Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 16:55:00 (1801)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið en þó eru hér nokkur atriði sem ég tel skylt að komi fram.
    Í það fyrsta vil ég benda virðulegum forseta á að þegar ég fór fram á það í vikunni sem leið að umræðunni yrði frestað þar til ráðherrar úr fyrri ríkisstjórn, sem ekki gátu verið viðstaddir þá umræðu, væru búnir að kynna sér efni umræðna eins og þær féllu þá, hélt ég að ekki hefði átt að fara neitt á milli mála að þar átti ég við hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. sjútvrh. Þess vegna kom það mér mjög á óvart þegar ég sá þetta mál á dagskrá í dag vegna þess að forsetum þingsins mátti vera ljóst að hv. 1. þm. Austurl. er þessa dagana að sinna verkefnum á vegum Alþingis erlendis og hefur þess vegna ekki tök á að fylgjast með, hvað þá að taka þátt í umræðunni nú. Þess vegna hlýt ég að árétta það sem ég sagði í síðustu viku, og ekki síst með skírskotun til ræðu hæstv. viðskrh. nú áðan, að fara þess mjög ákveðið á leit að umræðunni verði ekki lokið fyrr en hv. 1 þm. Austurl. geti tekið þátt í henni. Það átti að vera í lófa lagið fyrir forseta að haga málum þannig að svo gæti orðið.
    Ég ætla ekki að fara mikið inn á þá deilu sem hér hefur verið um stöðu og orsakir þess hvernig komið er fyrir íslenskum skipaiðnaði í dag. Ég ætla hins vegar, með leyfi forseta, að leyfa mér að vitna á örfáum stöðum í ræðu hæstv. iðnrh. og viðskrh., sem hann hélt hér á hinu háa Alþingi 6. nóv. 1989, þegar vandi atvinnulífsins var til umræðu, með sérstöku tilliti til skipasmíðaiðnaðarins. Þá segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Við þurfum að reyna að finna lausn á þessu vandamáli sem er að viðhalda góðri skipaþjónustu í landinu fyrir okkar skipaflota án þess að grípa til styrkja eða ríkisforsjár í greininni þótt auðvitað geti komið upp þau dæmi að það sé óhjákvæmilegt að beita tímabundnum stuðningi. Þá held ég að það sé næsta hæpin ráðstöfun, eins og skilja mátti af

málflutningi hv. 2. þm. Norðurl. e., að það sé gert að takmarka með einum eða öðrum hætti aðgang íslenskra útgerðarmanna, íslenskra útgerða að erlendum skipasmíðastöðvum.`` Og ég endurtek, að takmarka með einum eða öðrum hætti.
    Ég vil vekja athygli hæstv. iðnrh. á því að undir þetta ,,að takmarka með einum eða öðrum hætti aðgang íslenskra útgerðarmanna . . . að erlendum skipasmíðastöðvum`` hlýtur að teljast það að mismuna innlendum og erlendum skipasmíðastöðvum gagnvart aðgangi að lánum úr Fiskveiðasjóði. Það er ómögulegt að skilja þessa setningu öðruvísi.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa áfram úr ræðu viðskrh. og hér heldur hann áfram: ,,Við höfum engin efni á því að íþyngja okkar sjávarútvegi með því að skylda hann til þess að notfæra sér eingöngu þjónustu innlendra skipasmíðastöðva.``
    Skömmu seinna í ræðunni segir hæstv. viðskrh., með leyfi forseta: ,,Styrktar eða verndaðar atvinnugreinar standa ekki undir þeim lífskjörum sem íslenska þjóðin gerir kröfu til. Við skulum heldur ekki gleyma því sem ég nefndi hér áðan að það standa vonir til þess að úr þessum opinbera stuðningi erlendis við skipasmíðaiðnaðinn muni draga á næstu árum. Stefnan er reyndar sú að hann hverfi í árslok 1992.``
    En síðan, með leyfi forseta, held ég áfram og vitna í ræðu hæstv. iðnrh.:
    ,,En jafnvel þótt það verði ekki þá mæla öll rök og skynsemi með því að við eigum að þiggja þessar niðurgreiðslur meðan þær bjóðast. Svo einfalt er nú það. Reyndar er þetta sú stefna sem nágrannar okkar í Noregi hafa ákveðið að hverfa til. Þetta er sú stefna sem margar aðrar grannþjóðir okkar hafa sagt að sé sú eina sem hyggileg er.``
    Virðulegi forseti. Þarf frekari vitna við um stefnu og afstöðu hæstv. iðnrh. til innlendra skipasmíða? Ég vil biðja hv. þm. sem hafa fylgst með þessum umræðum í dag að bera þessar tilvitnanir í ræðu hæstv. iðnrh. frá nóvember 1989 saman við ræðu hans hér í dag. Miðað við það sem maður hefur heyrt í hæstv. viðsk.- og iðnrh. um skoðanir hans á aðgangi okkar að erlendum aðilum, hvort það er iðnvarningur, fjármagn eða hvað sem það er. Ég ber á vissan hátt virðingu fyrir skoðunum viðskrh., virðingu fyrir því að hann hefur a.m.k. haft kjark til þess að segja þær skýrt og skorinort sem sínar. Miðað við það sem maður hefur heyrt frá honum áður um þessi mál var falskur tónn í ræðu hæstv. iðnrh. áðan, það var falskur tónn.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég gæti að vísu, ef hæstv. iðnrh. heldur áfram að hrista höfuðið, dregið upp grein eða viðtal sem ég á í pússi mínu við hann í Neytendablaðinu frá því í vor sem leið þar sem kveður við sama í tón og ég nefndi hér áðan gagnvart hættu á því að í skjóli íslenskra áletrana á innlendri iðnaðarframleiðslu gætum við komist upp með að selja hana á innlendum markaði dýrara en innflutningur fengist á. Þannig mælti hæstv. iðnrh. þegar hann var að ræða við aðila á þeim vettvangi.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessa ræðu lengri. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að þegar farið var fram á frestun þessarar umræðu í síðustu viku var það frá minni hendi öðru fremur til þess að hv. 1. þm. Austurl. gæti tekið þátt í henni þegar hún héldi áfram. Ég hef rakið það hér áður að það átti að vera í höndum forseta að geta hagað máli þannig að svo mætti verða.