Lífeyrissjóður bænda

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 14:43:00 (1737)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1984 en efni þess er umfjöllun um Lífeyrissjóð bænda. Það frv. sem ég mæli fyrir nú er flutt í tengslum við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 2/1985 um eftirlaun til aldraðra, sem heilbr.- og trmrh. hefur lagt fram á Alþingi. Í því frv. er gert ráð fyrir verulegum breytingum á fjárhagsákvæðum laganna um eftirlaun til aldraðra, þar á meðal að framlag skv. 25. gr. laganna falli niður. Í frv. þessu um Lífeyrissjóð bænda er lagt til að tímabundin ákvæði laganna um Lífeyrissjóð bænda verði framlengd nokkuð breytt til ársloka 1996 en samkvæmt núgildandi lögum rennur gildistími þessara ákvæða út í árslok 1991. Breytingin tekur til II. kafla laganna sem fjallar um þá bændur sem fæddir eru árið 1914 eða fyrr.
    Árið 1969 var samið um stofnun hinna svonefndu almennu lífeyrissjóða og þá gaf þáv. ríkisstjórn fyrirheit um sérstök réttindi aldraðara félaga í stéttarfélögum, þ.e. manna

sem eru fæddir 1914 eða fyrr. Ráðstafanir þessar voru lögfestar árið 1970. Sama ár voru sett lög um Lífeyrissjóð bænda en í II. kafla þeirra laga voru ákvæði um réttindi aldraðra bænda hliðstæð þeim réttindum sem öldruðun launþegum voru veitt með lögunum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögunum. Ný lög um Lífeyrissjóð bænda voru síðan sett 1984 og eru þau enn í gildi. Tímabundin ákvæði þeirra laga hafa verið framlengd óbreytt tvisvar sinnum. Nú er hins vegar fyrirhugað að gera verulegar breytingar á þessum ákvæðum. Breytingar þessar eru gerðar til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í lögunum um eftirlaun til aldraðra, þ.e. lögum nr. 2/1985. Samkvæmt núgildandi lögum skiptist lífeyrir til aldraðra bænda í grunnlífeyri og uppbót, þ.e. verðtryggingu. Grunnlífeyririnn er greiddur af ríkissjóði og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Uppbótin er hins vegar greidd með framlagi skv. 25. gr. laga nr. 2/1985.
    Breytingarnar sem lagðar eru til í frv. snúast um fjármögnun lífeyrisréttinda skv. II. kafla. Lagt er til að Lífeyrissjóður bænda greiði öldruðum sjóðfélögum verðtryggðan lífeyri í samræmi við réttindatíma hvers og eins en hið opinbera það sem á vantar af fullum réttindum skv. lögunum. Enn fremur er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 3. gr. að uppbót verði sameinuð grunnlífeyri í eina greiðslu. Breytingarnar munu hins vegar ekki breyta neinu um lífeyrisgreiðslu til hvers og eins.
    Ljóst er að kostnaður vegna verðtryggingar sem nú er greiddur með framangreindu framlagi mun að verulegu leyti lenda á hinu opinbera. Stafar þetta m.a. af því að Lífeyrissjóður bænda er ekki stofnaður fyrr en árið 1971 og er þar af leiðandi einn af yngstu sjóðunum. Áætlað er að kostnaður vegna lífeyrisgreiðslna á árinu 1991 nemi 157 millj. kr. Þar sem gert er ráð fyrir því í frv. þessu að lífeyrisgreiðslur sjóðsins verði verðtryggðar munu þær hækka nokkuð eða um 2 millj. miðað við árið 1991. Greiðslur hins opinbera hefðu því numið 155 millj. í ár hefði hið breytta fyrirkomulag gilt á yfirstandandi ári.
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er þetta frv. í beinum tengslum við frv. um eftirlaun til aldraðra sem heilbr.- og trmrh. hefur lagt fram á Alþingi og eru hliðstæð ákvæði, tímatakmörk og annað, í báðum þessum frumvörpum. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um einstök efnisatriði í frv. en vísa til greinargerðarinnar sem fylgir því. Ég skora á hv. alþm. að veita frv. þessu brautargengi og afgreiða það fyrir áramót eins og venja hefur verið með slík frv. og legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.