Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 13:19:00 (1838)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hv. þm. Pálmi Jónsson taldi það aðgerðum ríkisstjórnarinnar helst til tekna að hún væri að styrkja stöðu sjávarútvegsins. Það virðist hafa farið fram hjá hv. þm. að í fjárlagafrv. og fylgifrv. þess hér á Alþingi er verið að leggja 870 millj. kr. nýja skatta á sjávarútveginn. Á árinu 1992 munu sjávarútvegsfyrirtækin þurfa að greiða í ríkissjóð í gegnum nýja skatta tæplega 1 milljarð umfram það sem þau greiða í ár. Þessi upphæð skiptist þannig að 525 millj. er skattlagning í ríkissjóð gegnum breytingar á Hagræðingarsjóði, 40 millj. er tvöföldun á veiðieftirlitsgjaldi, 180--200 millj. að minnsta kosti, sumir segja enn meir, vegna breytinga á sjómannafrádrætti, 50 millj. vegna hlutdeildar sjávarútvegsins í ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota og um 65 millj. er hlutur sjávarútvegsins vegna sérstaks álags á aflagjald. Það er þess vegna alveg ljóst að meginaðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart sjávarútveginum í jólamánuðinum er að leggja tæplega 900 millj. kr. í nýja skatta á sjávarútveginn.