Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 13:42:00 (1776)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykn. var greinilega ekki mikið unnið í þessu máli milli umræðna. Ég hafði sérstaklega óskað eftir því að athugun yrði gerð á þeirri tillögu sem ég flutti og einkum varðandi kostnaðarhliðina, þá breytingu sem tillagan hefði í för með sér miðað við frv. Í raun liggja engar upplýsingar fyrir um það mál en tillagan var flutt fyrst og fremst í því skyni að leitast við að hlífa verslun í strjálbýli. Hún á, eins og kunnugt er, við nokkra örðugleika að etja þó að þeir séu mismunandi eftir svæðum en almennt má segja að þar séu menn heldur verr í stakk búnir til að mæta skatti af þessu tagi heldur en verslanir sem eru á mun stærri þjónustusvæðum og hafa meiri veltu.
    Fram hafa komið efasemdir um að tillagan sem ég flutti stæðist ákvæði stjórnarskrár, sem ég tek að vísu ekki undir, en ég tel rétt til að mæta þeim sjónarmiðum að það mál verði skoðað frekar áður en á það verður látið reyna. Ég hef því breytt minni brtt. þannig að sett verði inn í 9. gr. frv. heimildarákvæði fyrir fjmrh. að höfðu samráði við viðskrh. til þess að lækka, eða fella niður í einstökum skattumdæmum, þennan skatt þar sem mönnum þykir að óvíst sé um verslunarþjónustu á ákveðnum svæðum þar sem hún stendur mjög höllum fæti. Óþarft er að fara frekar yfir þetta. Það hefur ( Forseti: Forseti vill skjóta hér inn þeirri athugasemd að ef hv. 5. þm. Vestf. vill mæla nú fyrir þessari brtt. sinni þarf afbrigði til þess.) Hvað vill þá forseti gera? ( Forseti: Þá verður forseti að leita þeirra afbrigða ef hv. þm. vill gera hlé á ræðu sinni á meðan.)