Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:15:00 (1742)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) :
     Virðulegi forseti. Ég veit að þeirri ósk var komið á framfæri við virðulegan forseta að hæstv. forsrh. og viðskrh. væru viðstaddir þessa umræðu og vil ég leyfa mér að spyrja hvort þeir eru í húsinu eða hvort þeir eru væntanlegir. ( Forseti: Ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að láta báða þessa hæstv. ráðherra vita af þeirri ósk en hvorugur þeirra er kominn í húsið enn þá. Hæstv. félmrh. er í salnum en einnig hafði verið óskað eftir nærveru hennar. Hér eru reyndar fleiri hæstv. ráðherrar. Það eru fjórir hæstv. ráðherrar í húsinu svo að ég vildi vita hvort hv. þm. getur hafið sína ræðu án þess að búið sé að ná sambandi við hæstv. forsrh. og viðskrh.) Því miður. Því miður, virðulegi forseti. Ég met það að vísu að hæstv. félmrh. er hér en það stóra mál sem um er að ræða varðar alveg sérstaklega hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. og ég hlýt að óska eftir því að gert verði hlé þar til þeir tveir ráðherrar eru mættir í húsið og á fundinn. --- Að vísu get ég staðið hér ef óskað er. ( Forseti: Það er búið að koma þessum óskum til skila þó að ekki hafi persónulega náðst í hæstv. ráðherra. En forseti mun kanna hvort þeir hafi fengið skilaboðin og ef hv. þm. vill fresta ræðu sinni þar til það liggur fyrir hefði forseti gjarnan viljað fresta þessu máli um sinn og taka fyrir 6. dagskrármálið ef hv. þm. sem flytur það mál er tilbúinn að nýta tímann á meðan.) Ég fellst á það.