Vatnsveitur sveitarfélaga

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 14:18:02 (1733)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Hinn 13. júní 1990 skipaði ég nefnd til að endurskoða núgildandi ákvæði um vatnsveitur og holræsi sveitarfélaga. Með endurskoðun þessari skyldi fyrst og fremst stefnt að því að einfalda framkvæmd þessara mála og í því skyni m.a. kannað hvort ekki mætti komast af með eina reglugerð fyrir vatnsveitur sem gilti fyrir allt landið í stað sérstakrar reglugerðar fyrir hvert sveitarfélag.
    Í nefnd þeirri er samdi frv. það sem hér er til umræðu áttu sæti Þórhildur Líndal, deildarstjóri í félmrn., sem skipuð var formaður nefndarinnar, Hjörleifur B. Kvaran, framkvæmdastjóri lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkurborgar, og Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, báðir tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Hinn 16. okt. sl. skilaði nefndin mér frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga ásamt drögum að reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga. Nefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu varðandi gildandi lagaákvæði um holræsi að endurskoðun á þeim krefjist víðtæks samráðs við önnur ráðuneyti. Ég hef því ákveðið að óska eftir tilnefningu þeirra ráðuneyta er hlut eiga að máli svo endurskoðun geti haldið áfram.
    Í þessu frv. sem hér liggur fyrir er að finna ákvæði um vald og verksvið sveitarstjórna varðandi vatnsveitur. Frv., sem fjallar um veitur fyrir kalt vatn, gerir ráð fyrir að til hagræðis sé slegið saman í ein lög efni nokkurra ákvæða í III. kafla vatnalaga, laga um aðstoð til vatnsveitna auk ákvæða sem nú er að finna í fjölda reglugerða og gjaldskráa ýmssa sveitarfélaga. Frv. þetta skiptist í 14 greinar og skal nú gerð grein fyrir efni þess í aðalatriðum.
    Samkvæmt 1. gr. þess er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að í stað heimildar er nú lögð skylda á bæjarstjórnir að starfrækja vatnsveitur í bæjum eða kaupstöðum eins og er reyndin í dag. Vatsveiturnar skal starfrækja í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings í hlutaðeigandi bæ eða kaupstað svo og heimila, atvinnutækja, þar á meðal hafna eins og kostur er. Hins vegar er ekki talið unnt að leggja sambærilega skyldu á hreppsnefndir m.a. með tilliti til smæðar margra þeirra og hversu dreifð byggðin innan hreppanna getur verið. Í stað skyldu er því lagt til að hreppsnefndum verði heimilt að starfrækja vatnsveitur í hlutaðeigandi hreppum í sama tilgangi og að framan sagði en þó sleginn sá varnagli að áður en lagt er í þessar framkvæmdir skuli rannsókn fara fram og jafnframt gerð kostnaðaráætlun sem sýnir að hagkvæmt sé að leggja í þessa framkvæmd. Er þetta svo til óbreytt frá núgildandi lögum.
    Í 2. gr. frv. segir að sveitarstjórn fari með stjórn vatnsveitu í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Hins vegar er lagt til að lögbundin verði sú heimild sveitarstjórna að kjósa sérstaka stjórn til að fara með yfirumsjón þessara mála í umboði sveitarstjórnar, þar með talin verkefni þau sem sveitarstjórn eru falin með frv. þessu. Þá er og gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimild til að ráða sérstakan vatnsveitustjóra sem annast daglega stjórn vatnsveitu. Mörg sveitarfélög hafa nú þegar tekið upp þessa hætti, ýmist annan eða báða og gefist mjög vel. Með hliðsjón af því þykir eðlilegt að binda ákvæði sem þessi í lög, m.a. til að skapa meiri festu í stjórnsýslu sveitarfélaga. Nánari ákvæði um stjórn vatnsveitu, svo sem valdsvið hennar gagnvart sveitarstjórn er að finna í drögum að reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga sem ég hef áður minnst á. Einnig er þar að finna nánari ákvæði um vatnsveitustjóra.
    Samkvæmt 3. gr. frv. er sveitarstjórnum heimilt að leggja og reka saman vatnsveitu. Lagt er til að slík samvinna verði í formi byggðasamlaga nema sveitarfélögin komi sér saman um annað fyrirkomulag.
    Í 4. og 5. gr. frv. er lögð til sú breyting frá núgildandi ákvæðum vatnalaga að sveitarstjórn verði eigandi allra vatnsæða í vatnsveitu sveitarfélagsins, jafnt heimæða sem í götu og aðalæða enda sjái hún um lagningu og annist og kosti viðhald á þeim. Eins og málum er háttað í dag er það húseigandi sem skal sjá um að greiða kostnað við lagningu slíkrar vatnsæðar og jafnframt annast viðhald hennar. Telja verður það þægilegri kost fyrir báða aðila, þ.e. sveitarstjórn og fasteignareiganda að leggja það í hendur sveitarstjórnar að annast þetta hvort tveggja. Ákvæði sambærileg þessu er að finna í ýmsum reglugerðum fyrir hitaveitur og ekki óeðlilegt að sama fyrirkomulag gildi fyrir allar vatnsæðar hvort sem um þær rennur heitt eða kalt vatn.
    Í þessu sambandi vil ég þó vekja athygli á ákvæði 2. mgr. 14. gr. frv. þessa en það hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þær heimæðar, sem fasteignaeigendur eiga við gildistöku laga þessara, sbr. ákvæði vatnalaga nr. 15/1923, skulu vera eign þeirra áfram nema samkomulag verði um að sveitarstjórn yfirtaki þær. Að liðnum 10 árum frá gildistöku þessara laga ber sveitarstjórn að yfirtaka framangreindar heimæðar sé þess óskað af fasteignareiganda.``
    Með hliðsjón af því sem ég sagði hér að framan verður að telja það bæði sjálfsagt og eðlilegt að sveitarstjórn hafi einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns á því svæði sem hún nær yfir enda slíkt lagt til í 5. gr. frv. og í samræmi við núgildandi lög.
    Samkvæmt ákvæðum frv. er gert ráð fyrir að sveitarstjórn sé heimilt að innheimta eftirtalin gjöld vegna vatnsveitu: Heimæðargjald, vatnsgjald, aukavatnsgjald og sérstakt gjald fyrir leigu á löggiltum mælum vegna innheimtu aukavatnsgjalds. Lagaheimildir eru nú þegar fyrir hendi til að innheimta öll þessi gjöld að frátalinni mælaleigunni. Þær er nú að finna í tvennum lögum. Það er í vatnalögum, nr. 15/1923, og í lögum um aðstoð til vatnsveitna, nr. 93/1947. Rétt þykir eðli máls samkvæmt að hafa heimildir sveitarstjórna til þessarar gjaldtöku á einum stað og í lögum sem heyra undir ráðuneyti sveitarstjórnarmála.
    Varðandi álagningu vatnsgjalds er lögð til með þessu frv. sú breyting að álagningarstofn þess verði afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglu Fasteignamats ríkisins, samanborið við 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt ákvæðum núgildandi laga er álagning vatnsskatts hins vegar miðuð við fasteignamatsverð húseigna eins og það er í hverju sveitarfélagi. Þessi breyting þýðir að álagning vatnsgjalds miðast við sama gjaldstofn og fasteignaskattur sem lagður skal á sbr. 3. gr. fyrrgreindra laga. Af hálfu einstakra sveitarstjórna hefur verið bent á hagræðingu fólgna í fyrirkomulagi sem þessu.
    Þá er það nýmæli að finna í þessu frv. að lagt er til að sveitarstjórnirnar sjálfar ákveði upphæð framangreindra gjalda með hliðsjón af öðrum ákvæðum frv. og væntanlegrar reglugerðar. Þessi tillaga er í samæmi við 6. gr. sveitarstjórnarlaga er kveður á um að sveitarfélög skuli hafa sjálfsforræði í gjaldskrám eigin fyrirtækja og stofnana en í núgildandi lögum eru þessar ákvarðanir sveitarstjórnar háðar staðfestingu félmrn.
    Hins vegar er í 11. gr. frv. gert ráð fyrir að sveitarfélög verði skylduð til að setja sér gjaldskrá þar sem m.a. komi fram upphæð þessara gjalda hverju sinni. Þessar gjaldskrár þurfa ekki staðfestingar félmrn. til að öðlast gildi en þær skulu aftur á móti kunngerðar í hverju sveitarfélagi á þann hátt sem venja er með opinberar auglýsingar. Í frv. þessu er einnig að finna nýmæli sem gerir ráð fyrir að í einstökum sveitarfélögum verði unnt að taka tillit til sérstakra aðstæðna vegna fyrirtækja eða aðila sem kaupa óvenju mikið vatn eða nota það til sérstakrar framleiðslu. Í þeim tilvikum kann m.a. stofnkostnaður að vera sérstaklega mikill eða önnur atriði óvenjuleg sem réttlæti það að sveitarstjórn geti gert sérstakt samkomulag um sölu vatns sem annaðhvort byggist á föstu gjaldi eða mældri notkun.
    Í 13. gr. frv. er gert ráð fyrir að félmrh. setji reglugerð fyrir vatnsveitu sveitarfélaga þar sem nánar verði kveðið á um framkvæmd vatnsveitumála. Eins og ég hef þegar minnst á liggur þessi reglugerð þegar fyrir í drögum og verður kynnt félmn. sem fær þetta mál til meðferðar.
    Virðulegi forseti. Ég hef í þessari ræðu minni gert í stuttu máli grein fyrir helstu ákvæðum þessa frv. um vatnsveitur sveitarfélaga. Ég tel nauðsynlegt að ákvæði um vatnsveitur sveitarfélaga, og þá er ég fyrst og fremst að tala um stjórn vatnsveitumála og heimildir til gjaldtöku, verði að finna í einum lögum sem heyri undir eitt ráðuneyti. Að öðru leyti en hér er kveðið á um skulu ákvæði vatnalaga, nr. 15/1923, gilda um vatnsveitur sveitarfélaga, svo sem ákvæði um vatnsöflun, eignarnám og fleira eftir því sem við á hverju sinni. Frv. þetta hefur þegar verið kynnt fyrir formanni og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og voru þeir sammála um efni þess.
    Vænti ég þess að frv. þetta fái afgreiðslu hér á hinu hv. Alþingi og ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.