Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 15:49:00 (1797)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Frv. sem við ræðum í dag um rétt til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands hefur vakið upp umræðu sem hefur farið víða og þar hefur mjög margt borið á góma. Ég hlýt að taka nokkurn tíma til þess að svara ýmsu sem fram hefur komið í máli ræðumanna og varðar hagsmunamál íslenska skipasmíðaiðnaðarins. Það er óhjákvæmilegt vegna þess hvernig umræðan hefur þróast, þótt ég vilji líka taka það fram að auðvitað er engin ástæða til þess að tefja framgang málsins sem við ræðum hér í dag með þessum hætti ( SJS: Er verið að tefja málið?) vegna þess að ég veit ekki betur en mjög víðtækur stuðningur sé við það. ( SJS: Forseti, ég legg til að ræðumaður sé víttur.) Ég vil biðja hv. 4. þm. Norðurl. e. að halda stillingu sinni og vil koma strax að máli hans úr því að hann er svo óþolinmóður að bíða þess.
    Mér þótti mjög gott að heyra að hv. 4. þm. Norðurl. e. tók minni saklausu samlíkingu í stuttu andsvari hér eitt kvöldið í fyrri viku ekki illa. Fyrstur manna skal ég á það fallast að samlíkingunni kunni að hafa verið í einhverju áfátt. En hitt vil ég líka segja að hin mikla varnarræða þingmannsins var með öllu óþörf, ef hann athugar málið, les það sem í þingtíðindunum stendur og reyndar það sem kom fram í enn styttra andsvari mínu síðar þetta sama kvöld, þá sakaði ég hann alls ekki um neinn ótilhlýðilegan verknað. Ég sagði einfaldlega frá staðreyndum, þeim staðreyndum að hv. þm., þá samgrh., hefði sjálfur ákveðið að kaupa ferjuna frá útlöndum. Ég sagði líka frá því að hann hefði síðar lagt til að styrkir yrðu veittir vegna frystitogarasmíði hérlendis. Þetta er kjarni málsins. Í þessu fólst engin ásökun um hið fyrra málið en e.t.v. um hið síðara. Það skal ég fúslega viðurkenna. En kjarni málsins er auðvitað þessi. Varnarræðan var algerlega óþörf og hlýtur að hafa verið vakin upp af innistöðum hjá þingmanninum sjálfum en ekki útistöðum við mig.
    Virðulegi þingmaður. Ég vil nú koma að því sem komið hefur fram í máli margra þingmanna, m.a. hv. 3. þm. Vesturl., Jóhanns Ársælssonar, og hv. 4. þm. Norðurl. e. í umræðunni í fyrri viku. Mér fannst þeir reyna að gera lítið úr þýðingu laganna frá 1922 sem hafa hindrað erlend veiðiskip í því að koma hingað til hafnar og fá þjónustu og vistir. Á hinn bóginn leggja þessir sömu þingmenn eðlilega mikla áherslu á að nauðsynlegt sé að treysta samkeppnisstöðu skipaiðnaðarins. Ég tek auðvitað undir það að breyting laganna um fiskveiðar í efnahagslögsögunni frá 1922 leysir ekki allan vanda. En er hægt að hugsa sér meiri viðskiptahindrun, meiri tálma í vegi viðskiptanna, en að banna viðskiptavinunum að koma að búðarborðinu? Það held ég ekki. Afnám þessara hindrana er því einmitt hluti af því að bæta samkeppnisstöðuna.
     Nokkrir sem tóku til máls í fyrri viku, þar á meðal hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefán Guðmundsson, og hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, létu þá að því liggja að ég hafi verið til þess ófús að treysta stöðu skipaiðnaðarins. Sama kom líka fram í máli síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Norðurl. e. Mig langar þess vegna að rifja upp nokkur atriði í þessu sambandi.
    Ég vil byrja á því að minna hv. þm. á að iðnrn. sendi vorið 1989 sérstaka greinargerð til Alþingis, við þinglok eða þegar eftir þau, þar sem skýrt var frá öllum helstu niðurstöðum Appeldore-skýrslunnar, sem hér hefur nokkuð borið á góma. Þar er m.a. sagt frá markaðsátaki sem þá var nýhafið í samræmi við nýsamþykkta þál. frá 6. maí 1989, um nauðsyn þess að bæta stöðu skipaiðnaðarins og var upprunnin úr þingmáli sem hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefán Guðmundsson hafði flutt.
    Hið rétta í málinu er náttúrlega það að á undanförnum þremur árum hefur fjölmargt verið gert af hálfu iðnrn. og annarra yfirvalda iðnaðarmála til þess að styrkja stöðu þessa iðnaðar. Þar hafa verið á ferðinni almennar aðgerðir, svo að ég noti nú orð sem nokkuð hefur verið notað í umræðunum, almennar aðgerðir eins og framleiðniátak innan fyrirtækjanna í greininni, verkefni um stefnumótun iðnaðarins og markaðsátak þar sem veruleg kynningarstarfsemi hefur farið fram bæði innan lands og erlendis. Allt er þetta til þess fallið að styrkja samkeppnisstöðuna.
    Vegna þess sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. um starfsmannafjöldann í greininni þá er það alveg rétt að starfsmönnum hefur fækkað. Fækkunin var, eins og komið hefur fram hjá þingmanninum, um 200 störf, þ.e. úr 800 í 600. Þetta er bagaleg þróun en þó vil ég benda á það að í löndunum í kringum okkur hefur því miður orðið enn meiri breyting í þessari grein.

    Ástæða er líka til að benda á að samlíking þingmannsins við starfsmannafjölda í nýju álveri á Keilisnesi var fullkomin fjarstæða þótt hann reyndi að verja það með því að það stafaði af ókunnugleika. Mér þykir það furðu sæta því hafi nokkur tala verið nefnd oft hér í þingsölum á umliðnum árum er það tala starfsmanna við þetta álver, sem í bígerð er, og muni hafa beinlínis í störfum hjá sér rúmlega 600 manns og að störfin sem álverið leiðir af sér séu samanlagt um 2000. Þetta eru stærðirnar og finnist hv. þm. þetta vera smámunir þá hljóta breytingarnar á atvinnuástandinu, sem hann var að lýsa, líka að vera smámunir í hans augum. Ég vil bara leggja fyrir hv. þingheim að meta hvort þetta getur talist nákvæmni í málflutningi eða skynsamlegar samlíkingar sem til er gripið.
    En ég vil þá koma aftur af því sem gert hefur verið til að styrkja samkeppnisstöðu skipaiðnaðarins. Þar hefur líka verið nokkuð um sértæk verkefni. Af þeim vil ég nefna að aðstoð hefur verið veitt vegna hönnunar á hafnsögubátum hér innan lands. Þetta er mikilvægt mál þótt hv. 4. þm. Norðurl. e. þætti ekki mikið til þess koma. Það er einmitt þörf fyrir hönnunaraðstoð sem skipasmíðastöðvar okkar þurfa á að halda til sérhæfðra verkefna, einfaldlega af því að þær hafa ekki þann bakhjarl sem stærri stöðvar í öðrum löndum hafa. ( SJS: Hvaða ráðuneyti veitti þá aðstoð?) Það gerði samgrn., virðulegi þingmaður, en í framhaldi þessa máls er þessi stuðningur eingöngu á vegum iðnrn. Ráðuneytið hefur líka stutt við uppsetningu dráttarbrautar á Seyðisfirði, stutt við aðgerðir til að auka hagræðingu og samstarf einstakra fyrirtækja í greininni og ég gæti nefnt fleiri sértækar aðgerðir sem vel koma til greina þótt undirstaðan hljóti jafnan að vera almenn hagstæð rekstrarskilyrði. Ég verð að játa að vandlætingarfullur málflutningur hv. 4. þm. Norðurl. e. vekur nokkra furðu hjá mér miðað við tilefnið því það var ekki stórt.
    Þá kem ég að því sem fram hefur komið í máli margra ræðumanna Framsfl. í þessum umræðum. Þeir hafa kvartað yfir því, og ég held að einhver þeirra hafi notað þau orð, að troðnar væru illsakir við framsóknarmenn í þessu máli. Framsfl. getur auðvitað ekki gleymt því að hann sat í ríkisstjórn síðustu fjögur ár og reyndar mjög mörg ár þar á undan. Hann getur heldur ekki gleymt því, þótt hann kunni kannski að kjósa að gleyma því, að í síðustu ríkisstjórn náðist því miður --- og ég endurtek, því miður ekki samkomulag eða samstaða um tillögur sem ég lagði ítrekað fram til bóta í þessum málum. Þetta er einfaldlega staðreyndin. (Gripið fram í.) Við komum að því, virðulegi þingmaður.
    Gráu ofan á svart bætir svo hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, þegar hann sagði, ég held að ég fari nokkurn veginn rétt með það: Vandinn í þessu máli, þ.e. vandi skipasmíðaiðnaðarins, er sá að ráðherra Alþfl., þ.e. sá sem hér stendur, hefur hvorki á síðustu vikum né á rúmum síðustu þremur árum viljað hlusta á neina af þeim hugmyndum sem fram hafa komið til þess að bæta úr þessum málum. Ég leyfi mér þá að spyrja: Hverjir voru það sem ekki vildu hlusta? Í júlí 1989 lagði ég fram beina tillögu í ríkisstjórninni um það að skipaiðnaðurinn fengi beina aðild að stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands. Ég lagði það formlega til að lögunum um Fiskveiðasjóðinn yrði breytt þannig að í 6. gr. laganna væri kveðið á um það að inn í stjórnina komi málsvari fyrir innlendan skipasmíða- og skipaviðgerðaiðnað eins og aðilar í greininni hafa reyndar margsinnis lagt til. Í þessari ríkisstjórn sátu m.a. hv. 4. þm. Norðurl. e., þá samgrh., og hv. 8. þm. Reykn., þá fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson. Þeir hljóta báðir að vita af hverju ekki var lagt fram stjfrv. um þessa breytingu. Um þetta mál náðist ekki samkomulag innan stjórnarinnar þótt ég legði þetta til.
    Menn hafa gert hér að umtalsefni, eins og eðlilegt er, að fjárhagsfyrirgreiðsla sem viðskiptavinir skipasmíðastöðvanna njóta er talin af fulltrúum greinarinnar misjöfn, þ.e. að menn njóti betri kjara þegar þeir kaupa frá útlöndum. Í því sambandi langar mig að rifja upp að ég ritaði í júlí 1989 sem viðskrh. öllum bönkum, sparisjóðum og fjárfestingarlánasjóðum landsins bréf þar sem ég vitnaði í þessa þáltill. sem samþykkt var vorið 1989 um

bætta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar. Þar eru rakin ýmis atriði einmitt úr nefndaráliti atvmn. sameinaðs þings um þessa tillögu, lýst áherslu og stuðningi viðskrn. við þetta mál og í lok bréfsins var þess farið á leit að þessir aðilar geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að því að skipaiðnaðarverkefni fyrir íslenska útgerðaraðila fari ekki úr landi. Þessi tilmæli voru svo ítrekuð í bréfi í nóvember 1989, til bankaráða allra bankanna og stjórnar Sambands ísl. sparisjóða. Með þessu móti var reyndar þannig að málinu staðið að ég sneri mér beint til Fiskveiðasjóðs, sem að sjálfsögðu heyrir þó ekki undir iðnrh. heldur sjútvrh. Til þess að hnykkja enn þá betur á hvatningunni um auknar skipasmíðar innan lands lagði sá sem hér stendur fram í ríkisstjórninni í nóvember 1989 greinargerð og tillögur um ráðstafanir vegna innlends skipaiðnaðar. Það stendur svo óvenjulega á að þetta geta þingmenn allir haft sér til minnis vegna þess að þetta hefur allt verið birt í skýrslu til Alþingis um stöðu og horfur í íslenskum skipaiðnaði, sem var 258. mál á 112. löggjafarþingi á þskj. 457, sem var lögð fram í desember 1989. Það er fátítt að geta með einfaldri tilvísun í þingskjal sýnt nákvæmlega hvað það var sem fyrir ríkisstjórnina var lagt í þessu máli. Mig langar að benda hv. 4. þm. Norðurl. e. og þingheimi öllum á að kynna sér þessa skýrslu vegna þessa máls. Þar er gangur mála rakinn nákvæmlega. Á bls. 10 kemur fram í greinargerðinni til ríkisstjórnarinnar voru raktar ráðstafanir í tíu liðum. Mig langar, með leyfi forseta, að nefna þrjár þeirra orðrétt:
    Í fyrsta lagi. Lánafyrirgreiðsla vegna verkefna hjá innlendum skipasmíðastöðvum verði bætt m.a. með breytingum á lánareglum Fiskveiðasjóðs Íslands.
    Í öðru lagi. Iðnrn. tilnefni fulltrúa fyrir skipaiðnaðinn í stjórn Fiskveiðasjóðs --- og ég bið menn að taka eftir því að þetta er í annað sinn sem áhersla er lögð á þetta mál á sama ári.
    Í þriðja lagi, og það skiptir máli fyrir þingmálið sem við ræðum hér í dag --- að heimildir erlendra fiskiskipa til að sækja þjónustu til innlendra aðila verði rýmkaðar.
    Tæpum mánuði síðar eftir að þessi skýrsla var lögð fram lagði ég svo enn fram beinar tillögur í ríkisstjórn um aðgerðir á þessu sviði og þetta geta þingmenn kynnt sér í skýrslunni sem ég vitnaði til. Þar kemur fram að 15. des. 1989 lagði ég beinlínis til í ríkisstjórninni að munur á lánshlutfalli til nýsmíða skipa verði aukinn verulega eftir því hvort þau eru smíðuð innan lands eða erlendis. Það ætti að verða hvati til þess að skipin verði smíðuð innan lands, eins og orðrétt segir í tillögunni. Að auki var lagt til að ríkisstjórnin legði fram fé til sérstaks markaðsátaks erlendis, m.a. til að undirbúa sölu á fullbúnum fiskiskipum og að ríkisstjórnin stuðli að átaki til hagræðingar og framleiðniaukningar í skipasmíðastöðvunum með því að leggja fram umtalsvert fé. Hluti af þessu fé fékkst reyndar á árinu 1990 en það sem hér skiptir máli fyrir okkar umræður er að þarna kom fram bein tillaga í ríkisstjórn um margumtalaða breytingu á lánshlutfalli í árslok 1989. Ég þarf ekki að taka það fram að ég hafði löngu áður og mörgum sinnum rætt þetta óformlega við samstarfsmenn mína í ríkisstjórninni, ekki síst þáv. sjútvrh. En til þessarar breytingar hefði alls ekki þurft atbeina Alþingis. Þetta var og er verkefni framkvæmdarvaldsins að gera. Þessu erindi virðist hins vegar alls ekki hafa verið hreyft í stjórn Fiskveiðasjóðs að frumkvæði þáv. sjútvrh. á þessum tíma eða síðar og ekki fyrr en núv. sjútvrh. hefur nú hreyft málinu við stjórn Fiskveiðasjóðs en ég hef enn flutt tillögur um þetta mál innan ríkisstjórnarinnar.
    Þetta eru staðreyndirnar í málinu. Ég vísa til þess sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að fulltrúar Framsfl. hefðu kvartað yfir því að við þá væru troðnar illsakir út af þessu máli, eins og þeir orðuðu það sjálfir. Á því hef ég engan áhuga en úr því að deilt er á menn fyrir afskipta- og aðgerðarleysi verður ekki hjá því komist að vekja athygli á ábyrgð þeirra sjálfra. Því miður er hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. sjútvrh., ekki viðstaddur til

þess að taka þátt í þessum umræðum.
    Ég hef þegar lýst því að í júlímánuði 1989 lagði ég fram beina tillögu í ríkisstjórninni um aðild skipaiðnaðarins að stjórn Fiskveiðasjóðs. Ég hef líka lýst þeim tillögum sem komu fram í ríkisstjórninni í desember sama ár, formlegar tillögur um breytingar á lánareglum Fiskveiðasjóðs. Hvorugu þessara erinda var sinnt. Í þessari ríkisstjórn sátu, eins og menn þekkja vel, fulltrúar Framsfl., Alþb. auk Alþfl. og Borgaraflokksins. Þannig liggur þetta mál fyrir. Hv. 17. þm. Reykv. hefur nefnilega nokkuð til síns máls þegar hann deilir á þá sem stóðu að fyrri ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnum og farið hafa með málefni Fiskveiðasjóðs fyrir skort á skilningi á málefnum skipaiðnaðarins. Og svo telur hv. þm., sá 8. frá Reykjanesi, Ólafur Ragnar Grímsson, sem átti sæti í síðustu ríkisstjórn, sér sæma að taka þannig til orða að á síðustu þremur árum hafi iðnrh. ekki viljað hlýða á slíkar hugmyndir. Það þveröfuga er staðreynd. Iðnrh. var sá sem flutti þessar hugmyndir en þær fengu því miður ekki stuðning samráðherra hans.
    Enn vil ég benda á athyglisverðan þátt í þessari sögu. Í júlí í fyrra skrifaði ég enn minnisblað til sjútvrh. og utanrrh. vegna laganna frá 1922 og lét fylgja minnisblað frá skipaiðnaðarnefnd um þessi lög en sú nefnd hefur starfað frá því á árinu 1989 á vegum iðnrn. Þar kemur mjög skýrt fram að þeir líti svo á að þessi lög séu þrándur í götu íslenska skipaiðnaðarins sem þjónustuaðilar og verktakar fyrir erlendar skipaútgerðir. Þar óskaði ég tillagna í þessu máli til að greiða fyrir öflun skipaiðnaðarverkefna. Utanrrn. svaraði erindinu og taldi að heimila ætti erlendum skipum að leita hafnar því forsendur væru gerbreyttar frá 1922. En það hefur lengi verið mótbára í þessu máli að vegna erlendra samskipta okkar gætum við ekki breytt þessum lögum. Þáv. sjútvrh. virðist hins vegar ekki hafa verið sömu skoðunar og utanrrh., a.m.k. komu ekki frá honum neinar tillögur um breytingar í þessu efni en eins og kunnugt er fer hann með forræði þessara laga. Hér hefur því komið fram að málinu var tvívegis hreyft á formlegan hátt í ríkisstjórn í nóvember 1989 og með þessu minnisblaði frá því í júlí 1990. Auk þess hefur málið verið rætt og var rætt óformlega milli ráðherra.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði fyrr í þessum umræðum um gamlar plötur. Mér sýnist við stutta yfirferð að hann hafi snúið tveimur plötum við og spilar nú í báðum tilfellum næsta ólíka músik þeirri sem hann spilaði þegar hann átti sæti í ríkisstjórninni. Ég hef þegar bent á það að í fyrrv. ríkisstjórn þóttist hann sem fjmrh. oft og tíðum vera maður aðhaldssamur í fjmrn., einkum á fyrri hluta síns ferils. Hins vegar er ljóst af máli hans nú að fyrri aðhaldssemi hans er burtu rokin og seinni platan, sem forsvarsmenn Alþb. kjósa nú að snúa við, er einmitt með músik um skipasmíðarnar sjálfar.
    Eins og ég hef þegar lýst flutti ég í síðustu ríkisstjórn tillögur um breyttar starfsaðferðir, um breytt lög fyrir Fiskveiðasjóð í samræmi við tillögur ýmissa forsvarsmanna skipaiðnaðarins sjálfs og í samræmi við þarfir hans eins og þær eru þjóðhagslega og skynsamlega metnar. Þessars tillögur hlutu ekki fylgi þeirrar ríkisstjórnar og þeirra alþýðubandalagsmanna þótt þeir reyni nú að snúa plötunni við og gera þær að sínum. Ég harma það af þessum ástæðum og reyndar ekki síst, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, þeim þriðja frá Vesturlandi, fyrr í þessum umræðum að Fiskveiðasjóður er svo sannarlega einn af þeim aðilum sem mest áhrif geta haft á það hvernig íslenskum skipasmíðastöðvum vegnar. Nú er mikilvægt að ná samstöðu um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðuna og reyndar samkeppnisstöðu iðnaðarins yfirleitt. Þar getur samkomulagið um Evrópska efnahagssvæðið orðið mjög mikilvægt. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það einmitt vegna þess sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann spurði: Gagnast samningurinn um EES íslenska skipaiðnaðinum? Svarið er að sjálfsögðu hiklaust já. Það er grundvallarforsendan fyrir viðskiptasamstarfinu innan EES að komið verði á sömu samkeppnisskilyrðum innan alls svæðisins. Af þessu leiðir að undirboðs- og jöfnunartollar verða úr sögunni fyrir þær afurðir sem samningurinn nær til. Þar með eru talin skip. En sérstakar reglur gilda hins vegar um sjávarafurðir þar sem samningsaðilar munu aðeins leitast við að tryggja þau samkeppnisskilyrði að aðrir geti látið það vera að beita undirboðs- og jöfnunartollum. Þetta er alveg ljóst. Meginreglan innan Evrópubandalagsins er að allir ríkisstyrkir eru bannaðir nema annað sé tilgreint. Hins vegar eru frá þessu allvíðtækar undanþágur sem varða einstakar atvinnugreinar og sérstök tilfelli. Samsvarandi reglur munu gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins jafnt að því er varðar hið almenna bann sem sérstakar undanþágur.
    Á Lúxemborgarfundunum, bæði í júní og október, þrýstu EFTA-ríkin á það að styrkir Evrópubandalagsins til skipasmíða yrðu lækkaðir til þess að eðlileg samkeppnisstaða ríkti á þessu sviði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það liggur þegar fyrir í tilskipunum Evrópubandalagsins að styrkurinn sem þar er leyfður falli niður í árslok 1993. Evrópubandalagið kvaðst þá ekki geta fellt niður þá tilskipun sem um þetta gildir. Hins vegar væri stefnan sú að lækka slíka styrki og haft yrði samráð við EFTA um það fyrirkomulag sem á að taka við í ársbyrjun 1994. Þá yrði stefnt að því að sameiginlegar reglur giltu í öllum ríkjum Evrópubandalagsins og EFTA um stuðning við skipaiðnaðinn og verði þar um strangari og takmarkaðri styrkveitingar að ræða en nú tíðkast innan Evrópubandalagsins.
    Það er líka svo að Evrópubandalagið tekur nú þátt í viðræðum á alþjóðagrundvelli innan OECD um afnám allra styrkja til skipasmíða. Það sem hefur gerst með samningunum um Evrópska efnahagssvæðið er að verði hann staðfestur hafa Íslendingar í fyrsta sinn fengið eðlilegan aðgang að samstarfi við aðra um þetta og geta nú beitt í félagi við EFTA-ríkin sínum styrk til þess að hraða þróun þessa máls. Þetta er staðreyndin, virðulegi þingmaður frá Norðurl. e. Við erum núna að komast inn á það spor sem mun í reynd styrkja best stöðu íslenska skipaiðnaðarins, þ.e. afnám styrkja í öðrum löndum, þeim sem við keppum við.
    Það er líka til umhugsunar hvort við getum á millibilstímanum fundið leiðir til þess að jafna þennan mun án þess að ofbjóða íslenska ríkissjóðnum sem eru og hafa verið helstu rökin gegn því að ganga til slíkra verka.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að með þessu hafi ég svarað flestu af því sem til mín var beint í þessum umræðum. Ég vil ljúka þar ræðu minni að ég lýsi þeirri von að frv. sem hér er til umræðu fái skjóta afgreiðslu í þinginu og að það geti öðlast gildi sem allra, allra fyrst.