Vatnsveitur sveitarfélaga

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 14:37:00 (1736)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hafa orðið um þetta frv. en einstaka athugasemdir hafa komið við ákveðnar greinar þess. Ég vil leggja áherslu á í því sambandi að sveitarfélögin hafa um langan tíma óskað eftir því að framkvæmd þessara mála yrði einfölduð og það er einmitt tilefni flutnings frv. og um allt þetta mál og samningu þessa frv. hefur verið haft mjög náið samráð við sveitarfélögin.
    Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 15. þm. Reykv. um umhverfisþáttinn. Auðvitað er það svo með þetta mál sem önnur að það verður að vinna það með umhverfisvernd í huga.
    Hv. þm. nefndi einnig gildistöku þessa frv. sem miðuð er við áramótin. Þessu frv. var skilað til mín í október en nokkur dráttur hefur orðið á að það hafi komið fyrir þingið. Nefndin taldi heppilegra að frv. tæki gildi um áramótin vegna ákvæða um gjaldtöku en það verður auðvitað að ráðast af því hvort nefndin nær að afgreiða það fyrir áramót. Ég hygg að nefndin taki það til sérstakrar skoðunar hvort hægt væri að fresta þessu en ég geri mér grein fyrir að stuttur tími er til stefnu og mörg mál sem Alþingi þarf að afgreiða.
    Varðandi 2. gr. frv. sem hv. 5. þm. Vestf. gerði athugasemd við, þ.e. síðari mgr. þeirrar greinar um að sveitarstjórn sé heimilt að kjósa sérstaka stjórn til að hafa yfirumsjón með starfsemi vatnsveitunnar o.s.frv., þá vil ég vekja athygli á að hér er um heimildarákvæði að ræða til þess að koma meiri festu á þessi mál en alls ekki skyldu á sveitarfélögin.
    Varðandi 13. gr. er það kannski eitt af mikilvægum ákvæðum þessa frv. að einfalda alla framkvæmd með því að setja eina reglugerð fyrir vatnsveitur en ég hygg að ákvæði reglugerðarinnar sem nefndin fær til skoðunar séu það rúm að ekki sé verið að binda sveitarstjórnir með einum eða öðrum hætti umfram það sem verið hefur. Ég veit að hv. þm. á sæti í þeirri nefnd sem fjallar um þetta mál og hann mun væntanlega koma athugasemdum sínum á framfæri við nefndina.