Fjárlög 1992

48. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 15:22:00 (1810)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá minni hluta fjárln. sem flutt er á þskj. 238, við frv. til fjárlaga fyrir árið 1992.
    Þar sem fjárlagafrv. fyrir árið 1992 er nú tekið til 2. umr. undir mjög óvenjulegum kringumstæðum vill minni hluti fjárln. láta eftirfarandi koma fram varðandi undirbúningsvinnu fjárln. við frumvarpið:
    Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti 2. umr. fjárlaga að fara fram 3. des., enda á 3. umr. samkvæmt lögum að fara fram eigi síðar en 15. des. ár hvert. Þrátt fyrir þetta fer 2. umr. ekki fram nú fyrr en 11. des. við kringumstæður sem minni hluti fjárln. gerir alvarlegar athugasemdir við.
    Undirbúningsvinna að afgreiðslu fjárlaga hófst í september sl. og þegar í upphafi þings var ljóst að róttækar breytingar þyrfti að gera á frumvarpinu þar sem forsendur þess gátu engan veginn staðist. Þetta var rækilega undirstrikað af fulltrúum minni hlutans í fjárln. við 1. umr. fjárlaga.
    Viðtöl í fjárln. við fulltrúa sveitarfélaga, ráðuneyta og stofnana voru með hefðbundnum hætti, en eftir að frekari úrvinnsla hófst var samráði við fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni í ýmsu ábótavant.
    Minni hlutinn hefur gagnrýnt þessi vinnubrögð, en telur þó ekki að öllu leyti við meiri hluta nefndarinnar að sakast, heldur öllu fremur við ríkisstjórnina og vinnubrögð hennar.
    Þó tók fyrst steininn úr þegar ríkisstjórnin tilkynnti uppskurð, bæði á tekju- og gjaldahlið frumvarpsins, daginn áður en 2. umr. átti að fara fram. Það hefur vissulega komið fyrir áður að ríkisstjórnir á hverjum tíma hafa lagt til breytingar á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins með stuttum fyrirvara. Slíkar tillögur hafa þó hingað til snert einstaka og afmarkaða þætti fjárlagafrumvarpsins. Sá uppskurður, sem hér um ræðir, svo seint fram kominn, er einsdæmi. Hér er um mjög víðtækar aðgerðir að ræða og skal hér aðeins drepið á nokkur atriði:
    Ætlunin er að lækka launaliði um 6,7% og rekstrarliði frumvarpsins um 1,3%, og nemur lækkunin samtals um 2.455 millj. kr. Til móts við þennan niðurskurð er varið til yfirstjórnar ráðuneytanna 955 millj. kr. til að greiða fyrir framkvæmd niðurskurðarins. Alla nánari útfærslu á þessum áformum vantar en ljóst er að með þessu er ráðstöfunarfé ráðuneyta aukið og fjárveitingavaldið tekið af Alþingi sem því nemur.
    Um 700 millj. kr. er velt yfir á sveitarfélögin auk þess sem áður var komið fram í frumvarpinu og er m.a. ætlunin að þau standi undir 400 millj. kr. útgjöldum til málefna fatlaðra. Þetta er breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem ekkert samráð hefur verið haft um við sveitarfélögin. Einnig er gert ráð fyrir að landsútsvar, sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins greiðir og nemur um 300 millj. kr. renni í ríkissjóð. Í stað þess hluta landsútsvarsins, sem átti að renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, eiga sveitarfélögin að leggja fram sem nemur 0,1% af útsvarstekjum sínum. Þetta er bein tekjuskerðing hjá sveitarfélögum og rýrir möguleika þeirra til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru ætluð.
    Auk þeirrar miklu kjaraskerðingar, sem áætlaður niðurskurður á launalið getur haft

í för með sér, og þeirrar almennu launastefnu sem boðuð er í frumvarpinu, gera nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar ráð fyrir breytingu á greiðslum barnabóta. Hún á að gefa ríkissjóði 500 millj. kr. sparnað. Til viðbótar er sérstaklega vegið að tveimur atvinnustéttum í landinu. Gert er ráð fyrir að fresta beinum greiðslum til bænda tvo síðustu mánuði ársins 1992 og velta þeim yfir á árið 1993. Upplýst er að forustumönnum Stéttarsambands bænda var tilkynnt um þessa ákvörðun en ekkert samráð haft við þá að öðru leyti. Þá er ætlunin að ,,skerpa reglur`` um sjómannafrádrátt og miða hann við úthaldsdaga. Hér er um skerðingu á réttindum að ræða sem sjómenn hafa náð í kjarasamningum. Viðbrögð þeirra hafa verið mjög hörð, enda ekkert samráð við þá haft.
    Þá er áætlað að framkvæmdum við hluta Vestfjarðaganga verði frestað. Sú aðgerð á að spara ríkissjóði 250 millj. kr. Með frestuninni er rift samningsbundnu verki sem leiða mun til fjárútláta fyrir ríkissjóð.
    Hér er aðeins drepið á stærstu breytingarnar sem tillögur þær, sem ríkisstjórnin kynnti fjárln. þann 9. des. fela í sér.
    Beiðni minni hluta nefndarinnar um að fá fulltrúa þeirra aðila, sem þessi mál varða, til viðtals við nefndina var hafnað, en þó munu þau atriði, sem varða tekjuhlið, svo og nokkrir aðrir þættir, verða ræddir milli 2. og 3. umr. frumvarpsins.
    Af þessu má ljóst vera að minni hluti fjárln. hefur enga aðstöðu haft til þess að fá heildarsýn yfir fjárlagagerðina, eða gera sér grein fyrir áhrifum breytinga, hvorki á tekju- né gjaldahlið. Því telur minni hlutinn þessa umræðu í raun ótímabæra og mun af þessum ástæðum hvorki standa að breytingartillögum meiri hlutans né flytja breytingartillögur við frumvarpið við 2. umr. Hins vegar mun minni hlutinn gefa út framhaldsnefndarálit fyrir 3. umr. og áskilur sér rétt til að flytja breytingartillögur við lokaumræðu málsins.
    Í ljósi þess sem sagt hefur verið hér að framan mun minni hluti fjárln. sitja hjá við afgreiðslu frv. við 2. umr. Guðrún Helgadóttir, einn af fulltrúum minni hlutans í fjárln. var fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins í nefndinni en undir þetta nál. skrifa, auk mín, hv. alþm. Margrét Frímannsdóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Jón Kristjánsson.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú leyft mér að lesa upp þetta nál. af því að ég tel að mál séu nú með nokkuð sérstökum hætti. Í nál. er ítrekað og gerð grein fyrir því að minni hluti fjárln. telur sig ekki hafa haft aðstöðu til þess að fá heildaryfirsýn yfir stöðu mála eins og þau eru í dag. Þar á ég við að við erum í fyrsta lagi að fjalla um fjárlagafrv. sem vissulega er hér til umræðu. Þá erum við í raun að fjalla einnig um ýmis ákvæði svokallaðs bandorms eða frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem reyndar var rætt hér fyrir nokkrum dögum síðan í hv. Alþingi. Við erum einnig að fjalla um nýframkomna tilkynningu frá hæstv. ríkisstjórn. En í þeirri tilkynningu felast umfangsmiklar breytingar sem því miður er ekki tekið á heilstætt þannig að sumt af þeim er flutt hér og nú við 2. umr. en annað látið bíða til 3. umr. Í raun gerir það málið enn þá flóknara og erfiðara að fá yfir það þá yfirsýn sem við stjórnarandstöðuþingmenn teljum nauðsynlega.
    Í þessu nál. er síðan eingöngu fjallað um vinnubrögð nefndarinnar og þessar síðbúnu tillögur ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna um margvíslegar breytingar á frv. Þær brtt. skipta milljörðum króna, ýmist til breytingar á tekjum eða gjöldum. Hins vegar höfum við ekki fjallað í þessu nál. ítarlega um frv. sjálft en eins og fram kemur í því áskiljum við okkur rétt til þess að gera það síðar.
    Ég ætla þá fyrst að fara nokkrum orðum um þessar breytingar sem getið er um í nál. og hafa verið til umfjöllunar núna seinustu klukkutímana, má kannski segja síðustu sólarhringa eða dægur, en síðar um einstök efnisatriði fjárlagafrv.
    Það er vissulega við mikinn vanda að glíma í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, á það skal ekki dregin dul. Áframhaldandi samdráttur í fiskveiðum hlýtur að hafa

veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Við höfum þurft að draga saman fiskveiðar á undanförnum árum svo verulegu magni nemur og enn er fyrirsjáanlegur meiri samdráttur á næsta ári. Fyrirhugaðar framkvæmdir við nýtt álver, sem hæstv. ríkisstjórn batt vonir við að geta nýtt sér nokkuð til tekjuauka við þessa fjárlagagerð, frestast nú um óákveðinn tíma. Það er a.m.k. ljóst að þær framkvæmdir eru ekki lengur á næsta leiti og óvíst hvenær eða hvort nokkuð verður úr slíkum framkvæmdum á næstu árum. Þetta undirstrikar að sjálfsögðu nauðsyn þess að gæta ýtrasta aðhalds og hagræðingar í ríkisrekstrinum.
    Ríkisstjórnin hefur hins vegar talið það meginatriði sinnar efnahagsstefnu og þeirra efnahagsaðgerða sem hún telur að þurfi að grípa til að skera niður ríkisútgjöldin og er reyndar það eina sem hæstv. forsrh. nefnir aðspurður um aðgerðir eða væntanlegar aðgerðir. Það eitt á að lækna allt, skapa á svigrúm fyrir atvinnulífið og það á að lækka vextina. Öðruvísi mun það ekki verða hægt að áliti hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórnar.
    Mikilvægum aðhaldsaðgerðum og sparnaði í ríkisrekstri skal ekki á móti mælt. Hins vegar er róttækur niðurskurður þess eðlis að hann þarf að skoða í miklu víðara samhengi. Hann þýðir vissulega samdrátt í atvinnulífi. Hann þýðir samdrátt á ýmsum sviðum sem ríkið, hið opinbera, er frumkvöðull að. Ég nefni þar t.d. veigamiklar opinberar framkvæmdir. Ég nefni ýmsa þjónustustarfsemi, sem í sumum byggðarlögum landsins er kannski orðin eða að verða einn stærsti vinnuveitandinn. Niðurskurður, sem orsakar verulegan samdrátt í þessari þjónustu, leiðir af sér atvinnuleysi, sem einnig kostar ríkið fjármuni. Stjórnarandstaðan telur ríkisstjórnina ekki velja réttar leiðir í þeim boðskap sem hún setur fram, bæði í fjárlagafrv., í boðuðum aðgerðum samkvæmt nýjum tillögum við fjárlagafrv. svo og í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og ekki heldur í hugmyndum um breytingar á skattalögum. Í stað nauðsynlegra kerfisbreytinga og aðhalds og sparnaðar, sem virkilega dregur úr kostnaðarþátttöku, er kostnaðurinn eingöngu fluttur til. Sjúkir eru látnir greiða fyrir heilbrigðisþjónustuna, nemar eða foreldrar þeirra eru látnir greiða fyrir skólagönguna. Atvinnulífið, sem vissulega er nú í veikri stöðu, er látið taka á sig þungar byrðar og sveitarfélögin eiga að yfirtaka u.þ.b. 1 milljarð kr., samkvæmt þessum tillögum sem lagðar hafa verið fram seinustu daga, með breyttri verkaskiptingu. Hér er að mínu áliti ekki um raunverulegar breytingar á rekstrarkostnaði að ræða. Læknisviðtalið t.d. kostar eftir sem áður sömu 5 þús. kr. svo að dæmi sé tekið hvort sem sjúklingurinn greiðir 750 kr. af því eða 1500 kr. Hér er ekki nein kerfis- eða skipulagsbreyting. Það er jafnvel á þessu sviði horfið frá þeim breytingum sem áttu að hafa áhrif á að sjúklingar og einstaklingar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda leituðu til heilsugæslustöðva og til hinna ódýrari kosta í heilbrigðisþjónustunni í stað hinna dýrari eins og sérfræðiþjónustu og sjúkrahúsa með því að setja á ný gjaldtökur á þjónustu heilsugæslustöðvanna. Vissulega er aðeins dregið úr fyrri hugmyndum hvað þetta varðar. Samkvæmt fjárlagafrv. átti þessi sjúklingaskattur, þessi ný skattur sem kallaður er nú þjónustugjöld á fínu máli, að skila 375 millj. kr. Þessar 375 millj. eru samkvæmt nýjustu tillögum lækkaðar um 68 millj. en eftir standa rúmar 300 millj. kr. sem almenningur þarf að borga fyrir að heimsækja heilsugæslustöðvarnar. Hugmyndir um ókeypis aðgang að þessari þjónustu var liður í kerfisbreytingum. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa hér upp eina málsgrein úr bréfi sem hæstv. heilbrrh. svo og þingmönnum Norðurl. e. hefur borist frá læknaráði Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri þar sem þessi sjónarmið eru undirstrikuð. Þessi málsgrein hljóðar svo:
    ,,Læknaráð Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri lýsir eindreginni andstöðu sinni við öll áform um aukna gjaldtöku fyrir heilsuvernd á heilsugæslustöðvum. Heilsuvernd sem nær til allra án tillits til efnahags eða búsetu hefur verið einn traustasti hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar. Ein af grundvallarforsendum árangursríkra forvarna er að til þeirra náist sem eru í áhættuhópum. Gjald fyrir heilsuvernd mundi stórlega torvelda slíkt og væri þannig

fráhvarf frá þeirri yfirlýstu stefnu heilbrigðisyfirvalda og Alþingis að leggja beri aukna áherslu á forvarnir.``
    Undir þetta skrifa tíu læknar á þessari heilsugæslustöð. Hæstv. heilbrrh. og hæstv. forsrh. hafa báðir sagt í samtölum við fjölmiðla og ræðum hér á hv. þingi að undanförnu að það að fella niður gjald vegna komu á heilsugæslustöð hafi verið gert í tilraunaskyni. Þetta er rangt. Það hef ég reyndar rakið hér í ræðu sem svar við ræðu hæstv. forsrh. en vil ítreka að um var að ræða kerfisbreytingu til þess að styrkja forvarnir og forvarnastarf, það mikilvæga starf heilsugæslustöðvanna eins og fram kemur í þessu bréfi sem ég vitnaði hér til.
    Lyfjakostnaðurinn eftir allt bramboltið, sem er búið að vera áberandi í sumar og haust, er aftur kominn í um það bil 200 millj. kr. á mánuði. Það þýðir að heildarútgjöld sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunarinnar gætu numið á næsta ári um 2,4 milljörðum kr. Þau eru þá aftur að nálgast það mark þegar þau voru hæst þó að vissulega hafi þau ekki enn náð því. Þetta hefur hins vegar þýtt aukin útgjöld fyrir einhvern fjölda fólks og auðvitað ærinn kostnað fyrir kerfið, m.a. með því að gefa út 15--16 þús. ný lyfjakort sem eru m.a. ástæðan fyrir því að þessi sparnaður hefur nú minnkað.
    Enn er haldið í tillögur hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarliða um skólagjöldin, þrátt fyrir andstöðu einstakra stjórnarliða og reyndar álit lögfræðinga um að gjaldtakan sé ólögleg, a.m.k. ekki heimil eins og sakir standa. Til þess þurfi að koma til lagabreytingar. Fróðlegt væri að heyra í þessum fulltrúum stjórnarliðanna sem hafa lýst andstöðu sinni við þessa tillögu hér við umræðuna og vita hvað þeir segja um stöðu málsins.
    Nýjar álögur á atvinnulífið, í hverri aðgerð sem boðuð er, koma fram bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Útgjöld á sjávarútveg nálgast u.þ.b. 1 milljarð kr., fyrir utan hugmyndir um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Þar á líka að velta nýjum álögum á atvinnulífið svo hundruðum millj. kr. skiptir. Þetta eru aðgerðirnar í stað þess að leita leiða til að létta álögum af atvinnulífinu, t.d. með því að lækka vextina. Það er nú svigrúm til þess að gera það og ég hef nýlega heyrt fulltrúa og bankastjóra eins af stærri bönkunum í landinu lýsa því yfir að hann teldi til þess svigrúm. Það var reyndar einnig hans skoðun að það væri það jákvæðasta sem hægt væri að gera í sambandi við yfirstandandi kjarasamninga þó svo að ekki náist samkomulag eða samstaða um það milli málsaðila og ríkisstjórnin lætur sig það mál engu varða. Þannig ætti vissulega að vera hægt að leggja því lið að svigrúm skapaðist fyrir kjarasamningana.
    Frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum veltir nýjum kostnaði á sveitarfélögin um nær 200 millj. kr. En nú tekur því miður steininn nánast úr. Það fer að nálgast milljarð þegar þessar róttæku breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafa náð fram að ganga ef svo fer sem boðað er. Sveitarfélögin eiga, eins og fram kom í nál. okkar fulltrúa minni hlutans í fjárln., að taka á sig á þriðja hundrað millj. kr. í stað jöfnunargjaldsins sem landsútsvar Áfengisverslunarinnar greiddi áður til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það á nú að koma frá sveitarfélögunum sjálfum og síðan eiga sveitarfélögin að taka á sig þessar 400 millj. kr. sem eru verkefni á sviði málefna fatlaðra. Ég hefði haft gaman af því að heyra skýringar hæstv. félmrh. á því sem hún lét falla í sjónvarpsfréttum í gærkvöld að hér væri ekki um að ræða breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég geri ekki kröfu um það, virðulegi forseti, að hún sé kölluð hér til fundarins en það væri æskilegt og reyndar nauðsynlegt síðar í þessari umræðu að hæstv. félmrh. skýrði það út fyrir okkur hvað þetta er ef þetta er ekki breyting á verkaskiptingunni.
    Ég tel að sveitarfélögin séu fær um að annast viðbótarverkefni og þau geta hugsanlega verið á þessu málasviði, sviði fatlaðra. En ég tel um það þurfa að nást samkomulag milli aðila, það þurfi að ræða þessa nýju verkaskiptingu en ekki boða hana eftir einn

næturfund. Við höfum setið við það, missirum og jafnvel árum saman, að leita að nýjum leiðum, nýrri verkaskiptingu, og komist að samkomulagi, fulltrúar ríkisvaldsins annars vegar og fulltrúar sveitarfélaganna hins vegar, bæði um útgjöldin, um verkefnin og um tekjur til að standa undir þeim. En nú er önnur aðferð viðhöfð og, eins og hér hefur margkomið fram, hundruðum milljóna, nær milljarði, velt yfir á sveitarfélögin í auknum kostnaði sem er breyting á verkaskiptingu.
    Hér teljum við stjórnarandstæðingar ekki vera farið rétt að. Við teljum t.d. nauðsynlegt að leita allra leiða til að láta þá greiða kostnað við opinbera þjónustu sem til þess hafa mesta og besta getu. Við höfum t.d. bent á skatt á fjármagnstekjur. Við höfum einnig bent á að það sé rétt að skoða ítarlega möguleika á að taka upp tvö skattþrep eða hátekjuskatt í einhverri mynd. Það eru leiðirnar til að láta þá greiða sem tekjurnar hafa. Vissulega býst ég við því að hv. stjórnarliðar segi að úrræðið sé hið eina og sama, það sé hækkun skatta, en það er nú nákvæmlega sú leið sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar hafa farið. Þeir hafa auðvitað hækkað skatta. Það hafa hins vegar verið feluskattar. Það eru kölluð þjónustugjöld og þau eru dregin frá ríkisútgjöldunum, dregin frá gjaldahlið fjárlagafrv. Þeir sem minna mega sín og þurfa að leita þjónustu hins opinbera eru látnir borga feluskattana í formi þjónustugjaldanna í staðinn fyrir að koma þessari skattbyrði á þá sem til þess hafa breiðari bök.
    Kerfisbreytingar sem raunverulega draga úr kostnaði, t.d. í lyfjamálum, sem varða innflutning, dreifingu og verðlagningu láta á sér standa, þær koma ekki í ljós hér í hv. þingi. Þó voru slíkar tillögur komnar það langt í vinnslu að hér var lagt fram frv. í lok seinasta þings þessa efnis. Auðvitað geta menn haft fulla ástæðu til þess að gera á því breytingar og lagt fram aðrar hugmyndir en þar voru boðaðar. En það er hins vegar ekki ásættanlegt að ekkert slíkt heyrist á meðan einstaklingarnir og almenningur er látinn taka aukinn þátt í kostnaðinum, þá skuli ekkert vera hróflað við þessu kerfi.
    Skipulag og rekstur sjúkrahúsa hefur verið í athugun hjá hæstv. heilbrrh. En ég tel því miður að hann sé þar ekki á réttri braut. Þetta mál verður að vísu rætt nánar við 3. umr. en mig langar þó að koma örlítið nánar að því síðar ef það mætti hafa einhver áhrif á þær hugmyndir sem nú virðast vera efst á blaði hjá hæstv. ráðherra. Ég vona að breyting verði á þeim hugmyndum hjá ráðherranum og með því verði komið í veg fyrir slys sem ég tel að þar sé í uppsiglingu.
    Skipulagsbreytingum, sem leitt geta til hagræðingar og sparnaðar, er örugglega hægt að koma við miklu víðar í hinni opinberu þjónustu. En það þarf að gera í samráði við starfsfólk og stjórnendur hinna opinberu stofnana og það tekur því miður tíma. Það tekur nokkurn tíma og menn mega ekki vera of bráðlátir. Vinna verður slíkar breytingar með skipulegum hætti, undirbúa vel og skapa þeim bæði traust og tiltrú. Það virðist ekki vera gert með þeim hugmyndum sem nú eru uppi.
    Þá langar mig, virðulegur forseti, að koma að merkilegasta þættinum í þessum nýjustu tillögu hæstv. ríkisstjórnar. Það eru tillögur sem menn gefa venjulega í daglegu tali heitið flatur niðurskurður. Flatur niðurskurður er ekki lítill að þessu sinni. 6,7% á að taka af launaliðum í fjárlagafrv. eða samtals 2 milljarða 255 millj. kr. auk lítils háttar niðurskurðar í viðbót af öðrum rekstrargjöldum. Þetta hefur oft verið reynt áður. Því miður hefur það oftar en ekki skilað of litlu. Reynslan frá 1989 er okkur sem þátt tókum í svipaðri aðgerð í fersku minni. Ég glímdi þá við að ná fram lækkun rekstrarútgjalda í heilbrigðisþjónustunni. Ég hélt ítrekað fundi með fulltrúum heilbrigðisstofnana, með stjórnendum þeirra og starfsfólki, og reyndi með þessum aðilum að leita leiða til að draga úr kostnaði án þess að það bitnaði sem næmi á þjónustunni. Að einhverju leyti tókst það en því miður ekki nægjanlega. Auðvitað leiddi þetta til þess að sumar stofnanir lokuðu, drógu

úr þjónustunni eða lokuðu einstökum deildum. Og þá tel ég að sé ekki rétt eða nægjanlega vel að staðið heldur þurfi menn að ná fram skipulagsbreytingum með öðrum hætti.
    Árið 1989 var áætlað að þessi aðgerð gæfi 800--1000 millj. kr. sparnað og samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga það ár má segja að tekist hafi að ná inn helmingnum af þessum ráðgerða sparnaði eða um 450 millj. kr. þegar upp var staðið. Og e.t.v. má segja að svona aðferðum sé hægt að beita öðru hvoru, kannski með einhverju vissu árabili, 10 ára millibili eða svo, en að gera það annað eða þriðja hvert ár tel ég algerlega óraunhæft.
    Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. boðaði það við framsögu fyrir þessu frv. þegar það var til 1. umr. að nú hefðu verið viðhöfð önnur vinnubrögð og nú ætti að viðhafa önnur vinnubrögð. Nú væri um að ræða raunhæfa fjárlagagerð. Það var boðskapurinn. Að ráðast að tilteknum verkefnum með skipulögðum hætti og skipulagsbreytingum sem ráðuneytin sjálf og einstakir ráðherrar hefðu tekist á við í sínum eigin ráðuneytum. Og það var einmitt það sem hæstv. heilbrrh. sagði í ræðu sinni 15. okt. sl. þegar málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði voru rædd utan dagskrár. Með leyfi hæstv. forseta langar mig að vitna hér til þessarar ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. en hann sagði:
    ,,Hæstv. fyrrv. heilbrrh. gerði ítrekaðar tilraunir í þessum efnum, m.a. með því að leggja til svokallaðan flatan niðurskurð til sjúkrahúsa víðs vegar um land. Þá risu menn upp til harkalegrar gagnrýni, stjórnendur sjúkrahúsa, og sögðu við hæstv. fyrrv. heilbrrh. að slíkar tillögur væru ástæðulausar, slíkar tillögur væri ekki hægt að framkvæma, menn yrðu að manna sig upp í það og hafa kjark til að benda á tiltekin viðfangsefni sem yrði að breyta. Það erum við að gera nú.``
    Þetta var tilvitnun í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan.
    Nú er, virðulegur forseti, í nauðvörn og úrræðaleysi síðustu daga fjárlagaafgreiðslunnar, gripið til þeirrar leiðar, það má nánast segja á elleftu stundu, að fara leið hins flata niðurskurðar. Í henni felst m.a. eftir því sem okkur er tjáð, þó að nákvæm útfærsla liggi nú væntanlega ekki fyrir enn hvernig að þessu á að standa, að t.d. verði hætt við allar nýráðningar, öllum nýráðningum verði frestað. Það verði ekki ráðið í þær stöður sem losna og þetta höfum við nú allt heyrt einhvern tíma áður. --- Það hefði náttúrlega verið nauðsynlegt, hæstv. forseti, að eitthvað af virðulegum hæstv. ráðherrum væru í salnum þegar fjárlagafrv. fyrir næsta ár er rætt. Það vill svo til að enginn þeirra er staddur hér núna, ekki einu sinni hæstv. fjmrh., hvað þá fagráðherrarnir sem hefði verið nauðsynlegt að hlustuðu á þessar ómerkilegu ræður okkar stjórnarandstæðinganna, gæfu sér a.m.k. tíma til þess og létu e.t.v. svo lítið að svara okkur einhverju á eftir. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að kanna hvar ráðherrarnir eru í húsinu og kalla þá til sem óskað er eftir.) Já, ég vil, virðulegi forseti, þakka fyrir það, ég tel a.m.k. eðlilegt og reyndar nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. sé við þessa umræðu og reyndar einstakir fagráðherrar sem fara með mjög útgjaldasama og erfiða málaflokka eins og t.d. menntamál, málefni fatlaðra og heilbrigðismál, þ.e. félagsmálin og heilbrigðismálin. Þetta eru allt saman viðkvæmir málaflokkar sem eiga sannarlega eftir að verða fyrir barðinu á þeim boðuðu aðgerðum sem ríkisstjórnin ætlar sér nú að grípa til til þess að reyna að draga úr ríkisútgjöldunum.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur t.d. stært sig mikið af því að verja þann mikilvæga málaflokk, málefni fatlaðra, og hæstv. félmrh. hefur ítrekað lýst því yfir. Hv. formaður fjárln. hefur einnig gert það og gerði m.a. í sinni ræðu áðan og hefur gert það áður, bæði í nefndinni og við önnur tækifæri og það má vissulega allt til sanns vegar færa. En nú bregður hins vegar svo við með þessum nýju aðgerðum að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 60 nýjum stöðum í þennan málaflokk, bara í þennan málaflokk, málefni fatlaðra, og er það

líklega hluti af skrautfjöðrunum sem hæstv. félmrh. er að reyna að skreyta sig með. Nú falla þessar stöður væntanlega allar út. Væntanlega verður þessi aðgerð, hinn flati niðurskurður, látinn bitna á þessum málaflokki ekki síður en öðrum. Og það er auk hins almenna niðurskurðar sem hlýtur að bitna á rekstri þessara stofnana eins og öllum öðrum opinberum rekstri.
    Það má auðvitað líka nefna það að mikil óvissa hlýtur að fylgja því í málaflokknum málefni fatlaðra að flytja, lítt undirbúið, stór verkefni til sveitarfélaganna sem vafalaust eru misjafnlega í stakk búin til þess að taka við þeim verkefnum upp á 400 millj. kr. --- Hvað heldur virðulegur forseti með þessa ágætu ráðherra? ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að þeir verði kallaðir í þingsal en þeir munu vera í húsinu.) Vill forseti kannski að ég hinkri með þetta? Ég hefði gjarnan viljað að félmrh. ræddi eða a.m.k. hlustaði á það sem ég er að segja um þennan málaflokk en auðvitað verður hún síðan að ráða því hvort hún hefur eitthvað um það að segja frekar. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að hæstv. félmrh. er ekki í þinghúsinu.) Þá mun ég hafa þann hátt á, forseti, til að tefja ekki þingstörfin að halda áfram með ræðu mína, kannski að fresta einhverjum hlutum hennar eftir því sem hæstv. ráðherrar gefa sér tíma til þess að vera hér hjá okkur. Hér gengur virðulegur hæstv. menntmrh. í salinn, --- en auðvitað er þetta ekki boðlegt og ekki tilhlýðilegt að svona skuli vera að málum staðið.
    Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir um hinn flata niðurskurð er gert ráð fyrir að 600 manns verði sagt upp. Þetta hlýtur að þýða að atvinnuleysi eykst. Atvinnuleysi mun vaxa við þessar aðgerðir og atvinnuleysi mun nú væntanlega koma fram hjá opinberum starfsmönnum sem því betur hefur ekki verið mikið um að undanförnu. En þá má minna á það að atvinnuleysisbætur hinna opinberu starfsmanna eru auðvitað beint á ábyrgð ríkisins og ríkissjóður mun þá þurfa að greiða viðkomandi einstaklingum laun á þann hátt.
    Stjórnarandstaðan átti samtal við fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í gær. Meiri hluti hv. fjárln. hafnaði því að þessir aðilar kæmu til viðtals við fjárln. og því boðuðum við þá til fundar við okkur og áttum við þá viðræður. Þar kom m.a. fram að samtök þeirra og sjálfsagt annarra launamanna sem starfa hjá hinu opinbera væru reiðubúin til viðræðna við stjórnvöld um aðhaldsaðgerðir. Slíkar aðgerðir þyrfti að skipuleggja og undirbúa vel. Þar var reyndar m.a. vitnað til vinnubragða sem notuð voru við gerð búvörusamningsins. Þar náðist víðtækt samkomulag fjölmargra aðila, aðila vinnumarkaðarins, bæði launþega og vinnuveitenda sem áttu samstarf í því máli við bændur sjálfa, samtök þeirra og ríkisvaldið. Við vitum að þetta tekur tíma. Búvörusamningurinn segir okkur reyndar að það tekur tíma að vinna sig út úr þessu máli en um það náðist víðtækt samkomulag. Ég er líka sannfærður um, eins og ég hef nefnt áður í ræðu minni, að það væri hægt að ná víðtæku samkomulagi við starfsfólk í opinberri þjónustu um aðhaldsaðgerðir, um skipulagsbreytingar, um breytingar á rekstri hinna opinberu stofnana. Þessir fulltrúar BSRB bentu einnig á að launaniðurskurðurinn hlýtur að koma mjög misjafnlega niður á einstakar stofnanir. Fer það auðvitað eftir uppbyggingu þeirra og eftir því hversu launahluturinn er mikill þáttur af launaumfangi stofnananna. Og það mundi ég vilja benda hæstv. heilbr.- og trmrh. á fyrst hann er í salnum í augnablikinu að þetta mun einmitt koma mjög við heilbrigðisstofnanir. Það rak ég mig alvarlega á árið 1989 þegar við reyndum hliðstæða aðferð, að flatur launaniðurskurður bitnar mjög á heilbrigðisstofnunum og ég býst við því að hæstv. ráðherra eigi eftir að glíma eitthvað við það. Virðulegur forseti, mig langar aðeins að grípa aftur fyrir mig í ræðu minni, með leyfi forseta, og lesa fyrir hæstv. heilbrrh. fyrst hann er hér staddur. Ég ætla ekki að krefjast þess að hann sitji endilega mín vegna allan tímann sem ég er að flytja mína ræðu þó að hann gjarnan mætti það. Hæstv. ráðherra sagði það hér í umr. 15. okt. sl. fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan að menn yrðu að ráðast að tilteknum verkefnum með skipulagsbreytingum og orðrétt í ræðu sinni sagði hæstv. ráðherra:
    ,,Hæstv. fyrrv. heilbrrh. gerði ítrekaðar tilraunir í þessum efnum, m.a. með því að leggja til svokallaðan flatan niðurskurð til sjúkrahúsa víðs vegar um land. Þá risu menn upp til harkalegrar gagnrýni, stjórnendur sjúkrahúsa, og sögðu við hæstv. fyrrv. heilbrrh. að slíkar tillögur væru ástæðulausar, slíkar tillögur væri ekki hægt að framkvæma, menn yrðu að manna sig upp í það og hafa kjark til að benda á tiltekin viðfangsefni sem yrði að breyta. Það erum við að gera nú``, sagði hæstv. heilbrrh.
    Í nauðvörninni er hins vegar gripið til hinna gamalkunnu úrræða að viðhafa hinn flata niðurskurð og við stofnanir, eins og þær sem hæstv. heilbrrh. fer með þar sem launaliðurinn er stór, á hann ábyggilega eftir að fá að takast á við þetta vandasama viðfangsefni. ( Heilbrrh.: Og hlakka ekki til.) Og hlakkar ekki til. Ég skil það vel.
    Ég var að fjalla, virðulegur forseti, í ræðu minni um fund sem við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárln. áttum með fulltrúum frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þetta var fróðlegur fundur þar sem margt kom fram. Þeir bentu okkur á ýmsar leiðir, m.a. þessa sem ég nefndi, að þeir væru tilbúnir til þess að setjast niður með stjórnvöldum og ræða úrræði og reyna að finna í sameiningu hvernig hægt væri að framkvæma þessa hluti án þess að það bitnaði svo harkalega á einstaklingum sem hafa kannski árum, jafnvel áratugum saman unnið í opinberri þjónustu. Þeir bentu jafnvel einnig á að í sumum tilfellum mætti spara með því að ráða fólk. Það væri ekki eingöngu sparnaður í því fólginn að segja upp fólki. Þar væri um að ræða á vinnustöðum þar sem mikill kostnaður væri við yfirvinnu og þar sem stofnanir hafa kannski vegna óraunhæfra aðhaldsaðgerða neyðst til þess að kaupa þjónustu, sem þær þurfa eftir sem áður að inna af hendi, utan stofnunarinnar. Þar kynni að vera ódýrara að ráða starfsfólk til ríkisins til þess að annast þessa þjónustu.
    Á þessar umræður vildi stjórnarliðið í hv. fjárln. ekki hlýða, a.m.k. ekki að þessu sinni. Við stjórnarandstæðingar höfðum því miður ekki tíma til þess í gær að kalla fyrir okkur fleiri fulltrúa opinberra starfsmanna eins og fulltrúa frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og öðrum aðilum en ég er ekki í nokkrum vafa um að það er einnig hægt að eiga við þessa aðila gott samstarf.
    Sumt af boðuðum aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar mun bíða til 3. umr. og umfjöllunar þá þannig að væntanlega verður bæði hægt að ræða það í fjárln., hugsanlega fá einhverja aðila þar frekar til viðræðu og svo auðvitað að ræða það hér í þinginu þegar að því kemur. Mig langar þó að nefna örfá önnur atriði sem sum koma til umfjöllunar nú, önnur síðar. Núna á t.d. að skera niður fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar um 50 millj. kr. Hér er ráðist að öryggisgæslu í landinu þrátt fyrir miklar og háværar umræður um öryggismál hér á undanförnum vikum. Ég ætla ekki að rifja þá umræðu alla upp en ég bendi á að hér finnst mér vera höggvið á staði sem varasamt er að ráðast svo að eins og hér er boðað.
    Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Landhelgisgæslunni á þessum morgni íhugar Landhelgisgæslan að reyna að mæta þessum fyrirhuguðu niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar með því að fresta, eins og hægt er og öryggiskröfur frekast leyfa, viðhaldi skipa og flugvéla. Það er ekki gott með viðkvæmt tæki eins og t.d. margumrædda þyrlu Landhelgisgæslunnar að hafa eitthvert hugboð um það að viðhald slíks öryggistækis sé e.t.v. ábótavant. Þá er líka meiningin að draga úr úthaldi skipa um þrjá mánuði og fækka flugstundum á TF-SÝN um 150 klukkustundir. Áætlaður flugstundafjöldi þeirrar flugvélar var samkvæmt fjárlagafrv. 750 stundir þannig að hér eru teknar af 150, aðeins 600 sem eftir eru og við sjáum að með þessu hlýtur að vera dregið verulega úr öryggisþjónustu Landhelgisgæslunnar. Þá er líka ráðist hér að löggæslumálum en einnig á því sviði hafa

menn að undanförnu rætt einmitt um nauðsyn þess að styrkja löggæslu á ýmsum svæðum, m.a. hér í Reykjavík. En nú á að lækka útgjöld til lögreglustjórans í Reykjavík um 10 millj. kr. Vafalaust mun það koma einhvers staðar fram í minni öryggis- og löggæsluþjónustu.
    Byggðastofnun fær einnig einu sinni enn sína sendingu. Það er ein árásin enn á þá mikilvægu stofnun sem kannski aldrei er mikilvægari en einmitt nú þegar atvinnulífið á í vök að verjast. Þar á að skera niður um 20 millj. kr. í viðbót við þann niðurskurð sem frv. þó gerði ráð fyrir frá yfirstandandi fjárlögum.
    Lítill liður eins og Sala varnarliðseigna. Ráðgert er að leggja þessa stofnun niður og hafa tekjur af einhverri eignasölu stofnunarinnar, um það bil 25 millj. kr. Í þessari stofnun fer nú þrátt fyrir allt fram mikilvæg starfsemi þó að almenningur viti kannski ekki mikið af því. Að hluta til er hér um að ræða nokkurs konar umhverfismál, þ.e. að koma í verð og koma fyrir ýmiss konar varningi, tækjum, húsbúnaði auk bifreiða sem Sala varnarliðseigna sér um fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Þessi starfsemi hefur skilað ríkissjóði verulegum tekjum. Gert er ráð fyrir að Innkaupastofun ríkisins yfirtaki þessa starfsemi. Innkaupastofnun ríkisins selur nú um það bil 150 bifreiðar á ári en Sala varnarliðseiga hefur selt 300--400 bifreiðar. Innkaupastofnun ríkisins hefur samkvæmt upplýsingum þaðan átt í erfiðleikum með að sinna ýmsum hlutverkum sínum eða því hlutverki sem henni er ætlað á ýmsum sviðum og er alveg ljóst að hún tekur ekki við þessum verkefnum öðruvísi en það þýði viðbótarrekstrarútgjöld þar svo þá er spurningin hver sparnaðurinn er þegar upp er staðið. Mér finnst þetta vera kannski fyrst og fremst dæmi um hversu óvönduð og illa undirbúin þessi vinnubrögð eru.
    Ég hef áður nefnt og í nál. kom fram hjá okkur stjórnarandstæðingum þær árásir sem okkur virðast nú eiga að hafa uppi á bæði bændur og sjómenn sérstaklega. Með því að fresta greiðslum til bænda er í raun verið að rifta ákvæðum búvörusamnings. Það er ekkert verið að gera annað en rifta ákveðnum ákvæðum þessa búvörusamnings sem þó náðist gott samkomulag um, enda hafa fulltrúar Stéttarsambands bænda mótmælt þessari hugmynd og þrátt fyrir allt lýst sig samt sem áður reiðubúna til þess að ræða við ríkisstjórnina um hugmyndir um nánari útfærslu á búvörusamningnum en þar mun ýmislegt vera enn ófrágengið. En hér er beinlínis ráðist að launalið bóndans og honum sagt að hann skuli ekki fá launin sín fyrir nóvember og desember á þessu ári. Það skuli dregið fram á hitt árið, árið 1993.
    Varðandi sjómennina, þá á það mál auðvitað eftir að koma fyrir efh.- og viðskn. þingsins og síðan vafalaust í umræðum í þinginu svo að ég ætla ekki að eyða tíma í það nú en þar er einnig ráðist að einni stétt sérstaklega og hennar kjaramálum. Fleiri byrðum er reyndar velt yfir á launþega með þessum aðgerðum þó að þær láti ekki mikið yfir sér þegar breytingartillögurnar eru lesnar. Sem dæmi má nefna það að lækka niðurgreiðslur á mjólkurdufti um 100 millj. kr. Þetta mun koma fram í verðlagningu á sælgæti. Sumir segja að það sé kannski í lagi þó að sælgæti hækki um 10--40% sem mér er sagt að þetta kunni að leiða til. En þessi hækkun hefur annað í för með sér. Hún skekkir samkeppnisstöðu hins íslenska iðnaðar gagnvart innflutningnum. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um það hvort áætlað jöfnunargjald sem á að leggja á innflutninginn á móti, og á að skila 30 millj. kr., réttir þar eitthvað samkeppnisstöðuna. Við höfum engar upplýsingar um hvernig hlutföllin kunna að verða eftir á þegar þessar hækkanir eru komnar út í verðlagið og þaðan af síður höfum við fengið upplýsingar um það hver verða verðlagsáhrifin af þessum aðgerðum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki á þessu stigi að fara öllu fleiri orðum um þessar boðuðu nýju ráðstafanir ríkisstjórnarinnar en ljóst er að þessi svokallaða ,,lækkun`` á ríkisútgjöldum er blekking. Það er engin lækkun. Lækkun þessi átti að gefa atvinnulífinu svigrúm. Hún átti að leiða til lækkunar vaxta. Hún hefur væntanlega átt að hjálpa ýmsum öðrum þjóðfélagsþegnum í sinni lífsbaráttu en hér er auðvitað fyrst og fremst um tilfærslur að ræða. Þetta er það eina sem hæstv. virðuleg ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar hafa talið að væru raunhæfar --- ég segi aftur innan gæsalappa, ,,raunhæfar efnahagsaðgerðir``, tilfærsla til sveitarfélaganna og nýjar byrðar og álögur á atvinnulífið og fólkið í landinu. Það er það sem þessar aðgerðir boða. Það skapar ekkert svigrúm að færa einn milljarð til sveitarfélaga sem flest eru skuldug og þurfa auk þess að takast á við vanda í atvinnulífinu. Þau eru nú í síauknum mæli að taka af sínu ráðstöfunarfé, það eru bein útgjöld fyrir sveitarfélögin, eða taka lán eða gangast í ábyrgðir til að halda atvinnulífi, einkum í hinum smærri byggðum við sjávarsíðuna, gangandi.
    Við höfum auðvitað heyrt að þessar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga mæta harðri andstöðu helstu forsvarsmanna sveitarfélaganna og ekki síst fólks úr röðum hv. stjórnarliða. Væri fróðlegt að vita, ef fer svo sem horfir, hverjir spyrja að leikslokum í þessu efni. Við höfum heyrt að Samband ísl. sveitarfélaga muni leggjast mjög harkalega gegn þessum hugmyndum þó að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki gefið sér tíma til að ræða við það eða bíða eftir tillögum með ályktunum frá þeim.
    Að lokum má svo minna á það, og má kannski kalla það einn þátt þessarar leiksýningar hæstv. ríkisstjórnar, að einstakir stjórnarliðar hafa lýst andstöðu sinni við ákveðin atriði sem boðuð hafa verið. Ég nefni sjómannafrádrátt, ég nefni Vestfjarðagöng, af þessu sem nýtt er, að ógleymdum skólagjöldunum. Þó að tveir eða þrír stjórnarliðar fái með leyfi sinna þingflokka að greiða atkvæði gegn svona ákvörðunum af því að stjórnarliðið hefur svigrúm til þess, hefur það rúman meiri hluta á þinginu, þá er ábyrgð þessara einstaklinga nákvæmlega sú sama á aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar með stuðningi þeirra við hana og þær aðgerðir sem hún boðar og beitir sér fyrir þó að þeir fái að leika sér aðeins við atkvæðagreiðslu. Er reyndar samt sem áður fróðlegt að vita hvernig þessi atkvæðagreiðsla á eftir að fara og þar eru mér efst í huga skólagjöldin sem ég hef áður nefnt.
    Þá langar mig, virðulegi forseti, að fjalla nokkuð um frv. sjálft og vinnuna í hv. fjárln. Viðtölin voru, eins og fram hefur komið, með hefðbundnum hætti. Einhverjar áherslubreytingar hafa þó vafalaust verið, m.a. vegna umfjöllunar fagnefnda um einstaka þætti, þó að áfram þurfi vissulega að þróa þau vinnubrögð og koma sér saman um nánari verkaskiptingu milli fagnefnda annars vegar og fjárln. hins vegar þannig að hægt sé að skipta vinnunni meira upp. Við úrvinnslu erinda var ljóst að svigrúm til breytinga væri mjög lítið og vil ég taka undir það sem fram kom í ræðu formanns nefndarinnar, hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, að svigrúm var lítið og það var erfitt að taka mikið tillit til og að sjálfsögðu ekki allra þeirra fjölmörgu óska sem fram komu í nefndinni frá ýmsum aðilum. Þó virtist okkur fulltrúum minnihlutaflokkanna ljóst að yrði ekkert að gert, ef ekkert yrði farið eftir þeim fjölmörgu óskum sem fram komu, mundu margar stofnanir og ráðuneyti lenda í miklum rekstrarerfiðleikum. Við teljum það reyndar augljóst nú að sú nýja tilhögun sem svo var kölluð, raunhæfa fjárlagagerðin, hefur ekki leitt til þess að stofnanir búi við þær fjárveitingar sem þær þurfa til eðlilegs rekstrar. Það sem meira var og kom ítrekað fram í viðtölum við fulltrúa þessara stofnana og ráðuneyta er að þær hafa ekki fengið nein tilmæli eða leiðbeiningar um það hvernig eigi að standa að þessum nýju aðgerðum við fjárlagagerðina eða hvernig þær eigi að fara að því að láta enda ná saman. Sumum þeirra var aðeins tilkynnt það, væri þeim yfirleitt tilkynnt það, ef þær sáu það ekki bara í fjárlagafrv. þegar það kom fram, hvaða fjárveitingar þær þurftu að búa við og augljóst var og vitað að þær gætu ekki búið við. Þetta er hins vegar aðeins staðfesting á því, virðulegur forseti, sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram að forsendur þessar fjárlagafrv. standast engan veginn. Það er hægt að nefna í þessu sambandi ótal dæmi, bæði stór og smá, en ekki er tími til þess nú þó að e.t.v. verði drepið á nokkur atriði.
    Mig langar fyrst til þess að nefna landbúnaðarmálin vegna þess að landbn. Alþingis tók þann málaflokk til ítarlegrar umfjöllunar og sendi fjárln. sameiginlegt álit um tillögur sínar og jafnvel breytingartillögur við einstaka liði. Í álitinu segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Nefndin [þ.e. landbn.] telur að með þessum breyttu háttum í fjárlagagerð sé stigið jákvætt skref sem tvímælalaust gerir umfjöllun Alþingis um gerð fjárlaga markvissari og tryggir að ákvarðanir Alþingis við löggjöf og samninga séu virtar af framkvæmdarvaldinu. Nefndinni munu nýtast fyrirliggjandi upplýsingar þegar þau málefni, sem um var fjallað að þessu sinni, kunna að koma til umfjöllunar á Alþingi.``
    Síðan bendir nefndin á tvö atriði sem hún telur að beri að sinna. Það er í fyrsta lagi eins og hún segir: ,,Engin breyting hefur orðið á stöðu Búnaðarfélags Íslands innan stjórnsýslunnar eins og haldið er fram á bls. 307 í frv. til fjárlaga. Starfsvettvangur Búnaðarfélagsins byggist nú sem fyrr á margháttaðri löggjöf sem snertir málefni landbúnaðarins og á ríkum hefðum á löngum ferli. Þessu geta skýringar með fjárlagafrv. í engu breytt. Fjárlagalið, sem fjallar um Búnaðarfélagið, ber því að setja upp með sama hætti og verið hefur en það tryggir að liður 51, Laun, taki hækkun til samræmis við þær launabreytingar sem kunna verða á fjárlagaárinu svo sem verið hefur.`` Og síðar með annarri tilvitnun í þetta álit segir: ,,Þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan nefndarinnar kom ekkert fram sem rökstuddi breytingar á þessum greiðslum frá því sem verið hefur frá upphafi. Þess vegna ber ríkissjóði að standa skil á lífeyrisgreiðslum starfsmanna Búnaðarfélags Íslands til lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.``
    Þetta er, virðulegur forseti, tilvitnanir í sameiginlegt álit landbn. þingsins, sem stjórnarliðar standa auðvitað einnig að, og er þess vegna furðulegt að hv. fjárln. eða meiri hluti hennar skuli ekki telja eðlilegt að verða í einhverju við þessum óskum. Ótalmargar beiðnir um lagfæringar á smærri liðum komu fram í nefndinni en var í engu sinnt frekar en svo mörgu öðru sem hafnað er.
    Varðandi menntamálin langar mig að segja það, --- og væri allt í lagi að hæstv. menntmrh. sæti hér áfram. Hann kom hér í gættina áðan en hefur greinilega ekki haft tíma frekar en aðrir ráðherrar en nú eru þeir allir horfnir aftur, sáust hér þrír um tíma. En hæstv. menntmrh. er hér í gættinni. --- Í frv. er í raun lögð til afgerandi stefnubreyting með skólagjöldunum. Þar segir svo í áliti frá minni hluta menntmrn. ef ég má, með leyfi forseta, vitna til þess einnig:
    ,,Fulltrúar stjórnarandstöðunnar eru alfarið á móti því að skólagjöld verði innheimt í ríkisskólum. Skólakerfið á að vinna að jöfnuði þegnanna og það þjónar velferð samfélagsins alls. Enginn á að þurfa að hverfa frá námi af þeirri ástæðu að hann geti ekki greitt fyrir nám sitt. Það er ekki sæmandi jafn vel stæðu samfélagi og okkar að ganga á vit fortíðar með þeim hætti sem ríkisstjórnin boðar nú. Hér er ekki um háar upphæðir að ræða fyrir ríkissjóð en einstaklingana og fjölskyldurnar í landinu getur munað um þá peninga sem á að innheimta. Aðalatriðið er þó að nú á að hverfa frá þeirri jafnréttisstefnu sem ríkt hefur um áraraðir í íslensku skólakerfi og því erum við andvíg.``
    Við þetta er því að bæta að það eru ekki aðeins stjórnarandstæðingarnir sem hafa þessa skoðun. Þeir finnast einnig í röðum stjórnarliða.
    Þá eru einnig boðaðar breytingar á nýsamþykktum grunnskólalögum sem við höfum einnig lýst andstöðu við og var rætt hér nýlega í þinginu þannig að ég eyði ekki frekari tíma í það mál að þessu sinni.
    Þessi ríkisstjórn virðist ekki vera þeirrar skoðunar að rannsóknir þurfi að auka því

að hún sker niður framlög til rannsóknastofnana og gerir þeim að auki skylt að afla sér aukinna sértekna til að standa undir starfsemi sinni. Þetta teljum við bæði ranga og hættulega stefnu. Erindum háskólans hefur ekkert verið sinnt, virðulegi forseti, hvorki Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri né Kennaraháskólans sem þó voru allir með margvísleg erindi fyrir fjárln. Á Akureyri er reyndar óskað eftir að styrkja hlutverk Háskólans á Akureyri með því að koma þar upp nýrri deild, kennaradeild. Hér er auðvitað um nýja starfsemi að ræða sem vafalaust þarf að skoða vel og ég veit að hæstv. menntmrh. hefur hug á því að gera það sem hægt er í þröngri stöðu til þess að þoka þessu máli á rétta braut. Skóli þessi er mikið landsbyggðarmál. Hann er líklega ein af stærri aðgerðum í byggðamálum sem gripið hefur verið til eða hrint í framkvæmd á síðari árum. Þess vegna er það mjög mikilvægt að halda áfram að hlúa að þessari nýju, ungu stofnun og treysta hana í sessi.
    Viðhaldsmál Kennaraháskólans og ýmissa fleiri skóla og reyndar fleiri ríkisstofnana bar oft á góma í hv. nefnd en því miður var mjög lítið orðið við óskum um lagfæringar á því sviði. Þó kom hv. formaður fjárln. rækilega inn á það í sinni ræðu áðan hversu brýn þörf væri á að taka þar til hendinni og er í raun ámælisvert að slíkum verkefnum skuli ekki sinnt betur en raun ber vitni.
    Þá höfum við ekki fengið nein svör um það hvernig eigi að standa að boðaðri rekstrarhagræðingu í framhaldsskólum, sem reyndar koma fram í fjárlagafrv. sjálfu, upp á 128 millj. kr. Það er viðbót við hinn nýboðaða samdrátt eða niðurskurð og væri fróðlegt að heyra frá hæstv. menntmrh. ef einhverjar nýjar upplýsingar væri að finna um þennan aðhalds- eða rekstrarlið, rekstur framhaldsskólanna, sem á að draga saman um 128 millj. kr. án nokkurra frekari skýringa.
    Nokkrum smáum fjárveitingum vegna svokallaðra safnliða í frv. er hafnað. Þeir koma reyndar ekki fram við fjárlagagerðina og þess vegna vart gerlegt að eyða miklum tíma þingsins í að fjalla um svoleiðis hluti. Hér er auðvitað um mjög smáar tölur að ræða í flestum tilfellum fyrir ríkissjóð, jafnvel aðeins fáein hundruð þúsunda kr. eða 1 eða 2 millj. en geta munað mjög miklu fyrir þá sem um sækja. Ég nefni t.d. styrki til nokkurra safnahúsa sem sum hver standa í umfangsmiklum framkvæmdum og standa vel í stykkinu. Þau hafa leitað liðsinnis, lítils háttar liðsinnis ríkisvaldsins og reyndar stutt sínar óskir með tilvitnun í lög. En því miður hefur það ekki fengið náð fyrir augum meiri hluta fjárln.
    Mig langar einnig að nefna stuðning við leiklistarstarfið í landinu. Bandalagl ísl. leikfélaga vinnur ótrúlega mikið og gott starf á þessu sviði og þau samtök sendu fjárln. að mínu áliti ákaflega hógværa ósk um það að fjárveitingar til frjálsra leikfélaga, frjálsrar leikstarfsemi yrðu hækkaðar um 5 millj. kr. Þessi leikfélög, eins og segir í bréfi bandalagsins til nefndarinnar, þurfa 17 millj. kr. stuðning frá íslenska ríkinu til að halda áfram sinni veglegu starfsemi. Einnig þyrfti að styðja starfsemi á skrifstofu þessa sambands sem veitir margvíslega þjónustu, ekki eingöngu þessum leikfélögum sem eiga aðild að bandalaginu, heldur einnig öllum skólaleikfélögum í landinu sem líklega, eins og segir, gætu verið jafnmörg og grunnskólarnir sem eru 229 því í langflestum þeirra fer fram einhver leikstarfsemi. Þessi rekstur hefði þurft að fá eins og 1 1 / 2 millj. í viðbót við það sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir til að geta haldið áfram að reka sína starfsemi af miklum myndarbrag. Frá fulltrúa eins leikfélags úti á landsbyggðinni fengu þingmenn Norðurl. e. bréf sem mig langar til þess að vitna í. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Öllu áhugafólki um þessi mál er þungt í huga og vill gjarnan að þingmenn okkar, þó sérstaklega stjórnarþingmenn, taki þetta til vinsamlegrar athugunar og vill minna á í þessu sambandi að nýlega var stofnað til rándýrs embættis menningarfulltrúa, Jakobs F.

Magnússonar, við sendiráð okkar í London sem líklega hefur ekki mikla menningu að flytja út ef af henni er skorin öll styrkveiting hér heima,`` virðulegi forseti og hæstv. menntmrh.
    Þetta finnst mér vera svo litlar upphæðir að ég er í raun, eins og hér hefur komið fram í máli mínu, undrandi á því að ekki skuli hafa veri reynt að gera örlítið betur en þó var gert og er rétt að nefna það að Bandalag ísl. leikfélaga fékk hækkun úr 12 millj. í 14.
    Fulltrúar Lánasjóðs ísl. námsmanna komu til fjárln. með sínar óskir. Í erindi þeirra kemur fram að þrátt fyrir þær breytingar og aðgerðir sem gripið var til á þessu ári á sjóðurinn við verulega erfiðleika að etja og þarf á enn frekari fjárveitingum að halda en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir nema grípa eigi til nýrra niðurskurðarráðstafana þar. Mig langar aftur að vitna til bréfs, virðulegi forseti, frá framkvæmdastjóra lánasjóðsins þar sem segir:
    ,,Forsendur þeirra fjárlagatillagna um námsaðstoð á árinu 1992 eru gerbreyttar sem Lánasjóður ísl. námsmanna sendi menntmrn. með bréfi dags. 6. júní sl. Mestu munar að þessar áætlanir byggðust á því að á næsta ári yrði tala lánþega sjóðsins um 8.000. Reynslan á yfirstandandi ári sýnir að lánþegum fjölgar enn. Þeir verða því 400 fleiri 1992 en gert var ráð fyrir í fjárlagatillögunum miðað við óbreyttan fjölda í ár. Þá er einnig við að búast að tekjur námsmanna og maka þeirra skerði nám mun minna en ráð var fyrir gert í fjárlagatillögunum í vor og reynslan í ár þá eingöngu höfð til hliðsjónar.``
    Nú spyr ég hæstv. menntmrh. hvort hann hugsi sér, þar sem ekki er gert ráð fyrir að verða í neinu við þessum óskum sem eru upp á 600 millj. kr., að grípa til enn frekari niðurskurðar eða breytinga á útlánum sjóðsins en gert var ráð fyrir við fjárlagagerðina sjálfa.
    Fjárfestingarliðir í framhaldsskólum eru sameiginleg verkefni ríkis og sveitarfélaga og þar er auðvitað þröngt skammtað eins og víðar. Þó er sá háttur hafður á, og ber að þakka það og er auðvitað nauðsynlegt að virða, að staðið er við samninga sem hafa verið gerðir skuldbindandi með fastri krónutölu. Mér finnst hins vegar óviðunandi að það bitni á þeim stofnunum eða þeim skólum, sem líklega eru að verða færri en hinir, sem ekki hafa náð neinum slíkum föstum bindandi samningum við ríkisvaldið, við menntmrn. og fjmrn. Væri að mínu áliti nauðsynlegt að láta þá skóla og þau sveitarfélög ekki gjalda þessa heldur setjast niður og gera við þau samninga eða láta eitthvað hærri fjárhæðir renna til þeirra, þrátt fyrir hina skuldbindandi samninga, en tillögur meiri hlutans gera nú ráð fyrir. Þetta voru þau atriði sem ég vildi nefna sérstaklega í sambandi við menntamálin og er þó fátt eitt upp talið og af mörgu að taka en ég læt þetta duga, virðulegi forseti.
    Mig langar að segja varðandi samgöngumálin, sem ég veit þó að verða tekin frekar fyrir við 3. umr., að mér sýnist óvíst hvernig hugmyndum um niðurskurð við Vestfjarðagöngin muni reiða af en vil þó minna á eða ítreka það, sem reyndar kom fram hjá hæstv. fjmrh. er hann kom til viðtals við fjárln., að í raun væri verið að rifta eða a.m.k. fresta samningum sem þýddu aukin útgjöld. Hann tók það sérstaklega fram að það yrði ekki gert öðruvísi en nauðsynlegt væri að bæta verktökum eitthvað upp þessa frestun. Þá sjáum við að saxast fer á sparnaðinn, sem auðvitað verður ekkert nema frestun, og mun þýða aukin útgjöld þegar upp er staðið ef menn ekki ætla að breyta algerlega hugmyndum um fyrirhugaðar framkvæmdir, sem sumir hafa reyndar óttast og haldið fram, að eigi að breyta algerlega þeirri jarðgangagerð sem þó var búið að ákveða að leggja í.
    Verulegar breytingar hlýtur að þurfa að samþykkja á vegáætlun ef fjárlagafrv. verður samþykkt óbreytt. Væntanlega mun hæstv. samgrh. leggja fram nýja till. til þál. að nýrri vegáætlun en ekkert af því höfum við séð enn þá og rennum þess vegna nokkuð blint í sjóinn með það hvað tölurnar í fjárlagafrv. í raun boða þegar skipt er niður á einstaka frakvæmdaliði.

    Hafnagerðin er líka afar erfiður málaflokkur. Þótt tala sú sem frv. gerði ráð fyrir hafi verið hækkuð nokkuð eru þar enn þá mjög miklir og margvíslegir erfiðleikar fram undan og ótal verkefni, bæði stór og smá sem bíða. Sumt af því er mjög hart að þurfa að sætta sig við og sumt af því er reyndar þannig statt að ekki er hægt að taka áfanga sem fjárlagafrv. með breytingartillögum meiri hlutans gerir rá fyrir. Það hlýtur að verða að heimila jafnvel útboð sem kosta meira til þess að hægt sé að standa skynsamlega að verki sem kostar meira en fjárveitingin dugar til. Vænti ég þess, með fullri virðingu við það sjónarmið að það sé ekki gott að vera alltaf að framkvæma umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir, að menn sinni þó og viðurkenni þessar staðreyndir þar sem það á við.
    Varðandi málefni sjútvrn. vil ég ítreka andstöðu mína og vara við þeim hugmyndum, sem fram koma í fjárlagafrv., að fénýta aflaheimildir Hagræðingarsjóðsins og kippa þannig grunni undan meginmarkmiðum sjóðsins, að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og koma til aðstoðar byggðarlögum er standa höllum fæti vegna breyttra útgerðarhátta. Ég tel að hér sé farið út á afar viðkvæma og varasama braut en veit að það hefur verið rætt mikið á öðrum vettvangi við umræður um önnur lagafrumvörp en þetta sem hér er til umræðu og læt því þessa athugasemd duga.
    Umhvrn. er nýtt og ungt ráðuneyti með mikilvægt hlutverk. Samtals eru fjárveitingar til þessa ráðuneytis í fjárlagafrv. upp á 476 millj. kr. Ítarleg umsókn með góðri og rökstuddri greinargerð barst hins vegar til fjárln. og reyndar undirrituð af sjálfum hæstv. umhvrh. upp á 200 millj. kr. í viðbót eða eins og 50% í viðbót við það sem frv. til fjárlaga gerir ráð fyrir. Þetta fékk kannski að vonum litlar undirtektir en ég nefni þetta sérstaklega af því að það er óvenjulegt að hæstv. ráðherrar hafi svo mikið við að senda fjárln. erindi með 50% hækkunum á útgjöldum sinna ráðuneyta. Ég sé að hæstv. fjmrh. brosir, ég vil ekki segja að hann glotti, en hann brosir, enda niðurstaðan sú að málefnið hefur ekki fengið mikinn skilning, hvorki hjá meiri hluta nefndarinnar né hæstv. ríkisstjórn. En í áliti umhvrn. Alþingis, sem sent var fjárln., er undirstrikað mikilvægi þess að vel sé búið að þessu nýja ráðuneyti og um þetta hefur nefndin öll verið sammála. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin ákvað að gera ekki brtt. við einstaka liði þess hluta fjárlagafrv. sem að henni snýr. Eigi að síður vill nefndin vekja athygli á brýnni fjárþörf til verkefna á sviði umhvrn. eins og viðbótartillögur fjárln. vitna um.`` --- Það voru einmitt þær tillögur sem ég var að nefna áðan.
    ,,Þá kom fram í gögnum sem Náttúruverndarráð lagði fram að fjölgun verkefna og stöðug eftirspurn eftir þjónustu ráðins kalla á meiri fjárþörf á opinberu fé en verið hefur hingað til. Enn fremur vill nefndin minna á að umhvrn. er yngsta ráðuneyti innan Stjórnarráðsins og því er brýnt að við fjárveitingar til ráðuneytisins verði nægilegt tillit tekið til uppbyggingar þess. Þýðing umhverfismála á alþjóðavísu fer ört vaxandi og það endurspeglast m.a. í auknum fjárframlögum til þessa málaflokks í nágrannalöndum okkar.`` Þetta vil ég taka upp hér og gera að mínum orðum það sem kemur fram í þessu áliti því að ég tel að hér sé allt satt og rétt sem mælt er og vil undirstrika það sem hér er sagt um mikilvægt verkefni Náttúruverndarráðs. Því miður er ekki heldur gert ráð fyrir neinum lagfæringum á fjárveitingum til þeirrar stofnunar í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir.
    Að lokum langar mig, virðulegi forseti, að fara nokkrum orðum um heilbrigðismálin og hefði gjarnan viljað að hæstv. heilbrrh. væri í salnum ef hann er staddur í húsinu. ( Forseti: Samkvæmt tölvuskjá hjá forseta mun hæstv. heilbrrh. vera farinn úr húsinu í augnablikinu.) Það þykir mér miður, virðulegi forseti, en af því að ég er seinþreyttur til vandræða og leiðinda ætla ég ekki heldur að krefjast þess að hæstv. ráðherra komi hér en

verð þó að lýsa aftur yfir undrun minni á því að ráðherrar skuli ekki vera viðstaddir þessa mikilvægu umræðu, a.m.k. þeir ráðherrar sem fara með útgjaldasömustu ráðuneytin. Mér finnst það lágmark að þeir komi hér og taki þátt í þessari umræðu og ég er reyndar með tvær eða þrjár spurningar til hæstv. ráðherra sem ég hefði viljað koma á framfæri við hann. ( Forseti: Forseti mun láta kanna hvort hæstv. heilbrrh. er væntanlegur í húsið og láta þá vita af því.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir það og held þá áfram máli mínu. Ég ætla að ræða nokkuð um heilbrigðismálin að lokum í umfjöllun minni um einstaka liði fjárlagafrv.
    Vissulega hafa nokkrar lagfæringar verið gerðar á þeim málaflokki frá því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Það er t.d. áætlað að draga ögn úr fyrirhuguðum sparnaði í lífeyristryggingum. Frv. gerir ráð fyrir samdrætti upp á 330 millj. kr. Hér er flutt tillaga um 80 millj. kr. fjárveitingu þannig að sparnaðurinn þarf þá ekki að verða nema 250 millj. en við höfum enn engar tillögur fengið um þetta efni. Við höfum engar hugmyndir fengið um það hvernig eigi að ná þessum sparnaði. Í fjarveru hæstv. ráðherra mundi ég kannski biðja hv. formann fjárln., ef hann vildi vera svo vænn, að hlýða á mál mitt og koma þessum athugasemdum til hæstv. heilbrrh. sem fjalla um það m.a. að spara 250 millj. kr. í lífeyristryggingum, en við höfum ekki séð eða fengið neinar hugmyndir eða upplýsingar um hvernig það eigi að gerast. Svo vill til að á síðasta kjörtímabili lagði sá, sem hér stendur, fram tillögur um sparnað í lífeyristryggingunum sem áttu m.a. að byggjast á tekjutengingu lífeyris. Þá var það flokkur hæstv. heilbr.- og trmrh. sem brá fæti fyrir þær hugmyndir, lagðist gegn tillögum um tekjutengingu lífeyrisins. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að vita það og ítreka við hv. formanns fjárln. að hann komi þeim spurningum fyrir mig til hæstv. ráðherra hvernig hann og hans flokkur ætlar að ná fram þessum sparnaði.
    Hér eru einnig gerðar breytingar á fjárveitingum til sjúkratrygginganna. Þær voru ítarlega ræddar um daginn í hv. Alþingi í tengslum við frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og er því ástæðulaust að fara um þær mörgum orðum. Nú hefur fjárveitingin til sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunarinnar verið hækkuð um 600 millj. kr., þar af um 300 millj. vegna lyfja. Það þýðir að heildarútgjöld vegna lyfja ættu að verða samkvæmt því sem ég best kann að reikna um 2,2 milljarðar. Mér sýnist á þeim upplýsingum sem ég hef fengið nýjastar frá heilbr.- og trn. að það muni vart duga þó að ekki færi meiri fé í þennan málaflokk en fer þá mánuði sem nú eru að líða en auðvitað vitum við ekki hvað kann að vera fram undan í því efni.
    Málefni heilsugæslustöðva voru nokkuð rædd í fjárln., m.a. að nauðsynlegt væri að fjölga stöðugildum við þessar stofnanir. Frv. gerir ráð fyrir fimm nýjum stöðugildum. Í upplýsingum sem legið hafa fyrir nefndinni kemur fram að bara heilsugæslustöðvarnar í Reykjavík telja sig þurfa fimm nýjar stöður hjúkrunarfræðinga til þess að hægt sé að halda skólahjúkruninni gangandi. Þá vitum við að mikil áhersla er lögð á aukna heimahjúkrun og það eru að mestu hjúkrunarfræðingar sem þá þjónustu stunda. Þar að auki hefur landlæknir farið fram á það að fjölgað væri nokkuð stöðum heilsugæslulækna við heilsugæslustöðvar og talið brýna þörf á a.m.k. fimm stöðum: á Fáskrúðsfirði, á Hellu og Hvolsvelli sameiginlega eina stöðu, í Keflavík, í Kópavogi og á Egilsstöðum. Það er þó aðeins forgangsröðin hjá landlækni og þar sem hann telur brýnast að bæta úr þannig að ljóst er að hér er mjög þröngt skammtað eins og auðvitað víðar. En það sem mestu skiptir þó fyrir heilsugæslustöðvarnar er það sem áður var búið að ræða um, sértekjurnar áætluðu, sem gert var ráð fyrir að ættu að skila nær 400 millj. er eru lækkaðar nokkuð eða um 68 millj. þannig að eftir standa í sértekjur 300 millj. sem á auðvitað að innheimta með nýjum skattálögum á þá sem njóta þessarar þjónustu.

    Þá langar mig að nefna fjárfestingarliðinn í sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum þar sem um er að ræða mjög svipaða krónutölu til úthlutunar og í fjárlögum ársins í ár. Ég bendi á það að fram að þessu hefur uppbygging heilsugæslustöðva í Reykjavík ekki verið kostuð af þessum fjárlagalið. Hún hefur verið kostuð ýmist með heimildum í 6. gr. og síðan greidd út af fjárveitingum sem til þeirra heimilda hefur verið veitt eða með sérstökum samningi við Reykjavíkurborg ef vitnað er til fyrri tíðar. Nú er gerð tillaga um það að af þessum fjárlagalið fái heilsugæslustöðvar í Reykjavík 50 millj. kr. og er þá ekki hægt að skoða það öðruvísi en um sé að ræða í raun skerðingu um þær 50 millj. til þeirra verkefna sem hingað til hafa setið að þessum fjárlagalið og fengið fjárveitingar út af honum. Því er von að erfitt sé að úthluta af fjárlagaliðnum þannig að allir séu bærilega sáttir. Enginn fær auðvitað það sem hann hefði helst talið nauðsynlegast eða æskilegast, réttara sagt. Það er auðvitað ekki nýtt en nú bregður hins vegar svo við að því miður eru sett út af þessum framkvæmdaliðum verkefni sem hafa verið í gangi, verkefni sem hafa fengið fjárveitingar á undanförnum árum. Ég nefni t.d. staði sem ég man eftir í fljótheitum eins og Kirkjubæjarklaustur og Vopnafjörð sem nú eru settir til hliðar vegna þess að þessi liður er auðvitað þrengri en verið hefur af þeim ástæðum sem ég hef tilgreint.
    Þá kem ég að því sem ég ætlaði sérstaklega að ræða við hæstv. ráðherra ef hann hefði verið viðstaddur, það eru málefni sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Þau mál á að taka til sérstakrar umfjöllunar við 3. umr. þannig að ég get beðið með það að mestu leyti sem mig langar til þess að segja en mun þó aðeins nefna nokkur atriði vegna þess að ég tel að hér mál sem þurfi að skoða mjög vandlega. Ég tel að hér sé hæstv. ráðherra að fara út á brautir sem ekki munu leiða til réttrar niðurstöðu eða þeirrar niðurstöðu sem sóst er eftir, að gæta ýtrasta aðhalds og sparnaðar í rekstri þessra stofnana. Mín skoðun er nánast sú að þar sé að verða slys.
    Með því að sameina Borgarspítalann og Landakot erum við í raun að búa til annað mjög stórt, öflugt sjúkrahús við hliðina á ríkisspítölunum sem mun leiða til harðrar samkeppni milli þessara tveggja stóru sjúkrahúsa. Þau munu keppa um starfslið, þau munu keppa um tækjabúnað og verkefni og það mun til lengri tíma litið leiða til þess að kostnaður verður meiri en ekki minni. Ég hef séð haft eftir ráðherra að til þessara aðgerða verði ekki gripið nema ljóst sé að þær leiði til sparnaðar og ég vona sannarlega að hann skoði hug sinn vel áður en hann kemst að þeirri niðurstöðu að það sem nú er í bígerð sér rétta leiðin.
    Ég hef að undanförnu átt viðræður við ýmsa aðila sem gerþekkja þessi mál. Ég átti t.d. nýlega fund með fulltrúum frá sérstakri nefnd sem Félag hjúkrunarfræðinga hefur stofnað og fjallar um rekstrarhagræðingu og aðhald í rekstri heilbrigðisstofnana. Hún er einmitt gott dæmi um þá möguleika sem eru fyrir hendi í nánu samráði og samstarfi við starfsfólk þessara opinberu stofnana, í samráði við opinbera starfsmenn til að ná fram hagræðingu og aðhaldi. Á þessum fundi kom m.a. fram sú sameiginleg niðurstaða þessara hjúkrunarfræðinga að samkeppni sem óhjákvæmilega hlytist af því að vera með tvö svo stór hátæknisjúkrahús í Reykjavík, Landspítala annars vegar og sameinaðan Borgarspítala og Landakot hins vegar, mundi leiða til aukins kostnaðar fyrir þjóðarbúið. Það mundi leiða til aukins kostnaðar og jafnframt töldu þeir að Landakot ætti að nota sem sjúkrahús fyrir skipulagðar innlagnir, ekki fyrir bráðaþjónustu. Þannig mundi best nýting fást á sjúkrahúsinu og þeim búnaði og mannafla sem þar er að finna.
    Sama má lesa út úr fréttum fjölmiðla og viðtölum í blöðum sem birst hafa við t.d. ráðuneytisstjóra heilbrigðismála, Pál Sigurðsson, og héraðslækninn í Reykjavík, Skúla Johnsen, sem báðir hafa efasemdir um það að þær aðgerðir sem nú eru í bígerð muni leiða til sparnaðar, a.m.k. ekki á næsta, jafnvel ekki á næstu árum. Það muni fyrst þurfa verulega

aukin útgjöld áður en kemur að því að þessar aðgerðir leiði til sparnaðar. Mín skoðun er sú, ég ítreka það, að það muni alls ekki leiða til sparnaðar heldur til enn frekari útgjalda.
    Ríkisspítalarnir fengu á þessu ári erlenda rekstrarráðgjafa til þess að skoða starfsemi og skipulag sjúkrahúsanna. Ég tel að í áliti þessara rekstrarráðgjafa sé að finna mjög merkilegar niðurstöður. Kannski er réttara að segja það fyrst að auðvitað var þeirra hlutverk að fjalla fyrst og fremst um ríkisspítalana og starfsemi þeirra. En þeir komast að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til þess að ná ýtrustu hagræðingu í rekstri spítalans og þar með talið auðvitað íslenskri heilbrigðisþjónustu, þar sem þetta sjúkrahús er auðvitað langstærst og skiptir mestu máli, sé að leita eftir sameiningu eða a.m.k. miklu betra samræmi á milli starfsemi þessara stærstu sjúkrahúsa en ekki að stilla þeim upp hvoru gegn öðru eins og nú virðist vera stefna hæstv. heilbrrh.
    Í skýrslunni segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Hvers vegna sameining með samruna ríkisspítala og Borgarspítala? Vegna þess að samruninn leiðir til 80% til 100% markaðshlutdeildar á flestum sviðum læknisfræðinnar. Þessi leið borgar sig best vegna þess að tvöföldun verður í lágmarki og samvirkni í hámarki. Við samruna Borgarspítala og Landakots verður tvöföldunin mest. Borgarspítalinn og Landakot munu sameiginlega hafa 40--60% markaðshlutdeild í mörgum sérgreinum. Kostnaður mun hækka. Sóun verður í hámarki, og er þá nokkuð mikið sagt, og gæði munu minnka. Með tilliti til smæðar þjóðarinnar er ekki réttlætanlegt að hafa undirsérgreinar á tveimur stöðum þar sem ekki eru tækifæri til að viðhalda hagnýtri reynslu``, segir svo hér, virðulegi forseti, í þessari skýrslu. Ég læt þessa tilvitnun duga að þessu sinni þar sem ráðherra er ekki við og tími gefst og tóm til þess að ræða þetta við hann betur.
    Mér finnst einnig annað merkilegt við skýrsluna. Þar er talið skynsamlegt að starfrækja og sérhæfa lítil sjúkrahús við hliðina á þessu stóra, sameinaða sjúkrahúsi. Reyndar hélt ég áður að Landakot ætti að vera inni í sameiningu af þessu tagi sem ég hef verið að tala fyrir, en þessir rekstrarráðgjafar, sem þekkja vel til á þessu sviði, sérhæfðir í því að fjalla um heilbrigðisþjónustu og rekstur slíkra stofnana, telja á hinn bóginn að rekstur smærri sjúkrahúsa geti vel átt rétt á sér í því formi að gera þau sérhæfð fyrir þá þjónustu sem þau ráða auðveldlega við og geti vel gegnt öðru hlutverki en aðeins öldrunarþjónustunni. Og það kemur fram að það á auðvitað líka við um sjúkrahús hér í nágrenninu eins og t.d. St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði og önnur smærri sjúkrahús í landinu. Og ég ætlaði þess vegna að spyrja ráðherrann að því í lokin hvort hann teldi ekki rétt og nauðsynlegt að skoða ítarlega þessa skýrslu hinna erlendu ráðgjafa sem hafa sérhæft sig í þessum málaflokki, gefa sér aðeins betri tíma áður en flanað er að einhverju sem að fróðustu manna yfirsýn er e.t.v. ekki talið það skynsamlegasta.
    Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur nokkra sérstöðu með sjúkrahúsum í landinu. Þar er um að ræða deildaskipt sjúkrahús með möguleikum til að sinna vel fjölda sérgreina. En það þarf hins vegar að viðurkenna, bæði af heilbrrn. og fjárveitingavaldinu, þá þjónustu sem þar er veitt og að þar er um að ræða sjúkrahús með stöðuga vakt allt árið um kring. Það hefur ekki verkaskipti við nein önnur sjúkrahús og þess vegna þarf að viðurkenna það í mannahaldi þessarar stofnunar. Það er því nauðsynlegt að styrkja einstakar deildir hvað sérfræðiþjónustuna varðar. Læknaráð sjúkrahússins hefur nú beitt sér fyrir úttekt á stöðunni og áætlanagerð um áframhaldandi þróun sjúkrahússins. Það hefði auðvitað verið æskilegt að geta nú stigið fyrstu skref í samræmi við þessa áætlun, en ekki var orðið við þeim óskum að þessu sinni. Ég veit að hæstv. heilbrrh. er með þetta mál í athugun og ég bið hann að skoða það vel og gera það sem í hans valdi stendur til að tryggja og styrkja þessa mikilvægu þjónustustofnun á landsbyggðinni.
    Virðulegi forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ýmis mál bíða að venju 3. umr.

fjárlagafrv., svo sem tekjuhliðin, stofnanir í B-hluta, 6. gr. og ýmsar tillögur sem ríkisstjórnin hefur nú sett fram og boðað. Það bíður því þeirrar umræðu af minni hálfu að fjalla t.d. ítarlegar um tekjuhlið frv., um skattamálin og þá þætti, um lántökur ríkissjóðs og þróun lánamála, svo og málefni ýmissa stofnana annarra sem tengjast B-hlutanum eins og Ríkisútvarpsins, byggingarsjóðanna o.fl. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárln. sem stöndum að þessu nál. minni hlutans höfum lýst því yfir að við munum ekki standa að afgreiðslu þessa fjárlagafrv. Við viljum ekki bera ábyrgð á því og erum á móti í grundvallaratriðum ýmsum veigamiklum efnisatriðum sem fram koma í frv. Ég hef auðvitað nú þegar og fyrr við umræðu um þetta mál og önnur látið það koma fram. Við teljum þessi vinnubrögð nú síðustu daga öll með ólíkindum og ýmis mál reyndar, sem boðuð hafa verið, enn í fullri óvissu ef marka má yfirlýsingar einstakra stjórnarliða. Því treystir minni hlutinn sér ekki að þessu sinni til þess að standa að brtt. þeim sem unnar höfðu verið í fjárln. né heldur þeim tillögum sem komu þar fram frá hæstv. ríkisstjórn nú rétt í lok þessarar vinnu og mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Ég vil svo í lok míns máls, virðulegi forseti, þakka formanni nefndarinnar og öðrum meðnefndarmönnum fyrir samstarfið svo og starfsfólki þingsins, Ríkisendurskoðunar, ráðuneyta og stofnana sem hafa unnið mikið og gott starf við að gera vinnu nefndarmanna auðvelda og afla þeim upplýsinga. Hafi þau öll þökk fyrir það samstarf.