Sjóður til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:57:00 (1749)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :

     Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 15. þm. Reykv. fyrir innlegg hennar í umræðuna. Það var aðallega þrennt sem ég hjó eftir og ég ætla mér ekki að eyða löngu máli í það. Hún sagði hér fyrst að allt fé, held ég að hún hafi orðað það nákvæmlega, ( KE: Nei, allt of mikið fé.) allt of mikið fé til meistaraflokks karla í hinum og þessum greinum. Ég er nú ekki tilbúinn að skrifa upp á þetta og ætla mér ekki að ræða það núna. Það gefst tækifæri til þess vegna þess að hinn stóri kvennalisti á Alþingi hefur líka lagt fram tillögu um íþróttamál. Ég hyggst taka til máls þegar hún kemur á dagskrá og þar kemur þessi liður vafalaust til umræðu. En þetta er fullyrðing sem ætti að fara varlega með.
    Vissulega hefur orðið breyting á þingflokki Kvennalistans. Ég hef tekið eftir því eins og aðrir að það hafa orðið breytingar þar sem víðar. Hins vegar var þetta á sínum tíma meiri spurning um flokkslega línu þar þannig að ég gerði ekki ráð fyrir að hún hefði breyst. En hafi það gerst þá fagna ég því og ég þóttist skynja það hjá fyrri ræðumanni Kvennalistans að þarna væri kannski einhver hugarfarsbreyting og fari þetta fyrir brjóstið á Kvennalistanum er ég --- þó að margir aðrir á þessum tímum séu ekki tilbúnir til þess --- alveg tilbúinn að biðja þær afsökunar að ég hafi ekki boðið þeim samflot og mun minnast þess næst þegar ég læt hugann reika til íþróttamála og hyggst leggja eitthvað fram í þá veru.
    En bara í lokin af því að hv. þm. fór með rangt mál og það vil ég leiðrétta og það er kannski aðalástæðan fyrir því að ég kom hér upp. Hún túlkaði ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur á þann veg að hún hefði ekki skrifað upp á frv. fyrr en nafninu á því hefði verið breytt. Þetta er alveg rangt. Við ræddum þetta og ég skýrði nákvæmlega út fyrir hv. þm. hvað í frv. fólst og hún féllst á það eins og það var og þá var það nákvæmlega eins og það var á fyrra ári, um afreksmannasjóð. Hins vegar tók ég þá ákvörðun, og í raun án þess að tala við nokkurn af mínum meðflm., að breyta nafninu í það sem hér stendur og ég held að enginn þeirra erfi það neitt við mig. Ég er sjálfur miklu sáttari við þetta eins og þetta er núna, en það er rangt að ég hafi breytt því fyrir einhvern einn þingmann. Ég taldi þetta bara réttara svona og hugsun og tilgangur frv. kæmi betur fram en áður.