Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 21:50:00 (1757)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem nýlega hefur komið fram hjá Seðlabankanum hefur nokkuð verið dregin inn í umræður um það frv. sem hér er á dagskrá um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Ég fór í síðustu vikum nokkrum orðum um þær fullyrðingar sem fram koma í skýrslu Seðlabankans um húsbréfakerfið. Ég þarf því ekki að hafa mörg orð um það hér. Það er alveg ljóst að þær fullyrðingar sem þar eru settar fram um húsbréfakerfið fá engan veginn staðist. Allan rökstuðning fyrir þeim fullyrðingum vantar þannig að ég held því fram að margar af þeim fullyrðingum sem þarna koma fram séu hreinn og beinn sleggjudómur um húsbréfakerfið sem er auðvitað alvarlegt mál þegar Seðlabanki Íslands á í hlut. Ég tel að hv. 7. þm. Reykn., fyrrv. forsrh., hafi að nokkru leyti tekið undir að það sem þarna er sett fram um húsbréfakerfið sé ekki traustvekjandi.
    Ef þetta mál er skoðað af einhverri sanngirni er alveg ljóst að það sem hefur orðið til þess að húsnæðiskerfið hefur tekið til sín meira fjármagn á þessu ári en það mun gera til að mynda á næsta ári er kannski fyrst og fremst útgáfa húsbréfa vegna greiðsluerfiðleikalána sem hefur verið meiri en menn ætluðu. Þau greiðsluerfiðleikalán hafa farið til þess að greiða upp skammtímaskuldir fólks sem er í miklum erfiðleikum og ég hef aldrei heyrt rödd um það hér á Alþingi að stoppa hefði átt slíka fyrirgreiðslu enda held ég að hún hafi komið í veg fyrir að margar fjölskyldur hafi lent í gjaldþroti.
    Í annan stað er alveg ljóst að það gengur ekki að hafa tvö húsnæðiskerfi starfandi samtímis. Þegar opnað var fyrir húsbréfakerfið kom í ljós að safnast hafði upp langur biðlisti fólks sem þurfti að bíða 2--3 ár eftir að fá fyrirgreiðslu. Þegar allt í einu var hægt að fá fyrirgreiðslu til húsnæðismála á stuttum tíma var ljóst að fleiri komu inn í húsbréfakerfið en æskilegt var og einnig vegna þess að við vorum með tvö kerfi starfandi samhliða. Þær fullyrðingar sem Seðlabankinn setur fram eru furðulegar. Bankastjórar Seðlabankans, sem ég hef átt viðræður við í dag, hafa engan veginn getað skýrt þær, t.d. þá fullyrðingu að 45 milljarða kr. lán til heimilanna eigi að langmestu leyti rót sína að rekja til húsbréfa og annarra lána hins opinbera íbúðalánakerfis. Það sjá auðvitað allir í hendi sér að slík fullyrðing stenst ekki og ég hef velt fyrir mér hvaða tilgangi það þjónar af hálfu Seðlabankans að setja fram slíka sleggjudóma.
    Ef við skoðum útgáfu húsbréfa á þessu ári er hún um 13 milljarðar kr., þau húsbréf sem hafa verið gefin út. Það liggur fyrir að um helmingur af húsbréfum sem eru útgefin vegna notaðra íbúða ganga til innri fjármögnunar, þ.e. annaðhvort í sparnað eða upp í önnur fasteignaviðskipti þannig að við erum að tala um u.þ.b. 6 1 / 2 milljarð í húsbréfum sem hefur farið út á markaðinn á þessu ári. Þegar við lítum til þess að við erum að tala um 5% af veltu verðbréfamarkaðarins, sem er um 160 milljarðar kr., þá sjá allir í hendi sér hvílík þvæla þetta er hjá Seðlabanka Íslands. Ég vil vitna, með leyfi forseta, til þess sem kom fram í Morgunblaðinu 13. okt. og er haft eftir Sigurði B. Stefánssyni hagfræðingi en hann er að fjalla um húsbréfakerfið:
    ,,Sigurður segir að þegar athugaðar eru hinar dýpri sveiflur sem verða á fjármagnsmarkaðinum í fyrrasumar sé útilokað að rekja þær beint til húsbréfakerfisins. Þessar breytingar eru þær helstar að mjög hratt dregur úr sparnaði hjá fólki almennt og stærri hluti tekna þess fer í neyslu með samsvarandi aukningu innflutnings og viðskiptahalla. Þetta leiði hratt til 2% raunvaxtahækkunar á fjármagnsmarkaðinum. Á þessum tíma eru húsbréfin að koma inn á markaðinn og þau eru aðeins lítið brot af honum. Á heildina litið var veltan

á verðbréfamarkaðinum í fyrra 160 milljarðar kr. þannig að húsbréfin voru innan við 5% af honum. Því hefur þessi sveifla farið af stað hvort sem húsbréfin voru til staðar eða ekki.``
    Ég held að þetta segi meira en mörg orð. Það er alveg ljóst þegar menn skoða málið af sanngirni að ekki er hægt að kenna húsbréfunum um mikla þenslu á lánamarkaði eða að húsbréfin séu orsök fyrir einhverri raunvaxtahækkun. Enda er það svo þegar við skoðum lán til Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfanna árið 1990 og 1991 er þar ekki um aukningu að ræða. Lán til Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfa á árinu 1990 voru 19,9 milljarðar kr. og á árinu 1991 voru lánin og útgáfa húsbréfa um 20,1 milljarður kr. Allt þetta sem ég hef sagt staðfestir auðvitað að það sem fram kemur í skýrslu Seðlabankans eru tómir sleggjudómar. Það er líka athyglisvert þegar 1986-kerfið er skoðað að hefði það verið enn í gangi og við hefðum ekki verið með nein húsbréf, hefðum við sennilega verið með í útlán úr Byggingarsjóði ríkisins og verkamanna á þessu ári um 22--24 milljarða kr. Það helgast af því að 55% af fjármagninu var bundið inni í Húsnæðistofnun, í lánakerfinu frá 1986. Það hefði verið í ár um 16--17 milljarðar kr. Bankalán vegna íbúðakaupa hefðu verið um 2 milljarðar kr. og sennilega álíka frá lífeyrissjóðunum og handhafabréfin væru um 2 milljarðar. Þannig að við erum að tala um að á þessu ári hefðu sennilega verið úti á lánamarkaðinum 22--24 milljarðar kr. Og spyrja má: Hefði það haft áhrif á vaxtastigið eða aukið þessa þenslu sem menn eru að tala um að húsbréfakerfið hafi valdið?
    Ég spyr líka til þess að menn geta velt því fyrir sér: Ef við værum með 55% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna bundin í fjármagni til húsnæðislána en lífeyrissjóðirnir gætu ekki verið með sitt fjármagn í samkeppni við annað lánsfé á markaðinum, hvaða áhrif hefði það haft á vextina, svo að dæmi sé tekið? Ég fékk enga skýringu á því í samtölum mínum við seðlabankastjóra í dag hvers vegna það er hvergi reynt í þessari skýrslu Seðlabankans, þegar þeir stilla húsbréfakerfinu þannig upp að með því hafi orðið veruleg aukning og stökkbreyting á lánsfjáröflun til íbúðabygginga, að draga fram hve mikið hefur dregið úr lánum í bönkum og lífeyrissjóðum og með handhafaskuldabréfum við tilkomu húsbréfakerfisins sem eru verulegir fjármunir. Bara í bankakerfinu á tveimur árum erum við að tala um samdrátt vegna lána til íbúðaröflunar um 2 milljarða kr. Og þegar að því er látið liggja í skýrslunni að íbúðakaupendur eigi langmestan þátt í þessari neyslu upp á 45 milljarða kr. þá er það auðvitað eins og hvert annað bull. Skyldi nokkur trúa því að þeir, sem standa í íbúðabasli og þurfa á öllu sínu að halda til þess að eiga fyrir sinni íbúð, eigi eitthvað afgangs til annarrar neyslu? Auðvitað hljóta að vera einhverjir aðrir á ferðinni sem standa fyrir þessari neyslu sem hér er dregin fram. Ég hygg að það séu alls ekki íbúðakaupendur sem eru skuldsettir heldur miklu frekar þeir sem eru í skuldlausum íbúðum og standa þá fyrir einhverri annarri neyslu.
    Auðvitað er hvergi í þessari skýrslu reynt að draga fram neitt um innri fjármögnun húsbréfakerfisins sem hlýtur þó að hafa mikla þýðingu, þ.e. hvað af þessu fer út á markað og hvað er innri fjármögnun. Bankinn reynir ekki að gera minnstu tilraun til þess að draga það fram. Enda er það svo í skýrslu sem ég mun kynna í ríkisstjórninni í fyrramálið og hefur verið unnið að í hálft ár og mikil vinna liggur að baki, er skoðuð reynslan af húsbréfakerfinu sl. tvö ár. Hún gengur þvert á þessa niðurstöðu sem dregin er fram af Seðlabankanum um húsbréfakerfið. Og það kallar auðvitað á sína skýringu, að við séum hér með tvær skýrslur sem ganga hvor í sína áttina í þessu efni.
    Hæstv. viðskrh. dró það fram í sinni ræðu hve mikill samdráttur verður á fjármagni til húsnæðismála á næsta ári og þarf ég ekki að fara um það fleiri orðum. Það er ljóst að miðað við það sem áætlað var, þá mun sú lánsfjárþörf vegna húsnæðismála dragast saman um a.m.k. 4--5 milljarða á næsta ári. Ég ætla ekki að fara út í mörg þeirra ummæla sem fram komu hjá hv. þm. Ólafi Þ. þórðarsyni og læt mér í léttu rúmi liggja þær sakir sem hann var að bera á mig um að það væri húsbréfakerfið sem ætti þátt í að atvinnulífið væri að hrynja og konur væru að verða atvinnulausar. Þetta er auðvitað eins og hvert annað bull sem er ekki svara vert. ( ÓÞÞ: Ég sagði að það væri borið á hæstv. ráðherra að þetta væri ástæðan.) Nú, ég skildi það svo að hv. þm. hefði verið að bera mig þeim sökum en ef það hefur ekki verið, þá dreg ég orð mín til baka. En ég tek undir með hv. þm. að það er vissulega æskilegt að nýta meira heimildir til sölu á húsbréfum erlendis. Landsbréf sem er viðskiptavaki húsbréfa hefur verið að vinna að þessu. Ég tel að það eigi að gera það sem hægt er til þess að fara með húsbréfin á erlendan markað. Fjármagnsmarkaðurinn hér er einhæfur og sterk staða lífeyrissjóðanna gerir hann mjög erfiðan. Ég get því alveg tekið undir með hv. þm. um það að það sé full ástæða til þess að nýta betur þær heimildir sem við höfum til sölu húsbréfa erlendis.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég tel eins og ég hef margítrekað að það sem fram kemur í skýrslu Seðlabankans sé að meira og minna leyti þvættingur um húsbréfakerfið og kallar auðvitað á það að við ræðum betur við Seðlabankann um þetta mál og förum yfir stöðu húsbréfakerfisins. Bankastjórar Seðlabankans munu taka það til athugunar sem fram kom í mínu máli og hæstv. viðskrh. í samtölum okkar við þá í dag. Þegar þessi skýrsla, sem verður kynnt í ríkisstjórninni á morgun, kemur fram tel ég fulla ástæðu til þess að eiga frekari samtöl við bankastjóra Seðlabankans vegna þess að ég tel að það sé ófært með öllu að Seðlabanki Íslands láti frá sér fara slíka skýrslu sem hefur verið send hv. þm. Hæstv. viðskrh. ætti að gera kröfu til þess að Seðlabankinn endurskoðaði það fleipur sem hann fer með um húsbréfakerfið í þessari skýrslu.