Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 16:31:00 (1719)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir upplýsingarnar um fjármagnsskattinn. Það hefur farið fram hjá mér. Mér eru það að vísu mikil vonbrigði að ekki skuli vera von á slíku frumvarpi fyrr en í vor. Ég tel afar nauðsynlegt að jafna skattlagningu á eignir hvort sem þær eru fasteignir eða fjármagnseignir og tel reyndar að með þann mikla fjármagnsgróða sem nú er í þjóðfélaginu sé afar brýnt að koma slíkum skatti á sem fyrst.
    En hins vegar um það sem hæstv. forsrh. las úr skýrslu Seðlabankans vona ég að ég fari rétt með eftir minni að nokkurn veginn á þessum sömu síðum segir: ,,Yfir níu mánuði ársins hefur skuldastaðan aukist um 90 milljarða``. Og af þessum níu nánuðum ársins hygg ég að núv. ríkisstjórn hafi setið í fimm eða sex mánuði. Með öðrum orðum, sú vaxtahækkun sem ríkisstjórnin greip þegar til dró ekki úr eftirspurninni eftir fjármagni, enda hygg ég að það séu allt aðrir hlutir sem því ráða. Hækkun vaxtanna voru mikil og alvarleg mistök, mistök sem hæstv. ríkisstjórn á þegar að leiðrétta.