Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 12:01:00 (1668)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Þetta er um margt harla sérkennileg umræða sem fer fram og ber nokkuð skringilega að svo ekki sé meira sagt. Hún hófst að sjálfsögðu með framsöguræðu forsrh. og reyndar var nokkur eftirvænting eftir því hvaða boðskap hæstv. forsrh. hefði að flytja okkur. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði að þar var hálfgerður fyrirburður á ferð. Hvaða nafn sem menn vilja honum gefa eða stærðargráðu á hann setja. Satt að segja er sú málsmeðferð öll, virðulegur forseti, tæplega samboðin þinginu sem hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að bjóða hér upp á í umræðum um efnahagsmál, ríkisfjármál og atvinnumál. Staðreyndin er auðvitað sú að það er meira en lítið kátbroslegt, hlægilegt eða grátbroslegt, allt eftir því hvað menn vilja kalla það, að nú skuli koma til umræðu eftir dúk og disk frv. það um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 sem hæstv. ríkisstjórn hefur í raun sjálf boðað að sé löngu úrelt. Hv. alþm. heyra það á skotspónum í kvöldfréttatíma sjónvarpsins að nú séu breyttar forsendur þannig að til þurfi að koma margra milljarða niðurskurður til viðbótar til þess að markmiðunum um óbreyttan hallarekstur á ríkissjóði á næsta ári nái fram að ganga. Það er jú einmitt einn yfirlýstur tilgangur þessa frv., að draga þannig úr ríkisútgjöldum að unnt sé að halda hallarekstri ríkissjóðs á næsta ári innan settra marka. Nú gott og vel. En er það þá ekki tímaskekkja og tímasóun að ræða þessa hluti nú gegnum löngu úreltar forsendur í frv. sem í raun og veru tekur ekki á neinu nýju umfram það sem boðað er í forsendum fjárlagafrv. og hafa legið fyrir þinginu í meira en tvo mánuði? Hvar eru hinar nýju ráðstafanir? Hvar eru ráðstafanir í efnahagsmálum? Hvar eru ráðstafanir hæstv. sjútvrh. í sjávarútvegsmálum? Það er þetta sem við þurfum að fá upp á borðið og fá til umræðu í einu samfelldu plaggi sem unnt er að taka á með heildstæðum hætti.
    Staðreyndin er auðvitað sú að öll málafylgja hæstv. ríkisstjórnar er þannig á rúi og stúi út og suður að þar festir ekki hönd á neinu. Hvar til viðbótar, í heilbrigðismálum eða skólamálum eða annars staðar, á sá niðurskurður að koma sem boðaður er upp á 4--7 milljarða kr. umfram það sem þegar hefur verið ákveðið, ef marka má þau orð hæstv. forsrh. að þrátt fyrir um 11 milljarða gat eigi að stefna að óbreyttri niðurstöðutölu fjárlaga hvað hallarekstur snertir á næsta ári eða einhvers staðar á milli 4--5 milljarða kr.? Nei, herra forseti, þau vinnubrögð sem hv. Alþingi eru ætluð í þessum efnum eru út úr öllu korti. Efh.- og viðskn. þingsins hefur setið við það á undanförnum dögum að ræða lánsfjárlög og reyna að átta sig á nýjum þjóðhagsforsendum, t.d. í kjölfar þess að ekki verði af byggingu álvers og fleiri breytinga sem orðið hafa. En það er í raun og veru allt í lausu lofti gert vegna þess að við höfum ekkert nema sögusagnir til að styðjast við um áform hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum, í efnahagsmálum, um ráðstafanir gagnvart atvinnuvegunum, ráðstafanir gagnvart sjávarútveginum sérstaklega og annað það sem auðvitað verður að koma í samhengi inn í umræðuna til þess að eitthvert vit sé í henni.
    Ég er í sjálfu sér með þessu ekki að gera lítið úr efni þessa frv. sem hér er á ferðinni. Það er full ástæða til að skoða það rækilega. Og ég mun fara yfir það nokkuð ítarlega hér á eftir lið fyrir lið. En fyrst hlýt ég að láta nokkur orð falla um hið almenna samhengi hlutanna enda fullkomlega gefið tilefni til þess í framsöguræðu hæstv. forsrh. sem fór vítt og breitt um sviðið og gleymdi að sjálfsögðu ekki hinum hefðbundna kafla sínum um árásir á stjórnarandstöðuna. Það vakti alveg sérstaka athygli mína að það var alveg sama hvað hæstv. forsrh. ræddi, virðulegur forseti sá aldrei ástæðu til að minna hann á að halda sig við efni frv. sem aðallega lýtur að grunnskólalögum og heilbrigðismálum og skerðingum á nokkrum sérlögum. En með þessu fína fagra fordæmi sem þar með er gefið mun ég hvergi draga af mér að ræða hið almenna samhengi efnahagsmálanna í þessari umræðu.
     Í fyrsta lagi segi ég auðvitað það að óhjákvæmilegt er að hinar nýju þjóðhagsforsendur séu teknar til umræðu áður en Alþingi tekur til við að afgreiða einstök mál sem lúta að fjárlagafrv., lánsfjáráætlun eða sérstökum ráðstöfunum í efnahagsmálum af einu eða neinu tagi. Þess vegna ber að mínu mati að bíða með alla afgreiðslu á frumvörpum sem þessum efnum tengjast þangað til farið hefur verið yfir hinar nýju þjóðhagsforsendur og samhengi hlutanna liggur fyrir. Af þeim sökum hefði verið eðlilegast að fresta því að þessi umræða færi fram, taka ekki þetta frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á dagskrá fyrr en hinar nýju tillögur ríkisstjórnarinnar liggja fyrir --- ef þær verða þá einhverjar og einhvern tíma koma fram og fyrr en hæstv. sjútvrh. hefur fengið niðurstöðu í sín mál í ríkisstjórninni og önnur þau atriði, sem inn í þetta samhengi koma, hafa skýrst.
    Ég sleppi því að nefna hér efnahagstillögur formanns þingflokks Alþfl. en það er út af fyrir sig eitt skjalið enn sem hefur blandast inn í þetta mál, þ.e. prívattillögur formanns þingflokks Alþfl. sem voru kynntar í Dagblaðinu á dögunum. En eins og kunnugt er þá er víða verið að vinna að efnahagsmálum í hæstv. ríkisstjórn. Ein deildin er formaður þingflokks Alþfl. sem er alveg sérstök eining í efnahagsstrúktúr ríkisstjórnarinnar og kynnir svona prívattillögur við og við í dagblöðum. En ég sé ekki ástæðu til að taka það sérstaklega inn í þetta efni enda hefur það ekki birst í þingskjali.
    Þjóðhagsforsendur eins og þær eru nú metnar af Þjóðhagsstofnun og voru kynntar m.a. með lítilli frétt 27. nóv. 1991 eru þess eðlis bæði hvað varðar upplýsingar á líðandi ári og eins horfurnar á næsta ári að full ástæða er til að staldra við. Það er til að mynda upplýst hvað varðar árið í ár að viðskiptahalli verður gífurlegur eða 18 milljarðar kr. sem svarar til tæplega 5% af landsframleiðslu. Þetta skýrist auðvitað að verulegu leyti af því að vöruútflutningur er því miður að dragast verulega saman eða um 7,5% sem er 2,5% meiri samdráttur í vöruútflutningi en gert var ráð fyrir í eldri þjóðhagsspá. Eyðslan vex hins vegar og munar þar mest um stóraukna einkaneyslu sem vex um 5% að talið verður milli ára í stað þeirra 2,5% sem áður var áætlað. Þetta gerist þrátt fyrir svo til óbreyttar ráðstöfunartekjur frá fyrra ári þannig að ekki er það meira fé handa í millum hjá almenningi sem réttlætir þessa auknu einkaneyslu. Og hvað er þá að gerast? Það er auðvitað stóraukin einkaneysla, fjármögnuð með lánum, sem veldur fyrst og fremst þessum mikla viðskiptahalla. Og afleiðingin verður þá minni sparnaður heimilanna í landinu. Þetta er hlutur sem ég held að sé ástæða til að staldra við. Vegna þess að frá og með miðju ári höfum við búið við eitthvert hæsta raunvaxtastig sem við þekkjum í sögu vaxtamála á Íslandi og eitt það hæsta sem fyrirfinnst í hópi vestrænna ríkja. Með öðrum orðum: Hæstu raunvextir sögunnar hafa ekki slegið á neysluna í þjóðfélaginu heldur er hún þvert á móti meiri en nokkru sinni. Ekki þarf að fara í grafgötur um hvar viðskiptahalli upp á 18 milljarða verður fjármagnaður. Því miður verður hann ekki tekinn með auknum sparnaði innan lands því að peningalegur sparnaður lætur nú undan síga.
    Hvað er þá að gerast? Jú, við Íslendingar erum að auka erlendar skuldir með lántökum --- ekki til fjárfestinga --- heldur til neyslu. Það segir, held ég, sína sögu um þær skekkjur sem nú eru að verða í efnahagsmálum okkar og þá óstjórn --- ef ekki stjórnleysi --- sem þar er á orðið. Ég held að það sé líka ástæða til að hafa þetta í huga í sambandi við horfurnar næsta ár vegna þess að ekki er spáð neinum umtalsverðum bata hvað þetta snertir í endurmetnum þjóðhagshorfum fyrir árið 1992. Að vísu gæti viðskiptahalli minnkað eitthvað, niður í 4,2% miðað við landsframleiðslu, en engu að síður er ljóst að áframhaldandi viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun verða stærstu vandamál efnahagsstjórnarinnar áframhaldandi á næsta ári.
    Nú er það svo að ástæða er til að greina svolítið í sundur hvað það er sem veldur viðskiptahalla á erlendri skuldasöfnun. Þar kem ég kannski að því sem ég tel vera langalvarlegasta váboðann í þeim efnum hvað næsta ár snertir. Það er sú staðreynd að þessar horfur eru settar fram þrátt fyrir það að fjárfestingar á Íslandi verði á næsta ári, að mati Þjóðhagsstofnunar, þær minnstu í atvinnurekstrinum sem þær hafa verið um 50 ára skeið. Fjárfestingarhlutfallið verði komið niður í 17,7% af landsframleiðslu sem er lægsta hlutfall sl. 50 ár. Þetta er ástæða til að skoða og af þessu er ástæða til að hafa áhyggjur. Vegna þess að þetta segir okkur allt sem segja þarf um það hvernig hinum erlendu lántökum verður ráðstafað á næsta ári og hvernig er þeim ráðstafað í ár. Ég tel að í þessu felist miklu alvarlegri tíðindi til landsmanna heldur en í sjálfu skuldsetningarhlutfallinu, þótt nógu slæmt sé að sjá það á fáeinum árum hækka úr 40--45% miðað við landsframleiðslu upp í þau 56% sem áætlað er á næsta ári.
    En það versta er að skuldirnar eru ekki að aukast vegna arðbærra fjárfestinga í atvinnulífinu, vegna nýrra atvinnutækifæra, vegna fjárfestinga í nýrri gjaldeyrisöflun heldur vegna eyðslu.
    Það er ljóst að sá samdráttur þjóðartekna sem blasir við okkur á næsta ári er mikill, hann er verulegur, og ég sé enga ástæðu til og mun ekki gera lítið úr þeim vanda sem þar er á ferðum. Þjóðhagsstofnun metur hann nú, eftir að búið er að blása af álverið og þó fyrr hefði verið, upp á 5,7%. Þetta er af svipaðri stærðargráðu og samdráttur þjóðartekna var hvort árið um sig 1967 og 1968. Með öðrum orðum: Þetta er meira áfall, þetta er meiri samdráttur heldur en við höfum upplifað í þjóðarbúskapnum síðan þá og eru þá ekki undanskilin verstu ár sjöunda áratugarins, ekki árið 1984 né önnur þau ár þegar samdráttur hefur yfir okkur gengið.
    Ég tel, herra forseti, að þetta samhengi hlutanna sé það sem fyrst þurfi að ræða. Síðan stöðuna gagnvart efnahagsaðgerðum innan lands, álitamál sem tengjast kjarasamningum, gengisstefnu, afkomu atvinnuveganna og öðru slíku. Að því tilskildu að einhver niðurstaða liggi fyrir um þau efni geta menn farið að ræða hluti eins og eru hér á boðstólum og lúta að því hvort með þessu og hinu krukki í grunnskólalögin eða annan rekstur hins opinbera innan lands sé hægt að spara kannski einhverja fáeina tugi milljóna króna. Það skiptir ekki sköpum í þessu dæmi og fer svo víðs fjarri því að í raun og veru er það hlálegt að menn skuli þurfa að eyða tíma sínum í miklar umræður um slíkt. Nær væri þá að fjalla um það sem þetta frv. felur í sér á faglegum grundvelli og ræða hvort það séu skynsamlegar kerfisbreytingar í skólamálum eða heilbrigðismálum eða annað því um líkt sem boðið er upp á, en stærðargráða þeirra áhrifa á efnahagsmálin og ríkisfjármálin sem þarna er á ferðinni er ekki slík að það sé út af fyrir sig ástæða til að dvelja mikið og lengi við það.
    Herra forseti. Ég tel að þetta sé það atriði sem mest þörf væri á að taka fyrir. Þó svo að hæstv. forsrh. hefði vissa tilburði til að greina stöðu efnahagsmálanna almennt saknaði ég margs í þeirri umfjöllun. M.a. var þar allt of lítið vikið að spurningum um áhrif hinnar nýju og endurskoðuðu þjóðhagsáætlunar á þetta samhengi hlutanna.
    Hæstv. ríkisstjórn leggur síðan merka hluti inn í umræðuna á fleiri máta en þann sem kemur fram í þessu frv. og birtist í ræðu hæstv. forsrh. Það er til að mynda dregið inn í umræður um þetta mál áform ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu. Við vorum upplýstir um að sérstök ráðherranefnd, einkavæðingarnefnd tæki nú til starfa. Hæstv. fjmrh. mun hafa boðað það sem sérstakt lausnarorð í þessum efnum að drífa þurfi í því að selja Búnaðarbankann á hálfvirði. Og það var sérstakt keppikefli og alveg sérstök snilld að láta sér detta það í hug að selja Búnaðarbankann einmitt á hálfvirði. Til hvers? Jú, til þess að hann gæti komist í eigu þjóðarinnar og fátæka fólkið gæti líka keypt hlut í Búnaðarbankanum og glaðst yfir því að eiga hlut í Búnaðarbankanum. Það er óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum að þessu, herra forseti.
    Í fyrsta lagi er það nú svo samkvæmt mínum skilningi --- það væri fróðlegt ef hæstv. fjmrh. hefur á því einhvern annan skilning eins og ráða mátti af orðum hans --- að þjóðin eigi Búnaðarbankann eins og málin standa í dag. Það er þá minn misskilningur að halda það. En ég hélt að það væri þannig að íslenska þjóðin ætti eignir íslenska ríkisins, þar með talinn Búnaðarbankann. Ég hélt að íslenska þjóðin þyrfti þess vegna ekki á hjálp hæstv. fjmrh. að halda til þess að eignast hlut í Búnaðarbankanum. Hún á hann í dag. Það þarf ekki að selja þjóðinni á nýjan leik það sem hún á fyrir.
    En ætli það sé ekki eitthvað annað sem hangir á spýtunni? Gæti það ekki hugsast? Reyndar var hnýtt aftan í ræðurnar um þessa sérkennilegu speki um einkavæðingu Búnaðarbankans að auðvitað yrði síðan að selja á markaði hæstbjóðendum það sem ekki gengi út í útboðinu á Búnaðarbankanum. Ég skal koma með aðra og miklu einfaldari aðferð til þess að koma pappírum í hendur þjóðarinnar upp á það að hún eigi Búnaðarbankann, ef menn vilja það við hafa. Og það er ósköp einfaldlega að gera Búnaðarbankann að hlutafélagi og senda hverjum einasta landsmanni bréf, jafngilt bréf í Búnaðarbankanum. Þar með er hann kominn í eigu þjóðarinnar og þarf ekki neina hjálp hæstv. fjmrh., ekki neina sölu eða nein uppboð til þess. Það er út af fyrir sig hægt að skipta ríkiseignum upp á milli landsmanna með einhverjum slíkum aðgerðum ef menn sjá í því eitthvert sérstakt grand. Ég kem í fljótu bragði ekki auga á það hvernig það ætti að leysa einhvern vanda.
    Ef menn ætla hins vegar að afla ríkissjóði tekna með því að selja þessa eign fyrir einhverja milljarða króna, sér maður þó einhvern tilgang í málinu að því leyti til að menn ætla að fá aura í kassann. En þá þurfa líka einhverjir að borga. Ég er ansi hræddur um að litlu mennirnir í þjóðfélaginu, sem stundum var rætt um á ákveðnu kjörtímabili, myndu reynast margir sem tækju ekki undan koddanum innstæður til þess að kaupa hlut í Búnaðarbankanaum sem þeir eiga fyrir.
    Nei, hér glittir í stefnu sem kemur víða fram, þar á meðal víða í þessu frv. og ég mun koma lítillega betur að, þar sem eru þær skringilegu leifar af thatcherisma eða frjálshyggju sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að troða upp á Íslendinga á því herrans ári 1991 og boða á árinu 1992. Hver var að tala úr ræðustóli um stefnumót við fortíðina? Ég spyr: Hvað er stefnumót við fortíðina ef það er ekki að draga hér fram í dagsljósið 15--20 ára gamlar afdankaðar íhaldshugmyndir frá Bretlandi um einkavæðingu sem þar eru löngu orðnar gjaldþrota? Sem íhaldsmenn sjálfir í Bretlandi flýja nú frá unnvörpum. Skrifa greinar, bækur og láta taka við sig viðtöl þar sem þeir biðjast jafnvel afsökunar á mistökunum sem gerð voru í nafni einkavæðingar, þegar t.d. fyrirtæki með einokunaraðstöðu á markaði voru einkavædd.
    Við höfum eitt alveg prýðisgott dæmi á Íslandi um snilldina við að einkavæða fyrirtæki sem vegna fákeppnisstöðu eða einokunaraðstöðu geta síðan skammtað sér sjálf tekjur. Það dæmi er Bifreiðaskoðun Íslands hf. sem gleymdi sér einu sinni við gjaldskrárákvarðanir þannig að til viðbótar fjárfestingum upp á tugi eða hundruð milljóna kom annað eins í hagnað. Þeir gáðu ekki að sér. En sjálfdæmið um gjaldskrána var slíkt að þeir gátu skammtað sér þennan hagnað eftir behag. Er meiningin að fjölga slíkum fyrirtækjum? Er meiningin að einkavæða hvert fákeppnis- eða einokunarfyrirtækið á fætur öðru til þess að það geti farið að hegða sér eins og Bifreiðaskoðun Íslands hf. sem hefur afrekað það á einum þremur árum í einkavæddri sögu sinni að verða eitt óvinsælasta fyrirtæki norðan Alpafjalla, fyrir lélega þjónustu og dýra og miklu verri en Bifreiðaskoðun ríkisins veitti og þótti hún þó ekkert fyrirmyndarfyrirtæki á sinni tíð. ( Gripið fram í: Óskabarn Jóns Sigurðssonar.) Var það mikið óhapp að það skyldi falla á einu atkvæði að koma í veg fyrir þau vitlausu áform.
    Nei, það á að sjálfsögðu ekki að láta menn komast upp með slíkan moðreyk. Ekkert lausnarorð í íslenskum efnahagsmálum mun felast í því að einkavæða fákeppnis- eða einokunarfyrirtæki sem ríkið hefur haft hönd í bagga með. Það er sorglegt að okkur á Íslandi skuli vera boðið upp á þetta stefnumót við fortíðina sem felst í þeim frjálshyggjudraugum og thatcherísku draugum sem hæstv. forsrh. og ríkisstjórn hans eru að reyna að blása lífsanda í á Íslandi þegar þeir hafa fyrir löngu verið kveðnir niður annars staðar í veröldinni. Ef eitthvað er stefnumót við fortíðina þá er það þetta. Það er eins og sú óáran þurfi sífellt að ganga yfir okkur Íslendinga að taka við úreltum og ónýtum hugmyndum, þegar þeim hefur verið kastað annars staðar að reynt sé að koma þeim í framkvæmd hér.
    Það hefur vakið athygli margra að kalda stríðinu lauk ekki á Íslandi fyrr en mörgum árum eftir að því lauk annars staðar. Það er enn á lífi úti í Aðalstræti 6 og reyndar eitthvað víðar í bænum. Og menn hafa spurt sig að því hvernig þetta geti gerst. Hér er annað dæmi um fyrirbæri sem alls staðar annars er dautt en er núna verið að blása lífsanda í á Íslandi þar sem eru frjálshyggju- og thatcherismadraugar hæstv. ríkisstjórnar, og það er stefnumótið við fortíðina sem hæstv. forsrh. vill leiða þjóð sína á í þessum efnum.
    Síðan kom kafli í ræðu hæstv. forsrh. sem ég ætla lítillega að víkja að áður en ég tek til við að ræða einstakar greinar í efni sjálfs frv. og það var hin hefðbundna árás á stjórnarandstöðuna sem hæstv. forsrh. getur aldrei stillt sig um. Sennilega eru þetta orðin einhver ósjálfráð viðbrögð, bara kækur sem ekkert verður við ráðið og enginn fær breytt. En það er alveg sama af hvaða tilefni hæstv. forsrh. kemur í ræðustól eða yfirhöfuð fær að opna munninn í fjölmiðlum eða annars staðar að hann hrekkur í þetta far og heldur ræðuna um fortíðina. Og um stjórnarandstöðuna.
    Og hvað sagði hæstv. forsrh. um þetta? Málefnalegt innlegg hans um þetta var að hann tók að sér að túlka stefnu stjórnarandstöðunnar og þau ráð sem hún byði upp á. Það var í aðalatriðum þetta sem hæstv. forsrh. tók að sér sem talsmaður stjórnarandstöðunnar, að útskýra fyrir hennar hönd stefnuna. Það væri stórhækkun skatta. Hæstv. forsrh. fullyrti að það væri sérstakt kappsmál stjórnarandstöðunnar að hækka skatta. Hvaða tillögur hv. stjórnarandstöðu liggja fyrir um stórhækkun skatta? Í hvað er hæstv. forsrh. að vitna? (Gripið fram í.) Ummæli fyrir síðustu kosningar, segir hæstv. forsrh. Það væri þá ástæða til að rifja upp fleiri ummæli sem féllu fyrir síðustu kosningar, um mildi og mannúð og ýmislegt fleira, ef hæstv. forsrh. vill fara út í þá sálma.
    En ég fullyrði að það er eitt af því sem ber að þakka talsmönnum fráfarandi ríkisstjórnar fyrir að þeir höfðu m.a. kjark til þess, bæði hæstv. fyrrv. forsrh. og núv. hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sömuleiðis hv. 8. þm. Reykn. Ólafur Ragnar Grímsson og fleiri, að segja það sem er staðreynd og blasir við í dag með skýrari hætti en nokkurn tíma fyrr. Hvað sögðu þessir þingmenn? Ég leyfi mér nú að gera það sem hæstv. forsrh. gerði áðan, að túlka orð þeirra og endursegja þau.
    Efnislega var sagt: Það er staðreynd að það verður mjög erfitt að halda uppi óbreyttu stigi opinberra umsvifa og rekstrar í velferðarkerfinu á Íslandi án þess að hækka skatta á næstu árum. Þetta var það sem sagt var. Og er það ekki rétt? Er það ekki það sem er að koma í ljós þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar gengur í það að rista niður velferðarkerfið á sama tíma og skattar hækka? Því að auðvitað er ríkisstjórnin að hækka skatta. Hvað eru nýjar álögur á sjúklinga sem heimsækja heilsugæslustöðvarnar eða leita til sérfræðinga? Hvað eru nýjar álögur á foreldra barna sem þurfa tannlæknaþjónustu annað en skattar á sérstaka valda hópa í þjóðfélaginu? Auðvitað ekkert annað. Menn eiga að hætta þessum fíflagangi að þora ekki að kalla hlutina réttum nöfnum.
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar stendur frammi fyrir því að vera að gera hvorttveggja, skera niður opinbera þjónustu --- sérstaklega í velferðarmálum --- og hækka skatta. Svo ræðst hæstv. forsrh. á talsmenn fráfarandi ríkisstjórnar fyrir það að þeir sögðu satt, þeir voru menn til þess að segja satt. Betur að fleiri væru það. Ég skora á hæstv. forsrh. síðar í umræðunni að koma og útskýra það samhengi hlutanna sem gefur honum tilefni til --- einmitt við þessa umræðu --- að ráðast á ýmsa talsmenn núverandi stjórnarandstöðu í þessu samhengi. Sami hæstv. forsrh. og er að skera niður opinbera þjónustu og er að hækka skatta ræðst á þá sem þorðu að segja satt fyrir kosningar. Sem sagt að það yrði erfitt að halda uppi óbreyttum umsvifum í íslenska velferðarkerfinu á næstu árum nema til þess að auka skatta.
    En reyndar sögðu ýmsir meira, hæstv. forsrh., úr því að þú vilt fara út í þetta á annað borð. Við sögðum t.d. hvernig við vildum afla tekna til þess að jafna lífskjörin og treysta stöðu ríkisfjármála á næstu árum. Við lögðum fram sundurliðaðar tillögur um það fyrir kosningar hverjir ættu að bera þá skatta. Við lögðum til hátekjuskattþrep þar sem sérstaklega yrði tekið af launum þeirra sem hafa mörg hundruð þúsund krónur í laun, fjölskyldutekjur upp á fjögur, fimm, sex hundruð þúsund krónur eða svo. Af því að okkur verður það stundum á að bera okkur saman við önnur vestræn ríki --- og til að gera þetta enn fínna er stundum sagt á hátíðisdögum ,,lýðræðisríki`` --- erum við nánast eina þjóðin í heiminum sem er að baksa við það að leggja á tekjuskatt með einu flötu skattþrepi. Það er staðreynd, hæstv. forsrh. Ég held að dæmin séu tvö um önnur aðildarríki OECD sem ekki hafa fleiri þrep í skattstiganum en við. Það er einmitt um slíka hluti sem við ættum að vera að ræða nú, hvernig er hægt að bregðast við vanda í ríkisfjármálum og efnahagsmálum með því að afla tekna eftir því sem óhjákvæmilegt er á móti þeim sparnaði og niðurskurði sem óhjákvæmilegt er að ráðast í að einhverju marki með því að láta þá borga sem breiðust hafa bökin.
    Hæstv. forsrh. taldi að stjórnarandstaðan boðaði stórauknar erlendar lántökur, punktur tvö sem ég skrifaði niður í ræðu hæstv. forsrh., þegar hann tók að sér að tala fyrir hönd stjórnarandstöðunnar í takmörkuðum ræðutíma sínum hér. Ég hefði ráðlagt hæstv. forsrh. að sleppa því að flytja hér mál stjórnarandstöðunnar en lesa ræðutexta sinn aðeins hægar í staðinn. Ég held að stjórnarandstaðan geti alveg talað fyrir sig sjálf hér á þinginu og þurfi ekki hjálp frá hæstv. forsrh. til þess. Og ég spyr: Hvenær hafa talsmenn stjórnarandstöðunnar komið fram með tillögur um stórauknar erlendar lántökur? Hver er það? Kvennalistinn á að hafa sagt eitthvað um það. Kannski útskýrir hæstv. forsrh. það í smáatriðum og talsmenn Kvennalistans eru á mælendaskrá. En er það málefnalegur málflutningur að segja að stjórnarandstaðan boði stórauknar erlendar lántökur? Ég spyr. Það finnst mér ekki. Ég kannast ekki við að minn flokkur eða Framsfl. hafi lagt til stórfelldar erlendar lántökur.
    Ég skal að vísu upplýsa hæstv. forsrh. um það að ég spurði um það á fundi í efh.- og viðskn., þegar fyrir lá að lánsfjáráætlun verður núna lækkuð um milli 6 og 7 milljarða kr. vegna þess að ekki verður ráðist í hinar miklu fjárfestingar vegna álvers, hvort svona mikill samdráttur í fyrirhuguðum fjárfestingum væri heppilegur. Ég var þar ekki að tala endilega um erlendar lántökur í heild. Það skiptir máli í hvað erlendu lánin fara, hæstv. forsrh. Ég geri mikinn greinarmun á því hvort tekin eru erlend lán t.d. í nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi, hvort tekin eru erlend lán t.d. til að kaupa flæðilínur og fullvinnslulínur í frystihús sem geta strax á fyrstu mánuðum og árum skilað stórauknum erlendum gjaldeyristekjum eða hvort tekin eru bullandi erlend lán til að fjármagna eyðslu og neyslu eins og er höfuðeinkenni og höfuðsjúkdómsmerki efnahagsmálanna á líðandi mánuðum og ég fór yfir áðan.
    Ég skal þá, til þess að forsrh. hafi fleiri rök þegar hann ræðst á stjórnarandstöðuna næst, segja hver er mín afstaða til þessara hluta. Ég tek það fram að ég tala þar fyrir sjálfan mig og hef ekki rætt það í mínum flokki. Ég væri tilbúinn til að skoða það hvort ekki væru fyrir hendi á Íslandi í dag fjárfestingartækifæri í svo álitlegum, arðbærum atvinnuskapandi og gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum að í ljósi þess mikla samdráttar sem fram undan er, m.a. í fjárfestingum upp á 12,5% á næsta ári, að skynsamlegt væri að setja einhverja fjármuni í slíkt. Ef við tækjum til að mynda helminginn af því sem á að lækka hinar erlendu lántökur um á næsta ári þar sem ekki verður ráðist í álver, 6--7 milljarða kr., og veldum álitlegustu nýsköpunartækifærin í íslenskum atvinnugreinum, þau sem í senn geta skapað hér atvinnu þegar horfir til vaxandi atvinnuleysis, þau sem geta skapað hér auknar gjaldeyristekjur og þau sem gætu ósköp einfaldlega hjálpað til við að fleyta þjóðfélaginu yfir samdráttarlægðina sem við erum að sigla inn í. Ef hæstv. ríkisstjórn bæri eitthvað af þessu tagi á borð er ég tilbúinn til að skoða slíkt. En það er ekki, því miður. Ef hæstv. forsrh. vill bregðast við þessum málflutningi mínum með því hrópa: Úlfur, úlfur, og segja: Stjórnarandstaðan og Steingrímur J. Sigfússon vilja bara stórauka erlendar lántökur --- þá verði hæstv. forsrh. að góðu. Ég hef eftir sem áður þessi sjónarmið og er tilbúinn til að tala fyrir þeim ítarlegar og ræða þau.
    Í þriðja lagi sagði hæstv. forsrh. þegar hann talaði fyrir hönd stjórnarandstöðunnar: Stjórnarandstaðan vill ausa fé í fyrirtækin. Þriðji punktur: Ausa fé í fyrirtækin.
    Í fjórða lagi sagði hæstv. forsrh., og ég tek það saman því það er náskylt: Þeir vilja að sjálfsögðu skammta þetta allt sjálfir. Fjórði punktur: Stjórnarandstaðan vill skammta féð sjálf sem hún ætlar að ausa í fyrirtækin. Fjórði punktur í ræðu hæstv. forsrh. þegar hann talaði fyrir stjórnarandstöðuna.
    Síðan kom sá kafli í ræðu hæstv. forsrh. sem ég tel mér ekki skylt að svara og reyndar algerlega óviðkomandi en það voru ummæli hans um framsóknarárin og stefnumótið við fortíðina en ég skildi hæstv. forsrh. svo að hann teldi að framsóknarmenn leiddu öðrum fremur. Það er þá mál hæstv. forsrh. við þá framsóknarmenn og kem ég ekki að því nánar í máli mínu.
    Staðreyndin er auðvitað sú, hin dapurlega staðreynd, virðulegur forseti, er auðvitað sú að hæstv. ríkisstjórn hefur nú enga efnahagsstefnu. Eftir að sú niðurstaða varð ljós að ekki yrði ráðist í framkvæmdir við erlent álver þá datt botninn eða síðasta fjölin úr botninum hjá hæstv. ríkisstjórn hvað efnahagsmál snertir. Það er ekkert sem hönd er á festandi fyrir utan almennar yfirlýsingar um þetta og hitt sem menn geta alveg eins tekið undir rétt eins og óskir um að á Íslandi verði alltaf gott veður. Auðvitað vilja allir að vextir lækki og það vilja allir að hér verði stöðugleiki og það vilja allir að hér verði ekki mikil verðbólga og það vilja allir, eins og hæstv. forsrh. sagði, að það verði gróska og blómlegheit í öllum atvinnugreinum, ekki bara sumum, heldur öllum. Það var mikið inntak í boðskap forsrh. hér áðan. Undir þetta tökum við öll og það þarf ekki að ræða það frekar.
    En hvar voru hin efnislegu rök? Hvar voru tillögur ríkisstjórnarinnar? Hvað ætlar hún að gera? Og hvernig er þetta t.d. með vextina? Í allt haust er hæstv. forsrh. og fleiri hæstv. ráðherrar búnir að segja: Við viljum að vextirnir lækki. Vextirnir þurfa að lækka. Þetta er voðalegt mál að hafa svona háa vexti. En hvað hefur verið gert? Það er svo komið að hæstv. sjútvrh., sem er einn af höfundum vaxtafrelsisins og ber ekki hvað sísta ábyrgð á því að innleiða þá kerfisbreytingu á árunum 1985--1986 að á Íslandi yrðu frjálsir vextir, gengur nú fram fyrir skjöldu og segir: Handleiðslu á vextina --- af því að honum ofbýður. Hæstv. sjútvrh. áttar sig á því að þessar almennu yfirlýsingar um það að vextirnir séu of háir og þeir þyrftu að lækka duga ekki. Það gerist ekkert, vextirnir lækka ekki. Raunvextir á Íslandi eru enn við 10% markið sem er auðvitað óþolandi hátt og er á mjög skömmum tíma gjörsamlega að sliga atvinnulífið og leggja í rúst fjárhag fjölda heimila í landinu.
    Þetta, virðulegi forseti, er því miður hin dapurlega niðurstaða málsins og ég vænti þess að fleirum hafi fundist eins og mér, sem hlustaði grannt á ræðu hæstv. forsrh., að það vantaði í hana botninn með öllu. Hann kom ekki vegna þess að þetta krukk í velferðarkerfið, jafnslæmt og það er pólitískt og í prinsippinu er ekki lausnarorð í efnahagsmálum, það leysir ekki hinn stóra vanda ríkisfjármála og ójafnvægi í efnahagsmálum. Það gerir það ekki. Og þessar almennu yfirlýsingar og þetta faðir vor um einkavæðingu leysir t.d. ekki vanda rækjuiðnaðarins á morgun. Það gerir það ekki. Það er alveg sama hversu fallegar þessar almennu yfirlýsingar hæstv. forsrh. eru. Það er vandinn, virðulegur forseti. Og ég verð að segja alveg eins og er, af því að búið var að vekja nokkrar væntingar um ræðu hæstv. forsrh. að þá varð þessi ræða mér vonbrigði. Kannski er það síðasta ræðan sem hæstv. forsrh. flytur sem veldur mér vonbrigðum. Ég hélt reyndar um daginn að sú ræða væri þá þegar flutt en einhvern veginn fór mér nú þannig samt að eftir þær væntingar sem fjölmiðlar höfðu vakið þá beið ég eftir þessari ræðu með nokkrum spenningi. En hún olli mér vonbrigðum og, eins og ég segi, e.t.v. gera það ekki fleiri ræður hæstv. forsrh. Ekki vegna þess að ég geri ráð fyrir að þær batni heldur vegna hins að ég mun ekki búast við neinu af þeim meir.
    Ég tel sem sagt, virðulegur forseti, og ætla að ljúka því áður en ég fer að ræða lítillega einstakar greinar frv. að hæstv. ríkisstjórn sé að taka með mjög vitlausum hætti á vanda sem sannanlega er fyrir hendi og er umtalsverður og ég gerði grein fyrir í upphafi máls míns þegar ég fór yfir hinar nýju þjóðhagsforsendur.
    Það fyrsta sem hæstv. ríkisstjórn á að gera, og hefði þurft að vera búin að gera fyrir löngu, strax í október að mínu mati, í síðasta lagi í nóvember hefði þurft að grípa til ráðstafana gagnvart efnahags- og atvinnumálum og sérstaklega gagnvart útflutningsatvinnugreinunum. Það er alveg ljóst að við siglum svo hraðbyri inn í öngþveitisástand t.d. í sjávarútveginum að hver dagur er dýr sem þar líður, hver vika í raun óþolandi við þær aðstæður að heilar greinar sjávarútvegsins eru að hrynja ofan á höfuðið á okkur. Rækjuiðnaðurinn er að hrynja, hæstv. forsrh., hann er að hrynja, það er því miður staðreynd. Það munu talsmenn rækjuiðnaðarins væntanlega fullvissa hæstv. sjútvrh. um og vonandi tekst að koma vitinu fyrir alla ríkisstjórnina í þeim efnum þegar þeir koma saman til neyðarfundar í Reykjavík í byrjun næstu viku. Þess vegna hefðu tafarlausar aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum með sértækum ráðstöfunum varðandi afkomu útflutningsgreinanna og sjávarútvegsins þurft að líta dagsins ljós og vera komnar í framkvæmd nú. En betra er auðvitað seint en aldrei og það er með öllu óþolandi að það dragist marga daga í viðbót að þessar tillögur og aðgerðir líti dagsins ljós vegna þess að umræður um ríkisfjármál og efnahagsmál eru að öðru leyti marklausar fyrr en þetta liggur fyrir.
    Það sem er kannski hvað alvarlegast í þessu samhengi er sá ljóti draugur, atvinnuleysisvofan, sem núna nagar þröskuldinn. Þjóðhagsstofnun spáir, og fer þó varlega í hlutina, að atvinnuleysið verði 2,6% á næsta ári. Og við vitum að eftir því sem atvinnuleysið dreifist um landið, og er að nokkru leyti árstíðabundið, þá þýðir þessi tala upp á 2,6% því miður mjög mikið atvinnuleysi á ákveðnum svæðum landsins stóran hluta ársins, ef að líkum lætur. En síðan er það til viðbótar að samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar sjálfrar er þessi spá mikilli óvissu háð. Þegar talsmenn Þjóðhagsstofnunar voru á fundi efh.- og viðskn. í morgun spurðir um þá óvissu gáfu þeir frekar svartsýnt mat á forsendur spárinnar, það vill segja að þeir óttast að hún vanmeti hættuna á atvinnuleysi ef eitthvað er. Þetta gerir það þeim mun brýnna að tekið sé á málefnum atvinnulífsins. Eða halda menn að þeir séu vel í stakk búnir til að finna t.d. starfsfólki rækjuiðnaðarins, þeim hundruðum sem þar hafa enn atvinnu, ný störf ef hann hrynur allur saman og verður lokað á næstu vikum og mánuðum?
    Í öðru lagi tel ég að hæstv. ríkisstjórn hefði átt að leggja fyrir þingið og reyna að skapa hér samstöðu um öðruvísi öflun tekna í ríkissjóð heldur en hún er að beita sér fyrir. Það liggur á borðinu að það er auðvelt að skapa hér samstöðu um til að mynda skatt á fjármagnstekjur. Úr öllum flokkum hafa komið raddir sem taka undir að það sé eðlilegt að skattleggja gróða sem þar myndast. Ég tel að í flestum flokkum á Alþingi sé mikill hljómgrunnur fyrir því að leggja á sérstakt hátekjuskattþrep. Við heyrðum hjá síðasta hv. ræðumanni að upplýst var að þar hefði orðið breyting á viðhorfum í ljósi þeirra aðstæðna sem við stöndum frammi fyrir. Ég leyfi mér því að ætla að það sé vaxandi stuðningur við það á Alþingi að leggja meiri byrðar á þessi breiðustu bök í gegnum sérstakt þrep í tekjuskattinum. Um þetta ætti hæstv. ríkisstjórn að vera að skapa samstöðu. Þetta væri væntanlega atriði sem menn mundu tiltölulega ljúflega fallast á í tengslum við kjarasamninga, að hlífa þannig afkomu þeirra sem lakast eru settir með því að færa byrðarnar yfir á breiðu bökin.
    Í þriðja lagi tel ég að hæstv. ríkisstjórn eigi og hljóti að sjálfsögðu að þurfa að leita allra leiða til að draga úr útgjöldum. Um það er ekki ágreiningur. Ég hef engan heyrt hér á Alþingi, ekki úr neinum flokki, mæla gegn því að við núverandi aðstæður sé óhjákvæmilegt að gæta ýtrasta aðhalds í útgjöldum ríkisins. Fullyrðingar hæstv. forsrh. um annað eru því út í loftið. Ég bið hann að nefna dæmi um einhvern af talsmönnum stjórnarandstöðunnar sem hefur komið hér í ræðustól eða annars staðar og sett fram sem sína afstöðu að það mætti hvergi koma við, engin útgjöld spara. Ég held að engum manni detti það í hug í alvöru að halda slíku fram. Því auðvitað eru fjölmörg svið þar sem menn eru tilbúnir til þess og sammála um að rétt væri að takmarka útgjöld.
    Ég tek t.d. alveg hjartanlega undir það sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh., og er mér mikið gleðiefni að finna þar eitt einasta atriði sem ég get verið sæmilega ánægður með, að það er full ástæða til að reyna að stemma mjög stigu við útgjöldum vegna ferðakostnaðar og risnukostnaðar hjá hinu opinbera, full ástæða til þess. Fækka alveg stórlega kampavínsveislunum á næsta ári. Skál fyrir því. Að vísu ekki Bermúdaskál, en skál fyrir því. Fækka ferðalögum til útlanda, fækka kampavínsveislum og öðru slíku sem vel má draga úr og ég er alveg viss um að talsmenn stjórnarandstöðunnar eru tilbúnir til að leggja hönd á plóginn að því leyti til. Það er hins vegar ekki samstaða um það að hefja slíkar aðgerðir með því að krukka í velferðarmálin með jafnsmásmugulegum hætti og hæstv. ríkisstjórn er í raun að gera í þessu frv.
    Er það virkilega svo að við séum orðnir svo fátækir, Íslendingar, að það fyrsta sem mönnum dettur í hug til að spara í ríkisútgjöldum, til að ná sér í skitnar 30 milljónir, sé að sníða af alla helstu vaxtarbroddana og framþróunaratriðin í íslenskum skólamálum? Klippa af á einu bretti allt það sem kennarar og uppeldisstéttirnar í landinu hafa talið helst til framfara horfa í skólamálum í landinu? Er það sem sagt þannig komið hjá Íslendingum að við verðum að afsala okkur þessum 30 millj. sem mér er sagt að kaflinn um grunnskólana geti kannski sparað á næsta ári umfram það sem hvort eð er eru heimildir fyrir í lögum til að spara? En það er, eins og ég mun koma að síðar, að mati þeirra sem best til þekkja, kennara og uppalenda í landinu, að með þessum breytingum séu í raun sniðin af á einu bretti svo til öll þau atriði sem helst hafa verið talin til framfara í málefnum grunnskólans.
    Í fjórða lagi nefni ég að það sem menn ættu að vera að gera í efnahagsmálum, væri auðvitað að grípa til tafarlausrar lækkunar vaxta og það hefði ríkisstjórnin átt að vera búin að gera fyrir löngu. Ég fullyrði að það væri smávægilegur fórnarkostnaður, þó svo að eitthvað hefði dregið úr sölu á einhverjum pappírum ríkisins, ef almenn vaxtalækkun hefði með slíkum aðgerðum fyrir forgöngu ríkisins getað komið til.
    Auðvitað liggur það fyrir, það blasir við, að einhver hrapallegustu mistök, sem ríkisstjórnin hefur gert, var sú vaxtahækkun sem hún beitti sér fyrir á sl. vori hefur nánast engum árangri skilað hvað þá hliðina snertir að styrkja innlenda fjármögnunarstöðu ríkissjóðs en haft þessi geigvænlegu og skaðlegu áhrif á allt vaxtastigið í landinu.
    Ég nefni í fimmta lagi atriði, sem ég teldi að ætti að taka til skoðunar í almennri vinnu að efnahags- og atvinnumálum og ríkisfjármálum um þessar mundir, og það er endurskoðun á samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna. Ég tel að hæstv. ríkisstjórn ætti nú að vera í viðræðum við sveitarfélögin í landinu í staðinn fyrir að vera að egna þau til stríðs, eins og t.d. með klaufalegum vinnubrögðum án nokkurs samráðs við sveitarfélögin um álagningu tryggingagjalds. Þá ætti ríkisstjórnin að vera núna í viðræðum við sveitarfélögin í landinu t.d. um að jöfnun á aðstöðu sveitarfélaganna gæti verið liður í heildarlausn mála, þar með talið sérstaklega aðstöðugjaldið. Þau forréttindi sem nokkur ríkustu sveitarfélög landsins hafa með núverandi fyrirkomulagi og álagningu aðstöðugjalds væru tekin inn í það samhengi að skoða verkefnaskiptingu og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og slíkt ætti að mínu mati að geta verið liður í heildarlausn þessara mála. En svo illa vill til í þessu sambandi að forréttindakóngurinn í hópnum er Reykjavík vegna þess hvernig aðstöðugjaldið sérstaklega kemur þar út og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum nýtur það ekki mikils stuðnings í ríkisstjórninni að hrófla við forréttindum Reykjavíkur.
    Síðast en ekki síst nefndi ég virðulegi forseti, að nú ættu að standa yfir tilraunir undir forustu ríkisvaldsins um mjög víðtækt samflot allra helstu hagsmunaaðila í þjóðfélaginu um lausn þessara mála. Og það er með ólíkindum að enn skulu engin almennileg samtöl og ekkert almennilegt samráð vera í gangi milli ríkisvaldsins, aðila vinnumarkaðarins, forsvarsmanna helstu greina atvinnulífsins, sveitarfélaganna í landinu o.s.frv. því að auðvitað dugar ekkert minna ef í reynd á að takast að sigla okkur með sæmilega farsælum hætti í gegnum þennan djúpa öldudal. Ég tel að það hafi verið gæfa síðustu ríkisstjórnar að hún náði sæmilega breiðu samfloti um framkvæmd efnahags-, atvinnu- og kjaramálastefnu sinnar þrátt fyrir allt og allt og ýmsar uppákomur sem vissulega urðu þar í samskiptum. Mér er svo nákvæmlega sama hvort menn kalla það óeðlilega íhlutun eða handleiðslu eða guð má vita hvað, það er árangurinn sem skiptir máli og hann varð óumdeilanlegur af því að menn náðu saman. Í tíð síðustu ríkisstjórnar tókst t.d. í fyrsta sinn að ná samfloti með aðilum vinnumarkaðarins þannig að þar komu allir til sögunnar. --- Væri nú gagnlegt ef hæstv. forsrh. mætti vera að því að hlusta á þetta en geymdi sér að hlýða á ræður rithöfundarins úr Vestmannaeyjum og hv. þm., Árna Johnsens, sem ég veit að hann hittir oft og iðulega og getur spjallað við í góðu tómi seinna.
    Ég var að segja, hæstv. forsrh., að ég teldi það hafa verið gæfu síðustu ríkisstjórnar að ná því víðtæka samfloti þar sem t.d. bændasamtökin og forsvarsmenn landbúnaðarins komu í fyrsta sinn um áratuga skeið inn í samflot sem tengdust gerð kjarasamninga og verðlagsmarkmiðum og útkoman af því varð m.a. sú að matvaran í landinu hækkaði sáralítið í verði um eins og hálfs árs skeið. Það var mjög mikilvægt atriði í síðustu kjarasamningum og í þeirri viðleitni að ná niður verðlagi og verðbólgu sem tókst. Þannig er það, hæstv. forsrh., að mínu mati að það eru ekki nafngiftirnar á stjórnarstefnunni, ekki hvort það eru framsóknarráð eða íhaldsráð, ekki hvort það eru vestrænar eða austrænar hagstjórnaraðferðir sem skipta máli heldur árangurinn. Hæstv. forsrh. getur ekki borið á móti því, enginn getur borið á móti því, að hvað þetta snertir náðist mjög mikill árangur á síðari hluta síðasta kjörtímabils sem er eftirbreytni verður að mínu mati og það er enginn maður að minni þó hann viðurkenni að hann sé að reyna að læra af því sem vel er gert. ( Forseti: Má ég ónáða hv. þm.? Ég hafði fyrirhugað að gefa hálftíma matarhlé. Ef þingmaðurinn á töluvert eftir af ræðu sinni langar mig að spyrja hann að því hvort hann gæti gert hlé á ræðu sinni þannig að við gætum tekið hlé ef hann hefði ekki á móti því.) Já, mér er ljúft og skylt að aðstoða forseta við fundarstjórn með þeim hætti og geri þá hlé á máli mínu. --- [Fundarhlé.]