Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 11:32:00 (1667)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Eftir þessari ræðu hæstv. forsrh. var beðið með nokkurri eftirvæntingu. Við lásum í Morgunblaðinu að ríkisstjórnin sat á fundi fram á nótt og þar var sagt að hún ræddi efnahagsaðgerðir. Þjóðin öll hefur reyndar beðið, launþegar hafa beðið. Ríkisstjórnin hefur ekki virt viðlits jafnvel þá launþega sem á hennar vegum eru, hún hefur ekki rætt við þá. Þjóðarsáttin er í hættu og fulltrúar atvinnurekenda hafa lýst því yfir að fram undan sé stöðvun í helstu atvinnugreinum okkar ef ekki komi bráðlega til róttækra aðgerða.
    En það fæddist aðeins mús. Enn þá lýsir hæstv. forsrh. því yfir að fram undan séu aðgerðir í atvinnumálum. Hann hefur þó setið í sjö mánuði. Í raun sé ég ekki mikla ástæðu til að fara mörgum orðum um það frv. sem hér liggur fyrir en ætla þó að drepa á örfáar greinar þess.
    Þetta frv. er um sumt nokkuð óvenjulegt. Það samanstendur af tveimur köflum. Seinni kaflinn er hinn hefðbundni bandormur sem reyndar allar ríkisstjórnir, sem ég man eftir, hafa sagt að þyrfti að breyta, breyta lögum varanlega frekar en að flytja bandorma á hverju ári en við það ætla ég ekki að gera athugasemd.
    I. kafli frv. fjallar hins vegar um breytingar á ýmsum öðrum lögum og sumar þessar breytingar eru varanlegar. Ég tel afar einkennilegt að vísa slíku máli, með varanlegum

breytingum á mörgum mikilvægum lagabálkum, til efh.- og viðskn. einnar. Ég hygg að ýmsar nefndir sem fjalla um slíka málaflokka, eins og t.d. menntamálin og heilbrigðismálin svo eitthvað sé nefnt, hljóti að fá þessar viðamiklu breytingar til meðferðar. Ég vil eindregið beina þeim tilmælum til virðulegs forseta að það verði athugað.
    Ég ætla fyrir mitt leyti ekki að draga úr viðleitni hæstv. ríkisstjórnar til þess að stuðla að sparnaði í fjármálum ríkisins og það er ýmislegt í þessum tillögum, í þessum I. kafla frv., sem við framsóknarmenn getum út af fyrir sig stutt. Við leggjum hins vegar á það ríka áherslu að þegar um sparnað er að ræða í ríkisútgjöldum verði að gæta þess mjög vandlega hvar sá sparnaður kemur niður og þess verður jafnframt að gæta afar vandlega að önnur og jafnvel stærri markmið séu ekki fyrir borð borin þegar til slíkra sparnaðarráðstafana er gripið. Því miður einkennast margar af þeim sparnaðartillögum sem hér liggja fyrir af því. Því miður virðist að álögur séu settar víða á þá sem síst mega þeirra við.
    Ég vek einnig sérstaka athygli á ákvæðum um breytingu laga um ábyrgðir á launum vegna gjaldþrota. Þessar ábyrgðir eru reyndar niðurstaða af margendurteknum viðræðum ríkisvaldsins við launþega og hér er ákveðið að skerða þær ábyrgðir mjög verulega á sama tíma og ríkisstjórnin segir okkur að hún vinni að því að koma á nýrri þjóðarsátt. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að hér sé langtum stærra markmiði fórnað fyrir minna. Ég ætla út af fyrir sig, eins og ég sagði áðan, ekki að gera lítið úr því að reynt sé að draga úr útgjöldum ríkissjóðs vegna gjaldþrota. En það á ekki að gera á þann máta að leggja þær álögur á þá sem verða fyrir gjaldþrotinu, á launþega sem ekki mega við að bera slík útgjöld, og reyndar á atvinnurekendur einnig sem eiga nú við mjög mikla erfiðleika að stríða. Ég vil eindregið beina þeirri áskorun til hæstv. forsrh. að þetta ákvæði um ábyrgð á laun vegna gjaldþrota verði endurskoðað ef ekki dregið fullkomlega til baka. Það hefur komið mjög greinilega fram í ummælum forustumanna launþegahreyfingarinnar um þetta ákvæði að það brýtur mjög í bága við alla viðleitni, sem nú er unnið að, að koma á þjóðarsátt. Ég lýsi því sem ábyrgðarleysi að hefja þann slag eins og nú háttar málum.
    Vitanlega á að koma í veg fyrir gjaldþrot eins og frekast er unnt og þannig á að draga úr útgjöldum ríkissjóðs vegna gjaldþrota. Í mörgum tilfellum getur vel komið til greina og verið hagkvæmara fyrir ríkissjóð að leggja nokkuð af mörkum til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot, eins og ég kem að síðar, fremur en leggja þær byrðar á þá sem fyrir gjaldþrotunum verða.
    Ég vek einnig athygli á því að hér eru enn á ferðinni nokkrar álögur á sjávarútveginn, sem eru að vísu ekki stórkostlegar, í breytingu á lögum um stjórn fiskveiða en engu að síður er hoggið þar í sama knérunninn og með þeim breytingum sem liggja fyrir Alþingi á Hagræðingarsjóði sjarútvegsins.
    Sömuleiðis kennir sömu tilhneigingar í breytingu á lögum um almannatryggingar. Þar er að vísu --- og ég vil fagna því --- ekki gengið eins langt og boðað var áður um greiðslu sjúklinga fyrir komur á heilsugæslustöðvar. Engu að síður ber þar allt að sama brunni: Þar er fyrst og fremst verið að spara með því að leggja auknar álögur á þá sem sjúkir eru og mega í mörgum tilfellum síst við að bera þær álögur.
    Nú er eðlilegt að einhver spyrji: Hvar á þá að bera niður? Hvar á að ná auknum tekjum? Því að vitanlega eru þetta ekkert annað en nýir skattar í ríkissjóð. Hvar á að bera niður til að ná þessum nýju sköttum í ríkissjóð?
    Við framsóknarmenn höfum hvað eftir annað bent á skatt vegna fjármagnstekna, sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur sagt að hún sé með í athugun, og ég spyr: Hvar er sú athugun á vegi stödd? Það frv. var unnið í tíð fyrri ríkisstjórnar, en nauðsynlegt þótti að vinna það á ný. Mikil vinna liggur þar að baki og ég vil spyrja: Er þeirri vinnu ekki lokið? Hvar stendur sú vinna? Hvenær eigum við von á því að fá að sjá tillögur um greiðslu skatta af

fjármagnstekjum? Við framsóknarmenn höfum lengi lýst yfir stuðningi við það að greiðslur af eignum, hvort sem þær eru fasteignir eða fjármagnseignir, verði samræmdar. Og ég hygg að flestir muni sjá að í raun er ekki skynsemi í öðru. Því munum við skoða mjög vandlega þegar fram kemur frv. um greiðslu skatta af fjármagnstekjum.
    Ég vek einnig athygli á því í þessu sambandi að í nokkuð nýlegu yfirliti frá atvinnuvegunum, ég hygg að það hafi verið frá Verslunarráði, kemur fram að þau fyrirtæki sem eiga fjármagn hafa hagnast mjög verulega, en þau sem eitthvað skulda hafa tapað. Vitanlega liggur þetta í hlutarins eðli með þeim háu vöxtum sem hér hafa verið. Ekki er nema eðlilegt að þeir sem hafa hagnast af þessum háu vaxtagreiðslum beri töluverð gjöld til ríkissjóðs.
    Einnig hefur komið fram í þeim yfirlitum sem hafa birst að launamunur hefur því miður vaxið mjög mikið hér á landi á undanförnum árum. Að öllum líkindum fylgir það þeim hagkvæmu skattareglum sem gilda um tekjuskattinn nú. Þessi launamunur er orðinn óeðlilegur. Ég vil lýsa því að ég hef verið heldur hikandi við að taka upp hátekjuskattsstig. Ég hef heldur verið fylgjandi því að gera skattaskalann brattari, þannig að nokkurn veginn náist sami árangur, en með þeim mikla mun sem nú er orðinn vil ég lýsa því yfir að ég er tilbúinn til að skoða hvora leiðina sem ríkisstjórnin kýs að fara. Ég held að alls ekki verði lengur unað við svo mikinn launamun í þjóðfélaginu.
    Jafnframt er að sjálfsögðu unnt að ná sparnaði í rekstri ýmissa ríkisstofnana og ég hef þegar lýst stuðningi við alla viðleitni í þá átt. En sá sparnaður verður að koma þannig fram að ekki sé ætíð hoggið í sama knérunninn og álögur lagðar á þá sem minnst mega sín, eins og sjúka og námsmenn. Það verður að gæta þess að það komi þá a.m.k. sem jafnast yfir alla í þjóðfélaginu.
    Í raun og veru er ekki mikið í þessu frv. sem vert er að ræða og aðrir munu koma inn á einstök ákvæði þessa I. kafla sérstaklega, sem varðar ýmsa mikilvæga löggjöf í landinu. Það er miklu fremur ástæða til að ræða um hitt sem ekki er að finna í þessu frv. og ekki var að finna í ræðu hæstv. forsrh. Eins og ég sagði í upphafi míns máls boðar hann enn --- ég veit ekki í hvaða sinn --- opinberar aðgerðir í atvinnumálum. En ekkert bar á þeim. Mér skilst að reglugerðir o.fl. muni einhvern tíma sjá dagsins ljós. En við höfum að vísu heyrt að slíkar aðgerðir hafi verið ræddar í ríkisstjórninni, m.a. hefur hæstv. sjútvrh. lagt fram tillögur í ríkisstjórninni um aðgerðir í sjávarútvegsmálum. Þeim er m.a. lýst í Morgunblaðinu 28. nóv. sl. Ég ætla að leyfa mér að fara yfir þessar aðgerðir eins og þær eru þar raktar og ég treysti því að þar sé rétt með farið.
    Í fyrsta lagi leggur hæstv. sjútvrh. til að aðstöðugjald verði lagt niður í áföngum á næstu árum. Þetta er satt að segja afar mikilvægt mál. Síðasta ríkisstjórn hóf viðræður við sveitarfélögin um lækkun aðstöðugjalds. Því var hafnað og sérstaklega var það Reykjavíkurborg sem lagðist mjög eindregið gegn því að aðstöðugjald yrði lækkað. Hæstv. forsrh. sagði áðan að nauðsynlegt yrði að samræma okkar skattalög og þau lög sem gilda fyrir atvinnurekstur á hinu evrópska efnahagssvæði. Ég vil taka undir það. Það er nauðsynlegt hvort sem við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði eða ekki.
    Aðstöðugjald, hygg ég að ég fari rétt með, þekkist hvergi nema í þessu landi. Ef þessi aðlögun á að vera orðin á árunum 1993, 1994 og 1995 er tvímælalaust nauðsynlegt að þrep verði tekið í lækkun aðstöðugjalds nú þegar. Mér er að vísu ljóst að sveitarfélögin mörg, og einkum þau minnstu, munu þurfa á öðrum tekjum að halda til að standa undir sínum útgjöldum. Og vafalaust er því nauðsynlegt að styrkja mjög verulega Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvað líður athugun á lækkun aðstöðugjalds og hvað líður um leið athugun á því hvernig jafna má síðan útgjöld eða tekjuþörf hinna ýmsu sveitarfélaga í landinu? Hafa þessar tillögur, m.a. þessi um aðstöðugjald, verið ræddar í

hæstv. ríkisstjórn?
    Einnig boðar hæstv. sjútvrh. frest á afborgunum lána atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar eða með öðrum orðum að lengja í þeirri snöru en hæstv. forsrh. hefur þannig lýst þessum aðgerðum fyrri ríkisstjórnar. Aðgerðir sem voru, og hæstv. forsrh. virðist ekki hafa skilið, fyrst og fremst og nánast eingöngu skuldbreytingar, ekki skuldaaukning, að breyta ýmsum skemmri lánum atvinnuveganna í lengri lán og gera þeim þannig kleift að standa betur undir greiðslum af þessum lánum. Það er rétt að minna á það einu sinni enn að þessum skuldbreytingum fylgdu kröfur um víðtækar hagræðingarráðstafanir sem mjög víða hafa verið framkvæmdar og eru enn þá í framkvæmd. Að vísu minnir mig að hæstv. fjmrh. hafi svarað þessum tillögum svo að þetta væri hálfgerð fljótfærni hjá hæstv. sjútvrh., eða a.m.k. ónauðsynlegt, því að ekki væru heimtar inn greiðslur nú af þessum skuldbreytingarlánum. En það er töluvert mikill munur á því að heimta ekki inn greiðslur eða ganga formlega til verks og lengja lánin. Eru t.d. vangoldnar afborganir nú á dráttarvöxtum? Ég spyr. Ég veit að lánastofnunum er mjög gjarnt að fresta greiðslum og heimta síðan dráttarvexti. Að sjálfsögðu er því afar nauðsynlegt að ganga nú til verks og framkvæma það sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt til. Ég vil lýsa yfir stuðningi okkar við þessar aðgerðir í því ástandi samdráttar í sjávarútvegi sem nú er.
    Þá er minnst á innborganir í botnfiskdeild Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Það mál liggur fyrir Alþingi og ég vil fagna því og tel rétt að það verði gert eins og nú er ástatt. Þó er verðugt að hafa í huga að á sama tíma og frestað er þessum greiðslum þá boðar a.m.k. hæstv. viðskrh. að brátt skuli tengja íslensku krónuna ECU og hefur réttilega sagt að til þess að það sé unnt verði nauðsynlegt að koma hér á fót mjög miklum og öflugum jöfnunarsjóðum. Áreiðanlega er ekki of djúpt í árinni tekið þegar því er lýst yfir, reyndar hef ég þegar lýst yfir andstöðu minni, og okkar framsóknarmanna, við tengingu við ECU sem við teljum alls ekki henta íslensku efnahagslífi. En þessi neyðarráðstöfun sem þarna er um að ræða gengur þvert á slíkar hugmyndir og væri verðugt að spyrja hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsi sér að láta þessi tvö sjónarmið ganga upp? Eða er hæstv. sjútvrh. hlynntur því að tengja íslensku krónuna ECU, Evrópugjaldmiðlinum, sem nú er mjög til umræðu og reyndar umdeildur þar um slóðir?
    Þá boðar hæstv. sjútvrh. að gjaldskrár Landsvirkjunar og almenningsveitna verði endurskoðaðar með það að markmiði að lækka raforkuverð til sjávarútvegsfyrirtækja. Ég spyr: Hvað líður þessari breytingu? Þetta er athyglisverð hugmynd. Ég hef að vísu ekki séð hana útfærða. Mér er ekki ljóst um hvað er að ræða í þessu sambandi, um hversu mikinn sparnað er að ræða o.s.frv., en það er sjálfsagt að skoða einnig þá leið í þessari erfiðu stöðu sem nú er vegna samdráttar í afla. Loks er sagt að hætt verði við fyrirhugaðar gjaldskrárbreytingar Rarik. Mér er ljóst að Rafmagnsveitur ríkisins eru ekki aflögufærar. En hér er að sjálfsögðu boðað að réttara sé þá að aðstoða Rarik eftir öðrum leiðum ef þannig megi koma sjávarútveginum til aðstoðar. Þetta er að mörgu leyti skynsamleg stefna. Þetta er svona framsóknarráð eins og ég kem að síðar. Við teljum nefnilega að vel komi til greina að fara einmitt þá leið þegar um stórkostlega hagsmuni getur verið að ræða.
    En hæstv. sjútvrh. segir svo einnig, eða Morgunblaðið hefur að því er mér skilst eftir hæstv. sjútvrh. --- eða a.m.k. með tilvísun til þess sem hann hefur lagt fram, með leyfi forseta: ,,Auk þessara aðgerða er lagt til að stjórnvöld beiti sér nú þegar fyrir almennri lækkun raunvaxta.`` Þetta er vitanlega kjarni málsins. Sagt er að erfiðleikar sjávarútvegsins nemi nú um 3 milljörðum kr. á ársgrundvelli eða muni vera það á næsta ári og þær aðgerðir sem hæstv. sjútvrh. hefur boðað nái um það bil 2 milljörðum kr. Vel má svo vera. En áreiðanlega þurfa þær allar að vera meðtaldar og meðreiknaðar ef ná á 2 milljörðum kr.

    Ég leyfi mér að fullyrða að þessar aðgerðir allar verða samt sem áður ekki nægar til þess að rétta hlut sjávarútvegsins og fleyta honum yfir þann öldudal sem fram undan er nema mjög mikil lækkun vaxta náist. Það er í raun og veru kjarni málsins. Við heyrum það enn á hæstv. forsrh. að --- jú, það er í gangi einhvers konar viðleitni til lækkunar vaxta. Ekki ætla ég að gera lítið úr áhrifum ríkissjóðs í því sambandi og að sjálfsögðu ber að draga úr halla ríkissjóðs eins og hægt er. En ég vek athygli á því að það er almenn hagfræðikenning að vel komi til greina að reka ríkissjóð með halla þegar ástandið er eins og það er nú í þjóðfélaginu og það komi til greina einmitt til þess að tryggja önnur og jafnvel stærri markmið eins og atvinnuna í landinu. Því má ekki einblína svo á alla viðleitni til þess að draga úr halla ríkissjóðs að þeim stóru markmiðum um trygga atvinnu í landinu sé gleymt. Þarna verður vitanlega að skoða heildina.
    Ég vek athygli á því hvað hefur í raun gerst eftir að ríkissjóður reið á vaðið og hækkaði vexti stórkostlega. Hvað hefur gerst? Jú, það sem hefur gerst er að vextirnir allir hafa hækkað, færst upp á annað hærra plan. Hefur ríkissjóður selt eitthvað meira af skuldabréfum sínum? Ég hygg að það sé sáralítið. Það eru fyrst og fremst víxlar sem hafa selst meira. En hann hefur náð því að auka útgjöld atvinnuveganna um marga milljarða.
    Eins og ég gat hér í stuttu innskoti fyrir nokkrum dögum þá hefur Þjóðhagsstofnun áætlað að við hvern einn af hundraði í hækkun raunvaxta aukist útgjöld íslenskra atvinnuvega um 1,5 milljarða. Og staðreyndin er sú að raunvextir hafa hækkað úr u.þ.b. 8 í 10% meðalraunvaxta verðtryggðra skuldabréfa og það þýðir um 3 milljarðar í auknum útgjöldum íslenskra atvinnuvega. Svo aukin víxlasala ríkissjóðs hefur sannarlega verið keypt afar dýru verði. Líklega því verði að útilokað er að ná kjarasamningum og þjóðarsátt nema þetta verði dregið til baka og það hið fyrsta. Á sama tíma hafa allar þjóðirnar í kringum okkur, þær þjóðir sem hæstv. ríkisstjórn leitar nú til og biður um forsjá sinna mála í Evrópu, kappkostað að lækka vexti. Menn geta skoðað vaxtatöflurnar eins og þær eru birtar í alþjóðlegum ritum. Allir vextir hafa verið á niðurleið nema núna í Svíþjóð fyrir tveimur dögum þar sem vextir voru stórhækkaðir vegna fjárflótta úr landinu og hræðslu við gengisfellingu.
    Ég vil því eindregið beina því til hæstv. ríkisstjórnar að hún fari að ráðum hæstv. sjútvrh. og noti það sem hann kallar handleiðslu, ekki handafl, ef þetta er eitthvað fallegra orð, til að ná niður vöxtum. Það er hægt.
    Það vekur vitanlega mikla athygli í þessu sambandi að á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn boðar að ekki megi taka erlend lán er hafin sala á húsbréfum erlendis, fleiri milljörðum, sem eru öll með ríkisábyrgð. Og mér er sagt að nú séu menn að byrja að stunda það að kaupa hér húsbréf með 20% afföllum og selja erlendis með 5% afföllum. Hvers konar peningastjórnun er þetta? Vitanlega væri þó skárra að ríkissjóður tæki sjálfur lán erlendis á langtum hagkvæmari vöxtum en fást fyrir húsbréfin og dragi þannig úr þrýstingi á hið veikburða íslenska peningakerfi.
    Þarna er að sjálfsögðu um tvö atriði að ræða sem bæði geta ráðið úrslitum. Vitanlega er dregið úr þrýstingnum með því að draga úr fjárlagahallanum. En það er augljóslega unnt að draga úr þrýstingnum með öðrum leiðum. Draga úr húsbréfaútgáfunni og taka þá frekar --- af skornum skammti, vil ég að vísu segja, og með varúð --- bein erlend lán til ríkissjóðs til að draga úr þessum þrýstingi. En um fram allt er hægt, það sýnir sagan, að flytja allan vaxtastrúktúrinn í landinu niður, ef ég má orða það svo, eins og gert er hjá öðrum þjóðum og að sjálfsögðu með þrýstingi á bankana að draga úr vaxtamun og ná sparnaði. Þetta er vitanlega stóra málið. Ef ríkisstjórnin vindur sér ekki í þetta strax þá leyfi ég mér að fullyrða að það eru engir kjarasamningar á næsta leiti. Og þá kunna að verða hér hinir erfiðustu tímar.

    Hæstv. forsrh. talaði nokkuð um framsóknarúrræðin. Það er rétt hjá honum að það er mjög mikill munur á framsóknarráðunum og íhaldsráðum þeim sem hann boðar nú og hefur boðað undanfarna mánuði. Hæstv. forsrh. sagði hins vegar í stefnuræðu sinni nýlega að við Íslendingar byggjum við afar góð lífskjör, persónufrelsi o.s.frv. Hann sagði það í upphafi sinnar ræðu og það er hárrétt hjá honum. Ætli framsóknarráðin eigi ekki stóran hlut í því að við búum við þessi góðu lífskjör, hæstv. forsrh.? Hæstv. forsrh. hefur kvartað undan því að framsóknarráðin hafi verið viðhöfð hér í 20 ár. Þau hafa reyndar verið töluvert lengur. Við framsóknarmenn viljum líta á þjóðfélagið sem eina heild. Við teljum að við þurfum að skoða markmiðin sem stórmarkmið en ekki sem undirmarkmið, einföld einstök markmið, við verðum að tengja þau öll saman. Við verðum að gæta að því þegar við grípum til ráðstafana í fjárlögum eða hverju öðru sem um er að ræða að ekki sé fórnað einhverju stærra. Það eru líka framsóknarráð að tryggja hér atvinnu fyrir alla. Það hefur lengi einkennt þetta þjóðfélag að við viljum ekki atvinnuleysi. Það eru íhaldsráðin hins vegar, sem fyrir mörgum árum voru reyndar boðuð og þá kveðin niður, að mátulegt atvinnuleysi væri leiðin til að ná stjórn á efnahagsmálum. Hvernig hefur farið í löndunum í kringum okkur þar sem hið mátulega atvinnuleysi hefur verið innleitt? T.d. í Danmörku þar sem atvinnuleysi er nú um 10% og svo er víða um lönd?
    Nú er það alls ekki svo að við framsóknarmenn höfum fundið upp þessi ágætu ráð. Því fer víðs fjarri. Við fylgjum blönduðu kerfi í efnahagslífinu. Við viljum að sjálfsögðu öfluga markaðsstarfsemi. Við viljum að einstaklingarnir fái svigrúm til að beita sér. Okkur er hins vegar fyllilega ljóst að markaðshagkerfið leysir aldrei öll hin fjölmörgu vandamál þjóðfélagsins. Markaðshagkerfið eitt t.d. leysir ekki atvinnuleysið þegar samdráttur er. Markaðshagkerfið tryggir ekki jöfnuð á milli landsmanna án tillits til tekna eða búsetu sem hið blandaða hagkerfi gerir ráð fyrir. Þess vegna þarf ætíð sterka hönd ríkisvaldsins til að taka þátt í því að leiðbeina þjóðfélaginu inn á réttar brautir.
    Það er á þennan máta sem við Íslendingar höfum náð þessum ágætu lífskjörum, hæstv. forsrh., sem þú, hæstv. forsrh., hefur alveg réttilega lýst.
    Einhver hagfræðingur sagði að hér væru lífskjörin enn betri hefðum við aldrei fellt gengið. Það er vitanlega mesta vitleysa. Ég er ekki að boða gengisfellingar en við höfum bara talið sjálfsagt, þegar í nauðirnar rekur, að skoða það í ljósi þeirra gífurlega stóru hagsmuna sem við blasa. Og við höfum samkvæmt skýrslum OECD náð því að vera með lífskjör sem eru með því besta sem þekkist í öllum löndum OECD, jafnvel í dag. Svo það er sannarlega ekki nauðsyn á svartsýni ef ríkisstjórn situr sem vill taka þátt í því að ryðja nýjar brautir, skapa ný atvinnutækifæri, koma í veg fyrir það atvinnuleysi sem forustumenn sjávarútvegsins boða að sé á næsta leiti.