Staðgreiðsla opinberra gjalda

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 21:02:00 (1822)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Mér láðist í fyrri ræðu minni að óska eftir því að þetta mál fengi venjulega meðferð, gengi til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. og er það gert hér með.
    Ég lýsi því líka yfir að það er að sjálfsögðu eðlilegt að málið fái skoðun í nefndinni. Ég átti á sínum tíma sæti í fjh.- og viðskn. og þá kom þetta mál í þessum búningi til nefndarinnar einmitt við svipað tækifæri. Í starfi nefndarinnar skildust þessi ákvæði frá frv., sem þá var til afgreiðslu, og dagaði síðan uppi á því þingi. Þeir sem starfa að skattamálum og í fjmrn. eru sammála um að það sé afar bagalegt hve langur tími líður frá því að mál fer til ríkisskattanefndar og þar til úrskurðað er. Í raun er ekki farið að lögum því að í lögum eru ákveðin tímatakmörk. Þess vegna er hér gerð tillaga um, reyndar í öðru frv. sem verður til umræðu síðar, að ríkisskattanefnd verði skipuð fimm föstum nefndarmönnum en í dag eru aðeins tveir fastir nefndarmenn en fjórir lausráðnir. Þetta er gert til þess að flýta fyrir málum en jafnframt er valin sú leið að leggja niður sektarnefnd en fela ríkisskattanefnd, sem er úrskurðaraðili, að úrskurða jafnframt um sektir.
    Spurt var um kostnaðarauka. Það er erfitt að svara þeirri spurningu því að hér er verið að fara fram á að fastráðnir menn starfi að því sem lausráðnir hafa gert hingað til en ljóst er að þessir lausráðnu hafa nánast verið í fullu starfi hjá ríkisskattanefnd. Ég geri

því ráð fyrir því að ekki verði um kostnaðarauka að ræða nema ef vera skyldi vegna þess að ætlunin er að vinna upp þann hala sem myndast hefur á verkefnum nefndarinnar.
    Mér finnst eðlilegt að nefndin taki þessi atriði til skoðunar og kalli á sinn fund þá aðila sem best þekkja til, þar á meðal þá sem starfa í ríkisskattnefnd. Ég bendi á að þetta mál er gamalt. Það hefur áður verið flutt og var þá flutt af fyrrum fjmrh., núv. 8. þm. Reykn. Mörgum þingmönnum, sem þá sátu á þingi, er því málið kunnugt.
    Ég vona, virðulegi forseti, að með þessum orðum hafi verið opnuð leið til þess að nefndin fái málið til meðferðar og skoðunar. Ég get bætt því við að þessi efnisatriði, sem hér koma fram, eru ekki nauðsyleg vegna fjárlagafrv. heldur eru þau sett fram af öðrum ástæðum en tengjast málinu vegna þess að það er eðlilegt að sömu menn, sem kallaðir verða til nefndarinnar, svari þeim spurningum sem hér koma fram. Allir vita að það er auðvitað eðlilegt að skattalögum sé fylgt eftir með þeim úrræðum sem löggjafinn hefur sett á hverjum tíma og hér er verið að tryggja að það geti gerst með sem bestum og hraðvirkustum hætti.