Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 18:41:00 (1660)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til þess að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Undir venjulegum kringumstæðum mundi maður nú e.t.v. ekki gera það en á þessum síðustu tímum, sem ég ætla ekki að gefa nein önnur lýsingarorð, kalla þá bara síðustu tíma, þá er því miður svo komið að maður sér ástæðu til þess að leggja leið sína hingað í ræðustólinn og þakka sérstaklega fyrir það þegar ráðherrar bregðast þannig við spurningum, eins og hér var gert, að svara þeim lið fyrir lið með skilmerkilegum hætti. Ég bar fram fjórar spurningar hverjum hæstv. sjútvrh. svaraði öllum í réttri röð. Síðan bar hv. 2. þm. Suðurl. sömuleiðis fram spurningar sem var svarað. Allt var þetta skilmerkilegt og fyrir það þakka ég.
    Ég vil fullvissa hæstv. sjútvrh. um að ég held að ekki sé ástæða til að óttast annað, miðað við undirtektir í umræðum um þetta mál, en að málið fái þennan greiða framgang á þinginu sem til þarf þannig að stjórn Verðjöfnunarsjóðs þurfi ekki að framkvæma hefðbundna útreikninga og ekki þurfi að koma til inngreiðslna í Verðjöfnunarsjóð um áramótin.
    Hitt er svo annað mál því miður að e.t.v. fer það svo á fyrstu mánuðum næsta árs, og er þó ekki á bætandi fyrir okkur Íslendinga, að efni þessa frv. verði óþarft því að margar blikur eru á lofti um það, ég segi aftur því miður, að verð gæti þá farið lækkandi þannig að miðað við óbreyttar starfsreglur Verðjöfnunarsjóðs mundi taka fyrir inngreiðslur í öllu falli.