Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 14:37:00 (1669)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um svokallaðar ráðstafanir í ríkisfjármálum, virðulegt nafn á býsna vondu frv., hinn svokallaði bandormur. Ég verð að segja að mér hefur alltaf þótt þessi samlíking við sníkjudýrið bandorm heldur ógeðfelld en það má til sanns vegar færa að sá lagaormur sem hér er á ferð hlykkjast um æðar þjóðfélagsins og sýgur til sín næringu frá þjóðarlíkamanum, veikir, lamar og dregur jafnvel til dauða starfsemi sem ætti að blómstra.
    Í þessum lagabálki er að finna svokallaðar ráðstafanir sem ná allt frá hinum stóru málaflokkum heilbrigðis- og tryggingamála, og boða niðurskurð upp á allt að 1.270 millj. kr., til breytinga á lögum um eiturefni og hættuleg efni, þar sem verið er að eltast við eina milljón kr. Þá má finna í frv. 20 svokallaðar ,,þrátt-fyrir-greinar`` þar sem fjárveitingar til ýmissa sjóða og verkefna eru skertar um rúman milljarð. Samtals er um að ræða niðurskurð og breytingar upp á tæpa 3 milljarða kr.
    En þó að þetta frv. sé komið fram þá höfum við alþingismenn enn þá enga yfirsýn yfir ríkisfjármálin í heild. Fjárlögin eru enn í uppstokkun og endurskoðun og það er lítið komið fram af fjáröflunarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Þetta ræðst auðvitað af því ástandi sem skapast hefur í þjóðfélaginu.
    Á fund efh.- og viðskn. í morgun mættu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans til að gera okkur grein fyrir þeim breyttu forsendum sem við stöndum frammi fyrir. Og þá kom fram að í ár spáir Þjóðhagsstofnun 5,7% samdrætti í þjóðartekjum. Alþingismenn minnast líklega flestir áranna 1967--70 þegar mikið áfall reið yfir þjóðarbúið. Árið 1968 varð sú kreppa dýpst og nam þá 6% samdrætti í þjóðartekjum. Nú er spáð 5,7% samdrætti. Það má því öllum vera ljóst að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir er mjög stór. Sá vandi felst í því að fram undan er samdráttur í fiskveiðum, fyrirtæki eru að fara á hausinn í stórum stíl, sem þýðir það að fólk missir vinnuna. Kvótinn hefur verið að þjappast saman á æ færri hendur sem gerir ýmsum litlum byggðarlögum erfiðara fyrir. Og hallinn á ríkissjóði er auðvitað mikill. Þeir spámenn Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans lýsa því að fyrirhugaðar lántökur og viðskiptahalli ríkisins séu meðal allra stærstu vandamála sem við er að glíma og auðvitað viðurkennum við það.
    Við vitum líka að bruðlað hefur verið árum saman með opinbert fé. Því hefur verið varið í ýmis illa undirbúin og misheppnuð ævintýri svo sem fiskeldi og loðdýrarækt. Og skuldastaða þjóðarinnar er mjög alvarlegt mál. Síðan bætist þar ofan á sú árás sem núv. ríkisstjórn er að gera á velferðarkerfið og mun verða til þess að kjör fólks í landinu, fjölskyldnanna í landinu, munu versna. Á slíkum tímum er mikilvægara en nokkru sinni að

auka jöfnuð í þjóðfélaginu og tryggja hag þeirra sem verst standa og að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að halda uppi vinnu í landinu.
    Á margnefndum fundi í morgun kom fram að einn mesti samdráttur og ein mesta breyting sem orðið hefur í efnahagsmálum er samdráttur í fjárfestingum. Það er ekki verið að fjárfesta í neinum arðbærum framkvæmdum eða fyrirtækjum. Það er ekki bara stöðnun sem þar á sér stað heldur hreinn samdráttur. Við hljótum að spyrja okkur: Hvernig á að taka á þessum málum?
    Við kvennalistakonur höfum lagt fram þá tillögu að það lánsfé sem Landsvirkjun þarf ekki á að halda og reyndar Vatnsleysustrandarhreppur líka, rúmir 6 milljarðar kr., verði að hluta til notað af hinu opinbera til þess að fjárfesta í arðbærum framkvæmdum. Þegar ég tala um arðbærar framkvæmdir er ég m.a. að tala um samgöngukerfið, rannsóknir og ýmislegt það sem má verða til þess að skapa vinnu.
    Að okkar dómi þarf að gera víðtæka áætlun um fjölbreytta atvinnusköpun, sem ekki síst tekur mið af stöðu kvenna á landsbyggðinni, því að það kemur æ betur í ljós að atvinnuleysið bitnar verr á konum en körlum. Það þarf t.d. að byrja á auðlindakönnun, það þarf að efla rannsóknir og upplýsingaöflun, veita þeim aðilum sem eru að spá í hvers konar framfarir í atvinnumálum aðgang að upplýsingum og leita þarf eftir frumkvæði fólksins í landinu.
    Þá er nauðsynlegt að stokka upp ríkiskerfið, fara markvisst ofan í stofnanir ríkisins, spyrja okkur um það hvert hlutverk ríkisins á að vera, hvaða stofnanir eru nauðsynlegar, hvaða þjónustu er hægt að koma til annarra. Auka þarf ábyrgð stofnana, gera starfsfólk og stjórnendur ábyrga fyrir rekstri hinna ýmsu stofnana og ekki síst að leita til starfsmanna eftir tillögum um hagræðingu og sparnað. Og það þarf að draga úr því bruðli og þeim flottræfilshætti sem hér hefur tíðkast um áratugaskeið.
    Þá vil ég einnig nefna að ég tel að það eigi aftur að færa vald til sveitarfélaganna en ekki að draga valdið frá þeim eins og hefur verið gert að undanförnu. Endurskoða þarf skattakerfið með það að markmiði að færa skattbyrðina frá hinum lægst launuðu til hinna sem meira hafa.
    Þá er lífsnauðsynlegt að endurskoða fiskveiðistefnuna þannig að fiskveiðiheimildir tengist byggðum en þó með þeim sveigjanleika að rekstur fiskvinnslunnar verði sem hagkvæmastur. Finna þarf milliveg þannig að grundvellinum sé ekki kippt undan heilu byggðarlögunum, þ.e. ef þau eiga sér tilverugrundvöll.
    Þá vil ég síðast en ekki síst nefna að það er nauðsynlegt að stokka upp launakerfið í landinu með sérstöku tilliti til kvenna til þess að auka jöfnuð og réttlæti. Ekki síst vil ég benda á að fram þarf að fara nýtt starfsmat sem hefur það markmið að draga úr hinum óréttláta launamun sem við búum við.
    En hvað gerir ríkisstjórnin? Hún leggur fyrir okkur tillögur í fjárlagafrv., í bandorminum sem hér er til umræðu, og það verður að koma í ljós hvað þau frv. sem eru á leiðinni fela í sér. En tillögur ríkisstjórnarinnar fela fyrst og fremst í sér niðurskurð og tilfærslu á kostnaði, þ.e. hluta af kostnaðinum við rekstur þjónustu ríkisins er velt yfir á heimilin í landinu. Það er verið að klípa af einstaka liðum og það er verið að grípa til ráðstafana í sjávarútvegi sem óvíst er hvað kemur út úr.
    Stefnan er að hagræða, og ég get auðvitað tekið undir það að nauðsynlegt er að hagræða, bæði í ríkisrekstrinum og í atvinnurekstrinum almennt. En eins og stefnan kemur fram hjá ríkisstjórninni birtist hún fyrst og fremst í því að fyrirtæki eigi að fara á hausinn. Að ríkið eigi ekki að grípa inn í hverjar sem aðstæður kunna að vera.
    Nú skal ég ekki draga dul á það að víða er nauðsynlegt að stokka upp rekstur fyrirtækja og það eru mörg fyrirtæki sem eiga sér ekki rekstrargrundvöll. En við verðum að

horfa á málin í tengslum við þá stefnu sem við viljum reka í byggðamálum. Við verðum að horfa á þau með það markmið að grundvellinum sé ekki kippt undan heilu byggðarlögunum.
    Enn hefur ekkert verið gert til þess að grípa á því stóra vandamáli, og kannski erfiðasta vandamáli sem við er að glíma, sem er að ná niður vöxtunum. Að mínum dómi er hæstv. ríkisstjórn að fara heldur hratt í sakirnar. Ég held að betra væri að gera áætlun til nokkurra ára og ná hallanum á ríkissjóði niður á lengri tíma til þess að afleiðingarnar verði ekki jafngrimmilegar og þær virðast ætla að verða. Ég óttast að sú spá sem Þjóðhagsstofnun hefur sett fram varðandi atvinnuleysi á næsta ári sé heldur væg. Ég óttast að ríkisstjórnin sé að setja af stað keðjuverkun með aðgerðum sínum sem mun valda því að atvinnuleysi verði meira en spáð hefur verið. En við skulum svo sannarlega vona að svo verði ekki.
    Ég ætla þá að víkja að því frv. sem er til umræðu og skoða nokkra þætti þess. Þær stöllur mínar sem eiga eftir að tala á eftir munu taka fyrir ýmsa aðra þætti. Ég ætla þá fyrst að víkja að skólamálunum.
    Á sl. vori voru samþykkt ný lög um grunnskóla sem fela í sér miklar og nauðsynlegar endurbætur á grunnskólanum. Að mínum dómi voru þær tillögur sem þá voru samþykktar löngu tímabærar því að staðreyndin er sú að okkar grunnskólakerfi er mjög gamaldags og úrelt að því leyti að þar eru stórir, fjölmennir bekkir, skólar eru tví- og þrísetnir, börn fá ekki máltíð í skólum, þeim er ekki tryggð vist í skólunum eftir að kennslutíma lýkur og áður en vinnutíma foreldra lýkur. Sú stefna að leggja áherslu á mismunandi þarfir einstaklinganna hefur því miður alls ekki náð fram að ganga. En þetta frv. sem Alþingi samþykkti sl. vor átti að bæta úr þessu að nokkru leyti.
    En hvað gerir ríkisstjórnin í þessu svokallaða frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum? Hún ræðst á skólakerfið, grunnskólana, þar sem þörfin er mest á breytingum og bótum og sker þar niður um 40 milljónir. Það er ekki ýkja há upphæð miðað við þær miklu framfarir sem þarna er um að ræða. Það sem er gert með þessum niðurskurði er í fyrsta lagi að fresta fækkun nemenda í bekkjum grunnskólans. Það er verið að fresta því að koma á máltíðum í skólum. Það er verið að fresta ráðningu aðstoðarskólastjóra. Það er verið að fresta stofnun grunnskólaráðs. Það er verið að fresta því að lengja kennslutíma yngstu barnanna sem er fáránlega stuttur. Það er verið að fresta ákvæðum um skólaathvarf í hverjum skóla. Það er verið fresta ráðningu námsráðgjafa í grunnskólum. Og fellt er niður ákvæði um að stefnt skuli að því að grunnskólar verði einsetnir á næstu tíu árum.
    Ég verð að segja það, herra forseti, að þessi kafli frv. er vægast sagt sorglegri en tárum tekur. Að hagsmunum yngstu skólabarnanna skuli fórnað í þessum ráðstöfunum upp á litlar 40 millj. kr. Þetta er í hrópandi andstöðu við alla þróun skólamála í nálægum löndum og í hinum iðnþróaða heimi þar sem verið er að auka fjárveitingar til skólamála og leggja aukna áherslu á umbætur í skólastarfi vegna þess að það er viðurkennt af öllum að menntun er undirstaða framfara og sóknar í framtíðinni. Þess vegna er sú stefna sem hefur verið mörkuð hörmuleg og ég mótmæli þessu harðlega. Þetta var um skólann.
    Ég ætla aðeins að nefna það hvernig lögin snúa að bændum því að bændur eru einn hópurinn sem verður fyrir skerðingu með þessu frv. Í fyrsta lagi er verið að skerða jarðræktarlögin, lögbundin framlög og verðbætur á þær upphæðir. Og Stofnlánadeild landbúnaðarins verður fyrir 40 millj. kr. niðurskurði, forfalla- og afleysingaþjónusta bænda 55 millj. kr., mat á sláturafurðum 8,9 millj. kr. og svo er Framleiðnisjóður skorinn niður um hvorki meira né minna en 360 millj. kr.
    Ég tel nauðsynlegt að endurskoða landbúnaðarkerfið mjög rækilega. Ég spyr mig t.d. hvaða réttlæti sé í því að ríkið borgi forfalla- og afleysingaþjónustu bænda. Hvers vegna

á ríkið að borga þó að bændur bregði sér frá búi? Og það er margt varðandi skipulag landbúnaðarins sem þarf að skoða. En það er hér eins og víða annars staðar að það er verið að höggva að rótunum. Hlutverk Framleiðnisjóðs er m.a. að ýta undir nýsköpun og framfarir í landbúnaði og honum hefur tekist að styðja bændur í því að skapa ný atvinnutækifæri. En með þeim niðurskurði, sem hér er boðaður, blasir sú staðreynd við að Framleiðnisjóður mun hafa um 60 millj. kr. til lögbundinna verkefna vegna þess að það er verið að leggja á hann og raunar sækja í hans sjóði til þess að standa undir ýmsum öðrum greiðslum. Þetta finnst mér vera dæmi um rangar áherslur í ríkisfjármálum. En eins og ég nefndi og segi enn og aftur þá þarf að skoða landbúnaðarkerfið algjörlega upp á nýtt, ekki síst í ljósi þess sem er að gerast í GATT-viðræðunum sem munu þýða miklar breytingar fyrir landbúnaðinn og fyrir stöðu bænda.
    Ég get nú ekki stillt mig um að nefna aðeins kosningaauglýsingarnar sem lækka á um 10 millj. kr., og ég spyr eins og aðrir þingmenn: Boðar þetta kosningar á næsta ári? Hvað liggur á að vera að taka á því þjóðþrifamáli? Ég get ekki annað en gagnrýnt þetta ákvæði því að það er partur af lýðræðinu að fólk eigi auðvelt með að átta sig á því hverjir eru í framboði og geti kynnt sér það rækilega. Eins og síðasti ræðumaður nefndi hafa auglýsingar framboða haft sitt að segja fyrir fjáröflun stjórnmálasamtakanna þó að það eigi kannski ekki að skipta meginmáli. Aðalatriðið er auðvitað það að allur almenningur í landinu hafi góðan aðgang að upplýsingum um það hverjir eru í framboði.
    Ég ætla næst að koma aðeins inn á húsnæðismálin. Í frv. eru boðaðar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og þar er einkum um tvö mál að ræða. Annars vegar á að taka fyrir lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins og það get ég tekið undir. Ég tel rétt að hætta þeim lánveitingum og þó fyrr hefði verið því að það er afar óheppilegt að vera með mörg kerfi í gangi. En auðvitað verður að klára kerfið og veita þeim lán sem hafa fengið lánsloforð og hafa þar með lagalegan rétt sín megin.
    En það er hitt málið, 3,5% óafturkræft framlag sveitarfélaganna sem ég vil gera að umræðuefni. Það eru u.þ.b. tvö ár síðan þeim hluta laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins sem fjalla um félagslega húsnæðiskerfið var breytt. Þá var tekið út ákvæði um óafturkræft framlag sveitarfélaganna. Það var þá 10% af lánsupphæðinni á íbúð. Það var mjög ákveðin ástæða til þess að framlagið var tekið út á sínum tíma og ástæðan var fyrst og fremst sú að mörgum sveitarfélögum var þetta um megn. Þar af leiðandi var verið að reyna að hvetja sveitarfélögin með þessum hætti og beinlínis að létta á þeim með því að leggja niður þetta framlag þannig að þeim yrði ákveðin hvatning að byggja félagslegt húsnæði.
    Þetta 3,5% gjald eða óafturkræft framlag er talið samsvara gatnagerðargjöldum og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það að sveitarfélögin leggi eitthvað af mörkum. En eins og oft áður verður aðeins að skoða mismunandi stöðu sveitarfélaganna og það verður líka að horfa á þetta í því samhengi að einmitt í þessu frv., sem er til umræðu, er verið að leggja fleiri gjöld og meiri álögur á sveitarfélögin. Ég ítreka þá spurningu sem hefur komið fram til hæstv. forsrh.: Er þetta gert í samráði við sveitarfélögin? Hvað segja sveitarfélögin um þetta framlag og önnur gjöld sem lögð eru á þau?
    Ég ætla þá að víkja að hinum svokölluðu ,,þrátt-fyrir-ákvæðum``. Ég stikla hér á stóru í trausti þess að aðrar þingkonur Kvennalistans taki ýmis önnur mál fyrir á eftir sem virkilega eru verð umræðu.
    Fyrst ætla ég að koma að Ríkisútvarpinu. Um árabil hefur sá lögbundni tekjustofn, sem Ríkisútvarpið á að fá, þ.e. aðflutningsgjöld af innfluttum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum, verið af því tekinn. Nú nemur þessi upphæð 180 millj. kr. Ekki eru margir dagar síðan fjöldi þingmanna fór í pontu til að býsnast yfir ástandinu í dreifikerfi útvarpsins. Menn muna eflaust að langlínumastrið féll í óveðrinu sl. vetur. Þannig er alveg ljóst að

Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir miklum og nauðsynlegum framkvæmdum, en hvernig á það að geta sinnt þeim þegar þessar lögboðnu tekjur eru af þeim teknar ár eftir ár? Þetta tel ég vera hið alvarlegasta mál.
    Þá vil ég nefna þjóðminjalögin. Samkvæmt þeim á ákveðið gjald að renna í svokallaðan húsafriðunarsjóð. Ríkissjóður getur heldur ekki stillt sig um að klípa af þeirri fjárveitingu og tekur í sinn hlut 24,5 millj. kr. af því sem renna átti í húsafriðunarsjóð. Nú gæti sumum sýnst að þetta mál væri kannski ekki eins alvarlegt og margt annað. En svo vill til að húsafriðunarsjóður á að annast ýmsar þær menningarsögulegu byggingar sem við eigum --- og eru ekki allt of margar --- en því miður er ástand þeirra margra mjög alvarlegt. Margar byggingarnar, og nefni ég sérstaklega gömlu torfbæina, eru mjög illa á sig komnar. Hvað verður um ferðamannaiðnaðinn í Skagafirði ef loka þarf Glaumbæ fyrir ferðamönnum? Hvers konar áherslur eru þetta, að vera að klípa af þessum gjöldum? Þetta kemur niður annars staðar. Þetta bitnar jafnvel á atvinnulífinu annars staðar, á ferðaþjónustunni.
    Ég vil nefna Menningarsjóð sem er skorinn niður um 5,5 millj. kr. Það er svo sem ekki há upphæð en hefur sitt að segja. Þetta tengist því að ríkisstjórninn hefur boðað að hún ætli að breyta lögum um Menningarsjóð og hætta þeirri útgáfustarfsemi sem Menningarsjóður hefur annast. Menningarsjóður hefur gefið út ýmis fræðirit sem erfitt hefur reynst að fá gefin út annars staðar, rit sem seljast á löngum tíma en hafa ómetanlegt gildi.
    Ég ætla ekki að gera athugasemd við það að 30 millj. kr. eru teknar af því fé sem renna átti til Þjóðarbókhlöðunnar og því varið til viðgerða á Bessastöðum. Sem betur fer hefur verið söðlað um, Þjóðarbókhlaðan fær nú mjög aukna fjárveitingu frá því sem verið hefur þannig að menn eru loksins farnir að sjá fyrir endann á því hneyksli. Það tel ég vera til bóta.
    Ég vil að lokum nefna Ferðamálasjóð sem er skorinn niður um hvorki meira né minna en 116 millj. kr. Þarna er einmitt komið að einu þessara atriða þar sem verið er að klípa í starfsemi sem getur skilað af sér miklu í framtíðinni því að mikið verk er óunnið í ferðamálaþjónustu á Íslandi. Það er ekki bara í því að koma upp gistiaðstöðu og veitingastöðum heldur í öllu skipulagi og ekki síst að gera það sem vert er að skoða á Íslandi aðgengilegt. Ég get nefnt þann mikla sögustað okkar, Skálholt. Þar er ekki nokkur skapaður hlutur. Að vísu hægt að kaupa sér kaffi. Það er ekki einu sinni búið að grafa upp gamla bæinn í Skálholti. Það er ekkert gert fyrir þessa sögustaði. Á Þingvöllum vantar ýmsa þjónustu, einnig á Hólum í Hjaltadal. Margt er hægt að gera til þess að gera þessa ferðamannastaði aðgengilega. Og ég minnist nú ekki á söfnin. Ég get ekki stillt mig um að minna á þá hörmung sem heitir Þjóðminjasafn Íslands. Líklega er allt á floti þar núna í þessu regnveðri sem hér gengur yfir. Það safn er svo gamaldags og úrelt að maður hreinlega veigrar sér við að fara þangað. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir því að það var sett upp einhvern tímann á árunum eftir stríð og þar hefur varla verið hreyfður nokkur hlutur síðan. Þar gengur fólk inn í sali og kíkir í skápa og þar stendur m.a. ,,döggskór`` --- hversu margir vita hvað döggskór er? Allt sem lýtur að kynningu í þessum söfnum er í ólestri. Þetta er okkar þjóðararfur sem búið er að koma fyrir á þessum stað. Þarna eru gripir sem eru einsdæmi í veröldinni en það er ekkert sem sýnir það, það er ekkert sem dregur það fram, fyrir svo utan það náttúrlega hvað byggingin sjálf er í hörmulegu ásigkomulagi.
    Herra forseti. Ég hef vikið að nokkrum atriðum sem snerta þetta frv. sem hér er til umræðu. Ég vil segja það að lokum að ég er að sjálfsögðu andvíg þessu frv. og mun greiða atkvæði gegn því þó að í því sé að finna einstök atriði sem ég get tekið undir. Meiri hluti þess er vondur, svo vondur að það er ekki með nokkru móti hægt að samþykkja þetta frv. Hér er á ferðinni niðurskurður og á meðan ríkisstjórnin nýtir sér ekki þær leiðir sem færar eru til tekjuöflunar, svo sem með skatti á fjármagnstekjur, hátekjuskattþrepi, lúxussköttum af ýmsu tagi, bættri innheimtu vangoldinna gjalda og því að taka á svarta markaðnum og því neðanjarðarhagkerfi sem hér þrífst er ekki hægt að samþykkja frv. Meðan ekki er reynt að afla tekna með þessum aðferðum get ég ekki samþykkt þennan niðurskurð. Ég get ekki séð að ástæða sé fyrir svo miklum niðurskurði meðan menn ekki reyna að afla sér tekna.
    Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni í morgun að það væru til tvær leiðir, annars vegar að skera niður en hins vegar að hækka skatta. Það er hægt að fara bil beggja, hæstv. forsrh. Það er hægt að reyna að hagræða og spara en það er líka hægt að afla tekna þar sem þær eru og það á að gera.
    Ég ítreka það að ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv.