Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 22:16:00 (1829)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég hafði satt best að segja álitið að hæstv. fjmrh. sæi ástæðu til þess að taka til máls einu sinni enn í þessu uppáhaldsmáli sínu og það var kannski fyrst og fremst þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs svo að umræðan lognaðist ekki út af án þess að hann hefði tækifæri til þess. Í öðru lagi vegna þess að þessi umræða hefur farið nokkuð víða. Hv. 9. þm. Reykv. flutti mikla ræðu um skattlagningu og skattheimtu almennt undanfarið og ég get ekki látið hjá líða að koma hér aðeins inn í þessa umræðu til viðbótar. Það er náttúrlega ekki sama hvernig skattar eru lagðir á. Og það er heldur ekki sama hvert umfang skattheimtu á hverjum er en að mínu mati er það grundvallaratriði að ríkisstjórn á hverjum tíma hafi kjark til þess að leggja á skatta á móti þeirri opinberu þjónustu sem Alþingi og almenningur í landinu vill að sé veitt. Undan því getur ríkisstjórn á hverjum tíma aldrei vikist að hafa forustu um, og Alþingi að sama skapi, að móta þær reglur sem um það eru settar.
    Menn geta síðan endalaust deilt um hvar þessir skattar eigi að koma niður. En hitt er að mér sýnist að fjárlagaumræðan snúist núna einfaldlega um það að ekki er vilji í þjóðfélaginu til þess að draga verulega úr þeirri þjónustu sem ríkið veitir í dag. Um það snýst dæmið núna, um það snýst vinna meiri hluta fjárln. í umboði ríkisstjórnar, að menn eru að reyna að fela þá skattlagningu sem þarf á margvíslegan hátt, eins og ég rakti hér í fyrri ræðu minni í kvöld. Ég get hins vegar sagt það sem mína skoðun að kannski er eðlilegast að skattleggja í fyrsta lagi tekjurnar, launatekjur einstaklinganna, að einhverju marki en vissulega undanskilja það sem er til lágmarksframfæris. Í öðru lagi ber að skattleggja neysluna því að það sem skotið er undan tekjuskatti og öðru endar oft og tíðum í neyslu og þá hljótum við að skattleggja neysluna og síðan í þriðja lagi að skattleggja eignatekjur og undir það get ég tekið með hæstv. fjmrh. að það sé eðlilegt því að á endanum, ef fjármagnið skilar sér ekki í skattlagningunni með tekjuskattinum eða almennri neyslu, þá breytist það í eignir í einhverju formi og í dag festa menn ekki peninga sína annars staðar en í einhverjum eignum sem gefa arð og þá ber okkur að skattleggja þær eignatekjur. Ég vil taka það skýrt fram að hér er ég ekki að tala um að skattleggja almennan sparnað launamanna til þess að mæta óvæntum áföllum eða þær eignir sem felast í íbúðarhúsnæði.
    En ef ég kem síðan að vanda dreifbýlisverslunarinnar þá vil ég einungis ítreka það sem ég sagði hér fyrr í kvöld. Sá vandi er miklu fjölþættari en svo að við náum yfir það með mismunandi beitingu þess skatts sem hér er til umræðu þó að það gæti vissulega verið hluti af lausninni ef menn teldu rétt að beita honum.
    Ég vil einnig ítreka að ég ber ekki það traust til núv. ríkisstjórnar að ég vilji fela henni þetta vald í hendur. Það verður að koma annað og meira til en svo.
    Ég sé ekki ástæðu til þess frá minni hálfu að lengja þessar umræðu frekar. En ég hafði, virðulegi forseti, eins og ég nefndi í upphafi míns máls átt von á því að hæstv. fjmrh. hefði viljað fá tækifæri til þess að eiga lokaorðin í 3. umr. um sitt eftirlætismál í gegnum tíðina hér í þingsölum.