Fjárlög 1992

48. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 16:53:00 (1811)

     Margrét Frímannsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka samstarfsmönnum mínum í fjárln. fyrir samstarfið sl. vikur þrátt fyrir að vinnubrögðin hafi ekki alltaf verið með þeim hætti sem við í minni hluta nefnarinnar hefðum kosið. Þar er þó ekki við forustu fjárln. að sakast heldur eiga þessi aldeilis einkennilegu vinnubrögð rætur að rekja til hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég vil þakka formanni þeirrar undirnefndar fjárln., sem ég starfaði í, hv. þm. Pálma Jónssyni, fyrir hans störf. Að mínu mati voru vinnubrögð í þeirri undirnefnd eins góð og mögulegt var miðað við þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hafði tekið varðandi þá málaflokka sem við fjölluðum um. Þá vil ég þakka sérstaklega öllu því starfsfólki sem aðstoðaði okkur við vinnuna, ekki síst ritara fjárln. Sigurði Rúnari Sigurjónssyni og öðru starfsfólki úti í Austurstræti 14 sem hefur reynst okkur einstaklega vel.
    Það ástand sem nú ríkir í þjóðfélaginu minnir um margt á haustið 1988. Gífurlegir erfiðleikar blasa við í atvinnulífi landsmanna, atvinnuleysi eykst og horfur eru á að það muni aukast enn frekar á næsta ári. Þann 27. nóv. sl., eftir að draumsýn ríkisstjórnarinnar um álver leystist upp og í ljós kom að hún hafði engin önnur úrræði í atvinnumálum, sendi Þjóðhagsstofnun frá sér endurskoðaða þjóðhagsáætlun en þar segir m.a. að horfur í atvinnumálum séu nú mun dekkri en áður hafi verið gert ráð fyrir. Það sem mest um varðar er verra útlit í atvinnumálum frá fyrri spá og telur stofnunin að mun minni umsvif verði í byggingarstarfsemi.
    Síðan spáin birtist fyrir réttum tveimur vikum síðan hefur þó enn sigið á ógæfuhliðina hvað varðar atvinnustarfsemina í landinu. Og nú boðar ríkisstjórnin að hún ætli að senda stóran hóp ríkisstarfsmanna í flokk atvinnulausra. Ekki er þar einungis um að ræða þessi 600 störf eða 300 ársverk sem á að leggja af hjá ríkinu heldur á einnig að draga úr ýmsum framkvæmdum á vegum ríkisins. Gert er ráð fyrir að landframleiðsla og þjóðartekjur dragist enn frekar saman og ríkisstjórnin ætlar að draga úr lánsþörf til að veita fyrirtækjum landisins aukið svigrúm á lánamarkaðnum. Þetta er eins og ýmislegt annað sem frá þessari stjórn kemur. Varla eykur hún svigrúmið á lánamarkaðnum með því að setja mörg og stór verkefni yfir á sveitarfélögin jafnframt því sem dregið er úr framkvæmdum

ríkisins í sveitarfélögunum. Margar þessara framkvæmda eru nauðsynlegar og sveitarfélögin verða þá sjálf að taka þær á sig. Hvort tveggja kemur til með að auka lánsþörf sveitarfélaganna til muna og þar með þrengja lánamarkaðinn.
    Gert er ráð fyrir að fiskafli minnki á næsta ári en það þýðir óhjákvæmilega að störfum fækkar í þeim sveitarfélögum sem byggja á útgerð og fiskvinnslu. Færri störf hafa í för með sér minnkandi tekjur fyrir viðkomandi sveitarfélag, minni tekjur til að takast á við aukin verkefni. Auðvitað hefur minnkandi fiskafli einnig í för með sér minni tekjur fyrir ríkissjóð en því er hægt að mæta með því að breyta lögum eða skerða ákvæði um lögbundin framlög til hinna ýmsu verkefna. Og það er svo sannarlega gert. Sveitarfélögin geta ekki beitt sömu úrræðum. Hér á Alþingi er sveitarfélögum úthlutað viðamiklum verkefnum til að leysa. Við sendum þeim tilskipanir og ráðuneytin setja reglugerðir sem fela í sér skyldur og útgjöld fyrir þau. Það ætti að nægja að nefna reglur um sorp og frárennslismál. Þessum reglum er ekki breytt. Kröfurnar um þjónustu, sem sveitarfélögin eiga að veita, minnka ekki. Þær eru þvert á móti auknar stórlega á sama tíma og áætlað er að tekjur sveitarfélaganna verði skertar með lagaboði frá Alþingi að skipun ríkisstjórnar. Nú ætlast ríkisstjórnin t.d. til að sveitarfélögin greiði 0,1% af útsvarstekjum sínum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þetta mun koma mjög harkalega niður á minni sveitarfélögunum sem hafa nýtt útsvarsheimildir að fullu undanfarin ár. Þau þurfa á öllum sínum tekjustofnum að halda til að geta staðið undir þeirri þjónustu sem þeim er gert að veita og dugar þó varla til.
    Það langvarandi samdráttarskeið, sem vel er lýst á bls. 250 í grg. með fjárlagafrv. undir kaflaheitinu ,,Framvinda og horfur í efnahagsmálum`` hefur komið niður á rekstri sveitarfélaga og fyrirtækja í landinu ekki síður en ríkissjóði en það er eins og ónefndir menn viti það ekki eða skilji það ekki. Þessi samdráttur hefur einnig bitnað á rekstri heimilanna í landinu en boðskapur ríkisstjórnarinnar er þó að þau skuli taka á sig enn þyngri byrðar en áður.
    Vandamálin sem vissulega voru til staðar að hluta til þegar ríkisstjórnin tók til starfa sl. vor hafa vaxið gríðarlega á undanförnum mánuðum. Engu er líkara en menn hafi ekkert gert í sjö mánuði annað en velta sér upp úr fortíðinni en passa sig þó vel á því að fara ekki lengra en aftur til haustsins 1988. Og svo var auðvitað verið að bíða eftir nýju álveri sem átti að leysa nær allan vandann. Þá átti samdráttarskeiðinu að ljúka, þá gætu launþegar fengið vinnu og þá en ekki fyrr væri hægt að búast við kjarabótum til hinna lægst launuðu. Ekkert lá á að leysa úr vandamálum sjávarútvegsins að mati hæstv. forsrh., menn skyldu ekki eyða tíma í það, mikilvægara var að kryfja störf Alþingis til mergjar og koma skilaboðum um þau til þjóðarsálarinnar. Helsta áhyggjuefni síðustu vikna virðist hafa verið það hvort hæstv. forsrh. tækist nú að lagfæra fundarkunnáttu hv. þm. Það var öllu brýnna en að ræða tillögur hæstv. sjútvrh. varðandi sjávarútveginn. Og meðan á þessum skrípaleik stóð fóru forsendur fjárlagafrv. fyrir árið 1992 út í buskann með álverinu. Fjárln. Alþingis sat á sínum stað og tók við tilkynningum frá ráðherrum og ýmsum stjórnarliðum úr fjölmiðlum, um aukin útgjöld, auknar tekjur, vaxandi halla, minnkandi halla, aukin þjónustugjöld, minnkandi þjónustugjöld og ómögulegt var að vinna vitræna niðurstöðu úr öllum þessum yfirlýsingum.
    Loks settist ríkisstjórnin niður eina nótt þegar tími gafst frá beinum útsendingum til þjóðarsálarinnar til að reyna að finna lausn á fjárhagsvandanum. Niðurstaðan birtist morguninn eftir, heilum sólarhring áður en 2. umr. um frv. til fjárlaga átti að fara fram. Þessum skrípaleik er reyndar ágætlega lýst á bls. 2 í nál. meiri hluta fjárln. Þar segir með leyfi forseta:
    ,,Er nefndin hafði lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda, sem til hennar bárust, svo

og skiptingu fjárfestingarliða, lágu fyrir breytingartillögur sem nefndin hafði sameiginlega unnið að og námu samtals til hækkunar á 4. gr. 220,2 millj. kr.
    Þá fékk nefndin til umfjöllunar tillögur sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 9. des. sl. Eru þær tillögur, sem kunnugt er, flestar til sparnaðar á útgjöldum ríkisins en einnig nokkrar sem fela í sér aukin útgjöld. Enn aðrar varða tekjuhlið fjárlagafrv. Meiri hluti nefndarinnar flytur verulegan hluta þessara tillagna við 2. umr. og nemur sparnaður samkvæmt þeim 957,8 millj. kr.``
    Þetta eru mjög sérkennileg vinnubrögð. Ríkisstjórnin umturnar tekju- og gjaldaliðum frv. einum sólarhring fyrir 2. umr. og meiri hluti fjárln. verður nánast að samþykkja allt orðalaust og gera breytingarnar að sínum án þess að hafa tíma til að yfirfara þær, hvað þá að hafa samráð við þá aðila í þjóðfélaginu sem tillögurnar snerta beint. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist daginn fyrir 3. umr. um fjárlögin. Megum við þá eiga von á nýrri og gerbreyttri útgáfu fjárlaga?
    Og hver var svo niðurstaða ríkisstjórnarinnar eftir næturfundinn 9. des.? Úr því að álver kemur ekki og við verðum af tekjum þess vegna sem nemur 1 1 / 2 milljarði kr. þá verðum við að draga saman seglin sem því nemur og rúmlega það. Skynsamleg niðurstaða. En tillögurnar um aðgerðirnar, sem í kjölfarið fylgdu, eru ekki allar jafnskynsamlegar. Fram kom að samkvæmt nýju mati ríkisstjórnarinnar yrðu tekjur ríkissjóðs á næsta ári aðeins 103,5 milljarðar kr. í stað 106 milljarða eins og gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagafrv. Hins vegar höfðu útgjaldaliðir frv. hækkað um rúmlega 1.600 millj. kr. og hallinn því orðinn rúmir 8 milljarðar kr. í stað 4 milljarða eins og gert var ráð fyrir í frv. Ríkisstjórnin leggur til að þessum vanda verði mætt með því að auka tekjur um 1.600 millj. kr. Þessum tekjum á m.a. að ná með því að lækka heildargreiðslur vegna barnabóta um 500 millj. og með því að skerða skattaafslátt sjómanna um 180 millj. Sjómenn hafa mótmælt þessari skerðingu harðlega og segja reyndar að þarna sé um mun hærri upphæð að ræða en þá sem hæstv. fjmrh. talar um. Ég mun ræða báðar þessar breytingar sem varða greiðslu barnabóta og sjómannaafsláttinn séstaklega við 3. umr. um frv.
    Þá er ætlunin að fresta niðurfellingu á jöfnunargjaldi á innfluttar vörur sem ég tel reyndar til góðs. Áætlað er að það skili ríkissjóði um 350 millj. kr. Síðan ætlar ríkisstjórnin að ná 300 millj. frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins með því að láta stofnunina greiða þá upphæð beint í ríkissjóð í stað þess að greiða landsútsvar eins og áður sem rann til sveitarfélaganna. Þar af fékk Jöfnunarsjóður sveitarfélaga 225 millj. en nú ætlar ríkisstjórnin að sjá til þess að sjóðurin fái ekki neitt af þessum peningum. Ég tel að ríkisstjórninni hefði verið nær að fjölga þeim fyrirtækjum sem greiða landsútsvar en að fækka þeim. Stofnanir, sem þjóna allri landsbyggðinni, eiga að greiða landsútsvar. Ríkisstjórnin gerir sér þó fulla grein fyrir hvað Jöfnunarsjóðurinn er mikilvægur fyrir sveitarfélögin í landinu og ákvað líklega þess vegna að sveitarfélögin skuli sjálf greiða þessar 225 millj. sem frá sjóðnum eru teknar. Nú á að skylda þau með lögum til að greiða 0,1% útsvarstekjum sínum í sjóðinn og bæta honum tapið þannig. Og sveitarfélögin eiga víst að vera sátt við þetta því þau fá þessa peninga aftur og þá hefur enginn tapað neinu samkvæmt þeim fullyrðingum sem við höfum heyrt nema ef vera kynni Reykjavíkurborg. Þetta er kallað hundalógík í Flóanum og á eitthvað skylt við það þegar hundur eltir skottið á sjálfum sér. Auðvitað má til sanns vegar færa að Reykjavík tapi á þessu. En það gera einnig önnur sveitarfélög sem ekki fá greiðslur úr Jöfnunarsjóði eða mjög lágar greiðslur. Tekjulitlu sveitarfélögin, sem Jöfnunarsjóðnum er sérstaklega ætlað að styrkja, verða líka af tekjum vegna þess að þau fullnýtan nú þegar alla sína tekjustofna og þeim er ætlað samkvæmt boði ríkisstjórnarinnar að greiða í Jöfnunarsjóðinn af þeim tekjum sem þau annars hefðu til ráðstöfunar og engin trygging fyrir því að framlög til þeirra úr sjóðnum verði hærri en

áður hefur verið. Það er því líklegt að þau tapi sem nemur 0,1% af útsvarstekjum sínum. Þessi tillaga ríkisstjórnarinnar er afar slæm og enn verri en ella fyrir það að á næturfundinum viðburðarríka samþykkti ríkisstjórnin að færa viðamikil verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Í lítið útfærðum tillögum ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir að tillit verði tekið til greiðslugetu sveitarfélaganna, nei, eitt skal yfir þau öll ganga. Samband ísl. sveitarfélaga hefur reyndar sent frá sér í dag yfirlýsingu sem ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér upp:
    ,,Yfirlýsing stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að brjóta samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna og verkaskipti og stórfelldar álögur á sveitarfélögin:
    Ríkisstjórnin hefur nú einhliða og án alls samráðs við sveitarfélögin og samtök þeirra lagt fram tillögur um breytingar á tveimur af veigamestu tekjustofnum sveitarfélaganna, útsvari og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jafnframt felast í tillögunum stórfelldar nýjar álögur á sveitarfélögin. Samtals leiða þessar tillögur til a.m.k. eins milljarðs króna útgjaldaauka eða tekjuskerðingar fyrir sveitarfélögin. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mótmælir harðlega þessum áformum ríkisstjórnarinnar og telur þau alvarlegt brot á nýgerðu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna og verkaskipti. Í tillögunum er enn fremur gert ráð fyrir misnotkun á sameiginlegu innheimtukerfi ríkis og sveitarfélaga, staðgreiðslukerfinu, og ganga þær hugmyndir þvert á samkomulag fjmrn., Reykjavíkurborgar og Sambands ísl. sveitarfélaga frá 30. apríl 1990 um það efni.
    Samráðsfundur stjórnar sambandsins með ríkisstjórninni var haldinn 18. nóv. sl. Árleg fjármálaráðstefna sambandsins var síðan haldin 21. og 22. nóv. sl. Á þessum fundi komu sex ráðherrar ríkisstjórnarinnar og gerðu grein fyrir stefnu sinna ráðuneyta og ríkisstjórnarinnar í heild í málefnum sveitarfélaganna. Þar kom ekkert fram sem benti til þess að ríksstjórnin hefði í hyggju þær stórfelldu breytingar á tekjustofnum, verkaskiptum og fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem tillögurnar gera ráð fyrir. Ekkert samráð hefur verið haft við forsvarsmenn sveitarfélaganna né Samband ísl. sveitarfélaga um þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fram þrátt fyrir skýr ákvæði samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga um samráð þessara aðila varðandi sameiginleg hagsmunamál og ákvæði í 116. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8 síðan 1986 þar sem segir: ,,Ríkisstjórnin skal hafa náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um þau mál er varða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur samskipti þessara aðila.`` Samningsbundið og lögformlegt samstarf er þannig rofið og það einskis virt af ríkisstjórninni. Slík vinnubrögð leiða til trúnaðarbrests milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins.
    Nú liggja fyrir nýjar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga og endurskoðun á verkefnum, tekjum og öðrum samskiptum þeirra við ríkisvaldið sem góð samstaða gæti náðst um. Framgangur þessa máls byggist á því að traust og trúnaður ríki milli aðila og því sé hægt að treysta að samningar og lög um samskipti þeirra séu virt. Mörg sveitarfélög standa nú frammi fyrir alvarlegum fjárhagsvanda. Gerðar eru kröfur á hendur sveitarfélaganna hringinn í kringum landið um fjárhagslega þátttöku í atvinnulífinu. Einnig hefur ríkisvaldið að undanförnu aukið fjárhagslegar skyldur sveitarfélaganna með lögbindingu nýrra verkefna og hertum reglugerðarákvæðum. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga treystir því að ríkisstjórnin falli frá áformum sínum og að efnt verði til samráðs milli ríkis og sveitarfélaga á jafnréttisgrundvelli svo sem samningar og lög gera ráð fyrir. Einungis með þeim hætti er hægt að byggja upp það traust sem nauðsynlegt er að til staðar sé milli þessara stjórnvalda og er forsenda fyrir árangursríku samstarfi þeirra.`` --- Er það nema von, virðulegi forseti, að maður hiksti á ósköpunum.
    Einna mest í þessum breytingum vegur sú breyting að færa hluta af málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna. Samkvæmt útreikningum ríkisstjórnarinnar er um að ræða verkefni sem kosta um 400 millj. kr. M.a. er þetta dagvistun fatlaðra, sumarbúðir fatlaðra, verndaðir vinnustaðir, rekstur leikfangasafna og atvinnuleit fyrir fatlaða. Búið var að gera ráð fyrir þessum útgjöldum í frv. til fjárlaga áður en ríkisstjórninni datt í hug að koma þessum kostnaði yfir á sveitarfélögin. Þar var gert ráð fyrir að útgjöldin yrðu 475 millj. 800 þús. kr. en ekki 400 millj. eins og tillögurnar gera ráð fyrir. Raunveruleg fjárþörf í þessa umræddu liði er eins og við vitum mun meiri en fram kemur í þessum tölum báðum. Ríkisstjórnin er með þessu að losa sig við hluta af málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og láta þau bera kostnaðinn. Þessar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eru andstæðar þeim samningi sem gerður var um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og eins og kom fram í því bréfi, sem ég var að lesa upp, samning sem mikil vinna var lögð í að gera og lögfestur var á Alþingi. Við það tækifæri lögðu margir af núv. stjórnarþingmönnum mikla áherslu á að við þennan samning yrði staðið og að alls ekki yrði gengið á hlut sveitarfélaganna. Ef færa þyrfti ný verkefni til þeirra yrði jafnframt að tryggja þeim tekjustofna til að vega þar upp á móti. Sveitarfélögunum er sannarlega ætlað að taka stóran skerf af því sem út af stendur á borði ríkisstjórnarinnar. Hvort standa á við það samkomulag sem gert var á sínum tíma um uppgjör við sveitarfélögin vegna sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga vitum við ekki enn. Um það atriði höfum við ekki séð nein gögn, í það minnsta ekki við sem erum fulltrúar stjórnarandstöðu í fjárlaganefnd.
    Ég sagði áðan að ríkisstjórnin ætlaði sér að mæta rúmlega 8 milljarða kr. halla á fjárlagafrv. að hluta til með því hækka tekjuliðinn um 1.600 millj. kr. Að auki er gert ráð fyrir að lækka gjaldalið frv. um 3,1 milljarð kr. þannig að halli verði rúmir 3 milljarðar. Ég hef hér nefnt lækkun á útgjöldum ríkissjóðs vegna fatlaðra um 400 millj. Vissulega er hægt að fara nákvæmlega í ýmsa aðra niðurskurðarliði ríkisstjórnarinnar. Þar er ansi margt sem kemur spánskt fyrir sjónir, eins og t.d. 20 millj. kr. niðurskurður á framlagi vegna starfsmenntunar í sjávarútvegi og starfsmenntunar í atvinnulífi. Um leið og þetta er lagt til er verið að ræða á Alþingi stjfrv. til laga um sama málefni. Það á einnig að skerða framlag vegna rekstur Byggðastofnunar um 20 millj. kr. en ég verð að viðurkenna að mér létti þó töluvert við að sjá að þar var þó ekki lengra gengið vegna þess að heyrst hafði, eftir hæstv forsrh., að til stæði að leggja þá stofnun alveg niður. En líklega hefur það verið sagt í einhverju ,,fjölmiðlaflippinu``.
    Framlag til hafnamála er hækkað í tillögum fjárln. frá því sem er í frv. Á móti koma þar tillögur ríkisstjórnarinnar um hækkun á sértekjum Hafnamálastofnunar um 125 millj. sem eiga að nást með álagi á vörugjald og aflagjald án þess þó að koma niður á tekjum viðkomandi hafna. Skynsamlegustu tillögurnar um lækkun á gjaldahlið frv. tel ég vera þær tillögur sem meiri hluti fjárln. setti fram en þær bíða 3. umr.
    Þá er komið að stóra úrræði ríkisstjórnarinnar sem á að lagfæra gjaldahlið frv. Almennur sparnaður í rekstri ríkisins. Þessi aðgerð á að leiða til sparnaðar á 1 1 / 2 milljarði kr. og honum má ná með lækkun á launagjöldum um 2.255 millj. kr. og með sparnaði í öðrum gjöldum um 1,3% eða um 200 millj. kr. Samanlagt spara þessar tvær aðgerðir 2.455 millj. en í staðinn á að veita yfirstjórnum ráðuneyta tæpan milljarð kr. til ráðstöfunar að eigin geðþótta í óhjákvæmileg útgjöld ráðuneyta og stofnana þeirra. Með þessari síðastnefndu ákvörðun er ríkisstjórnin að stíga sórt skref í þá átt að fjárveitingavaldið verði fært frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Ég held að það sé þörf á því að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu eins og reynslan ætti að vera búin að kenna okkur frekar en fara þessa leið.
    Ákvarðanir varðandi úthlutun þessara fjármuna munu eflaust verða teknar án samráðs við Alþingi og er ekkert sem kemur í veg fyrir að peningarnir verði settir í einhverja

framkvæmdir sem jafnvel meiri hluti alþingismanna væri alfarið á móti.
    Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður niðurskurður á laun og önnur gjöld flatur, eins og reyndar allar ákvaraðanir ríkisstjórnarinnar eru, og ekki þarf mikla hugsun til að framkvæma. Flatur niðurskurður er það ráð sem gripið er til þegar tími gefst ekki til eða er ekki notaður til þess að vinna aðrar og skynsamlegri lausnir og þetta úrræði hefur verið notað áður. Það er gagnrýni vert hver sem í hlut á. Það ætti að vera langtímaverkefni að ná launum og öðrum gjöldum ríkisins niður um 5%. Það er ekki hægt að afgreiða slíka aðgerð á einu ári, hvað þá á einni nóttu. Nær væri að setja það markmið að ná fram þessum sparnaði á 3--5 árum samfara hagræðingu í ráðuneytum og stofnunum þeirra og endurmati á hlutverkum þeirra. Ýmsar stofnanir ríkisins eru úr sér gengnar og þarfnast endurskipulagningar. Starfsmenn ríkisins hafa hvað eftir annað lýst sig fúsa til þess að taka þátt í slíkri vinnu. Þeir munu hins vegar aldrei samþykkja þá aðgerð sem ríkisstjórnn ætlar að ráðast í og hafa reyndar mótmælt henni harðlega nú þegar.
    Hvernig ætlar svo ríkisstjórnin að koma þessum sparnaði í framkvæmd? Miðað við gefnar forsendur verður starfsmönnum ríkisins fækkað um 600 á árinu 1992 sem samsvarar um 300 ársverkum ef uppsagnir dreifast nokkuð jafnt á árið. Ekki verður ráðið í nýjar stöður og nauðsynleg störf mönnuð með tilfærslum innan kerfisins. Þetta hlýtur að merkja að öll þau nýju stöðugildi sem í frv. eru eiga að fara út, þar á meðal þau stöðugildi sem áttu að koma vegna málefna fatlaðra. Hæstv. félmrh. lýsti því yfir fyrir stuttu að samstarf hennar og fjmrh. væri með eindæmum gott. Hún hafði jafnvel aldrei kynnst öðru eins og samanburðurinn væri vondur fyrir fyrrv. fjmrh. Gaman væri að vita hvort hæstv. félmrh. er enn sömu skoðunar. Og ekki finn ég enn í frv. þær ráðstafanir til tekjujöfnunar sem hæstv. félmrh. hefur sagt að séu forsendur þess að hún samþykki það. Þetta sagði hún þegar baráttan stóð sem hæst um þjónustu- og skólagjöld á milli hennar og hæstv. fjmrh. Það er áreiðanlegt að ekki munu þær breytingar sem nú er verið að gera bæta afkomu fólks í landinu og erfitt að trúa því að hæstv. félmrh. standi að þessum ósköpum enda lætur ráðherrann lítið sjá sig hér í dag.
    En það á sem sagt að fækka ríkisstarfsmönnum og um heil 600 störf á einu ári. Samkæmt ákvörðun ríkisstjórnar má ekki ráða nýjan starfsmann til ríkisins án þess að það verði tekið sérstaklega fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsrh. ætlar þá að kalla saman ríkisstjórnarfund um málið. Ætli þetta sé ekki einsdæmi í heiminum að ríkisstjórn fjalli um það hvort þörf sé á húsverði í tiltekna ríkisstofnun, hvort ráða skuli lækni í starf þess sem lætur af störfum við einhvern af spítölum landsins eða hvort þörf sé á að ráða einn starfsmann til viðbótar þeim sem fyrir eru á skrifstofum stofnana ríkisins. Hvað ætli forsrh. landsins eða samráðherrar hans séu betur í stakk búnir til að meta þörfina í einstöku tilfelli en stjórnandi viðkomandi stofnunar? Þetta er bara fáránlegt rugl. Það er eins og ríkisstjórnina vanti verkefni. Þetta fyrirkomulag á a.m.k. ekki mikið skylt við þá stefnu sem boðuð hefur verið um rammafjárlög og aukið sjálfstæði stofnana um eigin rekstur.
    Þá á að skera yfirvinnu niður um 15% og aðrar launagreiðslur en fyrir fasta dagvinnu um 10%. Kostnaður vegna utanlandsferða á að lækka um 10% sem hefur í för með sér 60 millj. kr. sparnað en til að vega að hluta upp á móti þeim sparnaði kemur sérstakur liður um hækkun á ferðakostnaði vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði um 16 millj. kr. Ríkisstjórnin hefur einnig í hyggju að lækka risnukostnað og aðkeypta sérfræðiþjónustu. En flati niðurskurðurinn kemur alls ekki flatt niður á ráðuneytum og stofnunum ríkisins eins og gefið er í skyn. Stofnanir sem fá framlög í formi tilfærslna að öllu eða miklu leyti sleppa við niðurskurðinn. Búnaðarfélag Íslands fær 78,5 millj. í frv. til fjárlaga. Öll upphæðin er skráð sem tilfærslur og kemur því ekki inn í niðurskurð. Landgræðsla ríkisins er nú með heildargjöld í frv. um 228 millj. kr. Þar af eru aðeins 37 millj.

á launalið sem lendir í 6,7% niðurskurði, 74 millj. í öðrum gjöldum sem lenda í niðurskurði og afgangurinn, um 117 millj., er fyrir utan niðurskurð. Þjóðleikhúsið er allt á tilfærslulið og því auðvitað ekki skorið niður og þannig mætti áfram telja.
    Lítum á Alþingi. Mig grunar að niðurskurðurinn gæti lent sérstaklega illa á starfsfólki Alþingis. Ef flatur niðurskurður er reiknaður á heildarlaunakostnað Alþingis, að þingfararkaupi meðtöldu sem bundið er í kjaradómi, hverjir koma þá til með að bera skerðinguna? Er starfsfólki Alþingis t.d. ætlað að taka á sig sín 6,7% í niðurskurði á laun og einnig þann niðurskurð sem á að reikna á þingfararkaupið samkvæmt vinnureglu fjmrn.? Eða verður kjaradómur beðinn sérstaklega um að taka tillit til ákvörðunar ríkisstjórnar? Ofan á þennan niðurskurð er svo tillaga um sérstakan niðurskurð upp á 7 millj. kr. á laun og rekstrarkostnað Alþingis. Ég spyr líka hvort Alþingi þurfi að fara bónarveg að hæstv. forsrh. til að fá sinn hluta af þeirri upphæð sem verður til ráðstöfunar fyrir yfirstjórn ráðuneyta til að mæta hluta af þessum mikla niðurskurði.
    Niðurskurður á launalið ríkisins mun hafa veruleg áhrif á þá þjónustu sem ríkið annast. Áhrifanna af því hlýtur að gæta í mennta-, heilbrigðis- og félagsmálakerfinu. Berum saman menntmrn. og landbrn. Skerðingin vegna launa í menntmrn. í heild verður um 720 millj. og vegna annarra gjalda um 26 millj. Samanlagt gera þetta um 746 millj. sem er um 4,1% af heildarframlagi til ráðuneytisins eins og það er í frv. til fjárlaga núna. Sambærilegar tölur fyrir landbrn. eru 33,3 millj. í skerðingu og launalið og 4,7 millj. í önnur gjöld. Samanlagt gerir þetta skerðingu um 38 millj. kr. eða um 0,6% af heildarframlagi til ráðuneytis. Ef greiðslur vegna búvörusamnings eru ekki reiknaðar með er skerðingin um 1,4% af heildarframlagi til ráðuneytis. Þetta sýnir vel hversu misjafnlega flata skerðingin kemur niður á ráðuneytum og stofnunum ríkisins.
    Enn er nokkuð óljóst með hvaða hætti milljarðinum til endurráðstöfunar verður úthlutað. Ef miðað er við sömu hlutföll og skerðingin hefur í för með sér mun skerðing landbrn. verða um 23 millj. kr. nettó, sem er um 0,8% af heildarframlagi til ráðuneytis í frv. til fjárlaga, ef búvörusamningurinn er ekki tekinn með í reikninginn. Sambærileg tala fyrir menntmrn. verður, miðað við sömu forsendu um úthlutun á ráðstöfunarfé, um 456 millj. kr. skerðing sem er um 2,5% skerðing á heildarframlagi miðað við fjárlagafrv. Munurinn á ráðuneytunum er nokkuð augljós.
    Ástæða fyrir þessum mun er m.a. fólgin í hlutfalli launa í rekstri og hvernig framlög til ráðuneyta og stofnana þeirra eru færð í fjárlögum hvort sem um tilfærslu er að ræða eða sundurliðuð framlög. Grunnskólar landsins verða þannig skertir um 6,7% vegna þess að framlag ríkisins til þeirra er eingöngu vegna launakostnaðar. Hér er um meira en 300 millj. að ræða áður en kemur til endurúthlutunar ráðherra en það samsvarar því að 15. hver barnakennari hætti störfum. Og í þessu tilfelli er erfitt að koma annarri hagræðingu við en þeirri að fækka bekkjardeildum og fjölga nemendum í hverri bekkjardeild og eru þó nógu margir nú þegar. Sömu sögu er að segja um aðra skóla eins og t.d. Öskjuhlíðarskóla, Safamýrarskóla, Þjálfunarskóla ríkisins, Fullorðinsfræðslu fatlaðra, Heyrnleysingjaskólann o.fl. Niðurskurðurinn mun einnig koma mjög illa niður á heilsugæslunni og sjúkrahúsum. Sama er að segja um ýmsar stofnanir félmrn.
    Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um flata skerðingu samkvæmt gefnum forsendum hlýtur að leiða til þess eins að dregið verður úr þjónustu heilbrigðiskerfisins langt umfram það sem frv. til fjárlaga gerir ráð fyrir núna og er nóg samt. Nú á að greiða meira fyrir þá þjónustu sem sjúklingar fá á sama tíma og allt bendir til að dregið verði úr þjónustunni. Er þetta enn eitt skrefið í þá átt að einkavæða heilbrigðiskerfið.
    Það sama er að segja um skólakerfið. Niðurskurðurinn hefur í för með sér breytingar. Nú verður ekki einungis að fresta ýmsum ákvæðum grunnskólalaga, m.a. ákvæðum

um fjölgun kennslustunda og fækkun nemenda í bekkjum eins og bandormurinn gerir ráð fyrir, heldur verður að ganga enn lengra. Er hér ekki verið að stíga stórt skref aftur til fortíðar ásamt því alvarlega skrefi að leggja skólagjöld á sem við höfum mótmælt harðlega? Þær tæpar þúsund millj., sem ríkisstjórnin ætlar að afhenda ráðuneytum til að mæta óhjákvæmilegum útgjöldum, breyta litlu um þessa stöðu. Enn er ótalin skerðingin sem lendir á löggæslu og mörgum öðrum samfélagsþáttum og sá niðurskurður á fé til menningarmála og er í frv., t.d. til leiklistarstarfsemi og kvikmyndargerðar. Þar eru framlög verulega skert frá því sem áður var.
    Það eru erfiðir tímar, eins og formaður fjárln. sagði við alla þá sem komu á fund nefndarinnar, en hann hafði þann sið að vitna alltaf í fyrstu ljóðlínu annars erindis Maístjörnunnar eftir Halldór Laxness en það hefst svo, ykkur öllum til upprifjunar:
          Það eru erfiðir tímar,
          það er atvinnuþref.
          Ég hef ekkert að bjóða,
          ekki ögn sem ég gef.
    Við erum líklega öll sammála um að það eru erfiðir tímar. En erfiðleikarnir eru til að sigrast á þeim. Skemmtilegra væri ef formaðurinn gæti farið með síðari hluta erindis úr Maístjörnunni en þar segir:
          En í kvöld lýkur vetri
          sérhvers vinnandi manns
          og á morgun skín maísól,
          það er maísólin hans.
    Það væri mun betri kveðja formanns fjárln. til verkafólks í landinu. Við skulum vona að formaður fjárln. þurfi ekki að leita til Bólu-Hjálmars við 3. umr. fjárlaga eftir tilvitnun í ljóð, að honum verði þá ekki ,,orðið stirt um stef og stílvopn laust í hendi,`` o.s.frv.     Það verður að leggja miklu meiri vinnu í frv. til fjárlaga en gert hefur verið þegar tekist er á við vandamál í efnahagslífinu eins og þau sem nú er við að glíma. Það þarf að leggja mikla vinnu í að raða verkefnum í forgangsröð og að endurskoða stofnanir. Þetta er, eins og áður er sagt, ekki verk sem verður unnið á einni nóttu.
    Þjóðarsáttin svokallaða var í þeim anda. Þar var farið rólega og skipulega í sakirnar og árangur hefði ekki látið á sér standa ef áfram hefði verið haldið á sömu braut. Það ríkti sátt og vilji allra til samkomulags um vandamál efnahagslífsins og lausnir þar til þessi ólánssama ríkisstjórn tók við. Hún hefur hvað eftir annað kastað stríðshanska. Allar hennar aðgerðir hafa farið þversum á þau markmið sem sett voru með þjóðarsáttinni og áttu að færa þeim kjarabætur sem lægst hafa launin. Nú er ekkert slíkt á döfinni. Þvert á móti bendir allt til að kjör fjölskyldna í landinu muni versna.
    Virðulegi forseti. Ég gæti talað miklu lengur og tekið langan tíma í að ræða um þjónustugjöld, þessa dulbúnu skatta þess flokks sem boðaði skattalækkun. Ég gæti einnig vitnað hér í ræður stjórnarþingmanna, sem fluttar voru við afgreiðslu fjárlaga síðustu tvö ár um meðferðina á sveitarfélögunum, að ég nefni ekki ummæli þeirra um þjónustugjöldin eða þessar hræðilegu álögur t.d. sem Pósti og síma var gert að greiða í ríkissjóð. Eða orð þeirra um skattaglöðustu ríkisstjórn allra tíma. En ég ætla að geyma mér þessa ánægjustund og fyrir alla mjög fróðlegar tilvitnanir í ræðu ónefndra hv. þm. þangað til kemur að 3. umr. um fjárlagafrv.
    Að lokum vil ég segja þetta: Forsendur fjárlaga hafa ævinlega breyst á því 12 mánaða tímabili sem um ræðir hverju sinni. En þess eru varla dæmi að slík kúvending hafi átt sér stað og við höfum orðið vitni að núna. Og þó er greinilega ekki allt komið í ljós enn þá. Enn á eftir að taka á mörgum stórum og þýðingarmiklum atriðum sem eru látin bíða

til 3. umr. Vinnulag þessarar hæstv. ríkisstjórnar er með endemum. Hér er varla ætlast til að menn hafi tíma til að skoða tillögur ríkisstjórnarinnar. En verri eru þó þau vinnubrögð að hafa ekkert samráð við þá aðila sem ráðstafanirnar bitna harðast á eins og t.d. samtök sveitarfélaga og BSRB. Þó væri eðlilegt, virðulegi forseti, að allar þær tillögur sem hér eru birtar, og eiga rót sína að rekja til næturfundar hæstv. ríkisstjórnar 9. des., verði dregnar til baka til 3. umr. svo að hægt sé að hafa samráð við þá aðila sem tillögurnar snerta beint.
    Við hefðum viljað koma inn í þessa umræðu með öðrum hætti, flytja okkar breytingartillögur við frv. til fjárlaga en eins og kemur fram í nál. minni hluta fjárln. eru ekki forsendur til þess í dag. Því munum við koma betur inn í umræðuna síðar meir.