Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 16:36:00 (1799)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er kannski óvenjulegt að byrja andsvar með þeim hætti að þakka hv. þm. fyrir þá ræðu sem hann flutti hér. Ég vil nota þetta form til þess að koma þeirri skoðun minni á framfæri að nauðsynlegt sé við meðferð málsins að þeim spurningum sem hv. þm. bar hér fram verði svarað. Hvaða skip eru það sem menn eru aðallega að hugsa um í þessu sambandi? Eru menn hugsanlega að auðvelda erlendum skipum að stunda veiðar á þeim hafsvæðum sem Ísland á rétt til með því að opna þessi ákvæði?
    Hv. þm. rifjaði upp Jan Mayen málið. Það var mjög lærdómsríkt fyrir mig nýkominn á þing að taka þátt í því máli 1978--1979 vegna þess að þá var það þannig að fæstir þingmenn tóku mikið mark á því sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði í því máli. En niðurstaðan varð sú að hann hafði rétt fyrir sér og við eigum honum þess vegna, ég ætla nú ekki að segja meira en öðrum, en ásamt ýmsum öðrum það að þakka að Íslendingum tókst að tryggja sér rétt sem Norðmenn ætluðu aldrei að láta okkur fá og var hann þó í stjórnarandstöðu, hv. þm. þá. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir þingið að húrra þessu máli ekki alveg svona í gegn, athugunarlítið eða athugunarlaust, heldur svara þessum einföldu en skýru spurningum sem hv. þm. bar fram vegna þess að enginn hér í þingsalnum hefur slíka reynslu í landhelgisbaráttu Íslendinga eins og þessi ágæti þingmaður. Allir hinir sem hafa þá reynslu eru horfnir úr þingsalnum.
    Ég vil svo eindregið styðja þá ósk að hv. utanmrn. fái einnig að skila áliti um þetta frv. þannig að það liggi fyrir álit utanmrn. í málinu en ekki bara sjútvn.