Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:14:00 (1787)

     Ingi Björn Albertsson :
     Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hefja umræðu um þetta mál, tel mig hafa tjáð mig nóg um það. En ég vil fagna afstöðu hæstv. viðskrh. til þeirrar brtt. sem er lögð fram af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þar sem hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða. Ég er hins vegar ekki alveg sáttur við orðalagið á brtt. sem er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Að höfðu samráði við viðskrh. er fjmrh. heimilt, í því skyni að tryggja áframhaldandi verslunarþjónustu á svæðum þar sem verslun stendur höllum fæti, að lækka eða fella niður í sérstökum skattumdæmum sérstakan eignarskatt samkvæmt lögum þessum.``
    Þarna vil ég í fyrsta lagi fella út orðin ,,á svæðum`` og einnig ,,í sérstökum skattumdæmum``. Ég tel að þetta eigi ekki að eiga við um einhver tiltekin svæði eða tiltekin skattumdæmi heldur eigi að vera hægt, öfugt við það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði hér áðan, að meta stöðu einstakra fyrirtækja ef því er að skipta.
    Hins vegar geri ég líka athugasemd við það að hér er einungis tekið á verslunarþættinum. Það er ekki tekið á skrifstofuhúsnæðinu og með tilliti til þess er freistandi að taka undir þá ósk að fresta umæðunni þannig að menn geti farið yfir sviðið að nýju og reynt að ná heilsteyptum tillögum. Það kom greinilega fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vilji er innan efh.- og viðskn. að taka á þessu máli. Ég get því fyllilega tekið undir þá ósk að fresta þessu eilítið.
    Varðandi nefndarálitið þá tek ég einnig undir það að þar komu mjög jákvæð viðhorf fram en því miður vannst okkur ekki tími til þess að klára það. Ég tek undir það að ekki er við formann nefndarinnar að sakast. Hann hefur stýrt fundum þar af réttlæti og sanngirni og enginn hefur haft neitt við hans verkstjórn að athuga.
    Ég skil ekki alveg viðkvæmni hæstv. fjmrh. fyrir því að fá þessa heimild. Enginn er að segja honum að nýta sér hana en aftur á móti er ekkert að því að hann hafi hana í hendi sér. Hæstv. forseti, ég vil ítreka það að ég er sammála því að við skoðum þetta aðeins betur og frestum umræðunni í 1--2 daga.