræðu. Ef hæstv. utanrrh. taldi rangt að taka þetta lán þá átti hann ekki að biðja Alþingi að veita sér heimildina. En það var það sem hann gerði og hann sagði ekki við Alþingi þá í þeim umræðum að hann hefði einhverjar efasemdir um það að þetta væri rétt. Þvert á móti.
    Virðulegi forseti. Það væri mannsbragur að því ef hæstv. utanrrh. drægi til baka hin ódrengilegu og ósönnu ummæli sem hann hafði hér um Sigurgeir Jónsson. Ég vil eins og ég gerði áðan þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir það sem hann greindi frá hér

í ræðustól. Það er rétt sem kom fram hjá honum að þegar ég bað hann að setjast í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands sem fulltrúi fjmrh. var það gert til að það væri alveg skýrt að það væri vilji minn sem fjmrh. að ný stefna yrði tekin upp, sú stefna sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson orðaði hér réttilega: að koma skikk á lán sjóðsins til fiskeldis. Það hefði núv. hæstv. utanrrh., þáv. fjmrh., líka getað gert frá sumrinu 1987 ef hann hefði viljað og getur ekki hlaupið frá þeirri ábyrgð. Honum bar að gera það ef honum var þá ljóst það sem hann nú þykist vita. Og það er mjög mikilvægt að hér er formlega komið fram á Alþingi að fulltrúi fjmrh. í stjórn Framkvæmdasjóðs hafnaði því að skrifa upp á ársreikninga sjóðsins fyrir árið 1989 nema ríkisendurskoðandi Halldór V. Sigurðsson staðfesti það að hann hefði kynnt sér reikninga sjóðsins og þar væru með eðlilegum hætti færðar upphæðir í afskriftasjóð. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti því að á formlegum fundi formanns stjórnar Framkvæmdasjóðs, framkvæmdastjóra stjórnar Framkvæmdasjóðs og fulltrúa fjmrh. í stjórn Framkvæmdasjóðs hefði sérlegur fulltrúi ríkisendurskoðanda Halldórs V. Sigurðssonar, Bjarni Bjarnason, formlega tilkynnt að ríkisendurskoðandi staðfesti að afskriftirnir væru með eðlilegum hætti, fjárhagur sjóðsins með eðlilegum hætti og reyndar í samræmi við nýjar reglur sem ríkisendurskoðandi sjálfur hafði beitt sér fyrir að settar yrðu.
    Síðan gerist það í sumar að nýr forsrh. pantar skýrslu frá Ríkisendurskoðun um málefni Framkvæmdasjóðs Íslands --- eða óskar eftir, svo annað orðalag sé notað. Þá er allt í einu komin allt önnur niðurstaða. Þá er allt í einu komin sú niðurstaða að málefni sjóðsins séu ekki með eðlilegum hætti. Þá er hann allt í einu orðinn gjaldþrota. Þá hafi allt í einu verið vanrækt að setja upphæð í afskriftasjóðinn þótt ríkisendurskoðandi hafi formlega staðfest við fulltrúa fjmrh. að málin væru fullnægjandi. Þetta er auðvitað svo alvarlegt mál, slíkur trúnaðarbrestur milli þings og Ríkisendurskoðunar að það er óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að forseti þingsins sem er hinn formlegi yfirmaður Ríkisendurskoðunar taki þetta mál alveg sérstaklega upp.
    Ég lét það koma fram fyrr í vetur í umræðu um annað mál þar sem málefni Ríkisendurskoðunar bar á góma að hægt væri að nefna nokkuð mörg dæmi frá síðustu tveimur árum þar sem mismunandi afstaða á ólíkum tímum hefði komið fram hjá Ríkisendurskoðun. Þá benti ég á að það væri nauðsynlegt fyrir þingið, sem nú ber ábyrgð á Ríkisendurskoðun, að athuga stöðu stofnunarinnar. Þá kom hæstv. forsrh. upp og réðst á mig fyrir að fara með dylgjur og óhróður um þessa stofnun. Nú, hæstv. forsrh., hefur það verið staðfest af formanni þingflokks Alþfl., þáv. fulltrúa fjmrh. í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands, að ríkisendurskoðandi Halldór V. Sigurðsson staðfesti að málin væru með eðlilegum hætti en fær svo allt aðra niðurstöðu þegar nýr forsrh. biður um skýrslu frá Ríkisendurskoðun. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, beina þeim formlegu tilmælum til forseta Alþingis sem yfirmanns Ríkisendurskoðunar að í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram verði málefni stofnunarinnar og sá óhjákvæmilegi trúnaðarbrestur, sem þarna er orðinn, tekinn til skoðunar. Það er ekki hægt að búa við að það komi fram með þeim hætti, sem hér hefur gerst, að forsrh. landsins fær skýrslu frá Ríkisendurskoðun um að málefni þessa mikilvæga sjóðs, þessa lykilsjóðs í íslenskri hagstjórn, séu komin í það óefni að sjóðurinn sé gjaldþrota en fáeinum missirum áður hafi, samkvæmt ósk fulltrúa fjmrh. í stjórn sjóðsins, ríkisendurskoðandi staðfest að málefni sjóðsins séu með fullkomlega eðlilegum hætti.
    Hæstv. forsrh. flutti hér ræðu. --- Hæstv. forsrh. hefur sett sig í dómarsæti yfir Alþingi. Hann hefur komið fram í fjölmiðlum og sagt að hér sé málfundaklúbbur á gagnfræðaskólastigi. Virðulegi forsrh., ég vil segja það alveg skýrt að sú ræða, sem hæstv. forsrh. flutti sem svar við umræðunum hér, var á engan hátt samboðin þeim málefnalega málflutningi sem verður að gera kröfu til að hæstv. forsrh. fylgi sérstaklega þegar hann hefur sett sig upp sem siðameistara yfir þinginu. Þetta voru að mestu leyti ómerkilegir útúrsnúningar, skætingur og árásir, sérstaklega á fyrrv. forsrh. Steingrím Hermannsson sem er fjarverandi og getur ekki svarað fyrir sig. En að hæstv. forsrh. viki í einu eða neinu með málefnalegum hætti að þeim tölulegu upplýsingum sem ég rakti og þeim tilvitnunum í skýrslu Framkvæmdasjóðs sem ég flutti gerðist ekki. Það eina sem hann sagði og tengdist því var að það væri ekki hægt að bera á móti því að sami maðurinn hefði verið forsrh. í tiltekinn árafjölda sem hér er til umræðu. En, virðulegi forsrh., Sjálfstfl. hefur borið ábyrgð á málefnum þessa sjóðs jafnlengi ef ekki lengur á þessu tímabili sem hér er sérstaklega til umræðu, þ.e. því tímabili þar sem nýjar fjárveitingar til fiskeldis fara fram á vegum Framkvæmdasjóðs. Það er enginn flokkur, hæstv. forsrh., sem jafnlengi hefur borið ábyrgð á málefnum Framkvæmdasjóðs á þeim árum þegar nýjar lánveitingar til fiskeldis eru ákveðnar í stjórn Framkvæmdasjóðs eins og Sjálfstfl.
    Ég lýsti því áðan hvernig í stjórnartíð Sjálfstfl. var stofnað til yfir 4 milljarða skuldbindinga hjá Framkvæmdasjóði Íslands vegna fiskeldis. Ég lýsti því áðan hvernig í stjórnartíð Sjálfstfl. hefði verið unnið þannig að sameiningu gamla Álafoss og ullarvinnslu Sambandsins að lagðar voru með fölskum hætti byrðar á Framkvæmdasjóð, sem hann gat aldrei staðið undir, til þess reyna að færa tapið frá þessum fyrirtækjum yfir á ríki og skattborgarana og það var Sjálfstfl. sem beitti sér fyrir því. Þegar þetta er rakið lið fyrir lið, ár fyrir ár, tölu fyrir tölu, þá leyfir hæstv. forsrh. sér að koma hér upp og halda áfram uppteknum hætti --- útúrsnúningi, almennum skætingi, fullyrðingum án raka og sérstökum persónulegum árásum á fyrrv. forsrh. Steingrím Hermannsson. Í raun og veru er ekki hægt að segja neitt sérstakt um þá ræðu. En það er merkilegt með hæstv. forsrh. að við gætum nefnt á þeim stutta tíma sem hann hefur verið forsrh. fjöldann allan af dæmum úr þingtíðindum þar sem málflutningur hans er allur með þessum hætti. Ég nefni bara þegar hann kom hér upp og svaraði málefnalegri fyrirspurn frá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni í síðustu viku, þegar þinginu ofbauð svoleiðis ósvífnin í hæstv. forsrh. og stráksskapurinn að allur salurinn reis upp á móti honum. Og þessi maður er svo að koma fram fyrir þjóðina og þykjast vera boðberi einhverra nýrra siða. Ég ætla að vona að þingið fari ekki að detta niður á það plan sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur flutt með sér inn í þingsalinn. Engin málefnaleg rök, engin málefnaleg svör, skætingur, útúrsnúningar, lágkúra og persónulegar árásir. Það er þess vegna alveg ljóst að það stendur jafnskýrt og það var eftir fyrri ræður í þessari umræðu að það er flokkur hæstv. forsrh., Sjálfstfl. ásamt Alþfl. sem ber meginábyrgðina á því hvernig er komið fyrir fjármálum Framkvæmdasjóðs Íslands.