Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 23:18:00 (1766)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera þetta með sama hætti og hæstv. viðskrh. Þau voru nokkuð skemmtileg þessi andsvör hans en ég hefði frekar kosið að hæstv. viðskrh. hefði svarað þeim spurningum sem ég hef beint til hans hér í tvígang, hvað hann segi um þá grundvallarkenningu Seðlabankans að það séu húsbréfavextirnir sem haldi uppi raunvöxtunum. Í öðru lagi hvað hann segi um þá kenningu Seðlabankans að afnema ríkisábyrgð á húsbréfunum og í þriðja lagi hvort áfram eftir áramót verði leyft að reikna húsbréfin inn í skilmála viðskiptabankanna gagnvart Seðlabankanum. Það hefði verið efnismeira framlag til umræðunnar að fá skýr svör við þessu því þá hefði verið hægt að dæma hvort það er eitthvert samhengi í þeirri stefnu sem hæstv. viðskrh. er að boða.