Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:03:00 (1784)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi viðbrögð hv. efh.- og viðskn. þá var ég alls ekki að gagnrýna þau og síst af öllu gagnrýni ég myndarlega stjórn formanns nefndarinnar á verkum þar. Ég yrði manna síðastur, held ég, til þess að halla orði á okkar ágæta formann í efh.- og viðskn. sem af röggsemi, dugnaði og lipurð reynir að stýra þar verkum við erfiðar aðstæður. Það eru fyrst og fremst þessar aðstæður sem ég gagnrýni, að ekki skuli boðið upp á meira svigrúm til að vinna mál af þessu tagi. Mikil áhersla var lögð á að þetta fyrsta og myndarlega tekjuöflunarfrumv hæstv. ríkisstjórnar næði skjótt og greiðlega fram að ganga. Þessi fáni í oddafluginu fyrir tekjuöflunarfrumvörpunum, sem skatturinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði er, og hæstv. ríkisstjórn hefur af einhverjum ástæðum hefur valið sér. Þess vegna er það fyrst og fremst svo að ég gagnrýni það. Mér þykir það miður, svo að ég noti nú mjög hógvært orðalag, að ekki skyldi vinnast meiri tími til að skoða málið. Það á ekki að skilja sem sérstaka og alls ekki persónulega gagnrýni, hvorki á formann efh.- og viðskn. né nefndina sem slíka sem er þessa dagana við mjög erfiðar og raunar óboðlegar aðstæður að reyna að sinna sínu mikilvæga hlutverki sem hefur verið styrkt með nýsettri löggjöf um þingsköp og hlutverk nefnda á þinginu. Viðskn. á eðli málsins samkvæmt að fara rækilega yfir allar tekjuforsendur fjárlaga og tekjuöflunarmál af þessu tagi.
    Varðandi efni brtt. og það sem hv. varaformaður efh.- og viðskn. sagði, þá geri ég engar kröfur um að ákörðun verði hér og nú tekin um beitingu þessarar heimildar. Ég sætti mig fullkomlega við það og vænti þess að svo muni verða um aðra hv. alþm. að beiting heimildarinnar tæki mið af og færi fyrst og fremst samkvæmt niðurstöðum þess starfshóps sem er að störfum á vegum hæstv. viðskrh.