Almannatryggingar o. fl.

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 13:24:00 (1725)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Allt frá gildistöku laga um málefni fatlaðra hefur verið greitt fjárframlag til forráðamanna þeirra barna og unglinga 16 ára og yngri sem undir lögin falla. Þetta hefur verið túlkað svo að ákvæði nái einnig til hliðstæðra greiðslna vegna sjúkra barna sem haldin eru langvarandi sjúkleika þó ekki styðjist það við ótvíræða lagastoð. Það hefur verið gagnrýnt að ákvæði af þessu tagi séu ekki í almannatryggingalögum, ekki síst með hliðsjón af samræmi í bótagreiðslum hins opinbera. Því hefur orðið að samkomulagi milli heilbr.- og trmrh. og félmrh. að fjárhagsaðstoð skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra verði færð undir lög um almannatryggingar. Rétt er að geta þess að greiðslur þessar fara nú þegar í gegnum Tryggingastofnun ríkisins þannig að hér er um að það að ræða að veita þessum greiðslum fullnægjandi lagastoð þannig að ljóst sé að öll börn, eða öllu heldur forsjármenn allra barna 16 ára og yngri, sem þjást af fötlun eða sjúkleika, eigi jafnan rétt til bótagreiðslna lögum samkvæmt. Í frv. þessu felst því eingöngu skipulagsbreyting. Um er að ræða að stofnaður verði nýr bótaflokkur með lögum hjá lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins og verði sá bótaflokkur nefndur umönnunarbætur. Að umönnunarbæturnar verði 43.450 kr. á mánuði og greiðist framfærendum fatlaðra og sjúkra barna innan 16 ára aldurs enda dvelji börnin í heimahúsi og andleg eða líkamleg hömlun barnsins hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld eða kalli á sérstaka umönnun eða gæslu. Þá er einnig gert að fyrir því í frv. að jafnhliða verði barnaörorka felld niður enda eiga umönnunarbæturnar að koma í hennar stað.
    Frá því lög um málefni fatlaðra öðluðust gildi 1. jan. 1984 hefur svokölluð barnaörorka haft síminnkandi gildi, einfaldlega vegna þess að þeir aðilar, sem eiga kost á barnaörorku, eiga flestir kost á aðstoð skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra. Þar sem aðstoð skv. 10. gr. hefur verið hærri en fjárhæð barnaörorku hafa flestir kosið fyrrnefndu aðstoðina. Ég vil þó aðeins beina því til þeirrar nefndar sem fær frv. þetta til skoðunar að hún athugi sérstaklega hvort ekki sé full ástæða til að barnaörorkan falli niður þegar umönnunarbæturnar verða í lög leiddar. Það þarf ekki endilega að vera að umönnunarbæturnar útiloki að barnaörorka geti verið greidd. Og það er ekki heldur víst, ég bið um að það verði athugað vandlega, að umönnunarbæturnar geti að fullu og öllu leyti komið í staðinn fyrir barnaörorku. Til þess að koma þessu frv. sem allra fyrst fram á Alþingi valdi ég þann kost að flytja það eins og frá því var gengið af embættismönnum félmrn. og heilbr.- og trmrn., tefja ekki tímann með því að skoða þessi atriði áður en frv. væri lagt fram heldur að fara þess á leit við hv. heilbr.- og trn. að hún skoði þessi atriði.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til heilbr.- og trn. Alþingis. Ég vænti þess að frv. geti fengið þar greiða leið og geti orðið að lögum fyrir áramót því að ég tel að um þetta frv. eigi að geta ríkt samkomulag á Alþingi.