Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

48. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 13:39:01 (1808)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Hæstv. forseti. Við umræðu málsins gat ég þess að álitamál gæti verið hvort það ætti að ganga til hv. utanrmn. eða sjútvn. Lögin sem um er fjallað, lög nr. 33/1922, voru og eru meðal merkustu löggjafar landsins, en þau voru sett til að torvelda sem mest ágang útlendinga á íslenskum fiskimiðum. Á lögunum hafa Íslendingar síðan byggt landhelgissigra sína. Um lögin var fyrir 70 árum og lengi eftir það fjallað í sjávarútvegsnefndum Alþingis, enda var utanrmn. ekki komin á laggirnar fyrr en árið 1928. Störf nefndanna hafa síðan samtvinnast á margan veg og hefur farið vel á því.
    Um þetta hef ég rætt við hæstv. sjútvrh., frsm., og hv. þm. Matthías Bjarnason, formann sjútvn. Erum við ásáttir um að vel fari á því að halda góðum sið og fjalla um málið í báðum nefndum. Í þessu ljósi greiði ég því atkvæði að málinu verði vísað til hv. sjútvn. enda æskilegast og raunar sjálfsagt að svo þýðingarmikið mál sem varðar í senn mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar og utanríkismál gangi til beggja nefndanna og hljóti þar ítarlega umfjöllun.