Staðgreiðsla opinberra gjalda

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 20:55:00 (1818)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns vil ég taka það fram að ég hafði tjáð þeim ræðumanni sem stóð í stóli í umræðunni um fjárlög að ég gæti ekki komið alveg strax en hann taldi það vera í lagi þar sem hann ætti langt eftir af ræðu sinni. Það er skýringin á því að ég kem ekki fyrr til þingstarfanna í kvöld en nú.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að mæla hér fyrir frv. sem er frv. til laga um breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þetta er fylgifrv. með frv. til breytinga á eignar- og tekjuskattslögum en fyrir því verður mælt síðar. Samkvæmt því frv. er gerð tillaga um nokkra breytingu á skipun og starfsháttum ríkisskattanefndar. M.a. er stefnt að því að efla ríkisskattanefnd verulega og hraða mjög gangi mála sem til úrskurðar hennar koma. Af þessum sökum er lagt til að verkefni sektarnefndar, en um hana eru ákvæði í 31. gr. laga um staðgreiðslu, verði flutt til ríkisskattanefndar og jafnframt verði svokölluð sektarnefnd lögð niður.
    Þetta mál er einfalt og skýrir sig sjálft. Ég vísa að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar frv.