Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 22:08:00 (1759)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu á þessum kvöldfundi, frv. um vaxtamálin, er væntanlega það mál sem rís öðru hærra í þjóðmálaumræðunni þessar vikurnar.
    Við getum þess vegna eytt hér löngu kvöldi í fræðilegar útlistanir á því hvað sé orsök og hvað afleiðing í þessu máli. En það er staðreynd, hæstv. viðskrh., sem atvinnulífið í landinu stendur frammi fyrir þessa mánuðina, að við búum við vaxtastig sem er svo hátt að það þarf ekki langan tíma til að skilja eftir sig þau spor í atvinnulífinu að þar verði ekki um bætt.
    Ég hef áður á þessu þingi rætt við viðskrh. um vaxtamálin þannig að ég þarf ekki að hafa hér mjög langa ræðu þar um. En ég ætla að koma að nokkrum þáttum sem þetta

varðar. Það hefur komið fram í umræðunni í dag og kvöld að við búum við ófullkominn fjármagnsmarkað. Hér sé í raun fákeppnismarkaður sem við höfum búið við um nokkurra ára bil. Og ég ætla nú, með leyfi forseta, að vitna í ræðu hæstv. viðskrh. frá umræðu um lánsfjárlögin þar sem hann, eftir að hafa rætt um áhrif ríkisfjármála á vaxtastigið, sagði svo:
    ,,En það er líka annað mjög mikilvægt atriði í þessu máli sem athuga þarf, og kom kannski ekki alveg nógu skýrt fram hjá þingmanninum,`` þ.e. þeim þingmanni sem hann var að svara þá, ,,og það er að til þess að útvega atvinnuvegunum lánsfé á samkeppnisfærum kjörum, fjármagn á heimsmarkaðsverði, þá þurfum við að opna okkar lánamarkað. Að því máli er nú unnið og síðasta dæmið um það er að sjálfsögðu það sem samþykkt var í mars á síðasta þingi að heimila erlendum lánastofnunum að opna hér útibú sem væntanlega verður fest skýrar í lög á næstu dögum. Þannig og aðeins þannig fáum við samkeppniskjör á fjármagni til okkar atvinnuvega.``
    Ég tel alveg nauðsynlegt að þetta komi inn í umræðuna því þetta var að mínu mati afar athyglisverð yfirlýsing frá hæstv. viðskrh. Það sem hann sagði í raun var að í skjóli fákeppnismarkaðar á fjármagnsmarkaðnum væri á síðustu árum búið að flytja fjármagn svo milljörðum skipti frá atvinnulífinu og heimilunum yfir til fjármagnseigendanna. Það er ýmislegt sem styður þetta. Mér segja kunnugir menn, sem þekkja til fjármagnsmarkaða annarra landa, að eðlilegur vaxtamunur á almennum fjármálapappírum í umferð og ríkistryggðum bréfum, svo sem ríkisvíxlum og skuldabréfum, sé 2--3%. Skyldi fjármagnsmarkaður okkar sýna þessi merki? Nei, hann gerir það ekki. Hér verður ríkið að keppa á hæstu vöxtum til að geta selt sína ríkistryggðu pappíra. Þannig gætum við tekið hverja staðfestinguna á fætur annarri sem sýna okkur það að hér hefur fjármagn í stórum stíl verið flutt milli aðila í þjóðfélagi okkar á röngum forsendum.
    Ég ætla aðeins í framhaldi af þessu að koma að þessu máli frá öðru sjónarhorni eins og það hefur verið að þróast síðustu vikurnar. Það er að atvinnulíf okkar verður að eiga aðgang að lánsfjármagni á viðráðanlegum kjörum. Það verður líka að eiga aðgang að áhættufé í formi hlutafjár. Hvað hefur verið að gerast síðustu vikurnar, síðustu mánuðina? Það sem hefur verið að gerast er einfaldlega það að sú þróun, veikburða þróun, sem hafði verið að fara af stað á síðustu árum í þá veru að fyrirtækin í landinu voru farin að geta fjármagnað sig að nokkru leyti með útgáfu og sölu nýs hlutafjár, er öll að stöðvast þessa dagana. Hlutabréf hreyfast nánast ekki á markaði. Hvers vegna? Vegna þess að það er verið að bjóða aðra pappíra á svo miklu hærri vöxtum.
    Það litla sem ég hef lært í hagfræði segir mér að þeir, sem vilji taka áhættu, vilji eiga möguleika á hárri ávöxtun, verði að fara út á slíkan markað. Þeir verði að veðja beint á atvinnulífið með kaupum á hlutafé. Hér er svo komið núna að hlutirnir hafa algerlega snúist við.
    Ég ætla í framhaldi af þessu --- og sakna ég nú viðskrh. í salnum, virðulegi forseti. Ég hygg reyndar að hann hafi farið í símann.
    Virðulegi forseti. Ég get haldið áfram á öðrum stað og tek þá upp þráðinn þar sem ég hóf mína ræðu. Nú er svo komið að verðið á peningunum er slíkt að það er atvinnulífinu og heimilunum ofviða. ( GÁ: Misjafnt þó.) Hér kemur hv. 5. þm. Suðurl. og segir að það sé misjafnt þó. Það er alveg rétt, það er eilítið misjafnt milli fjármálastofnana. Ég hef áður úr þessum stól farið aðeins yfir það með honum að aðstaða fjármálastofnana er eilítið misjöfn líka. Sumir hafa leyft sér að spila svolítið frítt spil og leika þar sem þægilegast er að spila þannig að þetta á sér einhverjar skýringar.
    En ég var kominn, hæstv. viðskrh., fyrr í ræðu minni að þeim þætti fjármagnsmarkaðarins sem er samspil þess lánsfjármagns sem atvinnulífið þarf á að halda annars

vegar og hins vegar aðgangur að öðru áhættufjármagni. Nú er svo komið að ástandið á peningamarkaðnum er þannig að þar eru boðin bréf á þeim kjörum að hlutabréfamarkaðurinn er nánast frosinn í dag. Þar rótast ekki bréfin og sú þróun síðustu ára, sú veikburða þróun til eðlilegs hlutafjármarkaðar, sem hér var að myndast hefur nánast stöðvast. Við þetta verður ekki unað lengi.
    Ég var síðan kominn að því, hæstv. viðskrh., að ég ætlaði að fara örfáum orðum um hugmyndir sem nú hafa verið uppi um sölu ríkisfyrirtækja. Ég hef skilið það þannig að á þann hátt hafi menn ætlað að bjarga að nokkru leyti erfiðri stöðu ríkissjóðs á næsta ári. Og ég vil því spyrja hæstv. viðskrh. hvort það væri nokkurt vit og nokkur sanngirni í því gagnvart atvinnulífinu í landinu ef staðið verður við þau fyrirheit hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að strax eftir áramót verði Búnaðarbankanum breytt í hlutafélag og hann seldur á frjálsum markaði. Er nokkur sanngirni í því gagnvart atvinnulífinu, öðrum þáttum atvinnulífsins, sem þurfa í neyð sinni á áhættufjármagni á frjálsum markaði að halda á næsta ári? Mundi ekki sala Búnaðarbankans og hugsanlega fleiri fyrirtækja gleypa í einu lagi allt það fjármagn sem hægt væri að hugsa sér að að öðrum kosti rynni sem áhættufé frá fyrirtækjum og einstaklingum inn í atvinnulífið á næsta ári? Ég vil biðja hæstv. viðskrh. að svara þessu hér á eftir.
    Síðan að lokum, ef ég hverf til upphafs ræðu minnar að í dag, þá er verðið á fjármagni þannig að það er heimilunum og atvinnulífinu ofviða. Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar? Það er nokkuð sitt á hvað eftir því við hvern er rætt. Hæstv. sjútvrh. sagði fyrir nokkru að nú yrði að beita fortölum ef ég man rétt. Ég skil að það sé næsta stig við handafl. Viðskrh. reyndar kom að þessu í sinni ræðu áðan. En hvað hefur svo ríkisstjórnin verið að gera að öðru leyti? Þar hafa hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar í raun gefið fjármagnsmarkaðnum frítt spil á næstunni. Hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh., þó hann drægi aðeins í land í sinni ræðu hér áðan þegar hann kom að fortölunum, og hæstv. fjmrh. einnig hafa sagt: Markaðurinn verður að ráða. Viðbrögð hans verða að ráðast af því hvernig okkur tekst til við að ráða við fjárlagahallann. Þetta eru þau skilaboð sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gefa fjármagnsmarkaðnum síðustu daga.
    Nú hafa þær aðgerðir í ríkisfjármálum, sem boðaðar hafa verið, ekki séð dagsins ljós enn þá svo ég tel ekki sanngjarnt að ég ræði mikið um þær hér. Þó fengum við að sjá nokkuð af þeim, m.a. af blaðamannafundi hæstv. fjmrh. í dag. Og hverjar eru svo þessar aðgerðir? Er verið að skapa þar svigrúm fyrir atvinnulífið? Ég get ekki séð það. Ég sé ekki betur en hlutur ríkisins á næsta ári verði nánast óbreyttur sem hlutfall af landsframleiðslu.
    Síðan koma menn og tala um að nú sé verið að ná viðbótarsparnaði til að skapa svigrúm fyrir atvinnulífið. Í hverju felst hann? Hann felst m.a. í því, samkvæmt fréttum Sjónvarpsins í kvöld, að flytja 700 milljónir frá ríki til sveitarfélaga. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort þessi aðgerð skapi svigrúm í efnahagslífinu fyrir atvinnulífið. Ég sé ekki betur en að þarna fari, eins og í málefnum fatlaðra, sama fjármagn í þessa starfsemi. Það skapar að mínu mati heldur ekki, eins og hér hefur komið fram m.a. í umræðum um fjárlög, nýtt svigrúm fyrir atvinnulífið, sú tilfærsla skatta þar sem gjöld eru færð til á þann hátt að í stað skatta komi þjónustugjöld. Það eru líka peningar sem koma beint út úr hagkerfi okkar og hljóta jafnmikið eftir sem áður að þrengja að atvinnulífi. Það er þannig sama hvar borið er niður. Stærsti þátturinn í því sem okkur var boðað í fjölmiðlum í kvöld til viðbótar við þessa millifærslu frá ríki til sveitarfélaga var flatur niðurskurður á rekstri ríkisins. Þetta er aðgerð sem menn eru margbúnir að reyna og hefur undantekningarlítið endurspeglast í fjáraukalögum næsta árs. Og ég hef það ekkert séð til þessarar ríkisstjórnar sem bendir til að öðruvísi muni fara nú. Þetta eru skilaboðin sem ríkisstjórnin hefur verið að senda til aðila fjármagnsmarkaðarins. Og það kæmi mér mikið á óvart ef það kæmi í ljós á morgun eða hinn að bankarnir rykju til og lækkuðu vextina. Það þarf nefnilega miklu meira að koma til. Það þarf verulega handleiðslu og fortölur og það sýndi hæstv. félmrh. áðan að hún er ekkert feimin við að hjóla í Seðlabankann og segja honum til syndanna ef henni finnst að ekki sé veitt rétt ráðgjöf. Og það held ég að hæstv. forustumenn efnahags- og peningamála ríkisstjórnarinnar ættu að gera á næstunni. Því það er alveg rétt sem hv. 5. þm. Suðurl. sagði í dag að með sátt um þessi mál er hægt að ná vöxtunum niður á næstunni og skapa þannig það svigrúm sem þarf fyrir atvinnulífið.
    Ég hef rakið það fyrr að ég sé það ekki í aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú að neitt stórt sé að breytast. Óraunhæf fjárlög virðast vera í uppsiglingu, einu sinni enn, vil ég kannski segja. Það er engin ný hugmyndafærði þar. Ég hef oft heyrt hv. 4. þm. Reykv. tala um að það eigi að taka upp alveg nýja hugmyndafræði, það eigi að lækka skatta verulega og sérstaklega veltuskattana og ná með því upp meiri veltu í þjóðfélaginu og þannig nái ríkissjóður inn þeim tekjum sem hann þarf. Maður hefði kannski álitið að það væri einhver hugmyndafræði í átt við þetta sem kæmi frá hæstv. ríkisstjórn. En hvað gerist? Það eru sömu gömlu úrræðin. Fjármunir eru færðir til og í sumum tilfellum fram og til baka og niðurstaðan virðist ætla að verða sú að við verðum með sama hlutfall af landsframleiðslu í ríkisútgjöld á næsta ári og verið hefur þannig að ég sé ekki að það geti haft mikil áhrif á vextina.