Skattskylda innlánsstofnana

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 21:06:00 (1823)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um skattskyldu innlánsstofana með síðari breytingum. Þau lög eru frá árinu 1982.
    Það mun hafa verið seint á árinu 1988 að flutt var frv. til breytinga á þessum lögum og í því frv. var gert ráð fyrir skattskyldu innlánsstofnana, banka og sjóða. Lögin voru staðfest af hv. 8. þm. Reykn., þáv. fjmrh., en það gerðist í meðferð málsins á þingi að frv. breyttist og úr því voru tekin ákvæði sem sneru að fjárfestingarlánasjóðum atvinnulífsins.
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir að sams konar lög gildi um fjárfestingarlánasjóðina og nú gilda um innlánsstofnanir, banka og sparisjóði. Eins og ég sagði áðan var í upphaflega frv. gert ráð víðtækara skattskyldusviði en hlaut hljómgrunn við endanlega afgreiðslu Alþingis á því frv. Með þeirri lagabreytingu sem þá átti sér stað urðu veðdeildir bankanna skattskyldar en skattskyldusviðið náði ekki til opinberra fjárfestingarlánasjóða en starfsemi þeirra er auðvitað svipuð og starfsemi veðdeilda viðskiptabankanna.
    Með hugtakinu ,,opinber fjárfestingarlánasjóður`` er í frv. átt við sjóði, stofnanir eða fyrirtæki sem eru stofnuð með lögum eða með heimild í þeim í því skyni að veita fjárfestingarlán til atvinnugreina eða opinberra framkvæmda og undanþegin hafa verið tekjuskatti og eignarskatti til þessa. Sem dæmi um sjóði sem skattskyldir verða, ef þetta frv. nær fram að ganga, eru Orkusjóður, Hafnarbótasjóður, Ferðamálasjóður, Fiskveiðasjóður, Fiskræktarsjóður, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Iðnlánasjóður Íslands, Iðnþróunarsjóður, Landflutningasjóður og Lánasjóður sveitarfélaga.
    Rétt er að vekja athygli á því að ákvæði þessa frv. hafa hvorki áhrif á gildandi lagaákvæði um skattfrelsi Lánasjóðs ísl. námsmanna, Atvinnutryggingadeildar Byggðasjóðs, lífeyrissjóða né opinberra tryggingar- og jöfnunarsjóða sem njóta skattfrelsis samkvæmt svipuðum lagaheimildum og minnst er á hér að framan og ég ræddi áður. Má í því sambandi nefna Tryggingarsjóð sparisjóða og viðskiptabanka, opinbera verðjöfnunarsjóði o.s.frv.

Hér er ekki um að ræða opinbera fjárfestingarlánasjóði, eins og þeir eru skilgreindir í frv., og því tekur skattskyldan ekki til þeirra. Eru þeir undanþegnir samkvæmt 4. gr. tekjuskattslaga eða sérlögum sem um þá kunna að gilda.
    Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóður Íslands, ríkisábyrgðasjóður, Byggðasjóður, Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna, Framkvæmdasjóður aldraðra og Framkvæmdasjóður fatlaðra verði undanþegnir skattskyldu samkvæmt lögunum vegna séreðlis þessara sjóða miðað við þá sjóði sem skattskyldir verða samkvæmt 1. gr. Hér er um tæmandi talningu að ræða á þeim opinberu fjárfestingarlánasjóðum sem undanþegnir eru skattskyldu.
    Í 3. gr. er kveðið á um að þeir sjóðir sem lögin taka til skulu undanþegnir stimpilgjaldi af eigin lántökum. En sjóðir þeir sem lögin taka til eru almennt samkvæmt gildandi lögum undanþegnir stimpilgjaldi af eigin lántökum.
    Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir fyrirframgreiðsluskyldu og skal fyrirframgreiðsla fara fram í ágúst til desember 1992. Þetta ákvæði er sams konar ákvæði og var í frv. um innlánsstofnanir sem samþykkt var á sínum tíma enda voru þessi ákvæði í frv., sem ég mæli hér fyrir, í því frv. upphaflega. Þetta þýðir að fyrirframgreiðslunni er í reynd flýtt. Þannig er ekki gert ráð fyrir að þeir aðilar sem verða skattskyldir samkvæmt lögum þessum inni af hendi frekari fyrirframgreiðslu á árinu 1993. Það er vakin athygli á því í athugasemdum með þessu frv. að fyrirframgreiðsluhlutfallið er 4% á mánuði sem er lágt miðað við það að gildandi skatthlutfall sé 45%. Þetta þýðir að um það bil 20% innheimtast á fimm mánaða tímabilinu sem áður er greint frá. Rökin fyrir því að skatthlutfallið er jafnlágt og raun ber vitni eru fyrst og fremst þau að gert er ráð fyrir að hið almenna skatthlutfall verði lækkað í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum.
    Í 4. gr. frv. er að finna ákvæði um að fella úr gildi tiltekin lagaákvæði sem þar eru nefnd. Þetta er gert til öryggis, ex tuto ákvæði, til þess að samræmi náist vegna ýmissa undanþáguákvæða.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér greint frá helstu efnisatriðum þessa frv. sem reyndar hefur í öllum aðalatriðum áður verið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Ég óska eftir því að frv. fái venjulega afgreiðslu hér, verði vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.