Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:06:00 (1786)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil lýsa undrun minni á ummælum hæstv. fjmrh., bæði hér í salnum, þegar hann greip fram í fyrir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, og eins þeirri ræðu sem hann flutti hér áðan. Hæstv. fjmrh. var að segja það í frammíkalli sínu og nú í ræðunni, sem hann flutti, að hann ætlaði að leggjast gegn öllum brtt. sem fluttar yrðu við tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar, bæði þessari brtt. og öllum öðrum. ( Fjmrh.: Við þetta frv.) Það sagði hæstv. fjmrh. ekki þegar hann greip fram í hér í salnum. Þá sagði hann að hann mundi leggjast gegn öllum brtt. af hvaða tagi sem væri og ef hann átti bara við þetta frv. fagna ég því. Er það rétt skilið hæstv. fjmrh.? ( Fjmrh.: Það er þetta frv.) Það er ágætt ef hæstv. fjmrh. ætlar að takmarka afstöðu sína við þetta frv. Ég ætlaði að minna hæstv. ráðherra á að þegar hann var í stjórnarandstöðu og sat í fjh.- og viðskn. á síðasta kjörtímabili hafði hann iðulega frumkvæði að því, ásamt öðrum nefndarmönnum í fjh.- og viðskn., að fluttar væru brtt. við tekjuöflunarfrv. sem ég hafði flutt á þinginu og ég var mjög oft reiðubúinn til þess að ganga til samstarfs við þáv. þm. Friðrik Sophusson og aðra nefndarmenn í fjh.- og viðskn. um breytingar á frumvörpunum og jafnframt um að samþykkja nýjar hugmyndir sem fram komu hjá nefndarmönnum. Mér hefði fundist það afar sérkennilegt, svo vægt sé til orða tekið, ef núv. hæstv. fjmrh. ætlaði ekki að sýna sama skilning sem fjmrh. eins og hann bæði óskaði eftir af minni hálfu þegar ég gegndi þessu embætti og fékk í reynd. Ég gæti rakið fjölmörg atriði í gildandi skattalögum sem eru komin inn vegna þess að stjórnarandstöðuþingmenn á síðasta kjörtímabili, með hæstv. núv. fjmrh. í broddi fylkingar ásamt stjórnarmönnum í fjh.- og viðskn., höfðu um það samvinnu við þáv. fjmrh. að breyta skattalögunum. Það tel ég mjög æskilega skipan og finnst fáheyrt ef núv. fjmrh. og ríkisstjórn ætluðu að taka upp þá afstöðu að það væri alveg sama hvaða hugmyndir kæmu fram hér í þinginu, það ætti að leggjast gegn þeim öllum. Nú hefur hæstv. fjmrh. í frammíkalli við minni ræðu skýrt sína afstöðu á þann veg að hún eigi bara við um þetta frv. og við skulum þá vona að sýndur verði meiri skilningur gagnvart öðrum frv.
    Þá kemur að því, er það óskynsamlegt, hæstv. fjmrh., að fá heimildarákvæði af þessu tagi inn í það frv. sem hér er til umræðu. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því, eins og kom fram hjá hæstv. viðskrh. og mörgum þingmönnum er kunnugt, að hin almenna vöruverslun í dreifbýlinu, ég nefni landshluta eins og Norðurl. e., Norðurl. v. og Vestfirði, á í miklum erfiðleikum, svo miklum erfiðleikum að við blasir í mörgum byggðarlögum að engin verslun með daglegar lífsnauðsynjar verði opin. Það blasir við t.d. á Kópaskeri að þar getur hæglega komið upp sú staða í byrjun janúarmánaðar að engin verslun verði í byggðarlaginu og íbúarnir þurfi að keyra langan veg að vetri til til þess að geta keypt sér nauðsynjavarning. Þess vegna er það ósköp skiljanlegt, sem fram hefur komið hjá hæstv. viðskrh., að það sé í athugun að létta skattinum af skrifstofu- og verslunarhúsnæði af þeim verslunarfyrirtækjum dreifbýlisins sem berjast í bökkum og þurfa kannski að loka á næstu mánuðum eða þeim verði lokað vegna þess að þau geta ekki greitt þennan skatt. Ætlar hæstv. fjmrh. að bera ábyrgð á því að fjölda verslunarfyrirtækja í dreifbýlinu verði lokað á næsta ári einfaldlega vegna þess að innheimtumenn ríkissjóðs munu gera það í krafti þeirra laga sem hér er verið að samþykkja? Það mundi væntanlega gerast á miðju ári þegar þing situr ekki. Hugsanlegt er að ráðherrann gefi út bráðabirgðalög en það er auðvitað mjög hæpið fyrir ráðherrann að veita sér slíkar heimildir með bráðabirgðalögum. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. fjmrh. að hann skoði það með vinsemd hvort hægt er að ná samstöðu í þinginu um að veita honum heimild af þessu tagi. Hér er ekki um að ræða að velja úr einstök fyrirtæki, eins og hæstv. ráðherra sér ef hann les tillöguna, heldur er hún bundin við skattumdæmi. Hæstv. fjmrh. yrði þess vegna ekki settur í þá erfiðu stöðu að vega og meta fyrirtækin sem slík, eitt og eitt, heldur eingöngu að taka mið af heildarstöðu verslunar í ákveðnum landshlutum.
    Mér fannst þau viðhorf sem komu fram hjá hæstv. viðskrh. eðlileg og skiljanleg og einstakir ráðherrar verða auðvitað að þola það að geta haft í lögum heimildarákvæði af þessu tagi. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra hvort þeim fyndist ekki skynsamlegt að ljúka ekki umræðunni nú heldur fresta henni í einn eða tvo daga svo menn hafi tækifæri til þess að skoða í rólegheitum utan fundar hvort ekki getur náðst nokkuð breið samstaða um breytingu af þessu tagi. Auðvitað kemur til greina að orða hana með ýmsum hætti en aðalatriðið er að ganga þannig frá þessu frv. að menn viðurkenni að það geti þurft að grípa til sérstakra aðgerða, m.a. skattaðgerða, til þess að forða verslun með daglegri nauðsynjavöru frá því að hrynja algerlega og hverfa á stórum landssvæðum. Ég vil þess vegna ítreka þau tilmæli til hæstv. ráðherra og til forseta hvort ekki sé skynsamlegt að láta þessari umræðu ekki lokið hér í dag heldur fresta henni um 1--2 daga og skoða í rólegheitum hvort ekki geti náðst samstaða um breytingar af þessu tagi.