Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 23:55:00 (1693)

     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Nú líður að miðnætti, laugardagsnótt er fram undan. Ég vil spyrja forseta um framhald þessa fundar. Mér skilst að legið hafi fyrir samkomulag hér um kvöldfund, hér séu afar margir enn á mælendaskrá, hátt í tíu manns. Hér hefur farið fram málefnaleg umræða.
    Ég tek eftir því að ráðherrar, sem þarf að tala við í nótt ef umræðan á að halda áfram, eru horfnir af vettvangi þó að viðurkennt skuli að margir hæstv. ráðherrar eru viðstaddir. Þingmenn stjórnarliðsins eru flestir farnir heim. Þó skal það viðurkennt að hér hefur einn þeirra setið betur og hlustað af gaumgæfni á þær umræður sem fram hafa farið. Þar á ég við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson. Það er auðvitað óframbærilegt að hér eru menn að ræða um eitt furðulegasta þingmál í sögunni, einhverja mestu lönguvitleysu sem hefur verið samin. Ég býst við að hver einasti þingmaður sem hefði reynt á eigin vegum að bera fram slíkt frv. hefði verið gerður afturreka með málið.
    Í þessum umræðum hafa fallið stór orð sem í rauninni kalla á utandagskrárumræðu. Það hefur verið vegið að stofnunum og ég sé ekki að þingið geti sætt sig við að þessum fundi verði fram haldið. Þess vegna vil ég spyrja forseta hvort honum þyki það sæmandi að ræða, aðfaranótt laugardags, jafnstórt mál og hér er á dagskrá. Ég tel að ekki sé samkomulag um framhald þessa fundar og að við eigum að hefja þennan fund eins og ráð er fyrir gert og hafa framhald þessarar umræðu kl. 10.30 í fyrramálið.