Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 18:28:00 (1657)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er um mjög einfalt frv. að ræða sem varðar það að stöðva inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Sá verðjöfnunarsjóður sem hefur starfað frá því vorið 1990 hefur að mínu mati sannað gildi sitt. Þessi skipan mála var umdeild þegar hún var tekin upp en komið hefur í ljós að það var mikilvægt að koma upp þessu sveiflujöfnunartæki sem tekur við af hinum gamla Verðjöfnunarsjóði sem var á margan hátt orðinn úreltur og samrýmdist ekki kröfum tímans. Þótt þessi skipan sé ekki gallalaus, frekar en flestar aðrar, þá hefur tekist að safna verulegu fé í þennan sjóð sem sjávarútvegurinn mun njóta síðar þegar verðfall verður á mörkuðum en það er reynslan að verð hækkar og lækkar. Mikilvægt er að það hafi eins lítil áhrif á þjóðarbúskapinn og nokkur kostur er þó að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir það að áhrifa af slíkum sveiflum gæti.
    Nú eru þær aðstæður að aflaleysi er mikið og það var ekki hlutverk þessa sjóðs að taka á því viðfangsefni heldur eingöngu á verðsveiflum. Að sjálfsögðu eru takmörk fyrir því hvað atvinnugreinin getur greitt inn í slíkan sjóð þegar afli dregst mjög mikið saman en þó verður að gera ráð fyrir því að sjóðurinn geti starfað með óbreyttum hætti þó að afli sveiflist eitthvað til. Það er vart hægt að reikna með því að það verði hlutverk þessa sjóðs að jafna aflasveiflurnar eða a.m.k. þyrfti að breyta lögunum verulega ef hann ætti að geta tekið á því.
    Hitt er svo annað mál að auðvitað er það jafnframt mikilvægt að koma á einhverri

þeirri skipan sem getur tekið á slíkum sveiflum en það er málefni framtíðarinnar. Hér er leitað eftir því að ekki skuli greitt inn í sjóðinn á tímabilinu 1. jan. 1992 til 31. ágúst 1992. Ég get fyrir mitt leyti fallist á þá skipan mála en ég vil taka skýrt fram að ég tel mjög mikilvægt, eins og fram kemur í þessu frv., að hér er aðeins um tímabundna ákvörðun að ræða sem ekki varðar neina aðra breytingu á sjóðnum. Ég vil þó vekja athygli á því að það er hugsanlegt að þær aðstæður verði uppi í ágúst 1992 að það þyki rétt að framlengja þessa skipan mála eitthvað. Ég er ekki með því að segja að það sé æskilegt. En ég teldi ekki óeðlilegt að hæstv. sjútvrh. hefði heimild til þess að framlengja þá skipan sem hér er tekin upp um tveggja mánaða skeið, þ.e. í september og október með tilliti til þess að þing verður ekki starfandi í ágúst 1992 að öllu óbreyttu þó að það geti að sjálfsögðu komið upp og möguleikar til útgáfu bráðabirgðalaga hafa verið mjög þrengdir og ekki óeðlilegt að tekið sé tillit til þess þegar löggjöf er sett hér á Alþingi.
    Þetta eru að sjálfsögðu atriði sem við getum nánar fjallað um í nefnd en ég vil taka undir það og leggja á það áherslu að þetta mál geti fengið skjóta afgreiðslu á Alþingi því að það er með slíkar ráðstafanir sem þessar að óheppilegt er að þær séu allt of lengi til umræðu í þinginu. Ég get tekið undir það að ástæðulaust er að taka upp almenna umræðu um málefni sjávarútvegsins vegna þessa máls. Það er eðlilegra að hún fari fram undir öðrum þeim málum sem hæstv. ríkisstjórn mun væntanlega leggja fyrir, hvenær sem það verður nú.