Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 14:19:00 (1706)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Herra forseti. Það var ekki venja framsóknarmanna áður fyrr meðan forustumenn Sjálfstfl. voru lífs, sem nefndir eru iðulega nú orðið og hrósað í hástert, reyndar eins og þeir eiga skilið, að hrósa þeim. Ég hugsa líka að þeim hefði farið eins og mér ef framsóknarmenn hefðu lokið á þá miklu lofsorði rétt á meðan þeir voru að starfa að þá hefðu þeir ekki verið afskaplega spenntir yfir því. En það er í tísku hjá framsóknarmönnum eins og hv. síðasta ræðumanni að bera mikið lof á fyrrv. forustumenn Sjálfstfl., einkum hina liðnu ágætu menn, og bera saman við hina ófæru og óverjandi forustumenn Sjálfstfl. í dag sem hafa valdið þeim miklum vonbrigðum eins og jafnan er tekið fram.
    Ég tók reyndar eftir því að hv. 5. þm. Suðurl. hafði verið alinn upp við það á sínu heimili að bera mikla virðingu fyrir sjálfstæðismönnum og síðar í ræðunni sagðist hann hafa haft gríðarlega tiltrú, ég hygg frá heimilinu líka og æsku sinni, á jafnaðarmönnum. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju hann var að hrekjast inn í Framsfl. sá góði maður sem svo vel var upp alinn. En eitthvað hafði gerst sem hafði valdið þessum ágæta ræðumanni miklum vonbrigðum.
    Hann flutti hér langa og yfirgripsmikla ræðu um bandorminn, sem menn hafa kallað svo, ég hygg að hún hafi verið tæpir tveir tveir tímar. Hún var mjög fróðleg, bæði sá kafli sem var pólitískur og eins þessi fræðilega ritgerð, sem hann tók að lesa upp, undir lok ræðu sinnar. Hún var dálítið úr stíl við annað sem þingmaðurinn las upp. Hann hafði miklar áhyggjur af sölu á Búnaðarbankanum og það kom fram líka í hinni fræðilegu ritgerð að það væri afar mikil hætta sem væri fólgin í því að einkabankar tækju við af ríkisbönkum. Hann málaði mynd af því hvernig það gæti farið þegar ríkisbanki tæki við af einkabanka eða yrði að einkabanka. Bankinn gæti farið á hausinn og síðan yrði auðvitað hlaupið til ríkisins, fjárglæframennirnir, eins og ég held að það hafi verið kallað, tækju náttúrlega við bankanum og settu hann á hausinn. Þeir yrðu síðan að koma til ríkisins og láta ríkið bjarga sér, jafnvel eftir fimm ár eða svo úr þeim fjárglæfradansi sem þeir hefðu stigið.
    Í síðustu tíð hefur ekki neinn einkabanki farið á höfuðið hér á landi en það hefur hins vegar ríkisbanki gert og það var kannski upphafið að sölu þess banka og sameiningu að einmitt ríkisbankinn stóð sig ekki í stykkinu og stóðst ekki lengur þannig að öll dæmin áttu ekki við a.m.k. sögu síðustu 60 ára eða svo. Ég hygg að hugsi hv. þm. málið á nýjan leik og fái kannski aðra fræðilega ritgerð um með hvaða hætti menn hafa brugðist við á Norðurlöndunum hér og hvar, þá kynni hann að sjá að röksemdirnar eru nánast út í bláinn. Það er ekkert sem bendir til þess að öflugur banki, eins og Búnaðarbankinn, mundi veita sínum viðskiptavinum, hvort sem þeir legðu inn sparifé eða ættu önnur viðskipti við hann, verri tryggingu eða verri kjör eða minna öryggi ef hann væri einkabanki en hann gerir í dag. Ég sé ekki annað en að almenningur treysti afskaplega vel einkabönkunum eins

og hann hefur treyst bönkum yfirleitt hér á landi. Ég held að engin rök séu fyrir því, sem haldið hefur verið fram að slíkur banki gæti kallað á veikleika, alls engin rök fyrir því.
    Annað í ræðu síðasta ræðumanns skildi ég ekki alveg allt, ég verð að viðurkenna það. Ég skildi ekki þetta með stóra fundarstjóraborðið sem ég hygg að það hafi heitið, og einhverja sex menn sem væru að taka við fyrirmælum og ég sérstaklega hefði fengið fyrirmæli um að beita úrræðaleysi, atgervisflótta, gjaldþrotum og eymd held ég að það hafi verið frá einhverjum aðilum, væntanlega við þetta stóra fundarstjóraborð. Væri afskaplega fróðlegt að fá hér á þinginu, jafnvel í dag eða síðar, ítarlegri skýringar á því hverjir það eru sem gefa slík fyrirmæli að menn eigi að beita úrræðaleysi, atgervisflótta, gjaldþrotum og annarri eymd í störfum sinum á þinginu. Ég átta mig ekki á hvað þingmaðurinn átti við.
    Ég held líka að það sé misskilningur hjá honum að halda að það hafi vakið einhvern ugg eða ótta hjá þingmönnum Sjálfstfl. að rætt væri um það að einkavæða Búnaðarbankann. Það hefur mjög oft verið rætt og fullur hugur hjá stjórnarflokkunum að standa að því máli en auðvitað standa að því með skaplegum hætti. Ég vek athygli af því að menn ætla sér ekki að fá slíkar tekjur á augabragði af þeirri sölu eða annarri einkavæðingu sem ég nefndi að þingmaðurinn hefði þurft að gera því skóna að hlutafjármarkaði á Íslandi yrði stefnt í voða. Ekkert bendir til þess að það sé rétt hjá honum.
    Varðandi það sem hv. 2. þm. Suðurl. sagði um vaxtamálin, að ríkisstjórnin hefði vakið upp vaxtadrauginn í vor, þá er það efni sem mjög margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa komið inn á. Ég hygg að fyrstu tveir sem töluðu hafi fjallað verulega um það. Reyndar var það hv. 4. þm. Norðurl. e. sem kynnti okkur skýrslu Seðlabankans og vitnaði til hennar um að áform ríkisstjórnarinnar um hækkun vaxtanna í byrjun sumars hefðu ekki gefið ríkisstjórninni það sem hún ætlaði sér með því að pappírar hennar hefðu orðið söluvænlegri og sala gengið eftir eins og menn vonuðu. Ég held að þegar textinn er lesinn í þessari ágætu skýrslu Seðlabankans blasi töluvert önnur mynd við heldur en þingmaðurinn vildi vera láta.
    Í þessari skýrslu hefur verið rætt um þá þróun sem var sl. vor og síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Þensluáhrif þessarar þróunar urðu áreiðanlega meiri en ella vegna þess að ríkisvaldið leitaðist jafnframt við að halda niðri vöxtum þrátt fyrir aukna eftirspurn. Var þetta sérstaklega áberandi fyrstu mánuði þessa árs`` --- þ.e. mánuðina fyrir kosningar þegar menn vildu hafa einhverjar töflur á borðinu. Ég held áfram að vitna í skýrsluna: ,,Var þá settur verulegur þrýstingur á bankana að hækka ekki vexti þrátt fyrir meiri verðbólgu en jafnframt hélt ríkissjóður niðri vöxtum af spariskírteinum og ríkisvíxlum þrátt fyrir hækkandi vexti á öðrum bréfum á verðbréfamarkaðnum. Afleiðing varð sú að bréf ríkisins seldust ekki og skuldir hlóðust upp í Seðlabankanum.``
    Ég vek athygli á því að þetta voru mánuðirnir fyrir kosningar þegar menn ætluðu að búa sér til einhverja fagra stöðu. Þetta er lýsingin á því ástandi. Og áfram er haldið: ,,Óhjákvæmilegt var að leiðrétta þetta eftir að kosningar voru um garð gengnar`` segir hér orðrétt --- ,,og hækkuðu þá vextir bæði á ríkisskuldabréfum og hjá innlánsstofnunum í júní og var sú hækkun að mestu leyti til samræmis við þá vexti sem þegar voru á húsbréfamarkaðnum.`` Vaxtadraugurinn sem hv. 2. þm. Suðurl. talaði um að við hefðum vakið upp hafði verið svæfður léttum svefni af fyrrv. forsrh. og fjmrh. og væntanlega hefur hv. 4. þm. Norðurl. e. tekið fullan þátt í því að bregða upp þessari fölsku mynd sem óhjákvæmilegt var að leiðrétta því að vextirnir voru ekki í takt við raunveruleikann. Ríkisbréfin seldust ekki og allt var þetta fölsk mynd blekkinga sem reynt var að halda að mönnum rétt fyrir kosningar í blekkingarskyni en auðvitað sjá allir í gegnum þennan blekkingarvef. (Gripið fram í.) Síðan segir hér sem er akkúrat öfugt við það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði

ranglega frá: ,,Leiddi þessi vaxtahækkun þegar til aukinnar sölu ríkisvíxla og spariskírteina og batnandi jafnvægis á lánsfjármarkaðnum í heild.`` En hv. þm. sagði að ekkert af þessu hefði gerst. Hann var einmitt að skora á menn að lesa þessa skýrslu þannig að hann virðist taka hana mjög bókstaflega og trúanlega. ,,Virðast áhrif meira aðhalds í peningamálum einnig hafa farið að koma fram í þróun almennrar eftirspurnar og innflutningi í septembermánuði.`` Síðar segir í sömu skýrslu um skýringar á hækkun vaxta, af því að vextir fara alveg eftir raunveruleikanum í þjóðfélaginu en ekki eftir því hvernig menn tala. Í því segir, með leyfi forseta:
    ,,Þannig voru raunvextir óverðtryggðra lána óeðlilega lágir á fyrra helmingi þessa árs með óhagstæðum afleiðingum fyrir afkomu bankanna. Á þessu hafa innlánsstofnanir reynt að ráða bót með því að halda nafnvöxtum óverðtryggðra lána óeðlilega háum síðustu mánuði, þrátt fyrir lækkandi verðbólgu, þannig að raunvextir þeirra hafa farið langt upp fyrir vexti af verðtryggðum útlánum.`` Rótina að þessum háu vöxtum má sem sagt rekja til þeirrar röngu myndar sem reynt var að draga upp fyrir kosningar, þeirrar fölsku myndar sem þeir menn sem þykjast nú tala mest fyrir lágum vöxtum drógu upp fyrir kosningar, myndar sem ekki stóðst. Þeir bera jafnframt ábyrgð á því að vextir eru óeðlilega háir nú vegna þess hvernig þeir höguðu sér á sl. vori.
    Ég vek athygli á því, sem er rétt að komi fram, að sá banki sem hefur verið einna tregastur til að lækka vextina í takt við verðbólgu, lýtur í bankaráðinu stjórn meiri hluta sem á rætur sínar að rekja til stjórnarandstöðunnar hér á þingi, sem segir kannski heilmikla sögu um það hver heilindi eru í því sem rætt er um þegar menn tala um vextina.
    Hv. 7. þm. Reykn. spurði í ræðu sinni í gær hvað liði undirbúningi lagasetningar varðandi það að tekin væri upp greiðsla af fjármagnstekjum, hvar það mál væri statt. Það er ásetningur ríkisstjórnarinnar, og hefur komið fram, að slíkur skattur verði tekinn upp og er undirbúningur að því máli í gangi á vegum fjmrn. Ég á von á því að frv. þess efnis verð lagt fram á þinginu í vor, í síðasta lagi næsta haust. Ég tek fram og vek athygli á því að það hefur verið sagt að ekki standi til að sú breyting, að teknir verði upp fjármagnstekjuskattar, eigi að skila nýju fjármagni í ríkissjóð heldur eigi menn að einbeita sér að því að láta slíka hækkun mæta lækkun á eignarsköttum.
    Ég tók líka eftir öðru í ræðum hv. 7. þm. Reykn. og 4. þm. Norðurl. e., og reyndar hjá fleiri ræðumönnum hér, m.a. kom það fram í hinni ágætu ræðu sem síðasti ræðumaður flutti að menn fyndu að því að það bólaði ekkert á efnahagsaðgerðunum eins og sagt er. Hvar eru ráðstafanir í efnahagsmálum, sagði hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 7. þm. Reykn. tók mjög svipað til orða. Fróðlegt væri að vita hvað þessir ágætu þingmenn eiga við þegar þeir tala um efnahagsráðstafanir, hvort þeir eiga eingöngu við það að ríkið taki frá einhverja peninga til þess að setja til hliðar sem verður síðan ráðstafað sem smyrsl á sár einhverra fyrirtækja. Er það það sem þeir kalla efnahagsráðstafanir? Er það það sem þeir sakna núna að komi ekki fram? Gera þessir aðilar sér virkilega ekki grein fyrir því að engin ákvörðun og aðgerð er mikilvægari um þessar mundir en sú aðgerð ríkisins að afgreiða fjárlög með þeim hætti að ríkissjóðshallinn sé boðlegur og skaplegur, að lánsfjáreftirspurnin verði þriðjungi minni en hún var á síðasta ári og þar með séu sköpuð raunveruleg skilyrði til þess, ekki fölsk skilyrði eins og gert var fyrir kosningarnar í vor, blekkingarskilyrði, heldur raunveruleg skilyrði þess að vextir megi lækka. Það vill nú reyndar þannig til, þó að þessir hv. þm. virðist ekki átta sig á þessum þætti, að talsmenn atvinnulífsins og launþegahreyfingarinnar átta sig á þessu. Þeir leggja höfuðáherslu á það að ríkisstjórnin gæti þess þrátt fyrir viðbótaráföll og þrengingar að láta ekki undan, standa staðföst að þeirri ætlan sinni að hallinn á ríkissjóði verði ekki nema 4 milljarðar kr. Þeir átta sig á því að þar með fær atvinnulífið aukið svigrúm, þar með er líklegt að vextir geti raunverulega lækkað og þar með skapist atvinnulífinu skilyrði til þess að ná til sín fjármagni á viðráðanlegum kjörum. Það gerist ekki með fyrirmælum, orðsendingum eða ræðum. Það gerist með því að menn taki á sig þær byrðar og þá erfiðleika að koma fjárlagafrv. í gegn með þessum hætti. Vilji ríkisstjórnarinnar stendur einmitt til þess og hún ákvað það og hefur gert það og ítrekaði að leggja ekki út á aðra braut þrátt fyrir það að erfiðara sé að ná þessu marki nú en áður.
    Mér þótti mjög athyglisvert í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann fjallaði um tillögur um breytingar á fyrirkomulagi ríkisábyrgða launa. Þá sagði þingmaðurinn og spurði reyndar hvort við gerðum okkur ekki grein fyrir því í ríkisstjórninni að það að taka ákveðna prósentu frá atvinnulífinu í þennan sjóð mundi um leið gera það að verkum að svigrúm atvinnulífsins til þess að hækka launin við launþega mundi minnka sem þessu nemur. Ég held að það sé heilmikið til í þessu hjá þingmanninum. Kenningin er ekki mjög merkileg en hún er mjög merkileg út úr munni hans því að hann og hans flokkur hafa nefnilega ætíð sagt: Það er enginn vandi og á að gera að leggja auknar klyfjar á atvinnulífið. Það hef ég margoft heyrt úr þeirra munni og séð í þeirra greinum. Þeir hafa aldrei sagt um leið að það mundi þrengja svigrúm fyrirtækjanna til þess að greiða launþegum hærri laun, það hafa þeir aldrei sagt. Þeir hafa þvert á móti ætíð látið að því liggja og eru þekktir fyrir það að það sé nú aldeilis hægt að leggja aukna skatta á atvinnulífið en jafnframt gefið síðan til kynna að hægt sé að hækka launin.
    Ég nefndi það í ræðu minni, þó að ég hafi farið kannski fullhratt yfir seinni partinn, ég geri mér grein fyrr því að mér hættir til þegar líður á langa ræðu að verða of fljótmæltur og biðst velvirðingar á því, þá sagði ég jafnframt að kynnt yrði í þessari nefnd, sem fær málið til meðferðar, viðbótarmálsgrein við 10. gr. Ég las hana upp og jafnframt sagði ég á þessa lund: ,,Jafnframt þessum breytingartillögum mun nefndin taka til athugunar þær ábendingar og þá gagnrýni sem fram hefur komið að undanförnu frá forustumönnum launþega.`` Við höfum auðvitað rætt þetta mál heilmikið við talsmenn launþega og við verðum að sjálfsögðu varir við það að þeir, reyndar ekki bara launþegar heldur Vinnuveitendasamband Íslands líka, finna að þessari aðferð. Launþegar með líkum orðum og hv. 4. þm. Reykn. og vinnuveitendur vegna þess að þeir biðjast undan því auðvitað að auknar skyldur, formlegar skyldur, séu lagðar á þá. Ríkisstjórnin hefur fullan skilning á því að þetta mál þurfi að ræða og ræða vandlega. En það er nauðsynlegt og ég hygg að það eigi ekki að verða um það ágreiningur að breyta þessum reglum því að eins og þær eru nú er töluverð hætta á misnotkun þessara reglna. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að þeim verði breytt.
    Jafnframt tók ég fram, þegar ég ræddi þennan þátt, að ríkissjóður mundi ábyrgjast um stundarsakir að ekki mundi skorta fé úr þessum sjóði.
    Í umræðunum kom fram spurning um hvað gerðist ef svo ótrúlega vildi til eitt árið að ekki mundi allt greiðast út úr þessum sjóði og hvort þeir peningar sem þar kæmu aukalega inn rynnu þá til ríkisins. Því er til að svara að frv. ber með sér að gert er ráð fyrir stjórn yfir þennan sjóð. Stjórnin fær heimild til að leggja á gjald eins og þarna er lýst að ákveðnu hámarki. Ef þetta hámark yrði af einhverjum ástæðum svo rúmt, eins og fyrirspyrjandi nefndi, yrði það hámark eða það álag væntanlega lækkað af hálfu stjórnarinnar, sem gert er ráð fyrir að skipuð sé eftir tilnefningu aðila vinnumarkaðarins.
    Hv. 2. þm. Suðurl. spurði fjölmargra spurninga um það sem snerti þá reglugerð sem heilbrrh. hefur sett og áhrif hennar á ýmsa þætti þjóðlífsins, svo sem framfærsluvísitölu, kröfur um launahækkun, skuldsetningu ríkisins og fleiri slíka þætti. Ég hygg að þingmaðurinn viti jafn vel og við öll hin að engin efni eru til þess að leggja út af henni með þeim hætti, að allt það gerist í tilefni af þessari reglugerð. Það eru ekki bein tengsl með þessum hætti, eins og þingmaðurinn gaf til kynna, milli þessara reglugerða og þeirra þátta sem hann vék að og spurði sérstaklega um.
    Ég vek til að mynda athygli á því þegar ráðist var mjög að hæstv. heilbrrh. vegna breytinga hans á útgjöldum ríkisins vegna lyfjakostnaðar þá var því haldið mjög stíft fram að allar þessar aðgerðir og þessi sparnaður mundi lenda beint á neytendum og launþegum. Það hefur komið á daginn að það gerist ekki. Það hafa allir haft hag af verulegum hluta þessara sparnaðaraðgerða. Það hafa allir borið úr býtum vegna þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. heilbrrh. að þessu leyti til.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. flutti yfirgripsmikla ræðu og á marga lund fróðlega, eins og reyndar margir aðrir hafa gert sem vonlegt er því að frv. tekur á mjög mörgum þáttum eins og því er stillt upp. En þingmaðurinn, eins og reyndar aðrir, hafði orð á því að það væri verulegur munur á afstöðu minni annars vegar og afstöðu til að mynda hæstv. sjútvrh. hins vegar um meðhöndlun á vöxtum. Það var vitnað til þess að hæstv. sjútvrh. vildi fara að beita handleiðslu varðandi vextina og síðan var þetta orðalag ráðherrans útfært og farið að tala um það að hann vildi beita handafli við meðferð vaxtanna. Ég sé nú verulegan mun á því hvort menn vilji beita handleiðslu í vaxtamálum eða handafli.
    Hv. 2. þm. Suðurl., sem er vanur innan dyra í kirkjum eftir því sem ég best veit, veit að prestar beita þar handleiðslu. Í þeim samkomuhúsum sem ég sótti meira á yngri árum beittu útkastarar aftur á móti handafli og það er kannski einmitt munurinn á þessum tveimur aðferðum. Prestarnir beita handleiðslu, útkastararnir handafli og það er ómögulegt að líkja þessum tveimur þáttum saman. Það vitum við, ég og hv. 2. þm. Suðurl., sem sóttum á þessum árum sjálfsagt mjög mismunandi samkomustaði þar sem annars vegar var beitt handafli og hins vegar handleiðslunni.
    Við vitum að hægt er um skamma hríð með opinberum aðgerðum að fá fram breytta mynd á vöxtum eins og gert var sl. vor en við vitum líka að það stenst ekki og við vitum hvers konar dóma slík aðgerð fær af reynslu sögunnar. Þess vegna er meginmálið, og það er meginmál okkar í ríkisstjórninni, að standa þannig að gerð fjárlagafrv. og afgreiðslu þess að varanlegur grundvöllur sé lagður til að vextir megi vera þeirrar stærðar að atvinnulífið geti risið undir þeim þegar til lengri tíma er litið. Og það gerist ekki nema samkeppnin um vextina minnki og ríkisvaldið sé ekki fremst í flokki um það með aðgerðum sínum og yfirboðum að sprengja upp vaxtakerfið.
    Hv. 4. þm. Austurl. flutti hér mjög athyglisverða ræðu í byrjun. Ég held að fyrstu 20 mínúturnar hafi reyndar fjallað um bandorminn, eðli hans og ástarlíf og síðan hvernig hann þróaðist yfir í sull, ef ég man rétt. Þetta var afskaplega fróðleg og skemmtileg ræða. Ég hygg að þingmaðurinn hafi komist þannig að orði að ég væri höfuðbandormurinn. Ég er svo sem ekkert að kippa mér upp við það. En einhver sem tekur nærri sér að vera kallaður reigingslegur hani mundi sjálfsagt hafa orðið viðkvæmur fyrir því að vera kallaður höfuðbandormur miðað við lýsingu þessa sérfróða manns, hv. 4. þm. Austurl., á þessu fyrirbæri sem var afskaplega fróðleg og skemmtileg og tók hér 20 mínútur. ( Gripið fram í: Hver var sullurinn?) Já, þú skalt hafa hlustað vel á það, hv. þm., hver var sullurinn. Það var mjög fróðleg lýsing á því líka. Sullurinn var sú þróun sem bandormur fékk samkvæmt lýsingu þingmannsins. Ég tel að efnið sem þingmaðurinn átti við í því sambandi mundi ekki breytast með þeim hætti sem þingmaðurinn lýsti, hinn ágæti og sérfróði þingmaður um bandorma þá hina smærri, hér úr ræðustólnum.
    En hann talaði jafnframt mikið um hið Evrópska efnhagssvæði og spurði mig sérstaklega um það hvað ég héldi um möguleika þeirra samninga sem mikið hafa verið ræddir, samninga um Evrópskt efnahagssvæði, og hverjar líkur væru til þess að þar væri eitthvað að gerast sem mundi gera það að verkum að þeir samningar gengju ekki eftir eins

og menn hafa verið að tala um. Auðvitað get ég ekki svarað þessu en ég tel í sjálfu sér ekkert benda til þess að þeir samningar þurfi að stranda vegna þeirra atburða sem hafa átt sér stað í Evrópu og þeirra athugana sem dómstóllin hefur fjallað um sérstaklega. Ég tel ekkert benda til þess. Ég get auðvitað ekki útilokað að það gerist en ég ítreka að ég sé engin efni til að ímynda sér að þeir þurfi að stranda.
    En þingmaðurinn talaði aðallega um að til Evrópska efnahagssvæðisins og þeirrar samningagerðar væri vitnað í tengslum við atvinnusköpun og atvinnumöguleika. Og hv. þm. taldi að þarna væru menn á algerum villigötum ef þeir héldu að einhverrar framtíðar fyrir íslenskt atvinnulíf væri að vænta í tengslum við þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði. Og hann dró sérstaklega upp töflu og vitnaði til hennar um atvinnuleysi í Evrópubandalagsríkjunum og að sú tafla gæfi til kynna að þangað væri ekki neinnar aðstoðar eða krafts að vænta fyrir Íslendinga um breytingar í atvinnulífinu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki sömu skoðunar og hv. þm. Ég tel ekki að neitt megi rekja til þessarar töflu sem staðfestir ótta hans um að hið Evrópska efnahagssvæði skapi okkur ekki neina vaxandi möguleika í atvinnulífinu. Hann nefndi m.a. að atvinnuleysi í Írlandi væri 18%, í Danmörku 9,5% og reyndar gat hann þess að í Lúxemborg væri atvinnuleysi 2%. Mér finnst þessar tölur, svo breytilegar sem þær eru, sýna kannski og sanna að ótti manna um að hinu Evrópska efnahagssvæði fylgdi stórkostleg ásókn inn á vinnumarkaði frá einu landi til annars eigi ekki við. Þegar menn sjá tölurnar varðandi Írland þar sem atvinnuleysi er 18% og tölurnar varðandi Lúxemborg þar sem atvinnuleysi er 2% innan Evrópubandalagsins virðast innbyrðis tengsl ríkjanna ekki gera neitt til þess að riðla þessari stöðu. Þarna er hið litla land, Lúxemborg, með 2% atvinnuleysi og mun stærra land, Írland, með 18% í rauninni í næsta nágrenni. Það hefur ekki þýtt að menn hafi í stórkostlegum stíl sótt frá Írlandi til Lúxemborgar og sett þar allt atvinnulíf úr skorðum þannig að ég verð að segja að mér þykir það frekar benda til hins gagnstæða, að fullyrðingar okkar hinna um að hið Evrópska efnahagssvæði og samningar okkar, ef endanlegir verða um það efni, muni frekar styrkja okkar atvinnulíf en hið gagnstæða.
    Ég varð afskaplega undrandi á að heyra með hvaða hætti hv. 4. þm. Norðurl. e. fjallaði um útboð. Mér fannst sú ræða vera nánast í stíl við 40--50 ára útdauða haftaumræðu. Hræðsluáróðurinn sem fylgdi þessum ræðukafla þingmannsins um útboðin var í takt við það sem haldið var að fólki að gerðist ef höftin yrðu afnumin, ef venjulegur almenningur fengi að kaupa gjaldeyri og annað slíkt. Þá var því haldið að fólki að allt mundi riðlast, gjaldeyrissjóðirnir tapast og allt fara um koll. Mér fannst ræða þingmannsins um útboð bera merki þessa. Öll þau ósköp sem dyndu yfir ef útboð yrðu notuð í vaxandi mæli.
    Nú höfum við mjög góða reynslu af útboðum, afskaplega góða reynslu. Auðvitað hafa komið upp annmarkar í þeim efnum eins og menn vita. En meginreynslan er afskaplega góð og ég tel það vera eðlilegt og skynsamlegt af hæstv. heilbrrh. að vilja notfæra sér útboðin í auknum mæli. Auðvitað geta menn séð vissar hættur á ferð þar sem með einum eða öðrum hætti um er að ræða einokandi starfsemi en útboð eru nú oftast nær þannig að þar er ekki um neina endanlega gerð að ræða en ef það reynist illa þá eiga menn alla möguleika á því að grípa inn í og breyta um verklag.
    Ég vil vekja athygli á því að mér finnst mikilvægt að þær ráðstafanir, sem þetta frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum ber með sér og reyndar aðrar ráðstafanir sem fjárlagafrv. ber með sér, eru ekki ráðstafanir þar sem tjaldað er til einnar nætur. Hér er ekki um að ræða að menn séu vegna tímabundinna erfiðleika í fjármálum ríkisins að spara sér einhvern tiltekinn þátt um skamma hríð. Það er miklu fremur um það að ræða að menn séu til lengri tíma að búa í haginn fyrir ríkissjóð, að beita aðgerðum sem skapa varanlegan sparnað. Aðgerðirnar hjálpa okkur ekki bara þetta árið heldur líka það næsta og næstu

ár þar á eftir. Þær séu til þess fallnar að gera ríkisfjármálin öruggari og styrkari þegar til lengri tíma er litið, ekki endilega eins kjörtímabils heldur til miklu lengri tíma. Ég held að það sé mikilvægt sem við höfum ítrekað með okkar samþykktum í ríkisstjórn, að menn guggni ekki á því hvað sem á dynur að afgreiða fjárlögin með raunverulegum 4 milljarða halla, ekki eins og stundum hefur verið tíðkað, halla sem breytist fljótlega eftir að fjárlög eru afgreidd í marklaust plagg, marklausa hallatölu sem fer síðan vaxandi eftir því sem á fjárlagaárið líður. Við kynntumst því að þannig voru kosningafjárlögin afgreidd rétt eins og vextirnir fyrir þetta ár. Það voru gervifjárlög hvað þetta snertir, botnlaus, urðu að takast upp. Við viljum ekki að fjárlögin séu afgreidd með þeim hætti. Auðvitað vitum við eins og aðrir að seint verða fjárlög þannig úr garði gerð að hvert eitt einasta og eitt atriði haldi í þeim. En verklagið verður að vera þannig og ásetningurinn verður að vera þannig að menn séu að búa til fjárlög sem haldi, menn séu ekki að birta tölur um falskan greiðsluhalla heldur tölur sem eiga að geta haldið, ekki eingöngu tölur blekkinganna.