Framhald umræðu um frv. um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 17:10:00 (1807)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Nú vil ég biðja virðulegan forseta um að áminna hv. 17. þm. Reykv. og formann þingflokks Alþfl. um það að hann sé ekki hér sígjammandi fram í fyrir ræðumönnum þannig að það er nánast ekki stundarfriður meðan hann situr hér í þingsölum. Ég er ekki að fara fram á það að forseti geri það hér og nú en bið vinsamlegast um að hv. þm. verði tekinn tali og beðinn um að láta af þessu.
    Í öðru lagi vil ég taka fram, virðulegur forseti, að ég fór, að því er ég taldi, mjög skýrt fram á það áðan að umræðunni yrði ekki lokið fyrr en hv. 1. þm. Austurl. gæti tekið þátt í henni. Ég bendi á að það eru engar líkur á að þetta mál komi aftur inn í þingsali fyrir jól. Þær ásakanir sem hér hafa verið bornar fram eru þess eðlis að það hlýtur að verða að gefa tækifæri til þess að þeim sé svarað. Ég vil benda forseta á að það var ráðherra úr hæstv. núv. ríkisstjórn sem leiddi umræðurnar inn á þessa braut. Það er ekki vænlegt upp á framhaldið þá daga sem við eigum eftir að vinna hér fram að jólum ef hæstv. ráðherrar ætla að ganga fram með þessum hætti og virðulegi forseti ætlar að láta þá komast upp með það.