Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 18:11:00 (1656)

     Steingrímur J. Sigfússon :

     Virðulegur forseti. Það er komið á dagskrá á nýjan leik frv. til laga um viðauka við lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Það lætur í sjálfu sér ekki mikið yfir sér enda efni þess einfalt, að kveða skýrt á um það í lögum, eins og sjútvrh. vék að í framsögu, að inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð skuli ekki koma til á tímabilinu frá 1. janúar á næsta ári til 31. ágúst.
    Um þetta frv. má hafa fá orð og það mun ég gera. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta efni. Ég hygg að flestir séu sammála um að við þær aðstæður, að mörgu leyti óvenjulegu aðstæður, sem eru í íslenskum sjávarútvegi nú, þá sé þetta skynsamleg ráðstöfun. Ég er þeirrar skoðunar og styð það eindregið að að þessu ráði verði horfið. Og ef heppilegast er að gera það með ótvíræðri lagasetningu af þessum toga svo að ekki séu uppi álitamál um það að þessum greiðslum verði hætt þrátt fyrir gildandi ákvæði um Verðjöfnunarsjóð, sem með einfaldri viðmiðun við afurðaverð af mörkuðum erlendis mundu væntanlega, a.m.k. að óbreyttu, mæla fyrir um áframhaldandi inngreiðslur á næsta ári, þá tel ég sjálfsagt mál að greiða fyrir lagasetningunni á hinu háa Alþingi. Það verður hins vegar ekki hjá því komist, úr því að þetta mál eitt og einangrað kemur hér inn sem lýtur að ráðstöfunum til styrktar sjávarútveginum í hans miklu erfiðleikum, að spyrja hæstv. sjútvrh. hvað líði öðrum aðgerðum til þess að hafa áhrif á rekstrarstöðu sjávarútvegsins. Ég er ekki að fara fram á, hæstv. forseti, að hér hefjist almenn umræða um rekstrarvanda sjávarútvegsins og þaðan af síður að fyrir fram verði tekið til við að ræða hugsanlegar eða líklegar ráðstafanir. Ég er fyrst og fremst að óska eftir því að hæstv. sjútvrh. upplýsi okkur um það hvers sé að vænta í þeim efnum, hvenær megi vænta frekari og víðtækari aðgerða í málefnum sjávarútvegsins þannig að við sem komum til með að vinna að þessu máli hér í þinginu höfum einhverja vitneskju um þau efni.
    Hæstv. sjútvrh. hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum oftar en ekki á undanförnum dögum að óhjákvæmilegt sé að grípa til ráðstafana til þess að bæta stöðu sjávarútvegsins og þá einkum og sér í lagi vinnslunnar sem býr við mest tap. Hins vegar hafa aðrir hæstv. ráðherrar látið önnur ummæli falla, a.m.k. hvað snertir áherslu á tímapressuna í þessu sambandi, og er skaði að hæstv. forsrh. er ekki í salnum þó að honum væri ljóst væntanlega eins og öðrum þingmönnum, sem hér voru áðan, að mál þetta kæmi til umræðu, En hæstv. forsrh. og að nokkru leyti hæstv. fjmrh. hefur mátt skilja öðruvísi en hæstv. sjútvrh., þ.e. þeir hafa ekki talið jafnbrýna nauðsyn bera til að afgreiða ráðstafanir eða hrinda í framkvæmd ráðstöfunum gagnvart sjávarútveginum og hæstv. sjútvrh. hefur gert.
    Þær óvenjulegu aðstæður sem sjávarútvegurinn býr við og tengjast efni þessa frv. eru auðvitað fyrst og fremst þær að þrátt fyrir hátt afurðaverð á mörkuðum erlendis er jafnmikill taprekstur og raun ber vitni í flestum greinum sjávarútvegs. Það eru sannarlega frekar óvenjulegar aðstæður og þess vegna gerist það að nauðsynlegt er að grípa inn í ákvæði um Verðjöfnunarsjóð með þeim hætti sem hér er lagt til vegna þess að afurðaverðið er svo hátt að þar mundu halda áfram inngreiðslur að óbreyttu þrátt fyrir bullandi taprekstur í flestum greinum vinnslu og í mörgum greinum veiða. Þetta eru auðvitað óvenjulegar aðstæður og skapast fyrst og fremst af því að ýmsir kostnaðarliðir í útgerð og þá sérstaklega fiskvinnslu hafa elt uppi hið háa afurðaverð og meira en það, snúið stöðunni yfir í umtalsverðan og alvarlegan taprekstur.
    Í fylgiskjölum kemur fram að spáð er, samanber og þjóðhagsáætlun, að samtals verði megingreinar sjávarútvegs, veiðar og vinnsla, reknar með um 5,5% halla á næsta ári. Þetta segir ekki alla söguna því að samkvæmt öðrum upplýsingum og fyrirliggjandi spá Þjóðhagsstofnunar yrði bolfiskvinnslan rekin með um 10% halla á næsta ári miðað við afkomuna í september, framreiknað og m.a. að teknu tilliti til þess aflasamdráttar sem fram undan er. Þetta sýnir okkur því miður að þrátt fyrir að þessi litla lagfæring verði gerð á

högum sjávarútvegsins, þá dugar það samt. Og því hlýt ég að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvenær er þess að vænta að víðtækari ráðstafanir líti dagsins ljós? Má búast við því að hv. sjútvn. fái þær til umfjöllunar samtímis þessu frv. og þá innan fárra daga eða reiknar hæstv. sjútvrh. með að afgreiða verði þetta frv. óháð ráðstöfunum í málefnum sjávarútvegsins að öðru leyti?
    Ég hlýt sömuleiðis að nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. sjútvrh. um málefni þeirrar greinar sjávarútvegsins sem sennilega stendur nú verst af öllum, og er þá mikið sagt, þar sem er rækjuvinnslan, hvað sé á döfinni gagnvart málefnum rækjuiðnaðarins sérstaklega. Og það er ekki hægt annað en orða það á íslensku: Hyggst ríkisstjórnin grípa til einhverra ráðstafana sem taka til stöðu rækjuvinnslunnar sérstaklega? Það er held ég öllum ljóst sem eitthvað hafa sett sig inn í málefni þeirrar greinar að hún er nánast að hruni komin og þá ekki bara einstakar verksmiðjur, einstök fyrirtæki þar, heldur greinin sem slík. Það er alvörumál þegar þannig er komið að umfangsmikil grein sjávarútvegsins sem byggst hefur hér upp á sl. áratug eða tugum má segja, en þó í miklum mæli á sl. 10--15 árum og verið ein stærsta viðbótin við verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi 10--15 ár til baka litið, ef það blasir við að hún sé nánast að hrynja og þar með er auðvitað í stórkostlega hættu sett öll sú uppbygging sem þar hefur átt sér stað í tækjum.
    Mér er kunnugt um að allmargar verksmiðjur hafa ýmist þegar lokað eða munu á næstu vikum hætta starfsemi. Og það kynnu menn, í anda þeirra kenninga að gjaldþrotin séu jafnvel lausnarorð, að þola eða ímynda sér að hægt sé að hrista af sér en ég held að sama verði ekki sagt er það blasir við að rækjuiðnaðurinn sem slíkur í heild sinni sé nánast allur að hrynja. Ég hygg að forsvarsmenn rækjuiðnaðarins stefni saman til fundar hér í höfuðborginni í næstu viku og eftir því sem ég hef fregnað af andrúmsloftinu í þeirri grein er það nánast dómsdagsfundur sem þar er boðaður.
    Ég hef sömuleiðis fylgst með því hvernig forsvarsmenn fyrirtækja og sveitarfélaga í mínu kjördæmi berjast fyrir lífi fyrirtækja akkúrat þessa dagana. Þar eru stórkostlega alvarlegir hlutir að gerast, ekki bara að fyrirtæki verði gjaldþrota heldur og að sveitarfélög sem reynt hafa á síðustu mánuðum að standa á bak við þessi fyrirtæki í þrengingunum taka á sig nánast óbærilegar byrðar eða verði fyrir áföllum sem muni lama þau um langt árabil.
    Ég ætla ekki eins og ég sagði áðan að lengja umræður um þetta mál og ég er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum að greiða götu þess í gegnum þingið því að ég tel þetta skynsamlega ráðstöfun og brýna og sjálfsagt mál að hæstv. sjútvrh. sé lagt lið með því að auðvelda honum afgreiðslu þessa máls og hraðferð þess í gegnum þingið. Ég hlýt að leyfa mér að bera fram þessar spurningar og vænti svara því að hæstv. sjútvrh. hefur sem betur fer ekki tekið upp þá siði að svara ekki spurningum sem fyrir hann eru bornar og mætti hann verða ýmsum öðrum ónefndum hæstv. ráðherrum til fyrirmyndar í þeim efnum.
    Mig langar til að spyrja einnig í leiðinni hæstv. sjútvrh. hvort á döfinni sé endurskoðun laga um Verðjöfnunarsjóðinn almennt og hvað sé þá að frétta af því. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mönnum að allmiklar umræður hafa verið um málefni þessa sjóðs í sjávarútveginum á undanförnum mánuðum og ýmsar skoðanir uppi, jafnvel að leggja beri af þennan sjóð með öllu og auðvelda þess í stað fyrirtækjunum að komast yfir sveiflur í afurðaverði eða afkomu með öðrum hætti. Það væri fróðlegt að fá að heyra af því í leiðinni hvort hafin sé vinna að slíkri heildarendurskoðun og hvenær hún mundi þá koma fyrir hv. Alþingi.
    Hæstv. sjútvrh. nefndi að ákvarðanir um inngreiðslur yrðu samkvæmt óbreyttri skipan mála um Verðjöfnunarsjóð teknar um miðjan þennan mánuð og það væri þá ekki úr vegi að inna eftir dagsetningum í þeim efnum og hvort svo sé sem mér fannst liggja í máli

hans að ef ekki verði þá búið að breyta lagaákvæðunum, þá væri stjórn Verðjöfnunarsjóðs skylt að taka ákvörðun um áframhaldandi inngreiðslur í sjóðinn. Þetta skiptir að sjálfsögðu máli í því sambandi hvort óhjákvæmilegt sé að frv. verði orðið að lögum fyrir þann tíma eða hvort meiri tími sé til stefnu.
    Virðulegur forseti. Ég vona að ég fái alla vega ekki ásakanir fyrir það að halda of langa ræðu um þetta mál því að ég mun nú ljúka máli mínu og geri það með sérstöku tilliti til þess að ég met viðleitni hæstv. sjútvrh. til að leggja gott til málanna þar sem í hlut á íslenskur sjávarútvegur og veitir ekki af að hann eigi sér einhverja velunnara um þessar mundir. En hið sama mundi e.t.v. ekki gilda ef ýmsir aðrir hæstv. ráðherrar ættu hlut að máli sem ekki hafa lagt með jafnmarkvissum hætti gott til mála að undanförnu og síður en svo lagt sitt af mörkum til þess að greiða götu mála í gegnum þingið. Er þá ekki bara við það átt sem hefur komið fram í ræðum og ýmsum sérkennilegum ummælum undanfarna daga heldur og því sem nú gengur yfir í fjölmiðlum landsins svo sem og sú nýbreytni hæstv. utanrrh., og vona ég að mér leyfist að segja þessi orð án þess að ég teljist fara út fyrir efnið. En hæstv. utanrrh., hefur tekið upp þá nýbreytni að gerast einhvers konar lúpus, þ.e. palladómahöfundur um samtímamenn sína og samferðamenn í íslenskum stjórnmálum með allsérkennilegum hætti. Verð ég að segja alveg eins og er, burt séð frá innihaldi dómanna, þá er mér það nokkurt umhugsunarefni hvort þeir nýju tímar séu að ganga í garð í íslenskum stjórnmálum, þá kannski að nokkru leyti á nýjan leik eftir því sem maður hefur heyrt að hafi viðgengist hér í hörðustu slagsmálum íslenskra stjórnmála á þriðja og fjórða áratugnum, að stjórnmálaforingjar stóðu í því að gefa hver öðrum einkunnir, ekki sem stjórnmálamenn fyrst og fremst og ekki endilega vegna þeirra málefna sem í hlut áttu heldur sem persónur.
    Ég segi eins og er, hæstv. forseti, að margt sem gerst hefur í samskiptum manna á undanförnum dögum er orðið mér nokkurt umhugsunarefni svo að ekki sé meira sagt. Mér sýnist að ýmsu leyti vera í uppsiglingu eða þegar gengnir í garð nýir tímar í þessum samskiptum sem ég held að sé full ástæða til að velta dálítið fyrir sér. En hæstv. sjútvrh. skal njóta þess að hann á þar betri hlut en flestir aðrir.