Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 21:00:00 (1684)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Í framsöguræðu sinni með þessu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fór hæstv. forsrh. yfir vítt svið. Hann dró þar upp glögga mynd af þeim efnahagsvanda sem nú er við að glíma. Í stuttu máli má segja að efnahagsvandi þjóðarinnar lýsi sér fyrst og fremst í viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun en misvægið í þjóðarbúskapnum birtist líka í erfiðri afkomu atvinnuvega, ekki síst fiskvinnslu og iðnaðar sem tengist sjávarútveginum. Atvinnuástandið hefur víða slaknað og allmikið er um uppsagnir starfsfólks. Hvað er það sem veldur? Það eru fyrst og fremst dauflegar horfur í alþjóðaefnahagsmálum sem hér á landi hafa m.a. birst í óhjákvæmilegri frestun framkvæmda við byggingu álvers og tengdra virkjana og svo lélegt ástand fiskstofna. Hvort tveggja bendir því miður ákveðið til þess að hér sé ekki um tímabundinn vanda að ræða. Þar sem menn sjá ekki fram á verulega hækkun á þjóðartekjum á næstu árum verður ekki sigrast á viðskiptahallanum nema með því að draga verulega úr útgjöldum þjóðarinnar.
    Eins og forsrh. lagði áherslu á eru þess vegna markmið efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár fyrst og fremst að draga úr viðskiptahalla og að tryggja eða freista þess að verðbólga verði hér lægri en í helstu viðskiptalöndum. Þetta er metnaðarfullt markmið en einungis þannig getur þjóðin búið útflutningsgreinum sínum viðunandi stöðu og unnið sig út úr vandanum við þessi erfiðu skilyrði. Þannig og aðeins þannig leggjum við grunn að nýju vaxtarskeiði.
    Brýnasta verkefnið í efnahagsmálum okkar, ég vil segja lykillinn að áframhaldandi stöðugleika sem undirstöðu vaxtar, er einmitt að ná tökum á ríkisfjármálunum og tryggja að fjárlögin verði ekki afgreidd með meiri halla en ætlað var í frv. þótt syrt hafi í álinn síðan það var samið. Snar þáttur í áformum ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda birtist einmitt í frv. sem við ræðum hér í dag. Samþykkt þess er mikilvægt skref í þá átt að ná tökum á ríkisbúskapnum, ekki síst þær aðgerðir í heilbrigðismálum sem hæstv. forsrh. gerði sérstaklega að umtalsefni í ræðu sinni og hæstv. heilbrrh. skýrði reyndar frekar, m.a. í gagnlegum orðaskiptum við hv. 1. þm. Norðurl. e. Til þessara orðaskipta og þessarar umræðu er ákaflega rík ástæða. Sú, að árangri í ríkisfjármálunum verður ekki náð án þess að tekið sé á stærstu útgjaldapóstum ríkisins og eins og kunnugt er vega þar heilbrigðis- og tryggingamálin þyngst en þau krefjast um það bil 40% af öllum skatttekjum ríkisins. Það er því óhjákvæmilegt að taka á ýmsum þáttum þessa málaflokks og ná þannig fram lækkun gjalda.
    Ég vil í þessu sambandi benda þingheimi á að þegar hafa verið gerðar ráðstafanir í lyfjamálum sem hafa sparað þjóðinni nokkur hundruð millj. kr., m.a. með minni lyfjanotkun en að flestra dómi var hún of mikil fyrir. Útgjöld ríkisins vegna lyfjamála hafa lækkað um hálfan milljarð á þessu ári með þessum ráðstöfunum. Þetta hefur tekist með kostnaðaraðhaldi frá almenningi og læknum án þess að íþyngt hafi verið úr hófi fram þeim sem eiga við vanheilsu að stríða.
    Næsti stóri áfanginn í sparnaði ríkisins í heilbrigðismálum er fólginn í reglugerð um hlutdeild þeirra sem eru aðilar að sjúkratryggingunum í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustunnar sem heilbrrn. gaf út í dag. Með henni eru hækkuð og samræmd ýmis gjöld sem tíðkast

hafa fyrir læknisverk bæði í heilsugæslu og hjá sérfræðilæknum. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að þannig er um hnútana búið að hámarksgreiðsla hvers einstaklings vegna þessara útgjalda á ári hverju mun ekki hækka og tryggingaröryggi barnmargra fjölskyldna reyndar aukast með því að hámark greiðslna fyrir hverja barnmarga fjölskyldu verður núna lægra en það var. Sérstakt tillit er tekið til lífeyrisþega og er sumpart um lækkun gjalda að ræða hvað þá varðar. Hvergi er horfið frá þeirri stefnu að grundvallarþættir í heilsuvernd verði ókeypis.
    Ég tel sérstaka ástæðu til að undirstrika að eftir sem áður er langstærsti hluti heilbrigðisþjónustunnar kostaður af sameiginlegu fé landsmanna. Ef við lítum á heildartölurnar þá er hver fullorðinn einstaklingur í landinu með sínum skattgreiðslum að borga að meðaltali um 150 þús. kr. á ári til heilbrigðismála. Með hinum nýju ákvæðum eru þessi sameiginlegu útgjöld lækkuð um 2%, eða sem nemur um 3 þús. kr. á hvern mann. En á móti kemur að viðkomandi greiðir þá samsvarandi kostnað beint.
    Menn skyldu skoða þessi stærðarhlutföll grannt þegar þeir ræða og dæma þessi mál. Það er einmitt þessi aukna kostnaðarhlutdeild á jaðrinum, kostnaðarhlutdeild almennings í lækniskostnaði, sem gerir það gagn og hefur þann tvíþætta tilgang að hvetja til aðhalds varðandi þessa þjónustu og spara þar með hugsanlega óþörf útgjöld en draga jafnframt úr kostnaði ríkissjóðs í þeirri þröngu stöðu sem hann býr nú við. Það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að fara ekki þá leið sem ýmsar aðrar þjóðir hafa valið í þessum vanda og eru í fjárþrengingum, eins og við, að draga úr þjónustu við hina sjúku. Og ég er viss um það að almenningur kýs fremur að greiða hófleg gjöld fyrir góða læknishjálp en að gripið sé til slíkra neyðarúrræða. Tilgangurinn með þessum aðgerðum er einmitt sá að tryggja varanlegan fjárhagsgrundvöll fyrir það framúrskarandi heilbrigðiskerfi sem hér hefur verið byggt upp. Þetta er mjög mikilvægt verkefni.
    En velferðarkerfinu stafar einmitt ógn af þeim efnahagserfiðleikum sem þjóðin glímir nú við og af fjárskorti ríkissjóðs. Til þess að treysta undirstöður velferðarkerfisins, byggja velferðina á varanlegum grunni, er nú nauðsynlegt að grípa til ýmissa efnahagsaðgerða og einmitt aðgerða eins og þeirra í ríkisfjármálum sem hér eru ræddar í dag.
    Virðulegi forseti. Ein af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hyggst grípa til og kynnt er í fjárlagafrv. til þess að auka hagkvæmni í rekstri og atvinnulífi landsmanna og til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs er einkavæðing atvinnurekstrar og ýmissa þátta opinberrar þjónustu. Hún getur tekið á sig ýmsar myndir. Ég ætla að nefna nokkrar þeirra. Ég nefni fyrst rekstrarútboð. Fyrir því er löng hefð og jákvæð reynsla að bjóða út verklegar framkvæmdir og þau hafa iðulega sýnt sig að því að spara skattgreiðendum stórfé. Rekstrarútboðin hafa hins vegar lítið verið reynd hér á landi en ég er sannfærður um það að þau má nota með góðum árangri í sama skyni, nefnilega að nýta betur almannafé.
    Ég nefni næst að nú verði kannað hvort ekki sé rétt að heimila einkaaðilum og félögum þeirra að sinna starfsemi sem ríkið hefur hingað til haft einkarétt á. Við höfum þegar dæmi um þetta á sviði rekstrar útvarps- og sjónvarpsstöðva, en spurning er hvort við eigum ekki að líta á gerð samgöngumannvirkja og rekstur skólastofnana á sérhæfðum sviðum. Auðvitað höfum við dæmi um þetta í nokkrum mæli en spurningin er þessi: Getum við nýtt betur fé skattborgaranna með því að nota þetta úrræði?
    Þá nefni ég síðast það sem menn venjulega tala um sem einkavæðingu sem er sala ríkisfyrirtækja og stofnana. Þar getur verið um að ræða sölu á ríkisfyrirtæki eða stofnun í heilu lagi eða sölu á hlutabréfum ríkisins í hreinum ríkishlutafélögum eða hlutafélögum sem að hluta til eru í eigu ríkisins. Ég vil loks nefna í þessu sambandi breytingu á ríkisfyrirtækjum og stofnunum í hlutafélög sem strangt tekið er auðvitað ekki einkavæðing en er oft nauðsynlegur aðdragandi og undanfari hennar, getur oft gert mikið gagn með því að breyta

viðmiðunum og viðhorfum í rekstri slíkra fyrirtækja. Ríkisstjórnin sem nú situr og flokkarnir sem að henni standa eru sammála um það að tími sé til kominn að draga úr ríkisrekstri í atvinnuvegum landsins. Þetta er einfaldlega hagkvæmnismál en ekki trúarbrögð. Fyrir einkavæðingunni eru margvísleg rök. Ég ætla nú að nefna nokkur þeirra í stuttu máli.
    Ég nefni þar í fyrsta lagi að í ýmsum greinum er nú alls ekki þörf fyrir að ríkið reki fyrirtæki þótt á sínum tíma hafi þótt nauðsynlegt að það stæði að uppbyggingu þeirra.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að af ríkissjóði verði létt fjárhagslegum ábyrgðum á rekstri sem er óskyldur þeirri starfsemi sem er meginverkefni hvers ríkis og grundvöllur þess, svo sem öryggi og velferð borgaranna, menntastofnanir, löggæsla, dómstólar o.s.frv.
    Ég nefni í þriðja lagi að margföld reynsla sýnir að allur venjulegur atvinnurekstur er yfirleitt miklu betur kominn í höndum einkaaðila en hins opinbera sökum mismunandi viðhorfa til hagkvæmni í rekstri og meiri hvatningar í einkarekstrinum til þess að ná þar árangri.
    Í fjórða lagi nefni ég, og það er í dag ákaflega mikilvægt, að ríkissjóði er nú brýn nauðsyn á að losa fé sem bundið er í ýmsum atvinnufyrirtækjum sem hann á eða á hluti í. Ég tel að hluta af þessu fé sem þannig losnar eigi að leggja í rannsóknir og þróunarstarfsemi sem er grundvöllur nýsköpunar í íslensku atvinnulífi. Við eigum í þessu efni að fylgja fordæmi þjóða eins og t.d. Þjóðverja. Þetta er framtíðarmál því eins og kom hér fram í athyglisverðri ræðu hv. 4. þm. Austurl. hefur á undanförnum árum gengið erfiðlega að tryggja fé til þessara þörfu verka.
    Ég nefni svo í fimmta og síðasta lagi að nú nokkur hin síðustu ár hefur myndast hér á landi og um hann verið settar leikreglur, verðbréfamarkaður, sem gefur möguleika til þess að selja eignarhluti í fyrirtækjum með eðlilegri hætti en áður var unnt. Á næstunni verður á þessum grundvelli gerð vönduð áætlun um sölu ríkisfyrirtækja á næsta ári og næstu árum. Auðvitað þarf að leysa ýmis vandamál áður en næstu skref verða stigin í þessum efnum. Ég nefni þar fyrst og fremst ýmis réttindamál starfsmanna, ekki síst lífeyrismál þeirra en þetta þarf að leysa á samningavettvangi ríkis og stéttarfélaganna þar sem fjmrn. fer með forsvar ríkisins eins og kunnugt er. Þá þarf að taka til alveg sérstakrar athugunar einokunaraðstöðu sumra opinberra fyrirtækja og þá alveg sérstakra fyrirtækja sem búa við það sem kalla mætti náttúrlega einokun eins og víða er um veitustofnanir. En nú er einmitt unnið að undirbúningi nýrrar samkeppnislöggjafar sem ætlað er að taka á þessum viðfangsefnum. ( SJS: Hvernig er hin ónáttúrlega einokun?) Það er von að þingmaðurinn spyrji.
    Þá tel ég rétt að gerð verði sérstök úttekt á því hvaða aðferðir séu heppilegastar til þess að ákveða upphafsverð hlutabréfa ríkissjóðs í ýmsum atvinnufyrirtækjum hans og ekki síður að hugað verði að leiðum til að tryggja dreifða eignaraðild í þeim til þess að ná markmiðinu sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur lengst manna barist fyrir og hefur stundum kallað fjárstjórn fjöldans. Ég tel þetta eftirsóknarvert markmið og þessi ríkisstjórn mun beita sér fyrir því.
    Breyting á opinberum stofnunum á sviði atvinnurekstrar í hlutafélög og síðar sala ríkissjóðs á hlutabréfaeigninni þjónar einmitt markmiðunum sem ég nefndi fyrr í máli mínu, að gera atvinnulífið hagkvæmara og árangursríkara en ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á þýðinguna sem salan getur haft til þess að efla hér hlutabréfamarkað. Við verðum nú að ná fram verulegri dreifingu á eignarhaldi í hinum einkavæddu fyrirtækjum en forðast að hún valdi því að aukið efnahagslegt vald í þjóðfélaginu færist á fáar hendur. Ef það fylgir einkavæðingunni þá missir hún að verulegu leyti marks. Við verðum að vinna að því að almenningur og fyrirtæki varðveiti hluta af sínum sparnaði í hlutabréfum í traustum almenningshlutafélögum þannig að fyrirtækin verði áfram í eigu þjóðarinnar þótt þau hverfi

af efnahagsreikningi ríkisins.
    Virðulegi forseti. Margir þeirra hv. þm. sem tekið hafa til máls í þessari umræðu hafa gert vaxtamálin að sérstöku umræðuefni. Ég nefni þar ekki síst hv. 7. þm. Reykn. og hv. 4. þm. Norðurl. e. Aðilar vinnumarkaðarins hafa einnig eðlilega rætt mikið um vaxtamál í yfirstandandi kjaraviðræðum og hafa m.a. átt fundi með fulltrúum Seðlabankans og viðskiptabankanna og viðskrn. Ég vil því fara nokkrum orðum einmitt um vaxtamálin og þau viðfangsefni sem þar er við að fást.
    Ég vildi líka, virðulegi forseti, leggja á það alveg sérstaka áherslu að menn reyndu að styðjast við staðreyndir en ekki ímyndanir sem því miður einkennir stundum umræður um þessi mál. Í nýútkominni greinargerð Seðlabankans um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum er fjallað ítarlega um vaxtamál og þar kemur fram að vaxtaþróunin á þessu ári hefur fyrst og fremst einkennst af þrennu.
    Í fyrsta lagi voru nafnvextirnir á óverðtryggðum ríkisvíxlum og skuldabréfalánum bankanna í lægra lagi fyrstu mánuði ársins miðað við verðlagsþróun og ástand á lánsfjármarkaði. Þetta kom mjög glöggt fram í umræðum í maí og í lok apríl við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þá kom m.a. fram frá fyrrv. fjmrh., hv. 8. þm. Reykn., að vextirnir á þessum ríkispappírum væru of lágir.
    Í öðru lagi. Ávöxtun spariskírteina ríkissjóðs og raunvextir verðtryggðra lána hækkuðu um næstum 2% um mitt árið, úr 8% í um það bil 10%. Það háa raunvaxtastig, sem er mörgum skuldugum aðilum þungbært, hefur í aðalatriðum haldist síðan.
    Þriðja megineinkennið á vaxtaþróun ársins er það sem forsrh. gerði sérstaklega að umtalsefni í framsöguræðu sinni, nefnilega ör lækkun á nafnvöxtum á óverðtryggðum skuldbindingum frá því í októberbyrjun samfara hinni öru hjöðnun verðbólgunnar. Bankarnir hafa nú lýst því yfir hver um sig að það verði framhald á þessari þróun, þ.e. lækkun nafnvaxtanna samfara því að hér komist á kyrrari kjör í verðlagsmálum. Ef við lítum svo á raunávöxtun óverðtryggðra skuldbindinga um þessar mundir og berum hana saman við vexti af verðtryggðum skuldbindingum kemur í ljós nokkur mismunur.
    Það er mat Seðlabankans að raunávöxtun óverðtryggðra skuldabréfa hafi verið rúmlega 12% á þriðja fjórðungi ársins og það er spá bankans að hún verði tæplega 14% á síðasta fjórðungi ársins. Þetta eru ákaflega háir vextir, svo háir að þeir fá ekki staðist til lengdar. Vextir af verðtryggðum skuldabréfalánum eru hins vegar nú um 10%.
    Önnur samanburðaraðferð í þessu máli er að bera raunávöxtun óverðtryggðra skuldabréfa hér á landi saman við það sem gerist erlendis með svipaðar kröfur. Niðurstaðan af slíkum samanburði er að þar sé líka munur sem telja mætti í nokkrum prósentustigum þótt erfitt sé að meta hann nákvæmlega. Niðurstaðan af þessu hvoru tveggja er sú að nafnvextir og raunvextir séu nú í hæsta lagi og mikilvægt að þeir fari lækkandi, sérstaklega á þetta við um nafnvextina sem afar brýnt er að fari nú hratt niður samfara hjöðnun verðbólgunnar. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir atvinnufyrirtæki og almenning og að því mun og hefur ríkisstjórnin og Seðlabankinn unnið. Ég legg hins vegar á það mjög ríka áherslu að í þessum efnum á bein íhlutun ekki við heldur munu vextirnir lækka með frjálsum ákvörðunum á næstunni. Í því sambandi er afar mikilvægt, eins og hver maður getur skilið, að trúnaður ríki og trú á því að sá stöðugleiki í verðlagi og launum sem er að nást um þessar mundir haldist næstu missirin. Þetta er lykilatriði. Þetta bæði veit þjóðin og skilur og það er þetta sem ríkisstjórnin hefur í hyggju að fylgja fast eftir. Með betra jafnvægi í ríkisfjármálum og frekari opnun fjármagnsmarkaðarins, skapast raunhæfar, raunverulegar forsendur fyrir lækkun raunvaxta. Það er þess vegna ákaflega mikilvægt að þetta frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og frumvörpin, sem nú liggja fyrir þinginu um starfsemi útibúa erlendra banka á Íslandi um þróun gjaldeyrismarkaðar og um breytingar á gengisfyrirkomulaginu, fái hér góðan stuðning.
    Og hvers vegna er þetta alveg sérstaklega mikilvægt nú? Það er af því að í hagkerfi nútímans gegnir fjármagnsmarkaðurinn því mikilvæga hlutverki að miðla fjármagni frá sparifjáreigendum til arðbærra verkefna. Og einmitt skilyrði þeirrar óvissu sem nú ríkir um efnahagshorfur, bæði hér heima og í umheiminum og mun því miður gera næstu missiri og hugsanlega ár, gera það að verkum að hagvöxtur verður í ríkara mæli en fyrr að koma frá nýjum fyrirtækjum í nýjum greinum, í öðrum greinum en hinum hefðbundnu. Þess vegna er sérstök þörf á því að virkur fjármagnsmarkaður geti fært fé á hagkvæman hátt til nýrra vaxtarbrodda í atvinnulífinu. Aukin erlend samkeppni á fjármagnsmarkaði er afar þýðingarmikil til þess að draga úr ýmsum annmörkum á okkar innlenda markaði.
    Ég nefni í þessu sambandi, sem mikilvægar aðgerðir, einkavæðingu ríkisbankanna, breytingu á fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna í hlutafélög og síðast en ekki síst breytingar á skipulagi lífeyrissjóða. En lífeyrissjóðirnir eru afar fyrirferðarmiklir á okkar innlenda fjármagnsmarkaði og það er þess vegna sérlega nauðsynlegt að huga vel að þeirra störfum. Ég held að þar væri e.t.v. besta ráðið að veita einstaklingum aukið frelsi til að velja á milli lífeyrissjóða til að mynda sinn lífeyrissparnað. Þannig mundi aukast þrýstingur á sjóðina að hámarka verðmæti eigna sinna. Núverandi skipulag lífeyrissjóðanna, niðurbrotið eftir svæðum og atvinnugreinum, getur því miður orðið til þess að önnur sjónarmið en arðsemi hafi áhrif á fjárfestingar sjóðanna. Þá tel ég íhugunarefni hvernig sjóðirnir koma fram sameiginlega á innlendum fjármagnsmarkaði og öðlast þannig meira efnahagslegt vald en þeir annars hefðu. Við þurfum á næstunni að huga mjög vandlega að þessu því að það er víðar samþjöppun valds en í atvinnufyrirtækjum og bönkum. Þess gætir ekki síður í lífeyrissjóðakerfinu.
    Virðulegi forseti. Ég hef með nokkrum orðum fjallað um almenna þætti í efnahagsþróuninni og nokkur almenn atriði þeirrar efnahagsstefnu sem nauðsynleg er til þess að styrkja innviði efnahagslífsins og bæta hið efnahagslega umhverfi atvinnulífsins í landinu. Þessi umræðuefni voru líka umræðuefni forsrh. í framsöguræðu hans. En við ríkjandi aðstæður er án efa líka nauðsynlegt að huga að úrbótum í einstökum atvinnugreinum og fjárhagslegri endurskipulagningu atvinnulífsins. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að atvinnuvegirnir ganga nú í mörgum greinum gegnum mikið breytingaskeið og erfiðleika sem því eru samfara. Og ég vil taka undir það með forsrh. að nú þarf að beina fjármagni Fiskveiðasjóðs, svo dæmi sé tekið, frá skipakaupum einmitt að þessum verkefnum, að uppbyggingu fiskvinnslunnar. Við þurfum nú einnig að fara mjög vandlega yfir þá möguleika sem sjávarútveginum gefast með samningunum um Evrópskt efnahagssvæði og kynna þá sérstaklega til þess að efla hér atvinnu og nýsköpun í þessari grónu grein. Það er augljóst mál að erfiðleikarnir í sjávarútveginum hljóta að hafa veruleg áhrif á þjóðarhag og afkomu í öðrum atvinnugreinum eins og þegar hefur komið fram. Ég nefni auðvitað sérstaklega í þessu sambandi iðnað og þjónustu sem tengist sjávarútveginum.
    En um annan almennan iðnað í landinu er það að segja að hann hefur að undanförnu gengið allvel þegar á heildina er litið. Þetta er til marks um það að íslensk fyrirtæki hafa staðist samkeppni frá öðrum ríkjum á fríverslunarsvæðinu því að það er einmitt hinn almenni iðnaður sem hefur nú um meira en 10 ára skeið staðið í algerlega opinni samkeppni á íslenskum markaði. Íslensku fyrirtækin byggja að vísu á heimamarkaðnum og hafa lítt leitað sóknarfæra á erlendum markaði en þar eru einmitt möguleikarnir. Það er sú víkkun markaðstækifæranna sem alþjóðaverslunin felur í sér sem getur einmitt eflt okkar atvinnulíf.
    Það eru nokkrar athyglisverðar undantekningar frá því að smærri iðnfyrirtæki okkar hafi eingöngu helgað sig heimamarkaðnum. Af hálfu stjórnvalda hefur verið stutt við vöruþróunar- og markaðsstarfsemi með sérstakri deild hjá Iðnlánasjóði og í störfum Iðntæknistofnunar og í sumum tilvikum með beinum styrkjum. Þá er athyglisverður árangur af auknu samstarfi okkar við önnur ríki EFTA og Evrópubandalagsins á sviði vöruþróunar og vísindasamstarfs og nú síðast hefur t.d. verið komið á fót sérstöku samstarfsneti fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem getur auðveldað þeim að nýta möguleika á sviði tækni og markaðsmála á erlendri grund. Nýir vaxtarsprotar eru að koma í ljós. Ég nefni þar pökkun og útflutning á vatni í höndum nokkurra drykkjarvöruframleiðenda. Af hálfu stjórnvalda er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að þar verði ekki um nýtt fjárfestingarævintýri að ræða heldur verði unnið að þessu af öruggri þekkingu og strangar kröfur gerðar til framleiðslugæða og viðskiptalegs undirbúnings.
    Ég vil líka nefna verslunarþjónustuna í landinu sem er okkur mikilvæg og á nú í nokkrum erfiðleikum, sérstaklega úti um hinar dreifðu byggðir. Dagvöruverslunin í strjálbýlinu stendur nú á brauðfótum af ýmsum ástæðum. Nú er unnið að undirbúningi aðgerða til að styrkja hana þar eð ella er veruleg hætta á því að hún félli niður með öllu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum í einstökum byggðarlögum. Önnur smásöluverslun í landinu á hinum þéttbýlu svæðum býr nú við samdrátt í veltu, m.a. vegna mikilla innkaupa í ferðalögum þjóðarinnar en auðvitað líka vegna þess að nú hefur slegið í baksegl.
    Ég hef í huga að kanna leiðir til úrbóta, svo sem að líta á tollalækkanir á innflutningi frá Bandaríkjunum sem gætu leitt til lækkaðs innflutningsverðs á ýmsum vörutegundum, einkum í dagvöruverslun án þess að ríkissjóður missti þar spón úr sínum aski því að af þessum tollum hefur hann nú engar tekjur.
    Þessi atriði, sem ég hef hér nefnt, eru m.a. tilkomin vegna þess sem hér kom fram í máli hv. 4. þm. Austurl. sem sagðist sakna þess að hér væru rædd í nánum greinum málefni hinna smærri fyrirtækja hins almenna iðnaðar og þjónustu út um landið. Það er vissulega mikil þörf á því og þótt nú hafi slegið í baksegl um sinn verðum við auðvitað að horfa fram á veginn um atvinnuþróun og aðgerðir til þess að ráða bót á aðsteðjandi vanda, verða á hverjum tíma að taka mið af langtímastefnu.
    Við þurfum að fylgja markvissri stefnumótun í atvinnumálum. Annars fara lífskjörin hér versnandi í samanburði við okkar nágrannaþjóðir. En þegar þetta er hugleitt er líka eitt ákaflega brýnt verkefni augljóst og það er að búa okkar atvinnulífi vaxtarskilyrði með því að samræma rekstrarumhverfið hér því sem gerist og gengur á hinu stóra markaðssvæði sem við tengjumst nú senn, Evrópska efnahagssvæðinu. Reyndar þyrftu skilyrðin hér á landi helst að vera heldur betri en keppinautanna ef atvinnulíf okkar á að geta tekið þann fjörkipp á næstu árum sem nauðsynlegur er til þess að verjast áföllum og síðar að bæta lífskjörin.
    Þetta verkefni er ákaflega brýnt hér á þinginu því að á næstu missirum fram til áramótanna 1992--1993 þurfum við að ganga mjög skipulega til verks og endurskoða marga þætti í rekstrarumhverfi atvinnulífsins á Íslandi. M.a. þarf að fara yfir alla skattlagningu fyrirtækja, aðgang að fjármagnsmarkaði og ýmsar tæknilegar og stjórnsýslulegar hindranir sem veikja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Þetta er mikilvægt til þess að við getum nýtt okkur þá fjölbreyttu kosti sem íslenska atvinnulífinu opnast með EES-samningunum.
    Ég held, virðulegi forseti, ef ég á að taka út eitt atriði að þetta sé mikilvægasta atriðið í næstu aðgerðum stjórnvalda á sviði atvinnumála. En einmitt þannig má stuðla að jákvæðri þróun og stuðningi við nýsköpun í atvinnulífinu. Það er auðvitað fyrst og fremst verkefni ríkisvaldsins að móta heilbrigt efnahagslegt umhverfi fyrir atvinnulífið, setja því réttlátar leikreglur, tryggja að á milli atvinnugreinanna ríki jafnvægi þannig að raunveruleg arðsemi ráði verkefnavalinu. En ríkið á auðvitað líka að tryggja atvinnulífinu og fólkinu traust menntakerfi, vakandi rannsóknar- og þróunarstarf, góðar samgöngur og orkukerfi. Þetta er

auðvitað það sem ýmsir hafa að undanförnu kosið að kalla afskiptaleysisstefnu. En ég álít bæði með tilliti til reynslunnar, almennra viðskiptasjónarmiða og reynslu annarra þjóða að þetta sé sú eina atvinnustefna sem fái staðist til lengdar. Það er hins vegar ljóst að hluti af því að móta hið almenna umhverfi er einmitt að tryggja að það sé jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir, þróun nýrrar vöru og þjónustu og stofnun nýrra fyrirtækja. Hér skipta rannsóknir og þróunarstarf lykilmáli og eins og ég vék hér að áðan er ein röksemdin fyrir einkavæðingunni einmitt sú að þannig geti ríkissjóður losað nokkra fjármuni til að leggja í þessa undirstöðu.
    En að þessum verkefnum koma auðvitað fleiri en ríkisvaldið. Sveitarfélögin veita fólki og fyrirtækjum aðstoð í þessum efnum og svæðisbundið samstarf sveitarfélaga, atvinnulífs og áhugamanna í atvinnuþróunarfélögum hefur víða gert mikið gagn. Og af mikilvægum verkefnum opinberra aðila á sviði atvinnulífsins vil ég einmitt nefna menntun og starfsmenntun, endurmenntun, ráðgjöf, tækni og rannsóknarþjónustu og fjárhagslega aðstoð vegna þróunarstarfs. Með þessu móti, með samstarfi ríkisvaldsins, sveitarfélaganna og atvinnuþróunarfélaganna, er hægt að veita stuðning til frumkvöðla og ekki síður við gerð áætlana og hönnunar á nýjum hugmyndum og framleiðslu.
    Menn hafa bæði hér og erlendis mikið rætt um það hver sé æskilegasta leiðin til að fjármagna þessa starfsemi og hv. 4. þm. Austurl. vék nokkuð að því áðan. Menn hafa víða stofnað sérstök fjármögnunarfyrirtæki eða þróunarfélög í því skyni að fjárfesta í áhættusömum nýjum rekstri. Í upphafi var auðvitað hugmyndin á bak við þessi félög að rekstur þeirra þyldi töp á talsverðum hluta fjárfestinganna vegna þess að verulegs ágóða væri að vænta af þeim sem vel gengju. Reynslan hefur hins vegar orðið sú að víðast hafa töpin komið strax en gróðinn látið á sér standa. Margir áhættusjóðirnir, sem upphaflega áttu að vera, hafa því farið í að fjárfesta í grónum fyrirtækjum eða ríkispappírum í stað þess að stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja. Við þekkjum þessa þróun vel. Það er mjög mikilvægt að þróunarstarfið fari fram, ekki aðeins með fjármagni fyrirtækjanna, heldur einnig með tækniþekkingu þeirra, markaðskunnáttu og síðast en ekki síst þeim drifkrafti framtaks sem er forsenda alls vel heppnaðs atvinnurekstrar. Það þarf því að tengja saman rannsóknir, þróunarstarf, framleiðslu og markaðssetningu og samhæfa starf opinberra aðila og einkafyrirtækja á þessu sviði.
    Ég vil því taka undir þann hluta ræðu hv. 4. þm. Austurl. sem fjallaði um mikilvægi rannsóknar- og þróunarstarfa. Ég vil líka nefna hér að við þurfum að tengja okkar skólakerfi, ekki síst Háskólann, betur við atvinnulífið. Eitt besta dæmið um slíka samtengingu eru tæknigarðarnir. Það er að vísu svo að tæknigarðurinn sem hér hefur verið reistur við Háskóla Íslands í samstarfi nokkurra aðila hefur e.t.v. enn ekki sýnt þau dæmi um vel heppnaða hjúskaparmiðlun rannsóknarstarfsemi og atvinnulífs sem menn væntu af honum en ég er sannfærður um það að lífvænlegt samstarf milli háskóla og rannsóknarstofnana og atvinnulífsins er einmitt eitt það mikilvægasta fyrir framþróun okkar atvinnulífs. Hugbúnaðariðnaðurinn er einnig gott dæmi um atvinnugrein sem þannig er til komin og hefur verið í örum vexti á Íslandi á undanförnum árum. Á ákveðnum sviðum hans þar sem við njótum þekkingar og sérstöðu ættum við að geta náð mjög langt eins og dæmin sýna þegar á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Með samstilltum aðgerðum ríkis og sveitarfélaga má þannig stuðla að stofnun smáfyrirtækja. Með námskeiðahaldi og aukinni þjónustu ráðgjafar- og tæknistofnana má styrkja nýsköpun. Til greina kemur einnig að einhvers konar ívilnun verði veitt til þess að hvetja til stofnunar iðnfyrirtækja á landsbyggðinni.
    Á sviði skipaiðnaðarins þarf að styðja við nýsköpun í gerð og búnaði fiskiskipa og huga að því hvernig best verður staðið að fyrirsjáanlegri endurnýjun fiskiskipaflotans á næstu árum. Þar þarf að hafa í huga áformaða lækkun eða jafnvel afnám á styrkjum til skipasmíða í öðrum ríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis. Þar getur einmitt Evrópusamstarfið fært okkur nokkur búdrýgindi. Það þarf líka að styrkja betur starf og samtengingu fiskmarkaðanna þannig að afli landsmanna verði í auknum mæli seldur á innlendum markaði þar sem íslensk fiskiðnaðarfyrirtæki fái möguleika til þess að keppa um hann. Stuðla þarf að frekari uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu og skapa hér alþjóðlega miðstöð fyrir flug og skipasamgöngur, og e.t.v. fyrir skráningu erlendra skipa.
    Virðulegi forseti. Í lok þessar upptalningar minnar verður síðast en ekki síst að halda áfram að byggja hér upp orkufrekan iðnað með byggingu álvers og með því að fá til samstarfs smærri fyrirtæki sem þarfnast mikillar raforku til framleiðslu sinnar og ég nefni þar eitt dæmi sem nú er á döfinni, slípiefnaframleiðslu sem byggist á rafbræðslu báxíts.
    Ég held að mönnum hafi sjaldan verið ljósari þörfin fyrir slíkar viðbæturt við undirstöðu atvinnulífsins en einmitt nú. Þetta segi ég m.a. vegna orða hv. 4. þm. Austurl. sem talaði gegn slíkri þróun áðan og vakti það furðu mína því hann lagði, þegar hann var iðnrh., sem hann var um allmargra ára skeið, einmitt áætlanir fram í tímann sem byggðust á stóraukinni nýtingu orkulinda landsins til orkufreks iðnaðar og þar gat ekki verið um neitt annað að ræða, í þessum framtíðarspám, en álbræðslu. Og þótt nú ári ekki vel til slíkra framkvæmda þá er næsta víst og alveg víst að þegar efnahagsástand í heiminum vænkast og loksins, loksins kemst eitthvert vit í þjóðarbúskap þeirra ríkja sem nú eru að rísa úr rústum kommúnismans þá mun líka rísa hér álver sem bætir almannahag.
    Auðvitað verðum við að huga að fleiru, virðulegi þingmaður. Við erum nú að gera úttekt á kostum þess að stofna hér frísvæði fyrir iðnað og fjármálaþjónustu. Ég gæti þannig lengi haldið áfram að telja það sem verið er að fást við til þess að efla hér nýsköpun og það sem mikilvægast er, framfarir í landinu á grundvelli nýrra fyrirtækja, því það er þannig sem framfarirnar verða.
    Íslenskt atvinnulíf verður í framtíðinni órjúfanlegur þáttur í efnahagslífi Vesturlanda. Það er þannig sem við munum efnast. Einungis með því að miða okkar aðgerðir á þessari stundu við þessa staðreynd munu þær heppnast. Mikilvægasta verkefnið sem liggur fyrir þessu þingi er að ná tökum á fjármálum ríkisins. Frv. sem við ræðum í dag er einmitt mjög mikilvægur þáttur þeirrar viðleitni.