Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 16:36:00 (1679)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma aftur og taka til máls en verð líklega að hinkra svolitla stund af því að ég átti lítið annað eftir en að ræða við hæstv. heilbrrh. sem því miður hefur aftur vikið sér úr salnum. Við hinkrum þá aðeins. Ég held að eins og fram hefur komið í bæði sjálfum umræðunum um málið og síðan þingskapaumræðum, þá sé bæði eðlilegt og nauðsynlegt að vísa þessu frv. til fleiri nefnda en einnar. Ég var búinn að gera grein fyrir þeirri skoðun minni áður í umræðunum og ítreka það og fagna því að heyra þann skilning hjá hæstv. forseta á þessu máli því að þetta er með mjög sérstökum hætti gert þó að bandormar af ýmsu tagi hafi áður viðgengist. En þá er hér um efnisatriði að ræða varðandi lagabreytingar sem eru varanlegar, ekki breytingar til eins árs heldur varanlegar breytingar á hinum ýmsu lögum þannig að eðlilegt hlýtur að vera að hafa nokkurn annan hátt á vinnubrögðum að þessu sinni.
    Hér kemur hæstv. heilbrrh. í salinn og ég þakka honum fyrir að vilja leyfa mér að beina til sín tveimur eða þremur spurningum. Ég var búinn í máli mínu að fara nokkuð yfir þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á lögum um almannatryggingar með þessu frv. sem fyrir liggur og ég ætla ekki að endurtaka það, virðulegur forseti. Nema þá kannski aðeins að segja hæstv. ráðherra að ég út af fyrir sig get stutt ýmislegt af því sem hér er lagt til og var búinn að lýsa því yfir áður, t.d. hlutfallsgjald enda verði gætt að því að greiðslur einstaklinganna séu með þaki á þann hátt að hlutfallsgjaldið sé fyrst og fremst til þess að laða fram betri kostnaðarvitund almennings sem þarf á þjónustunni að halda. Eins veit ég að hæstv. ráðherra hefur átt í nokkrum erfiðleikum með þann hluta tannlæknastéttarinnar sem hefur tannréttingar að sérgrein. Ég var sjálfur búinn að eiga í nokkrum viðræðum og viðskiptum við þessa aðila áður og lýsi yfir stuðningi við hugmyndir sem hér eru settar

fram, þó með þeim fyrirvara að orðalag í 15. gr., þar sem segir: ,,Að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 44. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.`` Með þeim fyrirvara að þetta orðalag sé e.t.v. nokkuð þröngt. Ég hef fyrst og fremst þann fyrirvara á en er ekki með neinar hugmyndir eða tillögur aðrar hér og nú varðandi þetta mál. En mér sýnist að það gæti leitt til þess að þeir sem þó þyrftu á stuðningi að halda og ættu hann vissulega skilinn samkvæmt almennri túlkun á lögum um heilbrigðisþjónustu, að einstaklingar eigi rétt á þeirri bestu þjónustu sem völ er á hverju sinni --- að svona ákvæði þrengi ekki það almenna sjónarmið heilbrigðisþjónustulaganna.
    En spurningarnar sem mig langaði að bera upp við hæstv. heilbr.- og trmrh. vörðuðu sérstaklega það sem segir í umsögn fjmrn. sem fylgir sem fskj. með þessu frv. um sparnað af ráðgerðum breytingum varðandi þátttöku almannatrygginganna í tannlæknakostnaði og tannréttingum. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 að þessar aðgerðir dragi úr tannlæknakostnaði um 280 millj. kr., en sú fjárhæð skiptist samkvæmt áætlun þannig að um 150 millj. sparast við að hætta að greiða tannréttingar . . . `` Síðar segir í þessari sömu málsgrein: ,,Að áliti fjmrn. munu umræddar 150 millj. kr. ekki sparast nema fallið verði frá bráðabirgðaákvæði því sem er að finna aftast í frv. þessu, enda var ekki gert ráð fyrir því ákvæði þegar fjárlagafrv. var samið.``
    Til skýringa þá fjallar þetta ákv. til brb. um það að þeir sem nú eru í meðferð hjá tannréttingasérfræðingum eigi rétt á endurgreiðslu áfram. Ég tel þetta afar þýðingarmikið ákvæði vegna þess að þegar lagt var upp í þessar breytingar eða hugmyndir um breytingar þá gerðu menn aldrei ráð fyrir því að það tæki þennan tíma og endaði á þann hátt sem það virðist nú ætla að enda. Ég lít því svo á að nauðsynlegt sé að þeir einstaklingar sem eru nú í meðferð hjá tannréttingasérfræðingum eigi nokkuð annan rétt heldur en hin varanlegu frambúðarákvæði kveða á um og lýsi því stuðningi við ákv. til brb. En mér finnst í þessari umsögn vera gefið undir fót með það að e.t.v. sé þetta ekki meiningin, þó að það sé hér inni sem ákv. til brb., og það sem meira er að ef farið er yfir áætlaðan sparnað af þessum aðgerðum í umsögn fjmrn. þá er ekki gert ráð fyrir því að ákv. til brb. verði inni. Það er sem sagt í listanum gert ráð fyrir að þessar 150 millj. kr. sparist. Ég hefði viljað að hæstv. heilbrrh. segði okkur alveg skýrt og skorinort hverjar hans hugmyndir eru hvað þetta varðar.
    Önnur spurning sem mig langaði til að beina til hans sem kannski er minna mál en er þó formsatriði, að í skerðingarákvæðunum í II. kafla frv. er sagt að það eigi að fella niður framlag ríkissjóðs til Gæsluvistarsjóðs. Ef bornar eru saman tölurnar í fjárlögum ársins í ár og fjárlagafrv. fyrir næsta ár, annars vegar sem fjalla um fjárveitingar til Gæsluvistarsjóðs og hins vegar fjárveitingar til áfengisvarna þá er þar um að ræða mjög svipaða tölu eins og nú er í frv. áætluð til áfengisvarna og bindindismála. Og ég hafði gert ráð fyrir því að inni í þeim lið væri þá Gæsluvistarsjóðurinn. Því spyr ég ráðherra: Hvaða hugmyndir eru uppi um það? Er sem sagt meiningin að fella hann niður með þessu og sérákvæði hans og ráðherra eða ráðuneyti hans ráðstafi þá þessum lið, Áfengisvarnir og bindindismál, algjörlega sjálfstætt án þess að þar komi til ákvæði um Gæsluvistarsjóðinn?
    Í þriðja lagi langar mig svo að spyrja hæstv. ráðherra út af umræðum sem auðvitað tengjast hugmyndum í fjárlagafrv. og umræðum sem hafa orðið í þjóðfélaginu á undanförnum dögum varðandi samvinnu eða sameiningu sjúkrahúsa. Þótt ekki sé getið um það í þessu frv. þá kom það fram í ræðu hæstv. forsrh. þar sem hann talaði um að áfram væri unnið að hugmyndum um sparnaðaraðgerðir í rekstri sjúkrahúsanna, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðarsjúkrahúsum. Ég held í fyrsta lagi varðandi landsbyggðarsjúkrahúsin að það þurfi að skoða það sérstaklega og með mikilli aðgát hvaða sparnaði þar er hægt að ná fram, hvort menn séu ekki að ráðast þannig að rekstri þessara sjúkrahúsa að þau séu ekki lengur fær um að gegna þó mikilvægri þjónustu sem slysa- og bráðaþjónustusjúkrahús fyrir minni háttar slys eða sjúkdóma ef höggvið er alvarlega í fjárveitingar til þeirra. Ég hygg reyndar að með sum sjúkrahúsin, sem kannski er varla hægt að kalla landsbyggðarsjúkrahús, eins og t.d. sjúkrahúsið í Hafnarfirði, sé mjög óskynsamlegt að fara að eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það á einnig við sjúkrahús hér í næsta nágrenni ef við t.d. nefnum Keflavík, Akranes, Selfoss, sem þó vafalaust má skoða hvernig eigi að reka í samráði og samræmi við stóru sjúkrahúsin hér í Reykjavík og þá með góðri samvinnu þar á milli. En ég tel að það sé ekki rétt að gera öll þessi sjúkrahús að langlegusjúkrahúsum fyrir aldraða og svipta þau algjörlega hlutverki sínu sem sjúkrahús sem geti tekið að sér ákveðin verkefni. Hugsanlega gætu þessi sjúkrahús verið aðili að verkaskiptingu og tekið að sér einhver ákveðin verk. Á Akranesi sé veitt ákveðin þjónusta, í Keflavík önnur, en ekki að öll þessi sjúkrahús séu að fást við allt, sem þau reyna að gera og sumt af vanefnum eða lítilli getu.
    En varðandi sjúkrahúsin í Reykjavík þá hafa verið uppi miklar umræður um hvað sé skynsamlegt að gera í því. Ég ætla að geyma mér til 2. umr. fjárlaga ítarlegri umræðu um það mál, eða 3. umr. ef svo fer sem maður hefur heyrt að málefni sjúkrahúsa og kannski heilbrigðismála almennt verði ekki tekin til umfjöllunar við 2. umr. fjárlaga heldur ekki fyrr en við 3. umr. Ég mun þá a.m.k. þegar að því kemur að þau mál verði til umræðu fara ítarlegar í það.
    En vegna þess að framsöguræða hæstv. forsrh. gaf tilefni til þess að spyrja aðeins út í þetta mál þá langar mig að spyrja ráðherra og vitna til kvöldfrétta í Ríkisútvarpinu einu sinni enn. Ég er reyndar búinn að gera það fyrr í minni ræðu að vitna til frétta í blöðum og fjölmiðlum að undanförnu. En það er nú stundum svo að þaðan fáum við tíðindin af stjórnarheimilinu, í gegnum fjölmiðlana okkar sem auðvitað reyna að vinna sitt verk af samviskusemi og kostgæfni. Þann 4. des. sl. var vitnað til fundar sem hæstv. heilbrrh. átti með starfsfólki Landakotsspítala þar sem það vildi ræða um framtíð sína og spítalans. En ráðherra færðist undan því þar sem tillögur um fyrirhugaða sameiningu eða samstarf Landakots og Borgarspítala lægju ekki fyrir en þeirra væri að vænta eftir ,,einn eða tvo daga``, eins og segir í fréttinni --- ekki er það haft orðrétt eftir ráðherranum. En síðan líða tveir dagar og forvitnilegt að vita hvað er að frétta af þessu máli frekar. En þó einkum það sem ég ætla að bæta við nú er að haft er eftir hæstv. ráðherranum, en ég vitna hér til fréttarinnar orðrétt, þar segir:
    ,,Hins vegar kviði hann fyrir því verkefni sem þá blasti við, að skipta 500 millj. kr. niðurskurði á einu ári milli Borgarspítala og Landakots, og hann bætti við að næstu daga yrðu kynntar nýjar, óskemmtilegar sparnaðaraðgerðir sem varða sjúkrahúsin.``
    Það var aðallega þessi málsgrein og þessi setning sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra um, hvað væri á döfinni, hvort eitthvað væri hægt að segja frá þessu nú. Vegna þess að það er eitt af því sem stendur frekari vinnu í fjárln. fyrir þrifum, þ.e. tefur frekari vinnu fjárln. við undirbúning 2. umr. fjárlaganna að það vantar svör frá hæstv. ríkisstjórn eftir því sem forustumenn stjórnarliðsins í fjárln. tjá okkur fulltrúum minni hlutans. Þess vegna væri æskilegt fyrir okkur að vita hvað er þar á döfinni og hvenær er að vænta einhverrar niðurstöðu í þessu efni. Mér sýnist á því sem kemur fram í umsögn fjmrn., sem fylgir þessu frv. sem hér er til umræðu, að sparnaðaraðgerðir hæstv. ráðherra, sem fyrirhugaðar voru samkvæmt fjárlagafrv., hafi nú lækkað um a.m.k. 700 millj. kr., held ég að ég hafi verið að tína hér til áðan. 700--800 millj. sem þegar eru að falla út eða fallnar út af þeim hugmyndum. Við höfum fengið erindi frá heilbrrn. þar sem gerð er grein fyrir breytingum á útgjöldum Tryggingastofnunar og nokkurra annarra stofnana sem leiða til útgjaldaaukningar upp á einhver hundruð milljóna án þess að fara nánar út í það á þessu stigi af því að það plagg hefur ekki fengið umfjöllun enn í nefndinni. Og síðan boðar ráðherra ,,óskemmtilegar sparnaðaraðgerðir`` í viðbót við það sem þegar er talið.
    Þetta ætla ég, hæstv. forseti, að láta duga sem fyrirspurnir til hæstv. heilbr.- og trmrh. og þakka fyrir að hafa fengið að eiga við hann nokkur orðaskipti en fer senn að ljúka máli mínu. Ég var búinn að fara yfir frv. og efnisatriði þau sem ég vildi láta koma fram og gera athugasemdir við á þessu stigi. Einnig það sjónarmið mitt að nauðsynlegt væri að fagnefndir þingsins fjölluðu um einstök efni, eins og t.d. heilbrigðismálin, breytingarnar á almannatryggingalöggjöfinni og lög um heilbrigðisþjónustu og breytingar á grunnskólalögunum og fleiri atriði. Og ég vil svo ítreka það sem kom fram núna seinast í máli mínu varðandi vinnuna í fjárln. og vinnuna við þetta frv. að hún hlýtur að stranda á meðan hæstv. ráðherrar lýsa því yfir við fjölmiðlana, án þess að gera þingheimi nánari grein fyrir því, að nýjar hugmyndir séu uppi um enn frekari sparnað og aðhaldsaðgerðir við fjárlagagerðina. Að halda sig við 4 milljarða kr. halla á fjárlögum þrátt fyrir að 10 eða 11 milljarðar blasi við, eins og hæstv. forsrh. hefur ítrekað nefnt, þá er ekki von til þess að menn sitji á nefndarfundum í fjárln. og eyði tíma sínum í það að velta fyrir sér hvort einhver ágætur fræðimaður í þessu þjóðfélagi eigi að fá 30 þús. kr., 50 þús. kr. eða kannski 70 þús. kr. eða ekki neitt. Í það hefur tíminn hjá okkur farið undanfarna daga. Við höfum verið að sýsla við svoleiðis hluti sem eru auðvitað nauðsynlegir líka en eru heldur lítils virði þó miðað við hin stóru mál sem fram undan eru. Ég vonast til þess að við í fjárln. fáum fyrr en síðar upplýsingar um hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst fyrir á þessu sviði.
    Ég leyfi mér reyndar að efast um að tímabært sé, eins og mál standa nú í dag, að vera að tala um 2. umr. fjárlaga nk. þriðjudag, nema eitthvað gerist þá í kvöld og nótt hjá hæstv. ríkisstjórn og komi inn í fjárln. á laugardag því á sunnudag þurfa menn að ganga frá sínum hugmyndum og breytingum fyrir 2. umr. á þriðjudeginum, ef ég hef einhverja hugmynd um það hvernig tæknileg vinna gengur fyrir sig hér í hv. þingi. Þar að auki hlýtur það að vera heldur tilgangslítið ef það blasir við að á þriðjudag, við 2. umr., eigi að skilja eftir stóra, veigamikla þætti í umræðunni, eins og t.d. málefni sjúkrahúsa, kannski málefni heilbrrn. að verulegu leyti. Við vitum að það er beðið eftir svari frá ríkisstjórn um viðbrögð við 600 millj. kr. fjárvöntun hjá Tryggingastofnuninni vegna aukinna útgjalda í sjúkratryggingum og fleiri spurningum er ósvarað. Þannig sýnist mér að það stefni nú þegar í að það ætti að fresta þeirri umræðu sem fyrirhuguð er á þriðjudag eða a.m.k. viðurkenna það að hún sé ekki mikils virði og aðalumræðan um fjárlögin verði þá 3. umr., hvenær svo sem hún getur farið fram. Og ef fer fram sem horfir nú seinustu daga þá sýnist mér ekki líklegt að það verði nema þá allra síðustu daga fyrir jól, ef það yfir höfuð verður fyrir jól.