Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 23:17:00 (1765)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst leita leyfis til að svara andsvörum beggja þingmanna, þeirra 8. og 7. þm. Reykn. Er það leyft? Ef það er leyft sný ég mér að því og skal vera stuttorður.
    Hv. 8. þm. Reykn. taldi að við skilyrði fákeppni væri rétt að beita fortölum. Það er út af fyrir sig rétt en er aukaatriði. Aðalatriðið í málinu er að það þarf að opna markaðinn, auka samkeppnina bæði inn á við og út á við. Og það er þetta sem ég hef saknað í ræðum þessara ágætu þingmanna hér í kvöld.
    Vegna þess sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykn. ætla ég ekki að bæta við mörgum orðum. Ég fagna því að nú ber vitnunum betur saman en áður.