Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 21:40:00 (1686)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Nú kemur sér vel að kötturinn hefur níu líf því spurningarnar eru svo margar að ég gæti þurft að vera hér lengi ef ég ætti að svara þeim öllum sem vert væri.
    Í fyrsta lagi ætla ég mér ekki að svara því hér og nú hverjir gætu verið kaupendur að svo góðum banka sem Búnaðarbankinn er. Á það mun að sjálfsögðu reyna á markaði.
    Í öðru lagi spyr þingmaðurinn hvort ég vilji afnema ríkisábyrgðina á sparifjárinnstæðum almennings. Svarið er nei, ég hef það ekki í huga.
    Í þriðja lagi spyr hann mig eftir áliti á því sjónarmiði sem fram mun hafa komið hjá fjmrh. að selja þennan góða banka á hálfvirði. Ég er ekki hlynntur því sjónarmiði. Ég vil fá sannvirði fyrir Búnaðarbankann vegna þess að þannig og aðeins þannig er almannahagsmuna gætt.
    Í fjórða lagi var spurt: Þolir verðbréfamarkaðurinn að svo stór skammtur verði á hann settur á næsta ári? Það þarf að athuga, virðulegi þingmaður.
    Og loks í fimmta og síðasta lagi, eins og ég nam spurningar þingmannsins, spyr hann mig um álit hv. 17. þm. Reykv. á tiltekinni bankasölu hér fyrir nokkrum árum og þá verð ég nú að segja um hann líkt og um hv. 5. þm. Suðurl. þá getur jafnvel hinum skýrustu mönnum skotist og það henti hinn 17. þm. Reykv., þegar hann hélt að Guðmundur J. væri í fjölskyldunum fjórtán. Það er hann ekki frekar en Ásmundur Stefánsson eða aðrir forustumenn verkalýðsfélaga sem eru stórir eigendur að Íslandsbanka. Ég býst við því að þeir mundu alls ekki fallast á það að flokkast á þennan hátt en vafalaust mun hv. 17. þm. Reykv. gá betur að þessu og miðla þeim fróðleik til hv. 5. þm. Suðurl. og þá mun allt falla í ljúfa löð.