Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:32:00 (1791)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Því miður er það svo að það eru ekki haldbærar röksemdir hjá hæstv. fjmrh. að segja það að leggja eigi þennan skatt niður. Maður sem ætlar að flytja á þinginu frv. um að endurvekja jöfnunargjaldið, eftir allt það sem hann er búinn að segja um það gjald og það hneyksli að ekki sé fyrir löngu búið að leggja það niður, ætti ekki að fara með mörg loforð hér í ræðustólnum um að leggja niður skatta. Það er vinsamleg ábending mín til hæstv. fjmrh. Það verður satt að segja afar sérkennileg stund þegar hann mælir fyrir framhaldslífi jöfnunargjaldsins. Ég ætla að bíða sérstaklega eftir þeirri hátíðarstund. Svo ætla ég að senda honum í jólagjöf allar ræðurnar og blaðagreinarnar sem hann skrifaði um jöfnunargjaldið á síðustu tveimur árum, með kærri kveðju frá Gregory. Þess vegna eru auðvitað ekki frambærileg rök að ekki megi hreyfa við þessum skatti vegna þess að fjmrh. segir núna að leggja eigi hann niður eftir eitt ár.
    Hins vegar er hægt að finna aðferðir til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem ráðherrann nefndi með því að taka inn takmarkanir eftir íbúafjölda byggðarlaga og annað. Það er engin gildra í því, hæstv. fjmrh., aðeins vel meint ábending.
    Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, vekja athygli á því að ef orðið hefði verið við ósk frá þremur þingmönnum um að fresta þessari umræðu, virðulegi forseti, svo að menn gætu rætt þetta mál utan salar, hefði verið hægt að spara tíma í umræðum og ræða málið með eðlilegum hætti. Ég vil ítreka þá formlegu ósk við hæstv. forseta, sem hefur komið fram frá þremur þingmönnum, að þessari umræðu verði frestað og menn hafi tækifæri til að ræða málið í rólegheitum. Það eru engin rök fyrir því að ljúka þurfi þessari umræðu í dag. Það vita allir að þetta mál verður afgreitt áður en þing fer í jólaleyfi.