Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 13:26:00 (1841)

     Pálmi Jónsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er augljóst að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson metur það einskis að sjávarútvegurinn sé losaður undan gjöldum á næsta ári er nema 1.700 millj. kr. og hann metur það einskis að því mun fylgja að reiknað er með nokkur hundruð millj. kr. sem sjávarútvegurinn verður losaður við að greiða til annarra sjóða og banka en hér hafa verið nefndir. ( Gripið fram í: Losaður við það?) Þetta er auðvitað, eins og ég sagði í minni ræðu . . . ( ÓRG: Hann er ekkert losaður við það, þetta er bara lán.) Þetta er skref í þá átt að bæta stöðu þessa undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar. En hitt liggur líka fyrir að væri ekki horfið að því að takast á við þann vanda sem hv. þm. skildi eftir sig í fjármálum ríkisins og ef haldið væri áfram á þeirri sömu braut væri ekki um neinar slíkar aðgerðir að ræða sem gætu komið að gagni fyrir sjávarútveginn. Þá væri ekkert annað fram undan en gamla gengisfellingarleiðin, ekkert annað, með kollsteypum, óðaverðbólgu, okurvöxtum og efnahagslegri upplausn sem endaði með því að við glötuðum fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta virðist vera það sem hv. þm. vill hafa og metur ekki eða virðir að neinu það sem gert er ráð fyrir að takist með þeim tillögum sem nú liggja fyrir.