Aukatekjur ríkissjóðs

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 14:48:00 (1738)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um aukatekjur ríkissjóðs. Aukatekjur ríkissjóðs eiga sér langa sögu í íslenskri löggjöf. Elstu heimildir um aukatekjur er að finna í Aukatekjureglugjörð fyrir réttarins þjóna en hún er frá árinu 1830. Tekjur samkvæmt þeim reglum runnu til embættismanna sem endurgjald fyrir ýmis embættisverk sem þeir framkvæmdu. Voru greiðslurnar í reynd hluti þeirra launa sem embættismenn þáðu frá ríkinu.

Þetta breyttist þó skömmu fyrir síðustu aldamót þegar gerð var sú breyting með lögum nr. 2/1894 að aukatekjurnar urðu gjöld sem runnu í ríkissjóð. Þrátt fyrir það urðu aðeins óverulegar efnisbreytingar á lögunum frá því sem verið hafði í reglugerðinni. Frá því þau lög voru sett og fram til 1954 voru ekki gerðar efnisbreytingar á lögunum. Þær breytingar sem gerðar voru fram að þeim tíma lutu að því að hækka fjárhæðir.
    Með lögum nr. 40/1954, um aukatekjur ríkissjóðs, komu inn í aukatekjulög tveir nýir kaflar, annars vegar gjöld fyrir leyfisbréf, skírteini og fleira og hins vegar gjöld fyrir skrásetningar. Þessir kaflar höfðu að geyma allnokkur nýmæli ásamt því sem þar var að finna flest þau ákvæði sem áður höfðu verið í kaflanum um gjöld sem hét: Um gjöld fyrir ýmiss konar embættisverk bæjarfógeta og sýslumanna. Þær breytingar sem gerðar höfðu verið á aukatekjulögunum frá 1954 og þar til núgildandi lög, sem eru nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, tóku gildi hafa í grundvallaratriðum einungis miðað að því að hækka fjárhæðir gjalda.
    Með lögunum nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, var í fyrsta sinn horfið frá þeirri stefnu að löggjafinn kvæði á um gjaldstofna og gjaldskyldu. Í lögunum er að finna víðtækar heimildir til handa ráðherra þar sem honum er raunverulega bæði falið vald til að ákveða fyrir hvaða embættisathafnir skuli greiða gjöld og fjárhæð þeirra. Ef litið er á efnisinntak aukatekjulaga allt frá setningu Aukatekjureglugjörðar fyrir réttarins þjóna árið 1830 til setningar laganna nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, kemur í ljós að inntakið hefur tekið litlum breytingum. Reyndar má fullyrða að einu efnisbreytingarnar sem orðið hafa séu vegna breytinga á tíðaranda, þróunar þjóðfélagsgerðar og breyttrar löggjafar.
    Þær breytingar sem gerðar hafa verið á liðnum árum á lögum um aukatekjur ríkissjóðs hafa einkum miðað að því að hækka fjárhæð gjalda. Samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir að ráðherra ákveði einstök gjöld með reglugerð. Þannig hefur fjmrh. sett reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs og dómsmrh. reglugerð um dómsmálagjöld. Það fyrirkomulag, að ákveða gjöld með reglugerð, hefur ákveðna kosti en um leið galla. Má í því sambandi benda á að ef vegna einhverra atvika þarf að leggja á nýtt gjald, t.d. nýtt leyfisgjald, þarf ekki að bíða eftir lagabreytingu heldur getur ráðherra kveðið á um gjaldtökuna í reglugerð. Á hinn bóginn er ráðherra með þessu fyrirkomulagi gefnar frjálsar hendur um ákvörðun fjárhæða með einhliða ákvörðun. Í þessu frv. er gert að fyrir að í lög séu leidd ákveðin grunngjöld sem síðan taki breytingum með hliðsjón af verðlagsbreytingum. Þannig sé það löggjafarvaldið sem kveði á í reynd um gjöld þessi en ekki framkvæmdarvaldið og þess vegna er horfið frá því fyrirkomulagi sem verið hefur við ákvörðun aukatekna ríkissjóðs frá því að núgildandi lög tóku gildi.
    Frv. þetta gerir ekki ráð fyrir nema óverulegum hækkunum á þeim gjöldum sem ákveðin hafa verið í reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs. Nokkrar hækkanir verða hins vegar á þeim gjöldum sem í tíð gildandi laga hafa verið ákveðin með reglugerð um dómsmálagjöld o.fl. Veigamesta breytingin er sú að nú er sett ákveðið lágmark fyrir gjaldtöku vegna fjárnáms og nauðungarsölubeiðna auk þess sem gert er ráð fyrir að gjöld þessi skuli greidd í einu lagi við framlagningu beiðni um viðkomandi aðgerð. Hækkunaráhrif þessara lágmarksgjalda er þó óviss þar sem gerðarbeiðendur standa nú straum af kostnaði sem kemur til með að falla niður á næsta ári. Nú er til að mynda aksturskostnaður verulegur við margar gerðir en sýslumenn munu ekki krefjast hans eftirleiðis nema eftir 7. gr. Vottagjöld sem eru mismunandi eftir embættum verða ekki ákveðin til handa starfsmönnum embættanna eftir frv. til laga um meðferð einkamála í héraði sem nú er til meðferðar á Alþingi en samkvæmt ákvæðum þess frv. mun það taka gildi 1. júlí 1992. Þetta frv. gerir ráð fyrir að sýslumannsembættin muni standa straum af útlögðum kostnaði vegna nauðungarsölu. Að verulegu leyti má því segja að sú uppstokkun sem verður á ákvæðum I. og sérstaklega II. kafla laganna sé til einföldunar og samræmingar á gjaldtöku.
    Varðandi hækkanir á ýmsum öðrum gjöldum, þ.e. hinum eiginlegu aukatekjum, má almennt segja að þjónustustofnunum sé ætlað að verðleggja og selja þjónustu sína í auknum mæli í samræmi við tilkostnað. Í því sambandi er rétt að taka tillit til þess kostnaðar ríkissjóðs sem ekki kemur fram á rekstrarreikningi viðkomandi stofnunar, svo sem endurgjaldslausra afnota af húsnæði og verðtryggingar á lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna þeirra o.s.frv. Gjöld fyrir ýmsar skráningar eiga því til að mynda ekki einungis að vera endurgjald fyrir skráningarnar sem slíkar, heldur eiga þau að standa að hluta til undir rekstri viðkomandi skrá.
     Það er að sjálfsögðu erfitt að meta hvaða áhrif þetta frv. hefur á tekjur ríkissjóðs en þó má gera ráð fyrir að þær aukist um 200--300 millj. kr.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um það frv. sem hér er til umræðu en legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.