Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 22:44:00 (1691)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Við höfum í morgun heyrt boðskap ríkisstjórnarinnar af vörum forsrh. Hvort allir þingmenn hafa náð að nema þann boðskap í hraðlestrarflutningi hæstv. forsrh. dreg ég reyndar mjög í efa, eins og hefur víst komið fram áður. En að sjálfsögðu reynum við stjórnarandstöðuþingmenn að hlusta vel enda öll af vilja gerð til að greiða fyrir störfum þingsins.
    En, virðulegi forseti, það frumvarp, sem hér er til umræðu, er loksins fætt eftir miklar fæðingarhríðir í ríkisstjórnarflokkunum. Hér höfum við setið við þingstörf í níu vikur og fjallað hefur verið um allnokkur frumvörp frá stjórninni sem vel hefðu mátt bíða, þjóðinni að skaðlausu. Þar get ég nefnt frumvarp eins og um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, sem ekki á að taka gildi fyrr en í september á næsta ári, ef af verður, frumvarp um kirkjugarða, um tengingu við ECU, um Framkvæmdasjóð Íslands og fleiri mætti nefna.
    En þau frumvörp sem í dag skipta hina íslensku þjóð mestu máli, þ.e. um efnhagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar, þau hafa beðið. Þau hafa ekki komið fram í þinginu. Á meðan hefur stjórnarandstaðan setið undir því ámæli að hún stöðvaði vinnuna í þinginu með málþófi og mál fengju ekki eðlilegan framgang í gegnum þingið. Ég mótmæli því sem tilhæfulausum áróðri. Það eru fyrst og fremst þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa séð til þess að mál fengju hér eðlilega afgreiðslu. Það getur ekki verið okkur að kenna að stjórnarliðið hefur ekki haft dug í sér til þess að ganga frá þeim frumvörpum sem fyrst og fremst þurftu að fá málsmeðferð í þinginu.
    Það er auðvitað merki um léleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að þetta frumvarp skuli fyrst koma fram nú, þegar ekki á að vera nema ein vika eftir í jólafrí samkvæmt starfsáætlun þingsins. Sama má segja um fjárlagafrumvarpið sem nú er til umfjöllunar í fjárln. Stjórnarandstaðan hefur þar ítrekað beðið um upplýsingar svo vinnan geti haldið áfram og hægt sé að koma frumvarpinu nokkurn veginn fullsköpuðu til 2. umr. En ríkisstjórnin liggur á sínum tillögum eins og ormur á gulli þó að sennilega sé nú ekki mikið gull að finna í þeim tillögum þegar þær svo loks koma fram í dagsljósið.
    Mér finnst að á þessu verðum við að vekja athygli. Á sama tíma og við erum ásökuð um það í fjölmiðlum að þingið sé ekki starfhæft, sem ekki hefur við nein rök að styðjast ef skoðuð eru þau mál sem komin eru fram, kemur ríkisstjórnin ekki með þau frumvörp sem henni er ætlað að leggja fram fyrr en svo langt er liðið á þinghald að keyra verður málin í gegn án þess að um þau sé hægt að fjalla á eðlilegum tíma. Ég ætla mér ekki mögulegt að ræða það eins og vert væri hér í kvöld, aðeins að benda á nokkur atriði, enda býst ég við að nú eigi að keyra þinghald áfram í dag og á morgun til þess að koma frumvarpinu til 2. umr.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að drepa á nokkur atriði sem mér finnst að þurfi að koma fram. Það getur vel verið að aðrir séu búnir að benda á þau á undan mér en það sýnir þá bara hve mikilsverð þau eru.
    Það er raunar eins og rauður þráður í gegnum frv. að verið er að breyta lögum sem hafa víðtæk áhrif á líf fólks og aðstæður allar. Þar getum við tekið t.d. 1. gr. frv. þar sem verið er að draga til baka öll þau nýmæli sem Alþingi samþykkti á sl. vetri í nýjum grunnskólalögum. Hætta á við að bjóða upp á skólamáltíðir og vikulegum viðmiðunarstundum í grunnskóla verður ekki fjölgað. Ekki á að koma til þeirrar fækkunar í bekkjum sem áætlað var. Hér eftir sem hingað til er hægt að hafa allt að 29 nemendum í hverri bekkjardeild. Það sér hver maður að það að ætla einum kennara að sinna öllum þeim hóp svo viðunandi sé er óframkvæmanlegt. Til mikilla bóta hefði verið fyrir allt skólastarf að taka raunhæft á því máli og koma lögunum í framkvæmd.
    Þá er 6. mgr. 46. gr. grunnskólalaganna felld út þar sem kveðið er á um skólaathvörf.

Ekki verður þó séð að það ákvæði hefði þurft að taka stóran hluta af tekjum ríkissjóðs, þar sem í lögunum var heimilt að taka gjald fyrir hvern nemanda, og því meira undir framkvæmdinni komið og þar með undir stjórnendum skóla hvernig tækist til.
    Í 2. gr. þessa frv. er einungis verið að kveða skýrar á um byggingarkostnað vegna heilsugæslu og tannlæknaþjónustu í grunnskólum og að kostnaður við slíkt húsnæði sé alfarið tilheyrandi stofnkostnaði skóla, sem nú er að öllu leyti mál sveitarfélaganna. En ég bendi á að það er ekkert sjálfgefið þar sem hér væri um húsnæði vegna heilsugæslu skólabarna að ræða og því mjög athugandi hvort það félli ekki frekar undir lög um heilsugæslu en undir grunnskólalögin.
    Alls er áætlað að breytingar á grunnskólalögunum spari einar litlar 40 milljónir á næsta ári. Þarna er ekki um stóra fjárhæð að ræða en breytingarnar stöðva allar þær framfarir sem fyrirhugaðar voru með þessum nýju grunnskólalögum.
    Þá er í þessu frumvarpi ýmislegt sem kemur niður á bændum og er það í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar að draga saman hina dreifðu byggð um landið og neyða fólk til flutnings. Bændum kemur það ekki á óvart að fá á sig meiri skerðingu í ýmsum málaflokkum. Íslenskur landbúnaður hefur átt undir högg að sækja hin síðari ár. Veist hefur verið að honum úr öllum áttum og sérstaklega hefur þeim sem stunda sauðfjárrækt verið legið á hálsi fyrir offramleiðslu og ofbeit og eyðingu lands --- og of hátt verð á landbúnaðarafurðum.
    Í þessu frumvarpi er höggvið í jarðræktarlögin þar sem ríkið ætlar nú að ákveða hve mikið það greiðir bændum fyrir ræktunarframkvæmdir. Þar er verið að hefta einstaklingsframtakið sem ríkisstjórninni er þó svo mikið í mun að styðja. Sjálfsbjargarviðleitnin er lítils metin og það framtak að rækta land sitt til góða fyrir komandi kynslóðir er skert með þessu frv. ef að lögum verður.
    Fyrirhugað er líka að takmarka greiðslur fyrir eyðingu refa og minka þó að þess sé ekki getið í frv. Verði það gert er þar líka um skerðingu að ræða fyrir marga bændur sem hafa sumir hverjir haft af því nokkrar aukatekjur.
    Greiðsla fyrir afleysingaþjónustu í sveitum er afnumin og einnig framlag ríkisins til mats á búvörum. Báðir þessir liðir eru settir á núll. Þá er Framleiðnisjóður landbúnaðarins skertur um rúmlega helming, eða úr 700 millj. í 340 millj., sem gerir það að verkum að hann hefur nánast ekkert svigrúm til að sinna nýjum verkefnum á næsta ári, og er honum þó ætlað að styðja búháttabreytingar. Þær eru einmitt boðaðar í framhaldi af þeim niðurskurði sem í gangi er í hefðbundnum búgreinum.
    Þá er ekkert framlag í Bjargráðasjóð á árinu og er þar um 65 millj. að ræða samkvæmt mati fjmrn. Allt eru þetta árásir á bændur. Skerðingarupphæðin, sem hér um ræðir samkvæmt áliti fjmrn., er u.þ.b. 530 millj. kr., sem fyrst og fremst kemur niður á bændum en hefur auðvitað keðjuverkandi áhrif á allt atvinnulíf í landinu.
    5. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir auknum álögum á sjávarútveginn. Ákvæði um veiðieftirlit eru í lögum og þar er hið opinbera að framkvæma eftirlit með því að menn fari að lögum við veiðar á Íslandsmiðum. Með þessu ákvæði er verið að skylda þá sem verða að sæta þessu eftirliti, nauðugir viljugir, að borga fyrir það. Ríkið hefur komið á þessu eftirliti og ætti því að standa straum af kostnaði við það eins og af hverri annarri löggæslu. Þætti okkur það ekki einkennilegt ef við ættum að greiða sérstakt gjald fyrir þá löggæslu sem innt er af hendi í borgum og bæjum?
    Þá skil ég ekki, frekar en margir aðrir sem hafa talað á undan mér, hvers vegna 6. gr., um breytingu á lögum um kosningar, er meðal þessara tillagna um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég get ekki séð að það spari nein útgjöld á næsta ári, nema ríkisstjórnin sé ákveðin í að efna til kosninga í kjölfar fylgistaps sem hún verður fyrir samkvæmt öllum skoðanakönnunum. Það er e.t.v. raunsætt að gera ráð fyrir því. Í sambandi við breytingu, sem fyrirhuguð er, hef ég þó vissar efasemdir um að nægilegt sé að auglýsa eingöngu nöfn frambjóðenda í Lögbirtingablaðinu nema um leið sé tryggt að það sé borið á hvert heimili í landinu. Hins vegar held ég að þær auglýsingar sem birst hafa í útvarpi um framboðslista fari oft fyrir ofan garð og neðan hjá hlustendum. En auglýsingar þessar hafa jafnframt verið einn af tekjustofnum þeirra sem gefa út blöð sem lið í kosningabaráttu sinni, sérstaklega á landsbyggðinni. Því er með þessu verið að þrengja verulega að nýjum framboðum sem ekki njóta neinna ríkisstyrkja og tel ég þar vera um að ræða aðför að lýðræði í landinu.
    Þá er margt að athuga við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru í sambandi við ríkisábyrgð á laun. Þar er um gjörbreytingu að ræða og aðför að launafólki í landinu. Reyndar furða ég mig ekki á því að ríkisstjórnin skuli reyna að koma sér hjá því að standa ábyrg fyrir þeirri stefnu sem leiða mun til vaxandi gjaldþrota í landinu á næsta ári. Þá er margt mjög óljóst í þessari grein. Ég vil spyrja t.d.: Hvar á þessi sjóður að vera? Hvernig á að stjórna honum? Hvað ef þau framlög sem í hann renna duga ekki til greiðslu á lögbundnum framlögum til þeirra sem eiga að njóta? Þá er verið að bæta auknum álögum á sveitarfélögin án þess að þau fái til þess aukinn tekjustofn. Einnig verða réttindi launþega þrengd verulega, m.a. hvað varðar lífeyrissjóðsiðgjöld af launum sem lenda í gjaldþrotum. Ekki líst VSÍ eða ASÍ á þetta mál því að þau samtök hafa neitað að ræða málið á þessum forsendum, enda ekki von til þess.
    Þetta er raunar ekki eina greinin sem gerir ráð fyrir auknum álögum á sveitarfélögin. Þar er einnig gert ráð fyrir að sveitarfélög greiði 3,5% af kostnaðarverði eða kaupverði félagslegra íbúða. Þetta gæti dregið úr áhuga sveitarfélaga á að byggja félagslegar íbúðir, jafnvel þó að mikil þörf sé fyrir þær. Sama er uppi á teningnum við breytingu á lögum um Fasteignamat ríkisins. Þar er verið að setja hærri gjöld á einstaklinga og sveitarfélög sem njóta þjónustu Fasteignamatsins, eða eins og segir í skýringunum með frv.: ,, . . . er þá fyrst og fremst um að ræða sveitarfélög.`` Á næsta ári munu þá sveitarfélögin greiða 61,6 millj. samanborið við 26 millj. í tekjuáætlun fyrir árið 1991.
    Mér finnst það þurfa sérstakrar skoðunar við hvernig í þessu frv. er verið að bæta álögum á sveitarfélögin, rétt eins og þau standi betur að vígi en ríkissjóður. Ég vænti þess að þegar frv. verður til umfjöllunar í nefnd eða nefndum verði það skoðað sérstaklega. Ég hef hvergi séð að fyrirhugaðir séu tekjustofnar til að mæta þar auknum álögum.
    II. kafli frv. er líka nokkuð umhugsunarverður. Hver einasta grein byrjar með orðunum: Þrátt fyrir ákvæði þessara tilteknu laga skal framlag ríkisins ekki vera hærra en o.s.frv.
    Það er árviss viðburður að slíkt fylgi með frv. til fjárlaga þó að hér sé um mjög margar greinar að ræða að þessu sinni. Þarna er um skerðingu á lögboðnum framlögum að ræða sem eiga sér mörg markaða tekjustofna. Þá er nærtækt að spyrja: Til hvers að vera að setja markaða tekjustofna fyrir einhver tiltekin málefni? Það endar alltaf með því að ekki er farið að lögum heldur settar fram breytingartillögur í þessum dúr að ,,þrátt fyrir ákvæði`` o.s.frv.
    Nú getur vel verið að einhver af þessum lögum þjóni ekki lengur þeim tilgangi sem þau áttu að gera. En hvers vegna þá ekki að breyta þeim til lengri tíma en eins árs eða fella þau niður ef þau hafa misst gildi sitt? Eða kalla breyttir tímar ekki á breytingu á þeim? Í allri þessari súpu eru þó mjög margir liðir þar sem ekki ætti að skera niður lögboðin framlög. Þar get ég nefnt sem dæmi Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Þar er um lögbundinn tekjustofn að ræða og í máli þingmanna undanfarnar vikur hefur komið fram, og eins þegar fulltrúar Ríkisútvarpsins komu á fund fjárln., að menn eru mjög einhuga um að það þurfi að styrkja þennan sjóð. Því skýtur skökku við að ríkisstjórnin skuli nú skerða

hann um 180 millj.
    Þá er kirkjugarðsgjaldið, sem skert er um 79 millj. samkvæmt tillögunum, líka kapítuli út af fyrir sig vegna þess að það var sett inn í staðgreiðsluna á sínum tíma þegar hún var tekin upp og átti að vera til hagræðingar í innheimtu en ekki með það að markmiði að ná þar einhverjum aukatekjum fyrir ríkissjóð.
    Þá er einnig hægt að nefna Húsafriðunarsjóð en framlög til hans eru skert um 24,5 millj. þó að vitað sé að úti um allt land er fullt af húsum og gömlum byggingum sem mikil nauðsyn er að styðja við og gæti það líka verið atvinnuskapandi úti í dreifbýlinu.
    Þannig væri hægt að telja upp fleiri greinar en e.t.v. er búið hér á undan að fara yfir þær sumar hverjar. Samkvæmt lögum um Kirkjubyggingarsjóð skal framlag ríkisins ekki vera hærri fjárhæð heldur en 1 millj. kr. og skerðast um 6 millj. kr. Í 39. gr. eru ákvæði um að framlag ríkisins til varasjóðs slysatrygginga falli niður. Það er um 30 millj. sem þar er skert.
    Þá vil ég einnig nefna Ferðamálasjóð en þar er skerðingin 116 millj. kr. Skyldi maður þó ætla að ekki veiti af að huga að nýjum atvinnugreinum í landinu og mikið hefur verið horft til ferðaþjónustu í því sambandi. Þarna er verið að ráðast á garðinn þar sem hann er einna lægstur.
    Yfirleitt er óhætt að segja að þessi bandormur ríkisstjórnarinnar sé í ætt við þá bandorma í mönnum og skepnum sem læknavísindin og vísindamenn hafa lagt mikla áherslu á að eyða til frambúðar. Þingmenn ættu að taka sér læknavísindin til fyrirmyndar í því og eyða þessum svokallaða bandormi. Hann verður hvorki launþegum né atvinnurekstri í landinu til gæfu. Hann mun þvert á móti veikja þjóðarlíkamann eins og aðrir bandormar sýkja þá vefi sem þeir setjast að í.
    Frv. þetta þarfnast mjög mikillar skoðunar. Og verði því vísað nú til efh.- og viðskn. vænti ég þess að nefndin sendi það til umsagnar til annarra þingnefnda sem fjalli um afmarkaðar greinar þess. Það er vítavert að það skuli ekki hafa verið lagt fram fyrr, svo umfangsmikið sem það er. Það snertir alla landsmenn meira og minna enda virðist fyrst og fremst vera höggvið í sama knérunn eins og ætíð fyrr, þ.e. í vasa þeirra sem síst geta borið hönd fyrir höfuð sér. Þær breytingar sem á að gera á almannatryggingum og tannlækningum koma verulega niður á barnafólki. Sú skerðing sem ætluð er á ríkisábyrgð á laun kemur niður á launþegum. Skerðingin sem boðuð er kemur harkalega niður á bændastéttinni og eykur kostnað sveitarfélaganna í landinu á ýmsan hátt eins og ég hef rakið hér á undan. Auk þess finnst mér að þetta frv. komi allt of seint inn í þingið og með því hefði þurft að fylgja miklu ítarlegri greinargerð og tillögur ríkisstjórnarinnar um það hvað hún ætlar að gera á næstu dögum.
    Ég vona svo sannarlega að menn hugsi sig vel um hvort ekki megi ná fram hagræðingu eða sparnaði í rekstri ríkisins á annan hátt en með þessu frv.