Eftirlaun til aldraðra

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 13:04:00 (1722)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
     Virðulegi forseti. Þegar þetta frv. var til umræðu í síðustu viku tók hv. þm. Svavar Gestsson þátt í umræðum og lýsti yfir almennum stuðningi við frv. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að bæta miklu þar við. Hins vegar kom fram í svari hæstv. heilbrrh. að það væri stefnt að því að skerða allnokkuð atvinnuleysisbætur og hv. þm. Svavar Gestsson óskaði eftir skýringum á þeim ummælum hæstv. ráðherra. Því miður verður að segja þá sögu eins og er að í stað þess að koma með skýringr kom hæstv. ráðherra með skæting upp í ræðustólinn og lýsti því yfir að ekki væri von að þingmenn sem eyddu tíma sínum í þingskapaumræðu og læsu ekki þingskjölin vissu hvað væri verið að tala um. Það eina sem var efnislega hönd á festandi hjá hv. ráðherra í þessum skætingi var að hann sagði mönnum að lesa fjárlagafrv.
    Ég ætla ekki að elta ólar við óróleikann í ráðherrum Alþfl. í síðustu viku. Það er nóg heimilisbölið á þeim bæ. Hins vegar er nauðsynlegt að spyrja hæstv. heilbrrh. efnislega út í það sem hann var að víkja að.
    Nú er það þannig að þingmenn lesa almennt fjárlagafrv., hæstv. ráðherra. ( Forseti: Hafið hljóð í salnum meðan ræðumaður flytur mál sitt.) Já, það er greinilega enn þá nokkur óróleiki í Alþfl. en við getum beðið þar til því ástandi lýkur. Þetta byrjar ekki vel í dag, virðulegur forseti. Við skulum vona að áframhaldið verði ekki í þessum dúr.
    Ég var að segja við virðulegan ráðherra áður en alþýðuflokksþingmennirnir komu og trufluðu að menn læsu almennt fjárlagafrv. Það er því miður þannig að í fjárlagafrv. er ekki að finna miklar ábendingar til skýringar á ummælum hæstv. ráðherra í síðustu viku um að það ætti að skerða verulega atvinnuleysistryggingabætur. Á bls. 332 í fjárlögunum kemur fram í einni setningu að áformað er að endurskoða bótareglur sjóðsins á næsta ári og nánari skýringar séu að finna í grg. með B-hluta. Í grg. B-hluta kemur fram að sú endurskoðun muni m.a. snúa að réttindum til bótagreiðslna með það að markmiði að allir launþegar sem iðgjöld eru greidd fyrir til sjóðsins njóti sambærilegra réttinda og komið verði í veg fyrir misnotkun. Fleira er ekki að finna í frv. þessu til skýringar. Hvað þetta atriði snertir, að allir hafi sambærileg réttindi og koma eigi í veg fyrir misnotkun, hefur aldrei verið neinn ágreiningur við okkur þingmenn Alþb. En það er hins vegar allt annað en skerðing atvinnuleysisbóta með því orðalagi sem hæstv. heilbrrh. viðhafði hér í svari. Þess vegna var ósköp eðlilegt að hv. þm. Svavar Gestsson spyrðist fyrir um það hvað ráðherrann ætti nákvæmlega við með ummælum sínum hér við 1. umr. málsins.
    Vegna þess að hv. þm. Svavar Gestsson hefur ekki rétt til að tala oftar í þessari umræðu bað ég um orðið, virðulegi forseti, til að knýja á um það að hæstv. ráðherra svaraði málefnalega því sem hann er spurður um. Er hæstv. ráðherra með eitthvað annað í huga en að koma í veg fyrir misnotkun og samræmingu réttinda í þessari endurskoðun? Ef svo

er er nauðsynlegt að það komi hér fram.