Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 15:00:00 (1709)

     Jón Helgason (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég skildi ekki alveg hugrenningar hæstv. forsrh. um mismunandi viðhorf okkar til handleiðslu og handafls en að sjálfsögðu legg ég áherslu á að reynt sé að nota handleiðslu þegar það er hægt.
    Hins vegar var það sem ég benti á að handleiðsla sem hæstv. forsrh. segist hafa notað á vextina bar þennan árangur sem ég rakti. Í maí áttu þeir að fara lækkandi þegar kæmi fram í ágúst, í ágúst voru raunvextir á óverðtryggð lán komnir upp í 12%. Þá sagði hæstv. forsrh. enn: Þeir fara að lækka. Hann ætlaði að gera það með handleiðslu. En handleiðsla hans leiddi til þess að þeir eru 14% núna í desember. Slíka handleiðslu tel ég ekki góða. Og ég held að hæstv. forsrh. hefði þurft að læra handleiðslu betur heldur en í sínum útkastarahúsum sem hann var að tala um.
    Hæstv. forsrh. segist ekki heldur skilja sambandið milli spurninga minna og afleiðinga af útgáfu reglugerðarinnar. Það kom fram í máli hæstv. heilbrrh. að hækkunaráhrif hennar á vísitölu væru 0,2--0,3%. Veit hæstv. forsrh. ekki að það er beint samband við framfærsluvísitölu og hækkun á verðtryggðum lánum? Heldur hæstv. forsrh. ekki að þessi hækkun á framfærsluvísitölunni muni hafa áhrif á kjarasamninga nú þegar þeir eru lausir? Það er mikil bjartsýni að halda að það hafi engin áhrif.