Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 13:37:00 (1773)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Við 2. umr. um málið kom fram mikil gagnrýni á þetta frv. og enn fremur voru fluttar hér breytingartillögur. Síðan 2. umr. fór fram hafa ýmis samtök utan þings sent áskoranir til þingsins vegna þessa frv. Ég taldi að því hefði verið vísað til efh.- og viðskn. að fjalla um brtt. sem voru lagðar fram og þá gagnrýni aðra sem fram kom á þetta frv. milli 2. og 3. umr. Mér kom þess vegna á óvart að enginn skyldi kveðja sér hljóðs þegar málið var tekið á dagskrá. Ég heyrði að vísu af forsetastóli að formaður nefndarinnar hefur veikindaleyfi en ég tel mjög nauðsynlegt að fá skýrslu um það hvað gerðist í nefndinni, hvort breytingartillögur hafa verið endurfluttar. Mér er ekki alveg kunnugt um hvort svo er. Enda kemur til greina að fresta afgreiðslu á þessu máli þar til á síðari fundi og ég beini því til forseta hvort ekki er skynsamlegt að bíða með endanlega afgreiðslu á þessu máli þar til síðar. Ég held t.d. að nauðsynlegt sé að þingflokkar ræði um það með hvaða hætti þeir greiði atkvæði í þessu máli í ljósi þeirrar umfjöllunar sem kom

fram við 2. umr. Ég vil a.m.k. óska eftir því við hæstv. forseta að umræðunni verði frestað, henni verði ekki lokið svo við höfum tækifæri til þess einhverja næstu daga að koma að málinu aftur enda á það í sjálfu sér ekki að koma að sök, virðulegi forseti. Þingið hefur ávallt síðan 1978 afgreitt þetta frv. fyrir jól.